12.03.1957
Efri deild: 68. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

133. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið sumarið 1955, að þáverandi félmrh. skipaði tvo menn, þá Guðlaug Þorvaldsson deildarstjóra í hagstofunni og Bárð Ísleifsson arkitekt, til þess að endurskoða grundvöll vísitölu byggingarkostnaðar. Nál. barst frá þessum mönnum núna á s.l. hausti, og lögðu þeir fram ýtarlegar till. að nýjum grundvelli vísitölu byggingarkostnaðar.

Þetta nál. hefur nú verið prentað, og var því útbýtt fyrir nokkru hér á Alþingi, svo að hv. alþm. gætu átt kost á að kynna sér það rækilega. Ég tel, að í þessu nál. sé mjög mikill fróðleikur um kostnað við byggingar í Reykjavík, og það er í raun og veru grundvöllurinn undir þessu frv.

Það er upplýst af þessum áðurnefndu nm., að þeir sóttu mikinn fróðleik til Tómasar Vigfússonar byggingarmeistara um byggingarhætti og byggingarkostnað og byggja, eins og þeir sjálfir segja, mjög mikið útreikninga sína um þennan vísitölugrundvöll á upplýsingum hans, en þessar sundurliðuðu upplýsingar Tómasar Vigfússonar eru allar í nál., sem ég áður minntist á.

Í þessu nál. eru sundurliðaðar upplýsingar um kostnað hins svonefnda vísitöluhúss og enn fremur samanburður á því og kostnaði við hið svonefnda vísitöluhús 1939.

Ákvæði um vísitölu byggingarkostnaðar í Reykjavík og útreikning hennar voru í lögum um brunatryggingar í Reykjavík, en ákvæðin voru numin úr gildi með lögum nr. 25 frá 1954, um brunatryggingar í Reykjavík, en síðan hafa engin bein lagafyrirmæli verið til um, að þessi vísitala skyldi reiknuð út. Þetta hefur hagstofan þó gert á sama grundvelli og áður fram að þessu, en telur ekki rétt, að grundvöllur þessa starfs hvíli áfram í lausu lofti.

Lagafyrirmæli hafa líka verið til um, að hagstofan skuli árlega reikna út vísitölu byggingarkostnaðar fyrir kaupstaði og kauptún og að teiknistofa landbúnaðarins eigi að sínu leyti að reikna út sambærilegan vísitölugrundvöll byggingarkostnaðar í sveitum. Þetta hefur teiknistofa landbúnaðarins þó ekki gert, sennilega ekki treyst sér til að framkvæma það, enda munu þessi lagaákvæði hafa verið sett án samráðs bæði við hagstofuna og teiknistofu landbúnaðarins á sínum tíma.

Hagstofan hefur ekki heldur reiknað út sérstaka byggingarvísitölu fyrir kaupstaði og kauptún utan Reykjavíkur, heldur hefur þessi háttur verið á hafður, að hagstofan hefur áætlað vísitölu byggingarkostnaðar fyrir kaupstaði og kauptún með hliðsjón af byggingarkostnaðinum í Reykjavík, eins og hann hefur verið árlega, og sú vísitala hefur síðan verið látin gilda einnig fyrir sveitirnar.

Nú mundu menn spyrja: Hvaða gagn er að því að hafa slíka vísitölu byggingarkostnaðar, eða undir hvaða kringumstæðum hefur hún komið til notkunar?

Um það atriði skal ég aðeins segja þetta, að vísitala byggingarkostnaðar hefur aðallega verið notuð við ákvörðun söluverðs íbúða í verkamannabústöðum og í byggingarsamvinnufélögum og svo á tímabili til þess að ákveða brunabótaverð húsa.

Með tilliti til þeirrar kaupjöfnunar, sem nú er orðin í landinu, er lagt til í þessu frv., að framvegis verði reiknuð út aðeins ein vísitala fyrir landið allt og hún verði miðuð við verðlag í Reykjavík.

Samkvæmt fyrri ákvæðum var vísitalan reiknuð út aðeins einu sinni á ári, en í þessu frv. er gert ráð fyrir, að vísitala byggingarkostnaðar verði reiknuð út þrisvar sinnum á ári, miðað við verðlagið í febrúarmánuði, júní og október. Það er hagstofustjóri, Klemenz Tryggvason, sem hefur samíð þetta frv. og byggir frv. á þeim grundvelli, sem lagður var með nefndarstarfi þeirra Guðlaugs Þorvaldssonar og Bárðar Ísleifssonar, sem ég hef áður vitnað til.

Ég tel, að með þessu frv. sé þessum málum komið á öruggan og traustan grundvöll, og tel nokkra nauðsyn vera á því og mæli með því, að þetta frv. verði samþ. og afgr. á þessu þingi.

Ég legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.