06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

Endurskoðun varnarsamningsins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þessar umræður um skýrslu hæstv. utanrrh. höfðu alvarlegan blæ, eins og vera ber, lengi kvölds, allt þangað til þingstrákur nr. 1, fyrrverandi forsrh., Ólafur Thors, tók til máls. Þingstrákur nr. 1 hefur aldrei getað setið á sér hér undir þessum umræðum, gripið fram í hvers manns mál og talað svo alveg hreint eins og þingstrákur nr. 1, þegar hann er kominn hér í ræðustólinn, og það er hann, sem hefur sett sérstakan strákssvip á þessar umræður, og hefði öðrum sómt, en ekki honum.

Hann sagðist spyrja eins og Íslendingur, — sem Íslendingur. Ja, að heyra slíkt. Var ekki ort hér af Jóni Ólafssyni heitnum, að menn þekktu ekki djöfullegra dáðlaust þing en danskan Íslending. (BBen: Hver var á móti lýðveldisstofnuninni?) Þetta er alveg nægileg tilvitnun, enda gat nú þingstrákur nr. 1 þagað. Það var þingstrákur nr. 2, sem varð að hlaupa í skarðið. (SB: Það er líka sómakært talað úr ræðustóli.) Ja, sómakærara en hv. þm. N-Ísf,

Það er eitt af því, sem hv. þm. G-K. vék að hér áðan, að tveir ráðherrar hefðu hér talað og verið tvísaga, — ef þeir hefðu talað sex, þá mundu þeir hafa orðið sexsaga. Þetta er gersamlega tilhæfulaust fleipur, því að hér hafa engir ráðherrar orðið tvísaga. Hæstv. utanrrh. hefur ekki vikið að því einu orði, að neitt hafi borið á milli um okkar málflutning viðvíkjandi þessu, og ég hef heldur ekki neitt það að herma upp á hann og hans ræðu hér í kvöld, að hægt sé að segja, að okkur hafi ekki borið saman.

Það liggur nú fyrir hér prentað, það sem ég flutti hér í upphafi þessa máls í kvöld. Viðvíkjandi því, hvað við hæstv. viðskmrh. hefðum viljað um frestunina, stendur hér skráð, að við vorum því samþykkir, að frestað yrði um nokkra mánuði samningum þeim, sem ráðgert var að hefjast skyldu þann 15. f.m. Hv. þm. G-K. gerði úr þessu tvo mánuði eða þrjá mánuði. Það stendur ekkert um tvo eða þrjá mánuði, heldur er sagt hér, að við höfum viljað, að málinu yrði frestað um nokkra mánuði. Hvað stendur svo um það, hvað varð? Það stendur í öðrum efnislið orðsendingarinnar, að ríkisstjórn Íslands geti tilkynnt ríkisstjórn Bandaríkjanna um það, þegar henni þóknast, hvenær samningar hefjist að nýju. Orðrétt er þetta svona. Það er samið um það, að sex mánaða frestur sá, sem um ræðir í 7. gr. varnarsamningsins, skuli hefjast, þegar önnur hvor ríkisstjórnin tilkynnir hinni þar um.

Ég verð þess var, að hv. þingmönnum Sjálfstfl. líkar það ekki, að þarna er enginn ákveðinn tími tiltekinn. Og hæstv. utanrrh. hefur sagt: Þessi tími getur orðið stuttur, mjög stuttur, ef heimsástandið batnar, — og vék spurningu að hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. G-K. um það, hvort þeir vissu, hvort það væru margir eða fáir mánuðir, þangað til heimsástandið yrði betra. Og þeir þögðu auðvitað, þeir vissu það ekki.

Það er nú synd að víkja að hv. 1. þm. Reykv. (BBen), því að hann er dauður, hann er búinn að tala sig dauðan, og mun ég því hlífast við því. Þó er ekki hægt að komast hjá að rifja það upp, að hann spurði mjög um það, hvort það fælist í orðsendingu nr. 2, að það ætti að æfa Íslendinga til hernaðarstarfa. Mér duldist það ekki, að það gladdi hann mjög, glaðnaði mikið yfir honum, þegar hann hélt, að nú hillti undir hans gömlu draumsýn um það, að komið yrði á fót íslenzkum ber, og var þá að hlakka yfir því, að það væri ekkert ólíklegt, að þetta væri nú að koma, þar sem þetta hefði líka verið áhugamál núverandi hæstv. forsrh. — Ja, það má vel vera, að hv. 1. þm. Reykv. hafi á þessari stundu gert sér vonir um að komast í þennan íslenzka her, því að hann er víst á herskyldualdri. En þegar hæstv. utanrrh. upplýsti: Enginn íslenzkur her fram undan, — þá var það, sem sjálfstæðismennirnir hér í þingsalnum fóru að ókyrrast og voru sýnilega óánægðir með það, sem hefði gerzt, — hillti ekki einu sinni undir íslenzkan her, ekki von um neitt pláss í neinu herforingjaráði, ekkert pláss fyrir neinn herforingja, og Bjarni Benediktsson er þó sannarlega herforingjalega vaxinn, það verður ekki annað sagt. Þá var það, sem fór að fara „pólitúrinn“ af þeim gagnvart hæstv. utanrrh., einmitt þegar hann var búinn að svara því alveg hreinskilnislega, að hér hillti ekki undir neinn íslenzkan her. Ég skil þetta ósköp vel. Það hefur verið draumsýn Sjálfstfl. að fá íslenzkan her. Og þeir hafa stofninn í hann. Það vitum við, það vita Íslendingar.

Það er alveg greinilegt, að ef Sjálfstfl. hefði nú verið í ríkisstj., hefði hann samið nú um hersetu á Íslandi til langs tíma. Ég sannfærðist um það einmitt í kvöld við að heyra ræðu hv. þingmanna Sjálfstfl., sem tekið hafa þátt í þessum umræðum. Þeir voru argir yfir því, að hér skyldi vera um framlengingu að ræða til skamms tíma, kannske bara örfárra mánaða, ja, kannske ekki nema nokkurra daga, elns og þeir voru að taka í mál. Meðan þeir voru að velta því fyrir sér, voru þeir ókyrrir. Ef þeir hefðu fengið þau svör, að hér væri slegið föstu, að þessu væri öllu slegið á frest til langs tíma, hefðu þeir áreiðanlega orðið kyrrari undir umræðunum núna síðari hluta kvöldsins. Og það var einmitt þegar þeir höfðu ekki fengið neitt út úr svörum hæstv. utanrrh. um það, að hér væri um frestun til langs tíma að ræða, sem „pólitúrinn“ fór að fara af þeim. Þá stóð þeim ekki á sama.

Annað atriði er það líka, sem hefur komið alveg greinilega fram í þessum umræðum, og það er það, að þeim lízt ekki á það, ef það væri nú svo, að Ísland þyrfti eftir þetta samkomulag engan að spyrja, ekki að ganga fyrir öll ríki Atlantshafsbandalagsins og spyrja um möguleika til uppsagnar, heldur gæti ríkisstj. Íslands haft lokaorð um það ein, hvort amerískur her skyldi vera á Íslandi eða hvenær hann skyldi víkja þaðan. Og ég veit, að það er einmitt þetta atriði samkomulagsins, sem þeim er bölvanlegast við. Það stendur hér í orðsendingunni: „Jafnframt hefur verið haft í huga, að úrslitaákvörðun um, hvort varnarlið dvelji í landinu, er hjá ríkisstjórn Íslands.“ — Þarf ekkert að spyrja Atlantshafsbandalagið? hafa þeir verið að spyrja í allt kvöld. Eftir orðsendingunni sjálfri virðist það vera alveg auðsætt mál, að það er ríkisstj. Íslands ein, sem getur nú ákveðið um það, hvort varnarliðið skuli dvelja hér í landinu, og er það mjög í samræmi við það, sem hæstv. utanrrh. sagði að umræðurnar hefðu byrjað á: Ef þið óskið, þá skal ameríski herinn fara.

Ríkisstjórn Íslands hefur skv. þessu úrslitaákvörðun um það, hvort varnarlið skuli dvelja í landinu. Og ókyrrðin hjá sjálfstæðismönnum hér í þingsalnum í kvöld hefur einmitt staðið í sambandi við það, hvort í raun og veru þyrfti nú ekki að ganga fyrir hvers manns dyr innan Atlantshafsbandalagsins til þess að spyrja um það, hvort allar þær þjóðir séu því samþykkar, að hér sé ekki amerískt herlið. Ég var alveg viss um, að þetta yrði það, sem kæmi mest við kaun sjálfstæðismanna, þeirra sem vildu hafa her í landinu, og það hefur sýnt sig. Það var einmitt þetta. Við þetta er þeim verst.

Hv. 1. þm. Reykv. fór að inna að því, hvort það mætti ekki treysta því, að það væri runnið upp einhvers konar þúsund ára ríki með von í amerískum her hér á landi það tímabil. Og það var einmitt eftir að hæstv. utanrrh. hafði gert þær vonir að engu, sem hann umhverfðist og sá, sem við tók af honum að honum dauðum, hv. þm. G-K.

Eitt af því, sem hv. þingmönnum Sjálfstfl. kom illa að heyra, var það, þegar spurt hafði verið um, hvort koma eigi í veg fyrir, að varnarframkvæmdir hefjist að nýju, — og hæstv. utanrrh. sagði: Það var ekki samið um neinar nýjar hernaðarframkvæmdir. Það var ekki á þær minnzt. — Um það er ekki til nema það, sem fyrrverandi ríkisstj. samdi um. Og það færi betur, að hún hefði ekki samið um neinar hernaðarframkvæmdir. Það færi betur. Því miður er sjálfsagt ekki hægt að ógilda hennar gerðir í þessu efni. En hitt er þó ljós punktur, að það skuli ekki hafa verið gefin nein vilyrði um það í samningunum, að hernaðarframkvæmdir hér á landi skyldu hefjast að nýju. Neitandi svar við þessu kom sjálfstæðismönnunum greinilega afskaplega illa, og það skilja allir. þegar menn heyra það, að þeir tala sem Íslendingar, sem vilji að það sé herlið í landinu.

Það, sem gerzt hefur hér fyrst og fremst, er, að það hefur verið frestað þeim samningum, sem fram eiga að fara skv. þál. frá 28. marz s.1., um óákveðinn tíma. Þetta er vitanlega meginefnið, og þessar umræður byrjuðu á því, að hv. 1. þm. Reykv. sagði, að utanrrh. ætti alþjóðar þökk — var það ekki rétt — alþjóðar þökk fyrir, að meginatriði málsins hafi náðst. Hann vildi sem sé frestun, og hann sagði, að utanrrh. ætti alþjóðar þökk fyrir að hafa staðið að frestun núna á þessu stigi málsins. Og út af hverju er þá veríð að óskapast? (Gripið fram í.) Já, það er alveg óskiljanlegt. Maður gat ekki látið sér detta í hug, að það yrði svo grunnt ofan á stráksskapinn hjá hv. þm. G-K., að hann fengi tækifæri til þess að koma upp á yfirborðið, þegar allt hafði fallið í ljúfa löð. Það hafði fengizt sá frestur, sem öll þjóðin, eins og þeir segja, óskaði eftir. Nei, það var eitthvað, sem angraði þá samt blessaða, og það var þetta, að þúsund ára ríki setu erlends hers á Íslandi var ekki runnið upp. Það var það, sem þeir hörmuðu.