06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

Endurskoðun varnarsamningsins

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki séð ástæðu til að taka þátt í þessum umræðum, því að utanrrh. hefur svarað þeim fsp., sem til hans hefur verið beint, og gert það þannig, að það hefur engu þar þurft við að bæta. En ég vildi, um leið og þessum umræðum lýkur, og að nokkru leyti í tilefni af ræðu síðasta hv. þm. bæta við þetta nokkrum orðum.

Hann segir, að stjórnarflokkarnir hafi skipt um skoðun í þessu máli. Skoðanir á Alþ. um hervarnarmálin og meðal þjóðarinnar munu vera þrenns konar, eins og kom fram við atkvgr. hér á hv. Alþ., eins og kom fram í útvarpsumræðum og eins og var greinilega lýst í blöðum fyrir kosningarnar. Sumir hugsa þessi mál þannig, að hér eigi að vera her, ef nokkur hætta er, og eins kom raunar fram frá hv. 1. þm. Reykv., að vegna þess að hér væru komnar svo miklar varnarstöðvar, sem komið hefðu eftir 1940, þegar Bretar komu hingað og byrjuðu að gera hér flugveili, þá þyrfti raunverulega alltaf varnarstöðvar, vegna þess að stöðvarnar sjálfar fælu í sér hættu. Þetta sjónarmið kom greinilega fram í ræðu þessa hv. þm. hér í kvöld. Annað sjónarmið er það, að hér eigi aldrei að vera her, hvernig sem á stendur. Og þriðja skoðunin, sem við stöndum að, framsóknarmenn og Alþýðuflokksmenn, er sú, að það eigi að nota fyrsta tækifæri, sem býðst, til þess að losna við herinn og Íslendingar eigi að taka við varnarstöðvunum og gæta þeirra á friðartímum og — eins og var lýst yfir af okkur fyrir kosningar og eftir kosningar í yfirlýsingu utanrrh. — hafa þær tilbúnar til þess, að hér komi inn her aftur eins og 1950, ef hans telst þörf að áliti okkar vegna yfirvofandi ófriðarhættu.

Í greinum, sem um þetta voru skrifaðar fyrir kosningar, kom þetta greinilega fram, og í þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. utanrrh. gaf rétt eftir að stj. var mynduð, var þessi skoðun greinilega mörkuð.

Það, sem hefur breytzt, er ekki, eins og hér hefur verið sagt, skoðun okkar á þessu máli. Hún stendur óhögguð. Það, sem hefur breytzt og gerbreytzt, er ástandið í heiminum.

Ég efast um, að nokkur af hv. þm. telji sig þess umkominn að hafa getað spáð því fyrir, að þeir atburðir, sem eru að gerast í Ungverjalandi, og þeir atburðir, sem gerðust fyrir botni Miðjarðarhafs, mundu gerast á þessum mánuðum. Ég hugsa, að hver einasti hv. þm. verði að játa, að enginn sá þá fyrir. Ég hygg, að þeir, sem meira vita en við um atburðina í veröldinni, verði jafnframt að játa, að þeir sáu þá ekki fyrir, gerðu ekki ráð fyrir, að þeir kæmu fyrir, og gerðu ráð fyrir, að upp væri að renna nú á undanförnum mánuðum friðarástand, sem mundi fara stöðugt batnandi.

Þegar þessir atburðir hafa gerzt, sem nú hafa gerzt í veröldinni, getur það vitanlega ekki dulizt neinum manni, að það var ekki hægt að gera annað undir þessum kringumstæðum, sem fyrir lágu, heldur en ríkisstj. hefur gert. Og ekkert annað væri í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. fyrir og eftir kosningar. Ef við álitum, að aðstaðan í veröldinni sé þannig, — um það skal ég ekki dæma, ég býst við, að það verði erfitt að meta það, — en ef við álítum, að það sé eitthvað svipað því, sem það var 1951, — sumir álíta, að það sé meira hættuástand en var 1951, aðrir álita, að það sé minna, — en ef við álítum, að það sé eitthvað svipað, hvernig í ósköpunum geta þeir, sem greiddu atkv. með því, að hér þyrfti að vera her 1951, sezt niður við samningaborð og sagt, þegar eins stendur á núna á þessum tíma: Nei, nú eigið þið að fara burt? Það væri alls ekki innan ramma þeirrar yfirlýsingar, sem þessir flokkar gáfu fyrir kosningar og eftir kosningar: her ætti að fara í burtu, þegar friðvænlega horfir, en hér ætti að koma inn her, þegar ófriðarhætta væri yfirvofandi. Þess vegna er það augljóst, og það gat hver maður sagt sér sjálfur, að ef við ætluðum að standa við þær yfirlýsingar, sem við gáfum fyrir kosningar, og þegar þetta ástand vofði yfir, var ekki hægt að gera annað en gert var.

Það er mikið rætt um það, að frestað hafi verið um óákveðinn tíma og hvað frestur sá sé langur. Því getur vitanlega enginn svarað annar en sá, sem getur sagt okkur, hvenær það ófriðarástand, sem nú er, breytist.

Það hefur verið enn fremur mikið talað um það, sem eru að vísu smærri atriði, að við höfum þann rétt skv. hernaðarsamningunum að geta sagt honum upp og herinn fari héðan og þess vegna sé ekkert nýtt í þeim nótuskiptum, sem farið hafa fram á milli ríkisstj. bandarísku og íslenzku ríkisstjórnarinnar. Ég vil nú vekja athygli á því, að það er ekki vitnað til samningsins frá 1951, heldur yfirlýsingar okkar, þegar við gengum í NATO 1949, yfirlýsingar, sem þá var staðfest að vísu með fréttatilkynningu frá utanríkisráðherra Bandaríkjanna og þáverandi utanrrh. Íslands. Það eru nótuskipti um þessa yfirlýsingu, sem liggja fyrir í samningunum. Hitt er vitanlega alveg augljóst, að uppsagnarákvæði samningsins frá 1951 eru til staðar og hafa verið til staðar.

En svo er eitt atriði, sem hér er gerður mikill matur úr, og það er það, að ríkisstj. skuli ekki öll vera sammála um orðalag þeirrar yfirlýsingar, sem gefin hefur verið. Ég ræddi það nú nokkuð eða í eins stuttu máli og ég gat, enda gerist þess ekki þörf að rekja það í löngu máli, því að það er öllum vitað, hver hefur verið skoðun þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa, um varnarmálin. Og það hefur ekki verið farið dult með það á undanförnum mánuðum og var ekki farið dult með það, þegar atkv. voru greidd um yfirlýsinguna frá 28. marz. En það er nú einu sinni svo í þessu landi, að þar sem fleiri flokkar standa að ríkisstj., skeður það líklega nokkuð sjaldan, að menn séu sammála, flokkarnir séu algerlega sammála um afgreiðslu þeirra mála, sem afgreidd kunna að vera, eins og kom greinilegast fram í sambræðslustjórn Framsfl. og Sjálfstfl., svo að þess sé nú minnzt, sem síðast var. Þá var framkvæmd hv. 1. þm. Reykv., sem þá var utanrrh., þannig í þessum varnarmálum, að það kom fram, sem eftirminnilegt er, vantraust á flokksþingi framsóknarmanna út af því, sem við vorum ósammála um í framkvæmdinni. Og okkur var úthúðað allan tímann af stjórnarandstöðunni þá, alveg eins og stjórnarandstaðan notar það nú í þessu tilfelli, ef við erum ekki allir sammála. Það var notað allan tímann, allt kjörtímabilið, á Framsfl., að við sætum í ríkisstj. þrátt fyrir það, þó að við værum ósammála utanrrh. í framkvæmd varnarmálanna, — allan tímann. Og ég nenni því nú ekki, enda mundi það taka of langan tíma, ef ég ætlaði að telja upp allar þær ráðstafanir, sem gerðar voru í ríkisstj., en aðrir ráðherrar voru ósammála um. Hef ég þó af ýmsu að taka. Það gengur þannig og mun ganga þannig í þeirri ríkisstj. eins og í öðrum ríkisstjórnum og hefur gengið alla tíð, síðan sambræðslustjórnir tóku við völdum á Íslandi, að ýmsir í ríkisstj. verða að beygja sig fyrir framkvæmdum hinna, þó að þeir séu ekki alls kostar ánægðir með það. Ef það væri ekki þannig í sambræðslustjórnum, þá væri yfirleitt ekki hægt, þá mundi reynast næsta erfitt að koma fram málum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta frekar. Það hefur verið spurt hér um eitt mál, hvort það hafi verið rætt um lántökur í sambandi við þessa samninga: Það er búið að svara því. Það er spurt um það, hvort það hafi ekki verið menn erlendis til þess að leita fyrir sér með lán. Ég vil spyrja aftur: Hvenær leið svo missiri hjá fyrrv. ríkisstj. í þrjú ár, að það væru ekki menn á ferðalagi erlendis til þess að leita fyrir sér með lán í Evrópu og í Bandaríkjunum?

Það er ekkert launungarmál, að vitanlega leitar ríkisstj. fyrir sér með lán í Bandaríkjunum og í Evrópu og heldur þeim sama sið og var hjá fyrrv. stjórn. Hvort það verður árangur meiri eða minni af því, það er allt annað mál, því að um það hefur alls ekkert verið samið.

Ég held, að það hafi svo ekki verið fleira, sem gefur mér neina ástæðu til þess að vera að lengja þessar umræður.