12.04.1957
Efri deild: 88. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

102. mál, heilsuverndarlög

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á heilsuverndarlögum, nr. 44 1955, er komið frá hv. Nd. Heilbr.- og félmn. hefur rætt það á einum fundi og nefndarmenn orðið á einu máli um að mæla með samþykkt þess.

Í frv. felst efnislega það eitt, að inn í heilsuverndarlögin verði bætt nýrri gr. á þá leið, að ráðh. skipi fasta lækna heilsuverndarstöðva og að laun þeirra greiðist úr ríkissjóði. Nákvæmlega sömu ákvæði var að finna í III. kafla laga nr. 50 1946, um almannatryggingar, sem afnumin voru með gildistöku nýju laganna um almannatryggingar frá 28. marz 1956. Með þeim var niður felldur að fullu III. kaflinn, um heilsugæzlu, og þótti þá eðlilegt að setja fyrri ákvæðin um skipun fastra lækna heilsuverndarstöðva og launagreiðslur til þeirra inn í heilsuverndarlögin.

Nefndin, sem undirbjó nýju tryggingalögin, gerði ráð fyrir þessu fyrirkomulagi og samdi um það frv., sem fram kom á síðasta þingi. Einhverra hluta vegna — mér hefur helzt skilizt af vangá — hlaut frv. aldrei endanlega afgreiðslu á því þingi, og hafði þó n. skilað áliti og einróma mælt með samþykkt þess. Af þessari töf hefur þegar leitt nokkra erfiðleika í sambandi við launagreiðslur til lækna heilsuverndarstöðva, og er nauðsyn talin á, að málið hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Því er þetta frv., sem er samhljóða hinu fyrra, fram komið. Ætti samþykkt þess að vera þeim mun auðveldari sem hér er ekki um neitt nýmæli að ræða, heldur tilfærslu ákvæða frá einum lagabálki til annars.

Eins og ég gat um í upphafi, mælir heilbr.- og félmn. einróma með, að frv. verði samþ. óbreytt.