31.01.1957
Neðri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

206. mál, skattfrádráttur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af fsp. hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka fram, að það er ekki gott að segja með nokkurri vissu eða líkum, hvað þetta muni kosta. Það skiptir ekki gífurlega hárri fjárhæð, en ég þori samt ekki að gizka á það. Það hefur verið gerð dálítil tilraun til að komast eftir því, en það er sýnilegt, að það er ekki hægt að áætla þetta með sæmilegum líkum. Vil ég því ekki nefna neinar tölur.

Hv. 2. þm. Eyf. talaði um, hvort ekki ætti að láta þetta ná til fleiri. Það er ákaflega vandasamt að draga línuna, ef þetta verður látið ná til fleiri en frv. gerir ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir, að það nái til fiskimannanna sjálfra og annarra ekki. Ef það ætti að ná til annarra, þá mundi sjálfsagt margur vilja koma þar undir, og verður því áreiðanlega að athuga með fullkominni varúð allar uppástungur um að færa þetta út.

Ég vil svo ítreka tilmæli mín um, að málinu verði vísað til nefndarinnar.