26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

206. mál, skattfrádráttur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta mildi hans að leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við ræður tveggja hv. síðustu ræðumanna.

Hv. frsm. n. fer villur vegar, þegar hann heldur því fram, að þessum brtt. hafi verið „kastað fram skriflegum“. Ég vænti, að hæstv. forseti geti staðfest það, að þessum brtt. var útbýtt prentuðum, og voru þær teknar fyrir til umr. Ég hef a.m.k. ekki orðið var við það, að afbrigða hafi verið leitað fyrir þeim.

Það tekur svo naumast að svara því, að ég hafi haldið því fram hér, að stjórn stéttarfélags þess, sem hann er formaður í, sé eingöngu studd af sjálfstæðismönnum. Þessi orð hef ég aldrei látið mér um munn fara. Ég hef aðeins sagt, að það sæti illa á þessum hv. þm., sem situr formaður í sínu stéttarfélagi gersamlega af náð sjálfstæðismanna, að telja sig hafa efni á því að mæla af sérstakri vandlætingu um „verkalýðsmálastefnu sjálfstæðismanna“. Ég segi, að ef einhvers staðar má tala um skinhelgi eða jafnvel það, að menn hafi á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneiti hennar krafti, þá mundi nú mega viðhafa þau orð um þessa framkomu hv. 4. þm. Reykv. Það er ágætt að fá sjálfstæðisverkamenn í múrarastétt til þess að kjósa sig til formennsku og trúnaðarstarfa í sínu stéttarfélagi, en standa svo upp á Alþingi og fara með svívirðingar um flokk þessara manna. Ég vænti þó þrátt fyrir allt, að samvinna Alþfl. og Sjálfstfl. hafi verið vel ráðin í þessu stéttarfélagi eins og í fleiri stéttarfélögum víðs vegar um land.

Hæstv. sjútvmrh. talaði hér nú alldigurbarkalega um það, að sjálfstæðismenn hefðu ekki fengizt til þess að samþykkja skattfrádrátt til sjómanna á undanförnum árum. Hæstv. sjútvmrh. kemst þó ekki hjá því, þegar hann flytur þetta frv., sem hér liggur fyrir, að stíla það við ákvæðið um skattfrádrátt handa sjómönnum, sem samþykktur var og borinn fram undir forustu sjálfstæðismanna. Ég beld það ætti að draga dálítið úr gassanum í hæstv. sjútvmrh. Hann þarf ekki að berja sig utan yfir því, að sjálfstæðismenn hafi aldrei beitt sér fyrir því, að sjómenn fái skattfríðindi. Þetta frv. er stílað við þau ákvæði skattalaga um skattívilnanir handa sjómönnum, sem sett eru undir forustu sjálfstæðismanna og í samvinnu við þá. Frekari sönnun þarf ekki til þess að kveða niður þessar staðhæfingar hæstv. ráðh, sem hann lét sér um munn fara hér áðan.

Ég vil einnig leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á það, að fyrir ekki lengri tíma en 3 árum voru skattalög endurskoðuð hér að nokkru leyti, árið 1954, fyrst og fremst vegna þess, að sjálfstæðismenn gerðu það að skilyrði í málefnasamningi sínum við Framsfl., þegar stjórn var mynduð 1953, að það yrði gert. Samkvæmt þessari endurskoðun varð niðurstaðan sú, að skattar persónulegra skattgreiðenda lækkuðu um 20–30%. Það var að því stefnt, að lækkunin yrði um 20%, en hún mun hafa orðið á persónulegum skattgreiðendum um 27%. Vil ég spyrja hæstv. sjútvmrh. að því, hvort hann hafi talið þetta eitthvert fjandskaparbragð við sjómannastéttina, hvort þetta hafi ekki komið henni einnig að gagni. Ég vænti, að svo hafi verið. Ég veit, að þetta hefur einnig komið sjómannastéttinni að gagni.

Annars hélt ég nú, að það sæti illa á hæstv. sjútvmrh. og flokki hans að vera að núa sjálfstæðismönnum því um nasir, að þeir hafi ekki flutt till. um skattalækkanir. Ég veit ekki til þess, að nokkur flokkur hafi oftar bent á það og greinilegar, hversu allt of langt sé búið að ganga í skattheimtu á hendur einstaklingum og atvinnurekstri í þessu landi. Ég veit heldur ekki betur en þau spor, sem hafa verið stigin í rétta átt á síðustu árum í þeim efnum, og á ég þar fyrst og fremst við endurskoðun skattalaganna 1954, hafi verið stigin fyrir frumkvæði sjálfstæðismanna.

Hv. flokksmenn hæstv. ráðh. hafa að vísu flutt till. um að fella niður tolla og lækka tolla á undanförnum árum, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Nú eru þeir komnir í ríkisstj. Hafa þeir þá ekki notað tækifærið og notað vald sitt til þess að lækka tolla og skatta eða jafnvel afnema þessi leiðu fyrirbrigði? Ég held ekki. Eina bjargráð þessarar hæstv. ríkisstj., sem þessir háu herrar eiga nú sæti í, hefur þvert á móti verið að hækka skatta og tolla gífurlega á almenningi. (Forseti: Þetta er að verða nokkuð löng athugasemd.) Ég skal taka ábendingu hæstv. forseta til greina og ekki halda öllu lengra út í að svara hæstv. ráðh. En ég vil aðeins endurtaka það, að úr því að hann var að tala um fyrri till. sínar í þessum málum um skatta- og tollalækkanir, þá verður að segja það, að engin ríkisstj. hefur fyrr eða síðar lagt aðra eins tolla og skatta á almenning og sú ríkisstj., sem hæstv. sjútvmrh. á nú sæti í. Engu að síður kemur hann fram og er drjúgur yfir í þessum efnum, þó að hann hafi lagt þúsundir króna í nýjum sköttum og tollum á hverja einustu fjölskyldu í landinu.

Ég vil ekki misnota þolinmæði hæstv. forseta til þess að fara að ræða við hæstv. sjútvmrh. um þau afrek, sem hann vann um síðustu áramót. En það gefst ef til vill tækifæri til þess í sambandi við annað mál, sem hér er á dagskrá, að koma að upplýsingum, sem sýna, hvernig ríkisstj. hefur staðið við þau loforð, sem hún gaf um síðustu áramót, og hvernig hún hefur „bjargað útgerðinni“.

Þetta frv., eins og það liggur fyrir frá hálfu hæstv. ríkisstj., er ekkert nema kák og kák eitt.

Ef hv. þd. vill gera úr því raunhæft mál, verður hún að samþykkja þær brtt., sem liggja fyrir frá mér og hv. 11. landsk. þm.