26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

206. mál, skattfrádráttur

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki misnota góðmennsku forseta. — Í sambandi við síðustu ræðu hv. þm. N-Ísf., þar sem hann endurtók nokkuð af því, sem hann hafði áður sagt varðandi mig og óviðkomandi mál, þá vildi ég aðeins segja þetta: Að sjálfsögðu er ekki beint hagsmunamál Múrarafélags Reykjavíkur hér til umr., en ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða þau við hann hvar og hvenær sem er og tækifæri gefst til. Hins vegar hefur þetta félag eins og önnur stéttarfélög í landinu fengið að kenna á valdi Sjálfstfl. í samtökum atvinnurekenda, og ég segi, að ef sömu menn kjósa núverandi stjórn Múrarafélagsins og Sjálfstfl., þá er það áreiðanlega þrátt fyrir afstöðu þm. N-Ísf. og annarra slíkra manna hér á hv. Alþ. til hagsmunamála verkalýðsins á undanförnum árum.