12.04.1957
Neðri deild: 86. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Thors:

Herra forseti. Vegna fregna, sem hingað hafa borizt og skýrt hefur verið frá bæði í útvarpinu, ríkisútvarpinu nú um hádegið, og einnig í dagblaðinu Vísi, þar sem greint er frá því, að í einu af stjórnarblöðunum í Moskva hafi fallið orð um það, að stjórn Sovétríkjanna teldi nauðsynlegt fyrir Íslendinga, að varnarherinn hyrfi úr landi, og þannig hafið sams konar afskipti, svo langt sem það enn þá nær, af málefnum okkar eins og áður hefur orðið af þeirra hendi um málefni annarra norrænna þjóða, Noregs og Danmerkur, þá vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort honum hafa borizt nokkur frekari skilaboð um þetta, á svipaðan hátt eins og forsætisráðherrar Danmerkur og Noregs hafa fengið bréf frá æðstu mönnum Sovétríkjanna um þessi mál.

Í öðru lagi vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. um það, hvort — ef slík skilaboð hafa ekki enn þá borizt honum — hann þá muni, ef þau berast, gera ráðstafanir til þess að tilkynna þau opinberlega.

Og loks vil ég í þriðja lagi spyrja um það, hvort hann telji ekki, ef slík boð berast frekar en orðið er, rétt, að hæstv. ríkisstj. hafi um það samráð við stjórnarandstöðuna allt frá öndverðu, hvernig á þeim málum verði tekið.

Þessum þremur fsp. leyfi ég mér að beina til hæstv. forsrh. með ósk um, að hann skýri Alþingi frá því, sem hann hefur um það að segja. Mér er að sönnu tjáð, að hæstv. forsrh. hafi látið hafa þau ummæli eftir sér í útvarpsfregninni, að honum hafi ekki þá borizt slík boð, en hvort tveggja er, að þau gætu hafa komið síðar, sem og hitt, að ég tel, að það sé eðlilegt, að þessu máli sé nú þegar hreyft á Alþingi Íslendinga.