21.02.1957
Neðri deild: 58. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

109. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég tel, með vísun til 27. gr. þingskapa Alþingis, að hæstv. forseta hafi borið að vísa þessu stjórnarfrv. um breyt. á kosningalögunum á þskj. 231 frá. — 27. grein þingskapanna hljóðar svo:

„Lagafrumvarp, er felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, skal í fyrirsögninni nefnt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn, vísar forseti því frá.“

Nú hefur hæstv. forseti ekki af sjálfsdáðum framfylgt skyldu sinni samkv. þessari gr. þingskapa, og leyfi ég mér því að krefjast þess, að hann láti það ekki lengur undir höfuð leggjast að vísa þessu frv. á þskj. 231 frá, þar sem það felur í sér, svo að eigi verður um villzt, breytingu á eða viðauka við stjórnarskrána, 31. gr., varðandi kosningu varamanna þingmanna, bæði þeirra, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum í Reykjavík og í tvímenningskjördæmum, og eins varamanna landskjörinna þm. Breytingin á eldri reglum um kjör varaþingmanna, sem í þessu frv. felst, er eftirfarandi í 1. gr., 2. málslið:

„Segi varamaður af sér, missi kjörgengi eða falli frá, tekur sá varamannssæti, sem næstur er á listanum og ekki var áður varamaður.“

Þetta þýðir, að allir frambjóðendur á lista í Rvík, í tvímenningskjördæmum og á landslista, sem ekki ná kosningu, geta orðið varamenn þm. og þar af leiðandi tekið sæti á Alþingi, ef svo ber undir. En um þetta segir ótvíræðum orðum í 31. gr. stjórnarskrárinnar, a-, c- og d-lið, að varamenn þingmanna, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum í Rvík, í tvímenningskjördæmum og til jöfnunar milli þingflokka á landslistum, skuli kosnir jafnmargir og aðalmenn, samtímis aðalmönnum og á sama hátt. M.ö.o., ef kosinn er einn aðalmaður af lista, þá er samtímis kosinn einn varamaður; ef tveir aðalmenn eru kosnir, þá eru samtímis kosnir jafnmargir eða tveir varamenn o.s.frv.

Eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar á t.d. Alþfl., sem fengið hefur viðurkennda 4 landskjörna þm. nú, rétt á fjórum varamönnum landskjörnum, en samkv. ákvæðum 1. gr. frv. þessa, sem hér liggur fyrir, ætti hann rétt á jafnmörgum varamönnum landskjörnum og á listanum voru fyrir utan þá, sem kjörnir voru, og sama gildir að sínu leyti um kosningar í Rvík og tvímenningskjördæmum. Með þessu frv. er því á ótvíræðan hátt breytt því, sem um kjör varamanna segir í stjórnarskránni, og ber því að vísa því frá, sbr. áður tilvitnuð ákvæði 27. gr. þingskapa.

Til frekari rökstuðnings máli mínu leyfi ég mér að tilgreina eftirfarandi atriði:

1. atriði: Öll eldri ákvæði stjórnskipunarlaga um varamenn þingmanna eru samhljóða núv. ákvæðum 31. gr. stjórnarskrárinnar: Jafnmargir varamenn skulu kosnir samtímis og á sama hátt. Nefni ég þar fyrst stjórnskipunarlög nr. 12 19. júní 1915, 9. gr., og stjórnarskrána nr. 9 18. maí 1920, 28. gr., en þar eru ákvæði um kosningu varamanna þingmanna, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum um landið allt í einu lagi, þ. e. a. s. gamla landskjörið, og segir um það svo:

„En varamenn skulu vera jafnmargir og þingmenn, kosnir hlutbundnum kosningum, enda kosnir á sama hátt og samtímis.“

Í öðru lagi má nefna stjórnskipunarlög nr. 22 24. marz 1934, en samkv. þeim kveður 26. gr. stjórnarskrárinnar á um varamenn þingmanna í Rvík og varamenn þingmanna til jöfnunar milli þingflokka, þ.e. uppbótarþingmanna, og orðrétt eins og 31. gr. er nú, en á þessum tíma komu fyrst til greina ákvæðin um uppbótarþingmenn eða þá, sem nú eru aftur kallaðir landskjörnir þm., og varamenn þeirra.

Í þriðja lagi má nefna stjórnskipunarlögin nr. 78 1. sept. 1942, en þar er sú breyting á 26. gr. stjórnarskrárinnar m.a., að ný ákvæði koma um varamenn þingmanna í tvímenningskjördæmum og alveg orðrétt eins og nú í 31. gr.:

„Jafnmargir varamenn kosnir samtímis og á sama hátt.“

Um skilning eða lögskýringu á þessum eldri og yngri stjórnarskrárákvæðum leyfi ég mér að vísa til þess, sem áður hefur verið gert hér, Réttarsögu Alþingis eftir Einar Arnórsson prófessor í lögum og hæstaréttardómara, á bls. 500, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Varaþingmenn landskjörnir“ — en nákvæmlega sama á nú við um varaþingmenn kosna hlutbundnum kosningum í Reykjavík og tvímenningskjördæmum — „verða því þeir menn á lista hverjum, sem fá næsta atkvæðatölu þeim, sem kosnir verða alþingismenn. Ef listi t.d. fær tvo aðalþingmenn landskjörna, A og B, þá verða C og D, sem næsta fá atkvæðatölu, varaþingmenn. C tekur þá sæti hvors aðalþingmannsins sem fyrr missir við og D þess, er síðar fer frá eða forfallast. En ef sæti bæði aðalmanns og varamanns losnar og enginn af þeim varamönnum, sem listinn fékk, er til, þá verður að fara fram kosning, bæði aðalmanns og varamanns. Er þetta að vísu óheppilegt skipulag, en orð bæði 28. gr. stjórnarskrárinnar 1920 og 76. gr. kosningalaga, nr. 28 3. nóv. 1915, þykja svo ótvíræð um þetta atriði, að eigi verður um villzt.“

Þetta var skilningur og lögskýring Einars Arnórssonar bæði lagaprófessors og hæstaréttardómara og eins helzta fræðimanns okkar í lögum á umliðnum árum.

3. atriði: Um framkvæmd hinna eldri og yngri stjórnarskrárákvæða nm varamenn þingmanna vísast til aukakosninga 1926 á aðalmanni og varamanni landskjörnum, sem fram fóru, „með því að landskjörinn alþm. Jón Magnússon og varaþingmaðurinn með honum, Sigurður Sigurðsson, eru báðir látnir“, eins og segir orðrétt í tilkynningu ríkisstj. um aukakosninguna í Stjórnartíðindum 1926, B-deild, bls. 85.

4. atriði: Yfirkjörstjórnin í Reykjavík hefur lýst yfir því nú eftir síðustu alþingiskosningar, þegar laust varð eina varamannssæti Alþfl.- listans í Reykjavík, að hún teldi ekki fært, með hliðsjón af 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 117. gr. kosningalaganna, að gefa út formlegt kjörbréf til Eggerts G. Þorsteinssonar, og í bókun yfirkjörstjórnarinnar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirkjörstjórnin varð sammála um það að gefa ekki Eggert Þorsteinssyni kjörbréf sem varaþingmanni fyrir Alþfl., þar sem hún taldi skorta lagaheimild til þess.“

Það liggur þess vegna fyrir ótvíræður og sammála skilningur yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavík í tilteknu máli, einmitt um varaþingmennina, eins og þetta frv. fjallar um, að vegna ákvæða stjórnarskrárinnar skorti lagaheimild til þess að gefa fleiri varamönnum kjörbréf en kosnir voru samtímis og á sama hátt og aðalþingmennirnir.

5. atriði: Breytingin á lögunum um sveitarstjórnarkosningarnar, nr. 18 15. maí 1942, sannar, að þá var lítið svo á, að ekki væri lagaheimild til fleiri varamanna af lista en tala kjörinna aðalmanna væri, en fram til þessa giltu sömu ákvæði um varamenn skv. lögum um sveitarstjórnarkosningar og um varamenn þingmanna samkv. stjórnarskrá og kosningalögum.

Ég læt nú þessa upptalningu á lagabókstöfum, framkvæmd laga og skilningi laga til sönnunar þeirri kröfu, sem ég setti fram í upphafi, nægja, en minni á, að öll þessi atriði og ótalmörg fleiri hafa komið hér fram og verið reifuð í sambandi við kjörbréf Eggerts Þorsteinssonar og á margan hátt verið færð fyllri rök að þeim, bæði af hálfu hv. 1. þm. Reykv. (BBen) og hv. 6. þm. Reykv. (GTh).

Ég hef ekki rætt um, hvort ákjósanlegt sé eða ekki að breyta stjórnarskránni á sama hátt og felst í því frv., sem hér liggur fyrir varðandi kjör varaþingmanna. Ég tek þó fram, að við sjálfstæðismenn höfum lýst okkur því fylgjandi. En stjórnarskrá verður ekki breytt með almennum lögum, og meðan henni er ekki breytt að þessu leyti, verður að fylgja ákvæðum hennar, og stoða ekki til breytinga þingsályktanir, almenn lagasetning eða óskhyggja þingmanna. Vitna ég í þessu sambandi til orða hv. 1. þm. Eyf. (BSt), sem í umr. um kjörbréf landskjörinna þingmanna Alþfl. í upphafi þings sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvort sem lögin eru ranglát eða réttlát, þá eru þau eins og þau eru nú í dag, og eftir þeim verður að dæma og engu öðru.“

Ég lýk svo máli mínu með því að árétta: hæstv. forseta ber að vísa þessu máli frá.