12.04.1957
Neðri deild: 86. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Út af þessum fsp. vil ég taka þetta fram:

Það er í fyrsta lagi, að það hefur ekki borizt neitt bréf, skeyti eða skilaboð til íslenzku ríkisstj. út af þessu máli. Við höfum aðeins eins og aðrir heyrt um þetta í útvarpi, og ég veit ekki, hvernig þessi grein er í hinu rússneska stjórnarblaði.

Enn fremur er spurt um það af hv. þm. G-K., hvort skilaboðin muni verða tilkynnt, ef þau berast hingað. Ég tel óhætt að segja það strax, að að sjálfsögðu verður það gert.

Í þriðja lagi spyrst hv. þm. fyrir um það, hvort samráð verði haft við stjórnarandstöðuna. Það mál hefur ekki enn þá verið rætt í ríkisstj. af eðlilegum ástæðum, þar sem þetta er aðeins útvarpsfrétt, sem borizt hefur í dag. Það mál hefur ekki enn þá verið rætt af ríkisstj., enda er utanrrh. fjarverandi. En ef þessi skilaboð berast, mun það að sjálfsögðu verða rætt í ríkisstj., undireins og utanrrh. kemur heim, en hann kemur til landsins næsta miðvikudag.