21.02.1957
Neðri deild: 58. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

109. mál, kosningar til Alþingis

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og kom fram í þeim andmælum, sem hér hafa verið flutt gegn þessu frv., er næsta auðsætt, hve efnið er algerlega tæmt í þeim umr., sem farið hafa fram hér á Alþingi fyrir nokkru og það hvað eftir annað, því að hér voru talin þau rök og þau ein, sem andstæðingar þessa máls telja sig hafa og töldu sig hafa og geta fært fram gegn þeirri þál., sem hér var gerð.

Ég hygg, að ég segi það fyrir hönd æði margra, sem kannske vilja þó ekki allir kannast við það, að í þessum umr. verður ekki um bætt frá þeirri ræðu, sem hér var flutt af hv. þm. Ak., hún stendur óhögguð sem dómur í þessu máli, óraskanlegur. Það var engin veila í þeim rökum, sem hann flutti hér fram.

Það er auðsætt mál, að þetta mál snýst um aðeins eitt meginatriði, skilning á einni grein stjórnarskrárinnar, 31. gr., og það hefur verið sýnt fram á það mörgum sinnum, að þessi sífellda endurtekning á því, að ekki sé kosinn nema einn varamaður samtímis og á sama hátt og að enginn eigi að koma í hans stað, hefur ekki við rök að styðjast og ekki við lög að styðjast heldur, ekki við eðlilegan skilning á stjórnarskránni, hvorki 31. gr. né öðrum ákvæðum hennar, því að það hefur verið skorið úr þessu máli hér á Alþingi með því að leiða í lög 117. gr. kosningalaganna. Það hefur verið margsýnt fram á, og er leiðinlegt að þurfa að vera að endurtaka það, að ef ætti að ríkja hinn þröngi skilningur á 31. gr., þá hefur aldrei verið kosinn nema einn varamaður skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar, og frá því á ekki að mega breyta, eftir því sem andstæðingarnir segja, og það er einn varamaður í Rvík. Nú gerir 117. gr., þrátt fyrir ákvæði 31. gr. stjórnarskrárinnar, þá undantekningu, að varamaður, sem er kosinn samtímis og sá eini, sem er kosinn, samtímis og á sama hátt, ef síðar kemur í ljós, að hann verður uppbótarþingmaður, þá víkur hann úr þessu eina sæti, þar sem varamaðurinn er kosinn samtímis og á sama hátt, og sætið tekur þriðji maður á listanum, ef einn aðalmaður er kosinn og einn varamaður. Þar með er búið að lögleiða hér á Alþ., í 117. gr., ákvæði, sem er algerlega samhljóða að efni til í rann og veru því frv., sem hér er flutt. Án nokkurra mótmæla var 117. gr. samþykkt, og hefur engum dottið í hug að hreyfa mótmælum, ég hef a.m.k. ekki séð þau mótmæli. Þar með eru fallin af sjálfu sér þau rök, sem stöðugt eru endurtekin, að það megi ekki kjósa nema einn varamann með hverjum aðalmanni, því að 117. gr. breytir þeirri reglu, án þess að því hafi verið mótmælt hér á Alþ., að ekki styddist við lög. Og það hefur verið sýnt fram á það, að vitanlega er það eðlileg lögskýring, að þegar þriðji maður í þessu tilfelli, sem við erum hér að ræða, hverfur úr röðinni, vegna þess að hann segir af sér, þá tekur fjórði maður sæti á sama hátt og þriðji maður. Sú lögskýring hefur verið gefin út hér á Alþ., og þetta frv., sem hér er flutt, er til samræmis við það og til þess að þessi regla gildi almennt fyrir hvern, sem í hlut á, þannig að því, sem Alþ. hefur gert, verði ekki breytt og annað framkvæmt gagnvart öðrum flokkum, sem kunna að þurfa að taka til sinna varamanna síðar, eins og stundum vill verða á Alþ., þegar lögskýringar eru gefnar út með þál.

Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar. Eins og ég sagði í upphafi, yrðu það endurtekningar á því, sem hefur verið margsagt um þetta mál. Atriðið er þarna raunverulega samanþjappað, allt málið er samanþjappað í ákvæði 31. gr. stjórnarskrár og 117. gr. kosningalaga, og ég endurtek: þar hefur verið leitt í lög ákvæði, sem algerlega brýtur í bága við þá lögskýringu, sem hér er haldið fram, og það án nokkurra mótmæla.