21.02.1957
Neðri deild: 58. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

109. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er nú leiðinlegt, að hæstv. forsrh., fyrst hann hafði dóm í málinu, skyldi ekki geta dregið fram í dagsljósið eitthvað af þeim dómsorðum, sem algerlega skera úr í þessu máli. En það verð ég að segja, að hæstv. forsrh. er lítilþægur að gera sig ánægðan með málflutning sinna manna, eins og málflutning hv. þm. Ak., sem hér talaði ekki alls fyrir löngu í skyldu máli með þeim hætti, að það vakti undrun, vegna þess að það var vitað, að bæði sá hv. þm. og hæstv. forsrh. og allt stjórnarliðið var búið, eins og ég sagði þá, vikum saman að bögglast með, hvernig hægt væri vegna ákvæða stjórnarskrárinnar að koma því í framkvæmd, sem þessir aðilar óskuðu eftir. Á siðasta stigi, á elleftu stundu kom hv. þm. með dóminn í málinu, eins og hæstv. forsrh. orðaði það, og sá dómur var, að allt annað en lögleysan, sem hann og hans flokksmenn höfðu verið að glíma við svo langan tíma, væri stjórnarskrárbrot, allar kenningar fyrri prófessora í lögum í háskólanum um þetta atriði væru rangar og framkvæmd aukakosninganna í landskjörinu 1927 hefði líka verið stjórnarskrárbrot, — og það uppgötvaðist þá, guði sé lof, 1957, að framið hafði verið þetta stjórnarskrárbrot 1926. Það var leitt, að hv. þm. Ak. skyldi ekki geta leiðrétt kennara sinn í háskólanum, þegar hann var þar, og sýnt fram á, hversu ranglega hefði verið að farið.

Að sjálfsögðu getur mönnum sýnzt sitt hvað, ekki síður í þessu máli en öðru. En menn fella kannske sterkastan dóm yfir sjálfum sér, þegar þeir taka of mikið upp í sig, eins og hv. þm. Ak. varð svo eftirminnilega á í umr. um þetta mál hér áður. Og mig furðar, að hæstv. forsrh. skuli koma hér og segja, að það sé svona dómur, sem hann óski eftir í málum eins og hér um ræðir, og lengur þurfum við ekki vitnanna við. Ekkert af dómsorðunum var hér fram fært af hálfu hæstv. forsrh., en hann hélt sig hins vegar við aðeins eitt atriði, sem hann hefur áður vikið að og sannaði það, að hér væri ekki um stjórnarskrárbrot að ræða, og það var þetta atriði, eins og hann orðaði það, að ef síðar kemur í ljós, að frambjóðandi af lista, sem varð varamaður, verður landskjörinn, er næsta manni á listanum gefið kjörbréf sem varamanni. Segir hæstv. forsrh., að þetta sé búið að lögleiða í 117. gr. kosningalaganna og þar með sé búið að lögleiða það, sem verið sé að fara fram á í því frv., sem hér liggur fyrir.

En má ég þá spyrja: Hvers vegna er þá þetta frv. flutt, ef ákvæði þess eru þegar í lögum? Vill hæstv. forsrh. gefa á því skýringu? Hvaða ástæða er til að vera að setja í lög það, sem áður er í lögum? Nei, ef þetta frv. er að efni til sama og efni 117. gr., þá er 117. gr., enda þótt hún hafi staðið í l., jafnvafasöm, ef hún stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Sannleikurinn er sá, að það er mikill skilsmunur í 117. gr. kosningalaganna og 31. gr. stjórnarskrárinnar, og það er sá skilsmunur, sem einnig kom fram í orðum hæstv. forsrh., því að hann segir: Ef síðar kemur í ljós, að varamaður verður landsk., — og ég man eftir því, að hv. þm. N-Þ. var einnig með þennan hugsunarhátt, — þá er næsta manni, sem er næstur honum á lista, gefið kjörbréf sem varamanni. — Þetta kemur einmitt fram í 117. gr. kosningalaganna, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hreppir varaþingmaður af lista í kjördæmi, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, uppbótarþingsæti, og skal yfirkjörstjórn sú, er í hlut á, þá koma saman að nýju og gefa næsta frambjóðanda á þeim lista, ef til er, kjörbréf sem varaþingmanni.“

En þetta er rangt í 117. gr., alveg eins og þessi skilningur viðkomandi manna er rangur og hæstv. forsrh., vegna þess að í 31. gr. stjórnarskrárinnar segir um uppbótarþm.: „Jafnmargir varamenn skulu kosnir jöfnunarþingsætum, samtímis og á sama hátt.“ Landsk. aðalþm. og landsk. varaþm. eru kosnir samtímis og á sama hátt, samtímis og allir aðrir aðalþm. eru kosnir. Það er aðeins reikningsaðferð, sem tekur tíma til að skera úr, hver er kosinn, en niðurstaðan liggur í kjörkössunum á kjördaginn. Niðurstaðan á kjöri landsk.

þm. er ákveðin sama daginn og allra annarra þm. Þess vegna er það röng hugsun að komast að orði eins og hæstv. forsrh.: Ef síðar kemur í ljós, að varamaður verður landsk. — því að maðurinn verður ekkert fyrr varamaður en hann verður landsk., enda er í framkvæmdinni ekki reiknað þannig út. Menn eiga fljótara með að átta sig á þessu, ef við tökum dæmin hér í Reykjavík. Alþfl. fær svo og svo marga kjörna. Það liggur í augum uppi, að næsti maður á listanum, þar sem einn er kosinn, er varaþm., og þess vegna segja menn sem svo, þegar búið er að reikna út landsk. þingmennina: Þarna er einn varamaður gerður að landsk. þm. eða hreppir þingsæti landsk. þm., og þess vegna er tekinn þriðji varamaðurinn. — En þetta er rangt, þessi maður var aldrei orðinn varamaður, hann var áður orðinn landsk. Á kjördegi var í þessu tilfelli hæstv. menntmrh. orðinn landsk., að svo miklu leyti sem kjör hans sem landsk. er löglegt.

Efni málsins er þess vegna ekki þjappað saman í 31. gr. stjórnarskrárinnar og 117. gr., heldur í 31. gr. stjórnarskrárinnar, og þann misskilning, sem komið hefur fram hjá hæstv. forsrh. og fleirum hér og ég hef nú vikið að, tel ég að þessir aðilar hafi leitt af orðalagi 117. gr., sem hins vegar fær ekki staðizt við orðalag og skilning 31. gr., sem segir, að landsk. varaþm. séu kosnir samtímis og á sama hátt og aðalþm.

Annað var það ekki í ræðu hæstv. forsrh., sem ég tel ástæðu til að víkja að, en held við kröfu mína um það, að þessu máli, sem feli í sér breytingu og viðauka á stjórnarskránni, eigi að vísa frá.