03.05.1957
Efri deild: 93. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

109. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er á dagskrá, er stjórnarfrv., komið frá Nd. Allshn. hefur haft það til meðferðar, en varð ekki sammála um afstöðu til þess. Minni hl., þeir hv. þm. V-Sk. og hv. 11. landsk., telja frv. ekki samþýðanlegt stjórnarskrárákvæðum og eru andvígir því af þeim sökum. Við hv. 1. þm. N-M. og hv. 1. landsk. höfum aðra skoðun á því máli og leggjum til, að frv. verði samþykkt. Efni frv. er öllum hv. dm. kunnugt. Það hefur verið þrautrætt í vetur í sambandi við ágreining um sæti varaþingmanns hv. 4. þm. Reykv. Að svo komnu tel ég því ekki þörf á að túlka málið á ný, enda mundi væntanlega ekkert nýtt koma fram af minni hendi. Ég læt því nægja að vísa til þessara umræðna frá í vetur og legg til, að frv. verði samþ. til 3. umr.