23.11.1956
Efri deild: 17. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

58. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Áður en Alþingi kom saman, ákvað ríkisstj. að leggja þrjú frv. fyrir þetta Alþingi varðandi orlof, þ.e. til breytingar á þeim lagaákvæðum, sem nú gilda um orlof.

Svo sem hv. dm. er eflaust kunnugt, varð niðurstaða desemberverkfallsins svonefnda 1952 sú, að samningar tókust milli verkalýðssamtaka og atvinnurekenda um að hækka orlofsfé úr 4% í 5%, og í verkfalli 1955 var það enn fremur ein af niðurstöðunum í samningum milli verkalýðssamtaka og vinnuveitenda, að orlofsfé var hækkað úr 5% í 6%.

Þó að till. hafi verið bornar fram um það á Alþingi hvað eftir annað, að gildandi lagaákvæðum um orlof yrði breytt til samræmis við þá samninga, sem tekizt höfðu milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, náðu þau frv. ekki fram að ganga. Þannig hefur í raun og veru verið misræmi milli ákvæða vinnusamninga um orlof og gildandi lagaákvæða. Tilgangur ríkisstj. er sá að gera hér á breytingar, þ.e. að löghelga umsaminn orlofsrétt, en láta hann ekki vera einvörðungu bundinn í kjarasamningum milli stéttarfélaga.

Þau þrjú frv., sem hér er um að ræða, eru frv. til breytingar á hinum almennu lögum um orlof, en í því eru gerðar þrjár breytingar á hinni almennu orlofslöggjöf, í fyrsta lagi sú, að orlofsféð er hækkað úr 4% í 6%, í öðru lagi, að undanþáguákvæði þau, sem gilt hafa um hlutarsjómenn, eru felld úr gildi, þannig að hin almenna orlofsregla á einnig að gilda um þá. Enn fremur er breytt ákvæðum gildandi laga um fyrningarrétt eða um fyrningarreglur orlofsfjár, en þær reglur hafa þótt óljósar.

Þá liggur einnig fyrir hinu háa Alþingi frv. til breyt. á l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, til staðfestingar á þeirri ákvörðun, sem tekin var á s.l. sumri, að opinberum starfsmönnum skyldi veitt 18 daga orlof, en það samsvarar reglunni um 6% í orlofsfé. Eftir sem áður er gert ráð fyrir, að sú regla gildi, að þeir, sem hafa verið við störf í 10–15 ár, fái 21 dags orlof, og þeir, sem starfað hafa lengur en 15 ár, fái 24 daga orlof.

Þriðja frv., sem gert var ráð fyrir að leggja fyrir hið háa Alþingi, er það frv., sem hér liggur nú fyrir og miðar að því, að orlofstími iðnnema lengist úr 12 dögum í 18 daga. Er það efnislega algerlega samhljóða þeim tveimur frv., sem ég nefndi, frv. um breyt. á hinum almennu orlofslögum og frv. um breyt. á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Þegar lögin um iðnfræðslu voru sett, var sumarleyfistími iðnnema miðaður við hina almennu reglu orlofslaganna, sem þá var, að orlof skyldi vera 12 virkir dagar. Þess vegna þykir nú rétt, að sama regla gildi um orlof iðnnema og lagt er til að gildi í þeim almennu orlofslögum og um orlof opinberra starfsmanna, en ákvæði um orlof iðnnema hefur frá upphafi verið í lögum um iðnfræðslu. Þess vegna var nauðsynlegt að bera fram um þetta efni sérstakt frv.

Þetta frv. er því í samræmi við þau tvö önnur frv., sem fyrir liggja um breyt. á gildandi skipan um orlof, og leyfi ég mér að vænta þess, að hv. deild láti málið ganga fram ásamt hinum málunum tveimur. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. iðnn.