09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

58. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Emil Jónsson):

Mér virtist hv. 1. þm. Reykv. bera sig upp undan því, að til þessa fundar, sem haldinn var í iðnn., hefði verið boðað með mjög stuttum fyrirvara. Nú veit ég ekki, hvað hann óskar eftir, að fyrirvari um fundarboðun sé langur, en ég lét bera út fundarboð um þennan nefndarfund með sólarhrings fyrirvara, og ætla ég, að það sé undir flestum kringumstæðum talið nægjanlegt og fáar nefndir boðaðar til fundar með lengri fyrirvara. Hitt er svo annað mál, að til hans mun ekki hafa náðst á þessum sólarhring af þeim, sem fundarboðið bar út, en hvort það er sök þess, sem fundarboðið annaðist, eða hv. alþm. sjálfs, það skal ég ekkert um segja. En ég tel, að það sé varla hægt að gera kröfu til þess, að nefndarfundur sé boðaður með meira en sólarhrings fyrirvara, enda tæpast hægt, og ég ætla, að það sé í flestum tilfellum nóg.

Hvað því viðvíkur, að þetta mál hafi legið lengi hjá nefndinni, þá er því ekki heldur til að dreifa, því að ég ætla, að því hafi verið vísað til n. fyrir eitthvað rúmum tveim vikum eða um miðjan aprílmánuð, svo að það hefur ekki legið hjá nefndinni lengur en góðu hófi gegnir. Ég minnist þess á hinn bóginn, að hv. þm. hefur æði oft farið fram á það, að í þessari nefnd yrði haldinn fundur, að því er mér hefur virzt, án þess að tilefni væri til, því að hjá n. hefur ekki legið og liggur ekki nema eitt mál, sem hefur á vissan hátt hlotið afgreiðslu. Það er frv. nokkurra hv. þm. um að hækka framlag til iðnlánasjáðs. Við fjárlagaafgreiðsluna fékk þetta mál þá afgreiðslu, að iðnlánasjóður fékk þar mun hærri upphæð en farið var fram á í frv., og töldu margir, að þar með væri málið úr sögunni.

Á þessum síðasta fundi n., sem haldinn var, að ég ætla í fyrradag, bar ég það undir samflokksmann hv. þm., hvort hann vildi taka þetta mál, sem lengst hefur legið hjá nefndinni, að forminu til óafgreitt að vísu, en raunverulega afgreitt, — hvort hann vildi taka það til afgreiðslu nú, og kvað hann nei við því og kvað sig ekki viðbúinn því, að það mál væri tekið fyrir.

Þannig standamálin, að ég sé ekki, að upp á þessa nefnd hafi neitt staðið, hvorki um afgreiðslu þessa eina máls, sem hjá n. hefur legið, né heldur um fundarboðun eða fundarhald út af því máli, sem hér liggur fyrir.