24.01.1957
Efri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Forseti (BSt):

Út af því, sem hv. þm. N-Ísf. sagði, liggur það í því, sem ég sagði í upphafi fundarins, að ég vil óska þess yfirleitt, að mál séu afgreidd úr nefndum. En hvað snertir þá málaskrá, sem hann nefndi, þá er hún ekki örugg heimild um það, hvaða mál hafa verið afgreidd úr nefndum og hver ekki. Þessi málaskrá er haldin af konunum, sem eru á lestrarsalnum, og ég skal játa það, að ég hef ekki litið eftir því, að hvert mál væri þar fært inn.

Hvað snertir þá nefnd, sem ég er form. í, fjhn. d., vil ég upplýsa það, að 14 málum hefur samtals verið til hennar vísað. Af þeim hefur hún beinlínis afgreitt 10 og það ellefta sama sem, því að n. samþykkti á sinum tíma að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. út af því máli. Sú var afgreiðsla nefndarinnar. Hún bar nú að vísu aldrei þessa fsp. fram, en út af umr. um annað mál var fsp. borin fram til hæstv. menntmrh. út af þessu máli og henni svarað hér í hv. deild, svo að það eru aðeins þrjú mál af 14, sem nefndin hefur ekki afgreitt. Ég held nú, að tvö af þessum málum séu óbeinlínis afgreidd með öðrum málum, a.m.k. tvö þeirra, ef ekki öll.

Form. fjhn. þessarar hv. deildar heldur nefnilega sjálfur málaskrá yfir þau mál, sem til nefndarinnar er vísað, og það hélt ég satt að segja að nefndarformenn gerðu.

Hvað snertir frv. hv. þm. um breytingar á tollskrá, þá tel ég það óbeinlínis afgreitt. En þó mun form. fjhn. lofa því að taka það til nokkurrar afgreiðslu í nefndinni.

Gjarnan vildi ég, að frv. um breyt. á vegalögum yrði afgreitt, þar sem ég hef sjálfur sem þm. borið fram brtt. við það, og vil ég beina því til form. þeirrar hv. n. að afgreiða það. En aftur á móti lít ég svo á hvað snertir samvinnunefnd samgöngumála, að um það ætti hv. þm. að snúa sér til forseta sameinaðs þings, en ekki til deildarforseta, því að samvinnunefnd samgöngumála leggur till. sínar fyrir sameinað Alþingi, a.m.k. í því máli, sem hv. þm. sérstaklega nefndi.