04.03.1957
Neðri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Jón Pálmason:

Herra forseti, Ég ætla nú ekkert að fara að þræta um það við hæstv. forsrh., hvað á því fjármálasviði, sem við höfum rætt, sé að kenna fyrrverandi stjórn og hvað núverandi. En það er ekkert undarlegt, þó að þar sé sameiginleg sök hjá þeim tveim stjórnum, því að það er sami maðurinn í báðum, sem hefur haft fjármálaforustuna og á auðvitað mesta sök á því, hvernig farið hefur verið með þessi mál. Frá hinu sný ég ekki, að það, hvað gengur illa að fá fjármuni til nauðsynlegustu umbóta í landbúnaðinum, stafar af því blátt áfram, að fénu er eytt til annarra hluta, sem ekki eru eins nauðsynlegir. Hæstv. núverandi ríkisstj., þegar hún tók við, gaf mikil loforð um að gera endurbætur frá því, sem hefði verið, og ef ég man rétt, var eitt af hennar stærstu og ákveðnustu loforðum að greiða úr þeim vandræðum, sem væru fyrir frumbýlingum í landinu. Nokkrir menn að minnsta kosti í sumum stjórnarflokkunum skilja, að það er ekki nein uppgerð, þó að ég og aðrir séum að bera fram till, um það og höfum verið að því á undanförnum árum, að þarna þurfi mikilla endurbóta við. Hæstv. núverandi ríkisstj. hefur nú hækkað útgjöldin samkvæmt fjárlögum og útflutningssjóði um 400 millj. kr., frá því að áætlað var í fyrra, þegar síðast var gengið frá þeim málum. En þrátt fyrir það hefur ekki tekizt að ganga inn á það að taka upp einu sinni heimild til þessara 5 millj. kr. í veðdeild Búnaðarbankans, sem milliþn. fór fram á til að bæta úr brýnustu þörfum og neyð þeirra manna, sem eru að berjast við stofnun búskapar.