03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og hefur verið til athugunar, er tvímælalaust mjög stórt og mikilvægt skref í þá átt að bæta aðstöðu landbúnaðarins og gera honum enn betur kleift en hingað til að gegna því hlutverki, sem hann þarf að gegna í okkar þjóðarbúi. Eins og frsm. benti á í ræðu sinni, hefur þessi atvinnugrein aukið framleiðslu sína gífurlega á undanförnum árum, jafnframt því sem hún hefur þurft að horfa upp á stöðuga fólksfækkun, þannig að sambærileg dæmi munn varla vera til í nokkurri af meiri háttar atvinnugreinum þjóðarinnar.

Nú er það augljóst mál, að landbúnaðurinn verður að halda áfram að auka framleiðslu sína, eins og hann hefur gert undanfarin ár. Hann þarf að gera þetta til þess að vega upp á móti fólksfækkun, ef svo ógæfulega fer, að henni haldi eitthvað áfram. Fari svo ekki, þarf samt að auka framleiðsluna til að skapa grundvöll fyrir bætt lífskjör fólksins, sem vinnur við þessa atvinnugrein. Í þriðja og síðasta lagi má telja öruggt, að markaður fyrir landbúnaðarvörur innanlands fari stöðugt vaxandi með hinni öru fólksfjölgun. Við þetta geta bætzt miklir möguleikar til útflutnings á landbúnaðarafurðum, en það fer eftir ýmsum aðstæðum, gengi og markaði, verzlunarháttum erlendis og öðru, sem ég hirði ekki að tína hér til.

Þetta frv. gerir ráð fyrir verulega auknum stuðningi ríkisvaldsins, til þess að framleiðsluaukning geti haldið áfram í landbúnaðinum. Það er svo með flestar atvinnugreinar Íslendinga, að þær eru ákaflega frekar á fjármagn. Til þeirra þarf dýr og mikil tæki, og bæði af þeim ástæðum og ótalmörgum öðrum er ekkert eðlilegra en að hið opinbera haldi áfram að hjálpa til þeirra framkvæmda, sem þarf að gera í landbúnaðinum, til þess að hann geti blómgazt áfram.

Í þessu frv. eru mörg nýmæli, en eitt þeirra er frá mínum bæjardyrum séð langsamlega merkast. Það er fyrirætlunin að hefja skipulagða starfsemi til þess að hækka lágmarksstærð túna á byggðum býlum í landinu. Má sjá af þeim gögnum, sem hér liggja fyrir, bæði áliti mþn. og nefndarálitinu, ýmsar upplýsingar um það, hvernig túnastærð í landinu er háttað. Mþn. segir m.a. svo í grg. sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þeim rannsóknum, sem landnám ríkisins hefur gert um eyðijarðir, er ljóst, að meginhluta þeirra jarða, sem í eyði hafa farið, hefur skort fullnægjandi heyöflunaraðstöðu. Það er og vitað mál, að 10.3% af byggðum jörðum hafa bústærðir, er svara til tveggja til þriggja kúa þunga, skv. heimildum frá formanni Stéttarsambands bænda og að 33.9% af jörðunum hafa bústærðir frá fjórum til átta kúa þunga. Af þessu verður augljóst, að stærðarmunur á býlum og þar af leiðandi aðstöðumunur bænda í lífsbaráttunni er gífurlega mikill hér á landi, og það hlýtur að vera eitt af stærstu verkefnum ekki aðeins landbúnaðarins, heldur þjóðarinnar allrar að minnka þennan mun og gera það á þann hátt að bæta aðstöðu þeirra, sem hafa hana versta nú.“

Ég tel það því sérstakt fagnaðarefni, að farið hefur verið inn á þessa braut, og ef frv. þetta verður að lögum og unnið verður skv. því á næstu árum, þannig að settar verði 4–5 millj. á ári í þessar framkvæmdir, verður hér um að ræða eitthvert merkasta skref, sem stigið hefur verið á þessu sviði.

Ég ætla aðeins lítillega að geta um eitt eða tvö önnur atriði, sem mér finnst vera mjög athyglisverð nýmæli í sambandi við þetta frv. Vil ég þá nefna það atriði, sem fram kemur í 4. tölulið 14. gr., að garðyrkjubændur fá nú framlags- og lánaréttindi skv. þessum lögum. Þetta er sérstakt ánægjuefni, því að með hverju ári sem liður er jarðhitinn notaður meira og betur, og er þar tvímælalaust um að ræða mikla auðlind, sem Íslendingar geta hagnýtt sér í mun stærri stíl en gert hefur verið hingað til. Þetta má að sjálfsögðu gera á margan hátt, t.d. með því að setja upp stórfyrirtæki, og þarf sjálfsagt að gera það á sumum stöðum og hefur þegar verið gert. En það er sérstök ástæða til þess að styðja einnig einstaka garðyrkjubændur, sem hafa hvorki fjármagn né aðstöðu og e.t.v. ekki það mikinn jarðhita, að þeir geti stofnað mjög stór fyrirtæki, — að styðja þá samt og hjálpa þeim til þess að gera garðyrkjubúskapinn lífvænlegan og gera þeim kleift að skipa sinn sess innan þess starfssviðs, sem mun byggjast á heita vatninu í framtíðinni.

Næsti töluliður á eftir er einnig ákaflega athyglisverður og gefur í raun og veru nokkra hugmynd um þá þróun, sem er að verða í sveitum landsins. Í þessum lið er lagt til, að handverksmenn eða aðrir, sem ýmsum slíkum þjónustustörfum gegna í almenningsþágu í sveitunum — og ef brtt. verður samþykkt, þá garðyrkjubændur einnig — njóti margvíslegrar fjárhagslegrar aðstoðar samkvæmt þessum lögum. Ef þetta reynist í framkvæmd eins og vonir standa til, ætti að skapast aðstaða fyrir fjöldamarga menn til þess að skapa sér lífsviðurværi í sveitunum og sameina ýmist iðn sína, garðyrkju eða önnur þjónustustörf og nokkurn búskap.

Það mun vera víða svo, að erfitt er fyrir menn að lifa eingöngu á sínu handverki eða sínum þjónustustörfum í sveitum, en einmitt þessi aðstoð, sem hér ræðir um, gæti gert þeim kleift að setjast að til sveita, og mundu þá störf þeirra og þjónusta verða sveitunum til mikils stuðnings.

Ræktunarsjóðslögin munu vera felld inn í þennan nýja lagabálk í heilu lagi, og hefur ekkert verið snert við breytingum á þeim. Er það vafalaust hyggilegt og hvorki stund né staður til þess að ræða alvarlega um breytingar á þeim. Þó langar mig til þess að benda hér á eitt atriði, aðeins til umhugsunar, ég mun ekki fylgja því frekar eftir. Í þeirri grein, sem verður 62. gr. þessa lagabálks, er talað um hlutverk ræktunarsjóðs og þess getið, að sjóðurinn eigi enn fremur að lána til mannvirkja í þágu landbúnaðarins, svo sem mjólkurvinnslustöðva, kjötfrystihúsa, ullarverksmiðja, skinnaverksmiðja, þvottahúsa, viðgerðarstöðva landbúnaðarverkfæra o.s.frv. Nú mun það hafa orðið reyndin, að sjóðurinn hefur mjög litið getað lánað til þessara mannvirkja. Þó er það augljóst, að eftir því sem framleiðsla sveitanna eykst, verður framleiðslugeta þessara fyrirtækja að aukast að sama skapi, ef þau eiga að geta tekið við hinni auknu framleiðslu. Það hefur því þurft að gera mikil átök á þessu sviði og auka og byggja sérstaklega kjötfrystihús nú á síðustu árum, og raunar stendur einnig yfir mikil endurbygging á mjólkurvinnslustöðvum. Þeim, sem að þessu standa og hafa verið knúnir til að leggja í þessar framkvæmdir af brýnni nauðsyn, hefur reynzt ákaflega erfitt að fá til þess nokkur lán.

Mér virðist því, að það gæti komið til greina í framtíðinni, að ræktunarsjóðurinn starfaði í tveimur deildum, þannig að annarri deildinni væri beinlínis ætlað þetta hlutverk, sem ég nefndi, og að hinni yrði þá jafnan ætlað eitthvert brot af þeim tekjum, sem sjóðurinn hefur. Hvort sem einhver slík hugmynd gæti við nánari athugun reynzt framkvæmanleg eða ekki, þá verður á einhvern hátt að skapa þessum fyrirtækjum aðstöðu til endurbyggingar og stækkana og raunar skapa aðstöðu til nýbygginga á þessu sviði með þeim lánum, sem þetta starfssvið á skilið, alveg jafnt og flestar aðrar höfuðatvinnugreinar Íslendinga.