03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þar sem hv. þm. A-Húnv. virðist enn trúa þeirri furðufrétt, sem stjórnarandstaðan bar út fyrir nokkru, að það hefði verið skipuð einhver stórkostleg leyninefnd til að stjórna landbúnaðarmálum, verð ég að minna hann á það, sem fram hefur komið áður, að þetta er hreinn uppspuni. Mér er ánægja að því að segja honum, hver ég hygg að sé ástæðan til þess, að þessi orðrómur komst á kreik.

Þegar viðkomandi ráðherra hafði gengið frá þessu máli, elns og hann vildi leggja það fyrir Alþingi, gaf hann hinum þingflokkum stjórnarflokkanna tækifæri til þess að kynna sér málið. Félagar mínir í þingflokki Alþfl. báðu mig að athuga það og gefa þeim hugmynd um þær breytingar, sem gerðar væru. Þetta eru venjuleg vinnubrögð. Og einhvern veginn hef ég einhvers staðar sézt tala við einhvern mann með þetta plagg í höndunum. Síðan hafa sjálfstæðismenn búið þessa dásamlegu frétt til og breitt hana út um allar jarðir. Mér væri mikill heiður að vera í slíkri nefnd, en ég held, að sjálfstæðismenn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því, að svo sé, og út úr þessari athugun f.h. Alþfl. komu ekki neinar efnisbreytingar á þessu frv.