03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Hv. 1. þm. Rang. sat í þeirri ríkisstj., sem fyrir skömmu lét af völdum, og ég kalla það mikið átak, sem núverandi ríkisstj. hefur gert, að hún skuli hafa hækkað framlag ríkisins um helming til nýbýlamyndunar og auk þess tekið upp 11/2 millj. til þess að veita frumbýlingum í styrk, þegar þeir reisa húsnæði. Þetta var aldrei hægt í tíð hv. 1. þm. Rang., meðan hann var í ríkisstjórn. Þess vegna skil ég ekkert í honum að vera að halda ræðu eins og hann gerði hér áðan, úr því að hann bar ekki betri hug til bændastéttarinnar en þetta, á meðan hann var við æðstu völd og sat í ríkisstj. í nokkur ár og hafði aðstöðu til að koma þessum málum fram til betri vegar, ef hann hefði þá viljað. — Annars fannst mér ræða hv. 1. þm. Rang. bera bragð af því, að hann vantreysti æskulýð landsins, vegna þess að hann taldi þá annmarka á, að þau fjárframlög, sem nú eru stóraukin til frumbýlinganna, mundu ekki duga þeim. Þetta er hreinasta vantrú á æskumenn landsins. Ég fyrir mitt leyti ber sterka og mikla trú og von til æskulýðs landsins, að bann kunni að notfæra sér þá möguleika, sem í landinu eru. Og það veit ég, að fjöldinn af þeim gerir. Við getum borið saman aðstöðumun bændanna, sem eru að hefja búskap í dag, og hinna, sem hófu búskap fyrir 30, 40, 50 árum. Hvað höfðu þeir til að byrja með? Flestir byrjuðu með 2–3 kúgildi og sem leiguliðar. En hvernig er þeirra aðstaða nú? Hvað hefur þeim orðið ágengt í gegnum starf sitt í þjóðfélaginu? Flestir af þessum bændum eru velmegandi þegnar í þjóðfélaginu. Hvers vegna þá að vantreysta þeim, sem eru styrktir enn meira, til þess að þeir geti orðið betur velmegandi menn í landinu í framtíðinni en hinir? Þetta finnst mér sú mesta blekking, sem hv. þm. getur hér borið fram.

Við vitum það báðir, hv. 1. þm. Rang. og ég, að þeir æskumenn, sem ætla að hefja búskap nú, hafa ótal möguleika á að byrja sem stórbændur, ef þeir ætla sér það í upphafi. Til dæmis maður, sem ræður sig í vinnumennsku með 100 kinda fóður í 5–10 ár, getur byrjað með allt að 200 fjár og átt jarðarverð, ef hann fer vel með sína fjármuni. Við kvörtum oft undan því, bændur, að það sé verr búið að landbúnaðinum en öðrum atvinnugreinum í þessu landi, — og það má vel vera, að svo sé, það skal ég ekki ræða um nú, — en hitt vitum við, að innan annarra atvinnugreina er hægt að afla enn meira fjármagns en þessa. Þess vegna finnst mér það hreinasta vantrú á æskulýð landsins, á nýbýlamennina, ef þeir eiga ekki að geta komið sæmilega frá sínum búum, með þeim möguleikum, sem í landinu eru.

Ég hefði trúað mörgum öðrum frekar til að bera svona firru fram hér á Alþingi heldur en hv. 1. þm. Rang. Og það er staðreynd, að frv. eins og það er útbúið nú stendur ekkert í veginum fyrir því, að ríkisframlagið til bygginga verði hækkað, þegar löggjafinn vill. Og ég minnist þess ekki í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna nú, að sjálfstæðismenn bæru fram neinar hækkunartillögur um það, að það þyrfti að hækka framlagið til byggingarsjóðs. Hafi þeir álitið, að fjárhagurinn væri þannig, hefði þeim vitanlega borið að gera það, því að lögin stóðu ekkert í vegi fyrir, að slíkt yrði gert.

Þá vil ég líka á það benda, að núverandi ríkisstj. hefur gefið Ræktunarsjóði Íslands eftir 32 millj. kr. skuld, og vextir af þeirri upphæð nema það miklu, að framlag ríkisins á þann hátt er raunverulega hækkað til ræktunarsjóðs töluvert á aðra millj. kr. Sömuleiðis hefur byggingarsjóði Búnaðarbankans verið gefið eftir á fimmtu millj. kr., og vextir af þeirri upphæð nema um það bil 1/4 millj. kr., og það er framlag út af fyrir sig. Ég efast ekki um, eins og af stað hefur verið farið hjá hæstv. ríkisstj. í þessum málum, að henni muni vel farnast til bændastéttarinnar og ekki á nokkurn hátt síður en þeirri stjórn, sem hæstv. 1. þm. Rang. sat í.