07.05.1957
Efri deild: 95. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og þessari hv. þd. er kunnugt, kemur þetta mál frá Nd., og hafði ég þar fyrir málinu allýtarlega framsögu, auk þess sem málinu fylgir ýtarleg grg. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að endurtaka í heild þá framsöguræðu, sem ég flutti þar fyrir málinu, og læt nægja að vísa til hennar og grg., en eins og þetta frv. ber með sér, má telja, að meginatriði þess séu þau að stækka litlu býlin, sem nú hafa dregizt aftur úr í íslenzkum búskap.

Það hefur lengi verið skoðun ýmissa landbúnaðarmanna, að eitt hið tilfinnanlegasta í íslenzkum búskap sé það, hvað býlin eru orðin misjöfn. Þetta hefur verið og er á allra vitorði, að raunverulega skiptast íslenzkir bændur vegna þessa í tvær stéttir, efnastétt og stétt, sem hefur naumast þær tekjur, sem geta talizt viðunanlegar fyrir afkomu þeirra.

Þetta kemur þó greinilegast fram í skýrslum, sem fyrrverandi búnaðarmálastjóri, hv. 1. þm. N-M., hefur samið og hafa verið að birtast nú í einu af blöðum landsins. Það kemur þarna ákaflega greinilega í ljós. Það er alveg bersýnilegt, að þessu getur ekki haldið áfram með þeim breytingum, sem íslenzkur landbúnaður hefur tekið til vélvæðingar, það er raunverulega útilokað, og það er furðulegt, að menn skuli ekki hafa gert sér það ljóst fyrr. Það er útilokað, að hægt sé að stunda búskap á Íslandi með því að nota þær vélar, sem menn gera nú orðið kröfu til, nema með því móti, að litlu búunum verði breytt og þau stækkuð. Þau geta ekki borið þann kostnað, sem leiðir af vélvæðingunni. Það verður hins vegar að teljast alveg óviðunandi, að stór hluti af landbúnaðinum búi við ekki aðeins allt aðra tekjumöguleika en verulegur hluti, sem lengra hefur komizt, og í annan stað, að notaðar séu tvær búskaparaðferðir við framleiðsluna.

Tilgangur þessa frv. er fyrst og fremst að mínu áliti sá að koma í veg fyrir það, að við stofnun nýbýla sé stofnað til búskapar, sem er það litill, sem gefur það litlar tekjur, að teljast verði óviðunandi fyrir bændastéttina og aðrar stéttir, sem við slíkt ættu að búa. Það má í því sambandi minnast þess, að sum nýbýlin hafa komizt það skammt með þeim styrkjum, sem veittir hafa verið yfirleitt, að tekjurnar nema miklu minna en nokkrar aðrar stéttir gera sig ánægðar með. Og viðkomandi litlu búunum er það að segja, að í ýmsum hreppum þessa lands er þannig ástatt vegna þess, hve búin eru lítil, að hæstu tekjur bónda í sumum hreppum, þar sem ég þekki til, nema ekki meiru en 26 þús. kr.

Það er til þess að jafna metin, sem þetta frv. er borið fram, og er mikið verk, sem liggur hér fyrir þeim, sem það eiga að vinna. Með þeim fjármunum, sem hér eru fram lagðir, er ætlazt til þess að ýta undir það, flýta fyrir því, að þessi þróun geti átt sér stað, sú þróun, að býlín verði jafnari en þau hafa verið til þessa.

Auk þess, sem ég hef nú nefnt og ég tel aðalatriðin, eru ýmis fleiri nýmæli í þessu frv., sem ég sé ekki ástæðu til að rekja á þessu stígi. Málið hefur verið athugað allgaumgæfilega í Nd., og ég geri ráð fyrir, að málið geti fengið hér fljóta afgreiðslu. Eins og hv. þd. er kunnugt, er ætlazt til þess, að það fái afgreiðslu nú á þessu þingi, og er því æskilegt að flýta afgreiðslu þess. Ég geri það að tillögu minni, að málinu verði eftir þessa umræðu vísað til landbn.