24.01.1957
Neðri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Þau mál, sem eru hér á dagskrá, eru bæði með þeim hætti, að það þarf afbrigði til umr. þeirra.

Fyrra frv. er frv. til laga um sölu og útflutning sjávarafurða o.fl. Þessu frv. er nú fyrst verið að útbýta, og a.m.k. sjálfstæðismenn hafa ekki átt þess kost að lesa frv., og ég tei mjög óviðeigandi og gegn réttum þingsköpum að taka slík mál til meðferðar, án þess að þm. hafi gefizt kostur á svo mikið sem lesa frv., hvað þá heldur meira. Mér skilst af þessu frv., að það sé um eitt af helztu deilu- og vandamálum íslenzku þjóðarinnar. Mér er ómögulegt að átta mig á, hvort frv. er til góðs eða ills, hve miklar breytingar eru í því fólgnar, en mér virðist þó alveg augljóst, að málið geti ekki verið þess eðlis, að það sé nokkur frambærileg ástæða til þess að flýta meðferð þess á þann veg, að ekki sé leyfilegt fyrir þm. að athuga það eftir réttum þingsköpum. Ég vil því fara þess á leit, að málið verði ekki tekið á dagskrá nú, og mun ekki treysta mér til þess að greiða atkv. með afbrigðum, heldur mun sjálfur greiða atkv. á móti þeim, ef reynt verður að þvinga málið fram.

Ég vil geta þess, að ég hef ekki getað borið mig saman við þingflokk Sjálfstfl. um þetta mál, vegna þess að enginn okkar hafði séð málið, fyrr en á þennan fund kom, eða vissi um það, fyrr en við fengum dagskrá, sumir nú rétt þegar við vorum að fara niður á þingið, að málið ætti að vera hér til umr. Ég vil minna á það, að þegar jólagjöfin svokallaða var til meðferðar fyrir jólahátíðina, var leitað samkomulags við stjórnarandstöðuna um veitingu afbrigða, og við höfðum ekki á móti þeim út af fyrir sig, þó að við værum málinn andsnúnir, vegna þess að við viðurkenndum, að það var viss þörf á því að afgreiða það mál skjótlega, hver sem lok málsins yrðu. Slíkt liggur ekki fyrir um þetta mál. Það er ekkert í því, sem bindur það, að það þurfi t.d. að afgreiða í þessari viku eða nú á nokkrum dögum, heldur er hér um að ræða efni, sem fullur tími er til að íhuga og síðan taki hver afstöðu til eftir sinni sannfæringu.

Varðandi seinna málið, sem hæstv. forseti ætlaði einnig að leita afbrigða um samtímis og ég vil því minnast á, þá stendur svo á, að ætlunin var að knýja það fram fyrir jól, og var auðvitað þingstyrkur til þess. Fyrir mín tilmæli sýndi hæstv. forseti og hæstv. félmrh. þá tilhliðrunarsemi að láta málið bíða.

Ég vil skýra frá því, að sú n., sem um málíð fjallar, er ekki enn fullskipuð af hálfu sjálfstæðismanna, þar sem annar nefndarmaður, Kjartan J. Jóhannsson, hefur ekki getað komið til þings vegna hins illa veðurfars, sem undanfarna daga hefur verið og öllum er kunnugt um hvílíka óvissu hefur skapað um samgöngur. Nefndin er að vísu prýðilega skipuð af okkar hálfu með þeim fulltrúa, sem þar er, en hann er einn og málið er þess eðlis, að Kjartan Jóhannsson hefur öðrum fremur þekkingu á því, þar sem hann er í þeirri stofnun, sem hér á að breyta um yfirstjórn á. Ég tel því ekki til mikils mælzt, þó að meðferð þess máls — 2 umr. — yrði frestað, þangað til Kjartan J. Jóhannsson væri kominn, — það hlýtur að verða nú strax og úr samgöngum greiðist, — þannig að hann geti tekið þátt í þinglegri meðferð málsins. Mér dettur ekki í hug að tefja málið á nokkurn óeðlilegan veg. En ég held, að það greiði ekki fyrir vinnubrögðum að ætla að taka upp fljótræðislegri afgreiðslu þingmála en þingsköp segja til um í því tilfelli, þar sem enginn málefnisleg nauðsyn er til þess, vegna þess að vitanlega hefur stjórnarandstaðan mörg ráð til að tefja fyrir málum, ef hún vill leggja sig fram um það. En við höfum ekki sýnt neinn vilja til þess á þessu þingi.