04.03.1957
Efri deild: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

128. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fjmrn. berast árlega mörg erindi varðandi tollskrána. Það er vandlega farið yfir þessi erindi og athugað, hvort ástæða sé til að verða við þeim óskum, sem þar koma fram. Undanfarið hefur það verið svo, að árlega hefur þótt ástæða til að sinna einhverju af þessum erindum, og hefur því tollskrárlögunum verið breytt svo að segja á hverju ári nokkuð. Hefur verið venja að safna þessum erindum saman og taka til greina í einu lagi það, sem ástæða þykir til.

Nú hefur verið safnað hér í þetta frv. nokkrum atriðum, sem ráðuneytið gerir till. um að breyta. Ég ætla ekki að rekja einstök atriði frv., þar sem það er gert nokkuð ýtarlega í athugasemdum við það, auk þess sem hv. fjhn. að sjálfsögðu getur fengið frekari upplýsingar hjá ráðuneytinu, ef hún óskar eftir, um einstaka liði þess. En ég vildi aðeins með örfáum orðum skýra, hvernig á frv. stendur, og leggja til, að því verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari 1. umr.