13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

128. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur tekið örlítilli breytingu í hv. Nd., sem er þó nóg til þess, að það kemur hingað aftur til umræðu. Breytingin er sú, að hv. Nd. hefur örlítið lækkað verðtoll á svampgúmmíi, eða úr 30% í 20%. Þessi vara var hækkuð úr 8% í 30% í fyrstu, og átti það að verka sem verndartollur fyrir fyrirtæki, sem býr til þessa vöru hér landi, En svo komu ýmsar kvartanir út af þessu frá aðilum, sem reka iðnað, er notar þessar vörur, m.a. frá skógerðum, og þá varð það úr, að hér í hv. deild var lækkað sérstaklega það hrágúmmí, sem átti að vera í skósóla, ofan í það, sem áður var. En svo í hv. Nd. munu hafa komið fleiri kvartanir svipaðs eðlis og frá skógerðarmönnunum, og þá tók hv. fjhn. Nd. það ráð að fara hér mitt á milli, láta nokkurn verndartoll haldast, en lækka hann vegna þeirra, sem þurfa að kaupa þessa vöru til annars iðnrekstrar.

Þessi breyting hefur ekki verið borin undir hv. fjhn. hér, en ég tel, að hér sé um svo litla breytingu að ræða, að ég skil ekki í því, að fjhn. hafi neitt við hana að athuga, og tel víst, að hún muni fallast á, að frv. gangi óbreytt hér í gegnum eina umr. að því er þetta atriði snertir.