17.05.1957
Efri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

138. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 2. umr., er um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, l. frá 16. maí 1955. Þetta er stjórnarfrv. og er komið frá Nd., þar sem það hefur hlotið einróma samþykki með örlitlum breytingum, sem sjútvn. þeirrar deildar lagði til að gerðar yrðu og voru einnig samþykktar samhljóða.

Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft frv. til meðferðar, og lögðu viðstaddir nm. einróma til, að það yrði samþykkt eins og það nú liggur fyrir.

Frv. felur í sér þær breytingar á gildandi lögum um Fiskveiðasjóð Íslands, að hámarksstærð skipa, sem sitja fyrir lánum úr sjóðnum, verði færð úr 200 rúmlestum í 300 rúmlestir, og í öðru lagi, að hámark lánsupphæðar að krónutölu, sem áður var ákveðið 1250 þús. til fiskiskipa og 600 þús. kr. til fiskvinnslustöðva, verði afnumið, en áfram gildi þau ákvæði, að lána megi allt að 3/4 af verði skipa, sem smíðuð eru innanlands, allt að 2/3 af verði skipa, sem smíðuð eru erlendis, og allt að 3/5 af verði fiskvinnslustöðva.

Þetta eru þær einu breytingar, sem frv. í sinni upphaflegu mynd gerði ráð fyrir á lögunum um fiskveiðasjóð.

Nd. hefur auk þessara breytinga lagt til, að ákvæðin í 5. gr. laganna um, hvernig lán skuli greidd út úr sjóðnum, falli niður, en ákvæði um þetta verði sett í reglugerð. Önnur breyting, sem gerð var á frv. í Nd., er aðeins lítilfjörleg orðalagsbreyting, sem ekki skiptir neinu máli.

Eins og ég áður sagði, leggur sjútvn. einróma til, að frv. verði samþykkt eins og það nú liggur fyrir.