04.04.1957
Efri deild: 82. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

147. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að tryggja fiskveiðasjóði nokkuð aukið starfsfé frá því, sem hann hefur haft. Aðalefni frv. er það, að gert er ráð fyrir, að útflutningsgjald af sjávarafurðum öllum verði hið sama, en eins og núgildandi reglur eru, er útflutningsgjaldið allmismunandi eftir því, um hvaða sjávarafurðir er að ræða.

Af flestum útfluttum sjávarafurðum ber að greiða 21/4 af hundraði í útflutningsgjald. Þannig er t.d. um hraðfrystan fisk og hertan fisk og ýmsar fleiri útflutningsafurðir sjávarútvegsins. En nokkrar eru þær greinar, sem ekki bera svona hátt gjald. Þar er t.d. um að ræða saltfisk, en á honum er útflutningsgjald, sem nemur aðeins 3/4 af hundraði, og á síldarafurðum er líka nokkru lægra útflutningsgjald. Með því að láta allar útfluttar sjávarafurðir bera hið sama gjald er hægt að afla fiskveiðasjóði nokkurra aukinna tekna, og ýtarleg grein er fyrir þessu gerð í frv., og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það hér nú við 1. umr. málsins. Það má þó ætla, að tekjuauki á árí hverju til fiskveiðasjóðs gæti orðið af þessu frv., sem nemur fullum 4 millj. kr., en eftir sem áður er gert ráð fyrir því, að Landssamband ísl. útvegsmanna, fiskimálasjóður og rannsóknarstofa í þágu sjávarútvegsins, sem er í byggingu, njóti svipaðra tekna af útflutningsgjaldinu og þessir aðilar hafa notið fram til þessa. Þó er nú fremur um lækkun hjá þeim að ræða en hækkun.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hvaða ástæður eru til þess, að þetta frv. er fram komið, en það er öllum hv. alþm. vel ljóst, að fiskveiðasjóður þarf á stórkostlega auknum tekjum að halda, ef hann á að geta staðið við þær skuldbindingar, sem honum er ætlað að standa við og hann sumpart hefur tekið á sig.

Samþykkt hefur verið að kaupa allmikið af nýjum fiskiskipum, sem sumpart eru í smíðum og búið er að heita lánum til kaupa á, en það er fiskveiðasjóði algerlega um megn að standa við slíkar skuldbindingar, ef honum verður ekki séð fyrir auknum tekjum.

Frv. þetta hefur verið undirbúið í samráði við þá aðila, sem hér eiga mestan hlut að máli, fulltrúa útgerðarmanna og þeirra stofnana, sem tekjur hafa einnig af þessu úflutningsgjaldi. Vil ég því vænta, að það geti orðið samkomulag við þá alla í reynd um að haga útflutningsgjaldinu á þá lund, sem hér er lagt til.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr.