22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

147. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um það, að breytt verði útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem nú er tekið með nokkuð mismunandi hætti eftir því, um hvaða útflutningsvöru er að ræða. Gjaldið verði jafnað og komi á allar útflutningsvörur sjávarútvegsins að jöfnu, og tekjuskiptingunni verði breytt nokkuð, þó þannig, að fjórir þeir aðilar, sem nú njóta aðallega tekna af þessu gjaldi, haldi tekjum sínum áfram með nokkuð breyttri skiptingu. Í lögum er raunar ákveðið, að lítill hluti af útflutningsgjaldi renni í ríkissjóð, en það mun á síðustu árum hafa verið einnig látið renna til þeirra aðila, sem gjöld þessi fá að öðru leyti, svo að í framkvæmd mun þar ekki vera um stóra breytingu að ræða.

Hið almenna gjald, útflutningsgjald af sjávarafurðum nú, er 21/4%, með þeirri undantekningu þó, að nokkru minna gjald er af saltsíld, þ.e.a.s. 13/4%, og enn minna af saltfiski eða 3/4%. Af síldarmjöli er tekið útflutningsgjald, sem svarar einum eyri á kg.

Ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður að l., þá verður gjald af öllum þessum útflutningsvörum 21/4%, og það er gert ráð fyrir því, að þessi breyting komi Fiskveiðasjóði Íslands að haldi, þar sem hann á að fá alla tekjuaukninguna, sem skapast við samþykkt þessa frv., og raunar ögninni betur. Það er líklegt, að sá sjóður, sem allir viðurkenna nú að þarf mjög á auknum tekjum að halda, fái með samþykkt þessa frv. auknar tekjur sem svarar 41/2 millj. kr. árlega.

Sjútvn. hefur rætt þetta mál og athugað og er sammála um, að hér sé um þess háttar mál að ræða, að vert sé, að það fái framgang, og leggur samhljóða til, að frv. verði samþ. Eins og um getur í nál. á þskj. 580, áskilur einn nm., Sigurður Ágústsson, sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt. við frv., en þegar endanleg afgreiðsla málsins var í sjútvn., var Pétur Ottesen, hv. þm. Borgf., ekki viðstaddur á nefndarfundi. N. mælir með því, að frv. verði samþ.