22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

147. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Eins og frsm. þessa frv. hefur tekið fram og um er getið í nál., var ég ekki viðstaddur við endanlega afgreiðslu þessa máls, sökum þess að ég var þá við jarðarför uppi í Borgarfirði.

Það er mjög rétt, að fiskveiðasjóður hefur þess mikla þörf, að tekjur hans verði auknar. Hann hefur stórfelldu hlutverki að gegna fyrir sjávarútveginn, þar sem hann er sú aðalstofnun, sem útvegsmenn geta snúið sér til í sambandi við öflun atvinnutækja, bæði skipakaupa, byggingu hraðfrystihúsa og annarra framkvæmda í sambandi við fiskvinnsluna.

Fiskveiðasjóði er því ærin fjárþörf. Það mun vera fyrir tveimur árum eða svo, sem framlag ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs var nokkuð hækkað, en það er nú 2 millj. kr. á ári.

Á öndverðu þessu þingi var borið fram frv. um hækkun á framlagi ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs. Að flutningi þessa frv. stóðu 5. þm. Reykv. (JóhH), þm. Snæf. (SÁ), 2. þm. Reykv. (BÓ), þm. Ísaf. (KJJ) og 2. þm. Eyf. (MJ). Í því frv. lögðu þeir til, að framlag ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs yrði hækkað upp í 12 millj. kr. á ári. Þessu frv. var vísað til sjútvn. og hefur legið þar síðan og ekki fengizt á því jákvæð afgreiðsla. Nú er hér með þessu frv. gert ráð fyrir að auka tekjur fiskveiðasjóðs með nýju álagi á útfluttar sjávarafurðir, og hefur hv. frsm. sjútvn. gefið nokkra skýringu á því, í hverju þessi hækkun er fólgin. Hún kemur aðallega niður á saltfiski, sem að verulegu leyti hefur verið nú um skeið undanþeginn slíkum tolli, einnig á saltsild og svo á síldarmjöll, þannig að útflutningsgjaldið fellur nú jafnt á allar sjávarafurðir, og viðbótin, sem gert er ráð fyrir að verði milli 3 og 4 millj., rennur til fiskveiðasjóðs. Hv. þm. var með dálítið hærri tölur, og má vera, að það sé líka rétt, því að þetta er náttúrlega ekki nema áætlunartölur, eins og sakir standa, því að það er vitanlega útflutningsmagnið, sem gerir út um það. En vissulega er hér um að ræða nokkra tekjuaukningu eða von um tekjuaukningu fyrir fiskveiðasjóð, sem mikil þörf er á. En hins vegar ber þess að geta í sambandi við þetta mál, að eins og sakir standa nú, sé ég ekki verulegan mun á því, hvort þetta fé til fiskveiðasjóðs er veitt beint úr ríkissjóði ellegar gert er ráð fyrir því, að það verði greitt með þeim hætti, sem hér er lagt til. Eins og allir vita, verður að styðja og bera uppi framleiðsluna að verulegu leyti með beinum styrkjum og framlagi úr ríkissjóði, svo að það er alveg sýnt, að að óbreyttum aðstæðum eru útvegsmenn engan veginn þess megnugir að taka að sér aukin útflutningsgjöld eða aukna skatta í sambandi við þennan atvinnurekstur. Afleiðingin af þessu að óbreyttum aðstæðum yrði að sjálfsögðu sú, að framlagið eða stuðningurinn, sem kemur frá því opinbera, yrði að hækka í samsvörun við þetta. Náttúrlega geta aðstæðurnar breytzt, og það er að vona, að svo geti farið. En miðað við ástandið nú, þegar verið er að afgreiða þetta mál af Alþingi, er í sjálfu sér ekki á því neinn munur, hvort þetta er veitt sem beint framlag úr ríkissjóði ellegar útveginum er gert að greiða þennan skatt.

Ég vildi aðeins benda á þetta í sambandi við það, að frv. um framlag úr ríkissjóði til fiskveiðasjóðs hefur legið fyrir n. og ekki hlotið þar afgreiðslu, en fær það svo aftur í þessu formi, að á þessu er ekki, eins og sakir standa, neinn munur.

Við þá skiptingu, sem nú er lagt til að verði á útflutningsgjaldinu á milli þeirra aðila, sem þess eiga að njóta, sem er að langsamlega mestu leyti fiskveiðasjóður, er gert ráð fyrir því, að öll aukningin falli til fiskveiðasjóðs, og er það sjálfsagt, miðað við þörfina, mjög réttmætt. En hlutur hinna lækkar líka nokkuð frá því, sem verið hefur, þ.e. til rannsóknarstofnunar útvegsins, Landssambands ísl. útvegsmanna og fiskimálasjóðs. Hlutur þeirra lækkar nokkuð frá því, sem verið hefur, en hins vegar kemur þar upp á móti fyrir þessa aðila, að þetta framlag þeim til handa hefur verið tímabundið, en nú hefur sú tímabinding verið felld niður. Nú njóta þeir því þessa framlags, sem hér er ákveðið, á meðan ekki kemur til ný breyting á löggjöfinni, og felur það að sjálfsögðu í sér nokkurt öryggi til handa þessum aðilum, sem þarna njóta góðs af þessu útflutningsgjaldi.

Rannsóknarstofnun sjávarútvegsins er að reisa mikið hús fyrir sína starfsemi, og á því er mjög mikil þörf. Fiskifélag Íslands hefur með höndum framkvæmdir á þessu, eins og kunnugt er, en í þeirri stofnun, rannsóknarstofnun sjávarútvegsins, er unnið að mjög mikilsverðum þætti í útvegsmálum okkar í sambandi við sölu afurðanna á erlendan markað. Þar eru gerðar rannsóknir, sem salan á sumum tegundum varanna í verulegum atriðum byggist á og krafizt er að í fullu lagi sé af hinum erlendu kaupendum. Fiskimálasjóður vinnur einnig að mikilsverðu hlutverki hér hjá okkur, og Landssamband ísi. útvegsmanna, heildarsamtök útvegsmanna í landinu, njóta hér líka nokkurs góðs af, og er það að sjálfsögðu vel farið.

Ég vildi aðeins, um leið og mál þetta verður nú afgr. hér við 2. umr., gera þess grein frá mínu sjónarmiði, að í sjálfu sér er hér ákaflega lítill munur á, hvort málið er afgreitt í þessu formi, eins og sakir standa nú, eða þessi stuðningur hefði verið veittur með beinu framlagi frá ríkissjóði.