22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

147. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Ottesen:

Ég held, að það hafi byggzt á því, að hv. frsm. hafi ekki heyrt það, sem ég sagði, að misskilningur hafi komið fram í þessu hjá mér. Ég sagði, að málið hefði ekki fengið neina jákvæða afgreiðslu í n. Þetta var það, sem ég sagði um afgreiðslu málsins í n., en hún var neikvæð til lausnar á málinu, eins og það lá þá fyrir. Um hitt atriðið er það rétt, að eins og sakir standa nú og hv. frsm. hefur tekið undir, þá náttúrlega skiptir það ekki miklu máli, hvort tekjurnar eru auknar með nýjum tolli á sjávarútveginn eða féð er greitt beint úr ríkissjóði. En þetta gildir aðeins meðan svo stendur, að hlutfallið í landinu er þannig milli afurðaverðs og kaupgjalds, að ekki er hægt að reka atvinnuvegina öðruvísi en með beinu fjárframlagi úr ríkissjóði. Þegar hlutfallið er þannig orðið, að atvinnuvegirnir eru reknir án nokkurra slíkra styrkja, horfir málið allt öðruvísi við.