12.04.1957
Efri deild: 88. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja þessa umr. til mikilla muna, þótt ég hafi kvatt mér hljóðs, en ýmis atriði þessa máls og einkum þau, sem telja má nýmæli, eru þannig, að ég vil strax við 1. umr. þess láta mína afstöðu koma fram. Þar að auki lét hæstv. félmrh. í sinni ýtarlegu framsöguræðu nokkur ámælisorð falla á ská til fyrirrennara sinna, sem ég tel ekki fullkomlega réttmæt. Vitanlega hefur núverandi ríkisstj. byggt á þeirri löggjöf, sem fyrirrennararnir komu á, og orðið reynslu þeirra ríkari. Auðvitað ætla ég ekki að hefja deilur við hæstv. félmrh., því að við erum of sammála um þetta mál til þess, að ég geri það, en ég ætla, um leið og ég minnist á efni frv., að gefnu tilefni að rifja upp að ofur litlu leyti sögu liðins tíma í dálítið öðru ljósi en hann gerði.

Ég er dreifbýlismaður, eins og kallað er, það játa ég hiklaust. Mér hrýs hugur við þeirri þróun, sem átt hefur sér stað með búferlaflutningi fólks utan af landi, úr sveitunum, kauptúnunum og kaupstöðunum þar, í þéttbýlið á Suðurnesjum og þá fyrst og fremst til höfuðstaðarins. Ég tel, að á móti þeirri þróun þurfi að vinna að þjóðfélagsaðgerðum, eftir því sem við verður komið, án þess að vanrækja megi þó skyldur ríkisins við höfuðborg sína og umhverfi hennar, enda er það ein af skyldunum við höfuðborgina að firra hana ofvexti þeim, sem á hana sækir um þessar mundir og hefur á hana sótt síðustu ár.

Um þetta þarf ekki að fjölyrða. Yfirleitt greinir menn nú orðið ekki á um það, að þessa svonefnda jafnvægis í byggð landsins verði að gæta í þjóðfélagsaðgerðum. En um hitt getur vitanlega oft og einatt orðið ágreiningur, hvort þessi eða hin aðgerð hins opinbera sé heppileg fyrir jafnvægið, og svo getur keppni og heimastöðvametnaður hlaupið með menn í gönur stundum í átökum við málefni og það jafnvel góða menn.

Ég á von á því, að í fljótu bragði kunni einhverjum að finnast, að frv. þetta muni, ef að lögum verður, verða vatn á myllu höfuðstaðarins meira en góðu hófi gegnir. Það má auðvitað ekki verða, og til þess er að sjálfsögðu alls ekki ætlazt. Reykjavík á að fá sanngjarna hlutdeild í lánaveitingum þeim, er frv. gerir ráð fyrir, en aðrir staðir engu síður sinn hlut vel mældan eftir sínum þörfum. Húsnæðismálastjórninni verður skylt að annast þetta, og því verður að treysta, að hún geri það, enda mun verða eftir því lítið og aðhald veitt, ef með þarf. Það munu fulltrúar dreifbýlisins gera og eiga líka að gera.

Sómasamleg húsakynni eru mönnum nauðsynleg, hvar sem þeir eiga heima á landinu. Framsfl., sem fyrst og fremst hefur farið með umboð sveitafólksins á Alþ., beitti sér snemma fyrir stofnun byggingarsjóðs sveitanna og fékk hann lögleiddan 1928 eftir langa og óhætt að segja mjög harða baráttu. Fyrir hjálp þeirrar lánastofnunar hafa nú á miklum meiri hluta hinna fornu býla í landinu verið byggðir bæir úr varanlegu efni og fjöldi nýbýla risið víðs vegar um landið.

Hins vegar höfðu þeir, er í kauptúnum og kaupstöðum bjuggu, til skamms tíma enga sérstaka lánsstofnun að snúa sér til, er teldi skylt að veita þeim lán til að koma upp íbúðum yfir sig og sína, eins og byggingarsjóður Búnaðarbankans taldi sér skylt að gera fyrir bændur. Bankar gerðu einum og einum manni einhverjar úrlausnir í þessum efnum á þeim stöðum, sem bankarnir voru, varla annars staðar, sparisjóðir sömuleiðis stundum, en gátu vitanlega alls ekki fullnægt þörfum. Auðvitað urðu venjulega þeir menn, sem lítils máttu sín, alveg út undan, þegar um slíka lánaaðstoð var að ræða.

Lög um verkamannabústaði, sem sett voru upphaflega nálægt 1930, og lög um byggingarsamvinnufélög, sett um líkt leyti, hvort tveggja fyrir aðstoð og atbeina Framsfl., greiddu að vísu götu allmargra; sömuleiðis lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. En þeir, sem þessa nutu, voru ekki nema brot móts við þann mikla fjölda, sem var í stökustu vandræðum. Af þessu ástandi leiddi svo húsaleiguokrið, sem oft hefur lýst verið. Hefur það haft í för með sér alvarlegt þjóðfélagsböl í efnahagsmálum, gert hinn ríka ríkari og hinn fátæka fátækari á andstyggilegan hátt og spillt viðskiptaheiðarleika.

Sveitafólkið var í þessum efnum miklu betur sett vegna byggingarsjóðs Búnaðarbankans en almenningur í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum. Þannig stóðu málin, þegar stjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hófst handa með því að koma á fót lánadeild smáíbúða 1952. Það kom í hlut Framsfl. að hafa forgöngu í málinu, þar sem félmrh. var framsóknarmaður. Smáíbúðalánadeildin var ágæt byrjun, heilbrigður vísir að meiri framkvæmdum. Hún lánaði út á 2. og 3. veðrétt, að vísu lág lán, en þau voru mörgum manni einmitt það, sem honum hrökk til að komast upp á örðugasta hjallann, örvuðu sjálfsbjargarmáttinn, svo að dugði. Og lánadeildin hafði heilbrigð áhrif í þá átt, að menn byggðu ekki stærri hús en þeir gátu komizt af með. Aðrir áttu ekki erindi við lánadeildina en þeir, sem stilltu íbúðabyggingum sínum í hóf. Ég er þessu allvel kunnugur, af því að ég hafði milligöngu fyrir æðimarga menn í mínu kjördæmi við lánsútvegun hjá deildinni.

Deildin hóf lánaveitingar 25. maí 1952 og starfaði að útlánum fram á árið 1955. Alls munu lán frá henni hafa numið rúmlega 40 millj. kr. og lántakendur verið um 1600.

Næsta skrefið, sem sömu stjórnarflokkar stigu, þ.e.a.s. Framsfl. og Sjálfstfl., var setning laganna um húsnæðismálastjórn o.fl. 1955. Enn var það Steingrímur Steinþórsson, sem þau mál heyrðu undir og beitti sér fyrir sem fyrsti maður, að aukin var lánaaðstoðin frá því, sem áður hafði verið. Lánin voru hækkuð frá því, sem smáíbúðalánadeildin veitti, í framkvæmdinni um rúmlega helming. Fjármagns var leitað til þess að færa út starfsemina, svo að fleiri gætu komið til greina. Áætlað var í grg., sem fylgdi frv. um húsnæðismálastjórn, að tryggja og kalla fram eftir ýmsum leiðum lánsfé til íbúðarhúsabygginga í þéttbýli og dreifbýli á árunum 1955 og 1956, er næmi rúmlega 200 millj. kr., eða fullum 100 millj. hvort árið. Lánveitingar úr veðdeild Landsbankans, sem starfar samkvæmt umræddum lögum, hófst 1. nóv. 1955. Til 1. apríl þ.á., 1957, eða á 17 mánuðum, hafði veðdeildin lánað 81 millj. til samtals 1449 lántakenda.

Þær leiðir, sem farnar voru til þess að afla veðdeildinni fjár, skiluðu einnig 1955 og 1956 24 millj. samtals í byggingarsjóð Búnaðarbankans sem lánsfé handa honum til að lána.

En áætlunin, sem gerð var í sambandi við lántökuna, stóðst ekki fyllilega á þann hátt, sem til var ætlazt, eins og hæstv. félmrh. gat um áðan. Veðiánakerfið fékk ekki til ráðstafana það fé allt, sem vonazt var til. Hins vegar stóðst hún að því leyti, að til íbúðarhúsa var í heildinni á árunum 1955 og 1956 lánað meira en 200 millj., eða um 230 millj., vegna þess að bankar, sparisjóðir og lífeyrissjóðir lánuðu beint, að vísu ekki eftir reglum veðdeildarinnar eða kerfisins, en starfsemi kerfisins og sú löggjöf ýtti undir þessa lánastarfsemi, svo að telja má, að hún hafi aukizt fyrir þær aðgerðir, sem þar fóru fram.

Hið almenna veðlánakerfi hefur áreiðanlega gert mikið gagn á tveim undanförnum árum. Hins vegar hefur það ekki náð tilgangi sínum nema að mjög takmörkuðu leyti. Það hefur ekki náð þeim tilgangi að fullnægja öllum. En ekki er hægt að segja með sanni, að kerfið hafi ekki komið að miklum notum, þrátt fyrir það. Áhugi fólks fyrir að byggja sér íbúðir var langt á undan starfsemi veðlánakerfisins og verður sennilega fyrst um sinn eitthvað á undan, þó að vel verði unnið að útvegun lánsfjár. Sá áhugi er heldur ekki öruggur mælikvarði fyrir hinni óhjákvæmilegu þörf eða því, hvað þjóðin má leyfa sér að fara hratt í fjárfestingu á þessu sviði, þ.e. sá áhugi, sem kemur fram í óskum um lán til bygginga. Bjartsýni er góð og framfarahugur, en þó ekki einhlít. Raunsæi og fyrirhyggju þarf líka.

Hjá húsnæðismálastjórn söfnuðust fyrir á þriðja þúsund umsóknir um lán, sem ekki var hægt að sinna. Margt fólk sat með fé sitt fast í byggingum á ýmsum framkvæmdastigum og gat sig ekki meira hrært. Sýnt var, hvað sem rökræðum um of mikla bjartsýni og vafasama fjárfestingu leið, að hér þurfti meiri lánastarfsemi við. Fólkinu, sem dagað hefur uppi við hús í smíðum, þarf að liðsinna o.s.frv.

Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð, ákváðu þeir flokkar, sem að henni standa, að beita sér fyrir úrbótum í þessum efnum. Framsfl. hefur jafnan staðið þannig að byggingarmálunum, eins og ég hef lauslega á drepið, að af hans hálfu var þetta sjálfsagður hlutur.

Nú hefur hæstv. félmrh. fylgt úr hlaði frv. ríkisstj. um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga o.fl. Með till. þeim, sem frv. felur í sér, á að bæta þá löggjöf, sem fyrir var, eftir því sem reynsla bendir til að rétt sé, byggja ofan á þann grunn, sem í þessum efnum var áður lagður.

Enginn vafi virðist mér vera á því, að í frv. felast ýmsar mjög þýðingarmiklar till. til umbóta. Ég vil aðallega lýsa afstöðu minni til fimm þeirra till., þótt fleiri séu athyglisverðar, og tek ég þessar fimm till. í þeirri röð, sem þær eru í frv.

Fyrst er þá það, að húsnæðismálastjórn er fyrirskipað að setja þau skilyrði fyrir lánum, sem telja má að stefni að því, að byggðar verði fyrst og fremst hagkvæmar íbúðir af hóflegri stærð. Þetta er að mínu áliti mjög nauðsynlegt.

Okkur Íslendingum hættir til óhófs um þessar mundir.

Með starfsemi lánadeildar smáíbúðanna var stutt að hófseminni. Með lögunum um húsnæðismálastjórn frá 1955 var það ekki gert að sama skapi, og það var skaði.

Þá er annað. Húsnæðismálastjórn á að vera heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum. Með þeirri heimild er áreiðanlega gefið tækifæri til þess að lækka byggingarkostnað, svo að um muni, ef hugur fylgir máli, svo sem vera ber og ætlazt er til.

Þriðja atriðið er svo stofnun byggingarsjóðs ríkisins. Veðlánakerfið hafði ekki skilyrði til að fá, svo að verulegu næmi, fast fé til eignar og umráða. Árleg öflun lánsfjár til útlána er erfitt og ótryggt fyrirkomulag til frambúðar. Í frv. er lagður grundvöllur að byggingarsjóði, sem vex frá ári til árs, og samkvæmt áætlun, sem fylgir, má vei gera ráð fyrir, að sjóður sá verði eftir 10 ár orðinn 300 millj., eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir. Í þeirri sjóðmyndun er fólgin trygging fyrir frambúðarstarfsemi lánakerfisins og vexti hennar.

Þá er fjórða atriðið, sem ég hreint og beint fagna. Það er skyldusparnaðurinn. Í þjóðfélagi okkar er mikil þörf fyrir lánsfé og miklar og harðar kröfur um lánsfé, hins vegar lítil sparifjármyndun. Fólk eyðir frekar aurum sínum en að leggja þá inn til geymslu. Þjóðfélagið gerir mikið til þess, að allir hafi viðunandi tekjur. Á tímabilum ævinnar eiga menn yfirleitt að safna sparifé og geta það líka, ef tekjur eru það, sem kalla má viðunandi. Geri þeir það ekki, veldur þetta þjóðfélagsmeinum. Hvað getur þjóðfélagið réttar gert, þegar svo stendur á, en að skylda til sparnaðar? Eru önnur ráð fyrir hendi? Prédikanir hrökkva áreiðanlega ekki til.

Framsóknarmenn hafa haft skyldusparnað til umr. oftar en einu sinni og verið honum fylgjandi yfirleitt. Ég og hv. þm. Barð. höfðum ætlað okkur að leggja fram á þessu þingi till. til þál. um undirbúning víðtækrar löggjafar um skyldusparnað, er lögð skyldi í frv.-formi fyrir Alþingi næsta haust. Þá till. vorum við búnir að semja, þegar okkur bárust fréttir af því, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að leggja til, að komið yrði á skyldusparnaði vegna byggingarsjóðs ríkisins og veðdeildar Búnaðarbankans.

Þótt við hefðum hugsað okkur víðtækari skyldusparnað, teljum við frumvarpsákvæðið ágætt spor í áttina og biðum með okkar till. og sjáum, hvað setur. Gefist þessi skyldusparnaður vel, er sjálfsagt að breikka sviðið fljótlega, að mínu áliti.

Fimmta till., sem ég tel afar þýðingarmikla, er efling veðdeildar Búnaðarbankans með sparifjárinnlögum og lántökuforréttindum, er af innlögum á að leiða, fyrir þá, sem vilja stofna bú í sveit. Er frv. með þessu og framlaginu til byggingarsjóðs Búnaðarbankans mjög þýðingarmikið fyrir sveitir landsins.

Í frv. er sýnilega reynt að hafa hagsmuni allra landshluta fyrir augum og fólksins í landinu, hvar sem það býr. Það er frá mínu sjónarmiði höfuðkostur frv. og gefur því mikið gildi. Þetta vil ég láta koma fram af minni hálfu við 1. umr. málsins. Þess vegna get ég fylgt frv. í aðalatriðum, þótt ég sé dreifbýlismaður.

Auðvitað verður vald húsnæðismálastjórnar mikið samkvæmt frv., en þess verður að vænta, að hún vinni með það fyrir augum, að búseta raskist ekki af hennar völdum til óhagræðis fyrir þjóðfélagið, heldur hið gagnstæða. Þannig verður hún að skilja sín hlutverk og þau lög, sem henni verða sett, ef þetta frv. nær fram að ganga. Önnur lagasetning en sú, sem felur þetta í sér, kemur ekki til greina frá mínu sjónarmiði, eins og ástatt er í þjóðfélaginu.

En þótt ég hafi nú lýst fylgi við frv. í meginatriðum og stefnu þess, þá hef ég á þessu stigi að sjálfsögðu fyrirvara um fylgi við form og smærri atriði og sitthvað annað, sem til greina getur komið undir gangi málsins, við athugun þess í n. og við umr.

Ég tel fyrir mitt leyti, að hæstv. ríkisstj. hafi með frv. þessu þokað þessum þætti fjárhagsmála þjóðarinnar vel á veg.