12.04.1957
Efri deild: 88. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. (KK) taldi, að ég hefði álasað eða flutt ámælisorð til míns fyrirrennara, sem hefði staðið að löggjöfinni um húsnæðismálastjórn og veðlánakerfið. Ég held, að þetta sé alrangt hjá honum; ég flutti ekkert ámælisorð í hans garð, skýrði hins vegar frá því, hvaða vonir hefðu verið vaktar með þeirri lagasetningu og hver niðurstaðan hefði orðið. Það er hvorki lof né last um þá menn, sem að þeirri lagasetningu stóðu. Þar er sagt frá því, hvaða ákvæði voru í frv. um 100 þús. kr. lán til þeirra, sem hefðu byggt og komið húsi sínu undir þak, og hvernig efndirnar hefðu orðið. En það komu engar um 200 millj. kr. á þessum tveim árum, sem þetta veðiánakerfi stóð, til húsnæðismála í gegnum það, heldur voru lánin, uppgefin af Landsbankanum sjálfum, sem fóru gegnum þetta kerfi, 75 millj. kr., A- og B-lán samanlagt, þ.e.a.s. 371/2 milljón að meðaltali á ári. Það er hins vegar upplýst, að sparisjóðir héldu einungis áfram þeim sömu lánveitingum í sama formi, sem þeir höfðu áður gert, og lífeyrissjóðirnir lánuðu með sama hætti og alveg að sama magni til líka eins og þeir höfðu áður gert og kom ekkert veðlánakerfinu við.

Hv. þm. S-Þ. tók það fram í upphafi síns máls, að hann væri dreifbýlismaður og væri hálfhræddur um, að ef til vill leiddi þetta til þess, að betur væri séð fyrir hlut höfuðborgarinnar, þéttbýlisins, heldur en sveitanna. Ég er sannfærður um, að þessi ótti hv. þm. er ástæðulaus. Hér hefur verið mikið húsnæðisböl og er það, og verður áreiðanlega ekki úr því leyst í einni skyndingu. Hins vegar hefur í gegnum l. um hið almenna veðlánakerfi verið séð svo fyrir fjármagnsþörf bygginga í sveitum með fjárframlaginu til byggingarsjóðs Búnaðarbankans, að 12 milljónirnar á ári, sem þangað fóru, gerðu betur bæði árið 1955 og 1956 en að fullnægja 100% eftirspurn eftir lánum til þeirrar lánastofnunar. Ef það hefði verið séð á sama hátt fyrir lánaþörfinni í kanpstöðunum, þá hefðum við ekki horfzt í augu við það ástand í húsnæðismálum í Reykjavík og á Suðvesturlandinu, sem við horfumst í augu við í dag.

Það er ætlunin með þessu frv., að allt að því sömu upphæðir renni til byggingarsjóðs Búnaðarbankans og á síðustu tveim árum, og má því ætla einmitt, að það verði séð að fullu fyrir lánaveitingaþörfinni til bygginga í sveitunum á vegum byggingarsjóðs Búnaðarbankans.

Mér sýnist það því augljóst mál, enda vék hv. þm. að því í lok sinnar ræðu, að það væri einn af kostum þessa frv., að það tæki tillit til þarfa landslýðsins alls, og þá var hann alveg kominn að hinni réttu niðurstöðu, því að þarna er mjög vel séð fyrir hlut fólksins, sem í sveitunum býr, bæði að því er þetta ákvæði snertir og eins að því er snertir skyldusparnaðinn. Sá skyldusparnaður, sem til fellur hjá fólki í sveitum, skal renna til Búnaðarbankans og ávaxtast þar, og því fjármagni skal varið til bústofnunar í sveitum. Hins vegar eru ákvæði um það í frv., að ef slíkt fólk„ sem hefur tekið þátt í skyldusparnaðinum, flyzt úr sveit og í kaupstað, þá skuli það fólk fá réttindin í gegnum innlánsdeild byggingarsjóðs ríkisins, og gagnkvæmt, ef fólk, sem hefur tekið þátt í skyldusparnaðinum í kaupstað, flyzt í sveit, þá skuli það njóta réttindanna í gegnum Búnaðarbanka Íslands.

Ég heyrði svo ekki betur en að hv. þm. S-Þ. væri yfirleitt mjög ánægður með frv. í aðalatriðum, og hann taldi, að hann fyndi þar merkileg nýmæli auk ýmissa annarra, og hann nefndi þessi, held ég: Að skilyrði væru sett í frv. fyrir því, að íbúðir, sem lán væri veitt til, væru af hagkvæmri gerð og af hóflegri stærð. Hvorugt þetta hafa lánveitingar verið bundnar við, þrátt fyrir hið mjög svo takmarkaða fjármagn, sem til umráða var. — Annað, að heimild væri í frv. til þess að undirbúa byggingu íbúðahverfa og mundi það áreiðanlega geta dregið úr byggingarkostnaði, og það er alveg áreiðanlegt, að ef slík byggingahverfi væru byggð og bæjarfélag hefði vei skipulagt það svæði áður, þá ætti það að geta leitt til þess, að hver íbúð yrði mun ódýrari með þeim hætti. — Þá taldi hv. þm. S-Þ. hugmyndina um byggingarsjóðinn, eins og að honum er búið í þessu frv., vera merkilegt nýmæli, og um það verður varla deilt, þó að hv. 6. þm. Reykv. (GTh) setji svarta bót fyrir sjáandi augu og sjái ekki neitt nýmæli í þessu. Ég vona, að hann taki nú þann lepp frá augunum bráðlega, því að annars yrði honum allt of dimmt fyrir augum í þessari okkar annars ágætu veröld. — Fjórða atriðið, sem bv. þm. S-Þ. vildi fagna og mælir mjög með, var bugmyndin um skyldusparnaðinn, skyldusparnað unga fólksins á aldrinum frá 16–25 ára, og hygg ég, að hann eigi marga skoðanabræður, bæði til sjávar og sveita, um það mál, að hér er um að ræða ráðstafanir til að tryggja framtíð unga fólksins, með því að það leggi á sig að vísu byrðar, en fái líka fríðindi, sem það hefur ekki notið og nyti ekki án þess að leggja þetta á sig. Það er óneitanlegt, að það eru markverð hlunnindi fyrir þann unga mann eða þá ungu stúlku, sem hefur lagt til hliðar 6% af tekjum sínum, að hvorki verður seilzt til að skerða þetta með útsvarsálagningu eða með tekjuskatti og að því árabili liðnu, þegar þetta fé er borgað út, verður það greitt með vísitöluálagi og skapar þar að auki forgangsrétt til íbúðarláns og að það skuli vera 25% hærra en aðrir eiga þá kost á. Hygg ég, að unga fólkið með lítið á milli handa fagni því þá að fá þetta hærri upphæð til þess að byggja sína íbúð heldur en aðrir.

Öll þessi hlunnindi, sem skyldusparnaðinum fylgja, hygg ég að unga fólkið hugleiði og kunni að meta, áður en það lætur telja sér trú um, að þetta séu byrðar og álögur einar, sem sé verið að níðast á því með.

Þá var fimmta atriðið, sem hv. þm. S-Þ. kunni vel að meta. Það voru þau ákvæði í þessu frv., sem stuðla að eflingu veðdeildar Búnaðarbankans, og er það einmitt viðvíkjandi þeim hluta skyldusparnaðarins, sem þar á að ávaxtast og fara til lána til bústofnunar í sveitum.

Þá var það hv. 6. þm. Reykv. Hann ræddi allmikið um þetta mál og þá sérstaklega um hið almenna veðlánakerfi og þá lagasetningu, sem hann lofsöng mjög, sagði, að hefði verið alveg sérstaklega og óvanalega vel samið frv., — líklegast hefur hann samið það sjálfur, — grg. hefði verið gagnmerk ritgerð og slík löggjöf hefði varla verið samin á Alþ. áður. Niðurstaðan varð þessi, að það var gert ráð fyrir 200 millj. kr. í gegnum þetta kerfi til íbúðarhúsalána. En það urðu 75 millj., það urðu tæpar 38 millj. á ári. Þannig reyndist það, þó að lofsöngurinn sé mikill.

Það, sem ólukkunni olli, var, að það var ekki hægt samkvæmt þessum lögum, lögunum nm hið almenna veðlánakerfi, að fullnægja byggingarlánaeftirspurninni, þannig að það eru þúsundir manna, sem bíða nú með hálfbyggð hús sín og eru í vandræðum. Það var auðvitað ekki hægt fyrir hv. þm. að neita því, að þannig er ástandið, það var bara afleiðing af því, að byggingarfrelsi hafi verið tekið upp og frelsið var notað svona óstjórnlega.

Nú, byggingarfrelsi? Hverjir höfðu heft byggingarfrelsið áður? Ekki líklega flokkurinn, sem heldur sér aðallega uppi á því að vera flokkur hins frjálsa framtaks? Jú, sannarlega hann. Það var einmitt hann, sem hafði bannað fólki að byggja yfir sig á undanförnum árum. Svo hafði hann leyft því það núna fyrir tveimur árum og sagt því: Ja, nú fær hver maður, sem ræðst í að byggja, 100 þús. kr. lán. — Hann segir núna, að það standi hvergi stafur fyrir því. Það stendur í hinu ágætlega vel samda frv., það stendur í löggjöfinni, sem er búin að vera fyrir augunum á okkur s.l. tvö ár, að það skuli vera 100 þús. kr. lánveiting, og það var sérstaklega útbásúnað í Morgunblaðinu, að nú væri leyst allra manna þörf, og það var þetta, sem ýtti skriðunni af stað. Eftir að fjötrarnir höfðu verið leystir af fólki og þetta skrum var birt alþjóð í Morgunblaðinu og ríkisútvarpinu og annars staðar, að nú væru stíflurnar teknar úr og nú væri séð fyrir hvers manns þörf gegnum hið almenna veðlánakerfi, sem leysti þessi mál til frambúðar, fóru þúsundirnar af stað. Svo var þeim sagt næst: Nei, þið fáið ekki 100 þús. kr. lán, þið fáið 10 þús. kr. lán. — Og svo kom veruleikinn, og þá var meðaltalið 50–55 þúsundir. (Gripið fram í: En hvað stendur í þessu frv.?) Hér stendur í þessu frv., að hámark lánveitinga sé 100 þús. kr. eins og áður, og er þar engu breytt. Ég vil vona, að efndirnar verði samt eitthvað betri en þær voru á umliðnum tveimur árum. Og ég vil vona, að Morgunblaðið hefji ekki neitt slíkt skrum núna eins og það viðhafði fyrir tveimur árum.

Þá vék hv. 6. þm. Reykv. að því, hvernig ákvæðin væru í þessu frv. um skipun húsnæðismálastjórnarinnar. Jú, hún á að vera skipuð 5 mönnum, 4 kosnum af Alþingi og 1 tilnefndum af Landsbanka Íslands, og þetta þýðir, að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi fá kosinn mann í húsnæðismálastjórnina.

Hvernig var þetta áður? Það var þannig, að stjórnarflokkarnir einir áttu að fá kosna menn til þess að fara með þessi mál. Nú er einmitt tekið tillit til stjórnarandstöðunnar og henni gefinn kostur á að eiga mann í þessari stjórn. Svo segir hv. þm.: Það eiga að verða pólitískir fulltrúar, sem veita lán eftir pólitískum línum, eftir þessari skipan málanna.

Ég vil vona, að slíkur háttur á lánveitingum hverfi einmitt við þessa lagasetningu, því að í frv. er tekið fram, að settar skuli reglur um, hvernig lánveitingum skuli hagað, með tilliti til þess, að tekið sé tillit til fjölskyldustærðar, efnahags, húsnæðisástands o.fl. Þessu hefur einmitt, því miður, verið úthlutað eftir pólitískum línum og var gert á þann hátt, að það væru eingöngu fulltrúar stjórnarflokkanna, sem réðu yfir þessu fé, meðan lögin um veðlánakerfið voru í gildi óbreytt.

Þá virtist mér hv. 6. þm. Reykv. falla það fyrir brjóstið, að fulltrúi Landsbankans ætti ekki að hafa atkvæðisrétt til lánveitinga. Hvaðan er sú fyrirmynd sótt? Hún er sótt í hið ágætlega vel samda frv. um hið almenna veðlánakerfi. Þar var einmitt gert ráð fyrir því, að einn af fulltrúunum í húsnæðismálastjórninni væri frá Landsbankanum og hefði ekki atkvæðisrétt til lánveitinga.

Menn minnist þess, hversu mikið hv. 6. þm. Reykv. lofsöng ágæti frv. um hið almenna veðlánakerfi og sagði síðan: Þetta frv. er bara uppprentun af því. — En svo var niðurstaða hans: Þetta frv. er samt illt, en hitt var góð löggjöf, sem það er uppprentun af. — Svolítið er nú ofstækið farið að leiða hv. þm. á villigötur, þegar hann kemst ekki slysalaust frá þessum forsendum, fullyrðingunni um uppprentun og svo að uppprentunin leiði til þess, að hið góða og snilldarlega vel samda frv., sem það er prentað upp eftir, skilar nú illri löggjöf og illa saminni.

Niðurstaða hans varð sú, að í þessu frv. fyndist ekkert nýmæli, sem neinu máli skipti. Ég held, að þeir verði fáir, sem komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa lesið þetta frv., og hinir verði fleiri, sem sjá í þessu frv. mörg nýmæli og sum mjög athyglisverð. Um það verður ekki deilt, að t.d. nýmælið um skyldusparnaðinn er merkisnýmæli, sem ekki hefur fengið rúm í íslenzkri löggjöf fyrr.

Mér þótti það nú harla ólíkt hv. 6. þm. Reykv., hversu ofstækisfullur hann var og leyfði sér að fara rangt með. Hann fullyrti, að ég teldi það goðgá, ef byggðar yrðu fjögurra herbergja íbúðir eða stærri. Þessi ummæli getur hv. þm. hvergi haft eftir mér, því að ég hef aldrei þetta sagt. Ég tel það enga goðgá, að það séu byggðar fjögurra herbergja íbúðir fyrir meðalfjölskyldur og stærri, en ég tel það goðgá, að yfirleitt skuli ekki hafa á undanförnum árum verið byggðar nema fjögurra, fimm, sex herbergja íbúðir og þaðan af stærri að meiri hluta. Það sjá allir menn, að ungt fólk, sem er að byrja heimilishald, og aldrað fólk, hjón, sem eru orðin ein eftir í kotinu, þurfa ekki nema 2 og 3 herbergja íbúðir, og það þarf því æði mikið að vera til á hverjum tíma af 2 og 3 herbergja íbúðum, til þess að fullnægt sé eðlilegri húsnæðisþörf eldra fólksins og unga fólksins, og það er ekki svo lítill hluti af þjóðinni, sem þarf á slíkum íbúðum að halda. Við höfum haft fyrir okkur skýrslur um íbúðastærðir á Íslandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Og þá sjáum við það, að 5 herbergja íbúðir og stærri eru upp undir helmingur af þeim íbúðum, sem byggðar hafa verið hér á landi, en eru örfá prósent í Noregi og Svíþjóð á sama tíma, þ.e.a.s. í Noregi og Svíþjóð eru á sama tíma byggðar yfirgnæfandi smærri íbúðir, 2 og 3 herbergja íbúðir, og nokkur prósent meira að segja af eins herbergis íbúðum með eldhúsi, þ.e.a.s. fyrir einhleypa menn og einstæðar konur, og það þarf líka að vera til eitthvað af slíkum íbúðum, en það er sáralítið, sem hefur verið byggt af þeim hér á landi, enda — þegar menn líta líka á ástandið hér í húsnæðismálum — hljóta auðvitað allir sanngjarnir menn að sjá það, að þegar bæði þarf að fara sparlega með byggingarefni og fjármagn og reyna eftir ýtrustu getu að leysa úr brýnustu þörfum þúsunda, þá er skynsamlegra að byggja fleiri íbúðir og smærri, heilsusamlegar og vandaðar íbúðir, til þess að leysa úr þörfum þess mikla fjölda, sem við neyð býr, en þess hefur ekki verið gætt, hvorki af íslenzku þjóðfélagi né af Reykjavíkurborg, sem horfir upp á hörmulegt ástand hjá þúsundum manna hér, en með blindu auga, eins og hv. borgarstjórinn vill líta á þetta frv. Og svo vill hann færa mér og núv. ríkisstj. það til ámælis, þó að hún vilji taka tillit til þessa ástands og mæta því með skynsemd. Við höfum aldrei ætlað okkur með neinum öfgum að banna 4 herbergja íbúðir eða stærri. Það er tilbúningur hv. þm. og ekkert annað. En það er sannfæring mín, að nú, þegar við tökum við þessum málum í því ástandi, sem þau eru, þá beri, eins og grannþjóðir okkar hafa gert að undanförnu, meðan þær voru að sigrast á þessu vandamáli, að leggja meiri áherzlu á að byggja vandaðar íbúðir af smærri gerð, og það er beint tekið fram í frv., að þetta viðhorf skuli gilda, meðan mikill skortur sé á íbúðarhúsnæði.

Ég er alveg tilbúinn að leggja þessa skoðun mína fram fyrir almenning móti hinu sjónarmiði hv. borgarstjórans í Reykjavík, að það beri fyrst og fremst að leggja áherzlu á áframhaldandi að byggja 4–5 herbergja íbúðir eða stærri, ef það er hans sjónarmið, sem hlýtur að vera, þegar hann álasar okkur fyrir það að vilja leggja meiri áherzlu á hitt, eins og nú standa sakir.

Það er meira að segja tekið hér skýrt fram í frv., að menn eigi, þegar þeir veita lánin, að taka tillit til íbúðastærðar í hlutfalli við fjölskyldustærð, og þar með geta stórar fjölskyldur alveg átt kost á því eftir þessum lögum að fá lán til þess að byggja 5 eða 6 herbergja íbúð, ef það telst ekki óhófleg stærð íbúðar fyrir þá fjölskyldu, og það er líka skynsamlegt sjónarmíð, sem tekur tillit til raunveruleikans, eins og hann blasir við. Það er alls ekki neitt gefið í skyn nokkurs staðar í þessu frv., að maður ætti að binda sig við ákveðna herbergjatölu og banna 5 herbergja eða stærri íbúðir.

Um stofnun byggingarsjóðs ríkisins fannst hv. þm. heldur litið, fannst fátt um það og fullyrti, að í því væri ekkert nýmæli. Ekki verður því þó neitað, að stofnfé byggingarsjóðsins nú er 118 millj. kr. Var sá stofnsjóður til hjá hinu almenna veðiánakerfi? Ef hann hefur verið það, þá tek ég því með þökkum, ef hv. þm. upplýsir það. En rangt væri það nú samt. Þessa fjár er þannig aflað, að varasjóður hins almenna veðlánakerfis er nú orðinn 20.9 millj. kr. lán ríkisins til lánadeildar smáíbúða er nú í Landsbankanum. Ríkissjóður hefur tekið þetta lán að sér. Má heita, að Landsbankinn hafi boðið fram, að þetta yrði sett í lánsform til 14 ára, og þar með verður þessi upphæð, sem er 32.8 millj. kr., eign byggingarsjóðs ríkisins, og það er algerlega ný fjáröflun til byggingarsjóðsins sem eigið fé.

Hv. þm. viðurkenndi, þó að vísu óbeint, að tekjuafgangur ríkissjóðs hefði ekki verið orðinn eign þessa kerfis, en yrði það nú með þessu ákvæði. Það eru 11.3 millj. kr.

Þegar kom svo að því atriði til fjáröflunar fyrir hinar árlegu tekjur byggingarsjóðsins, sem óneitanlega varð þó að viðurkenna að væri ný öflun, þá hneykslaðist hv. þm. á því, að það væri viðbótarskattur. Það mátti ekki gera, það mátti ekki afla nýrra tekna. Þá var hamazt út af því, að þetta væri 1% viðbót við tekjuskattinn og 1% viðbót ofan á tolltekjur ríkissjóðs. Það er það rétta, en við teljum ekki óhóflegar í sakir farið um þessa skattlagningu en svo, að það sé verjandi að gera þetta, þegar verið er að draga að fé til þess að leysa þetta stórkostlega vandamál, sem húsnæðisleysið er.

Hin ákvæðin eru um það, að afborganir þeirra lána, sem nú eru í gangi, og vextir af þeim lánum skuli nú renna, um leið og þeir koma inn, og afborganirnar inn í byggingarsjóð ríkisins. Þá fannst honum 4. gr. í Il. kafla alveg sérstaklega illa samin og það þyrfti að umorða hana. Ég vantreysti hvorki hv. þm. né þeirri n., sem fær þetta frv., til þess að víkja við orðum í frv., ef þeim finnst það betur fara, og tel það ekki vera utan við þeirra verksvið og þá ekki of góða til þess. En ég efast um, að það verði niðurstaðan, að þeir þurfi mikið að umsemja 4. gr. Það er öllum ljóst, að þarna er átt við það, að veðdeild Landsbankans sé heimilt að gefa út bankavaxtabréf, sem nemi allt að 100 millj. kr. á ári hverju í næstu 10 ár. Það er auðséð af næstu setningu a.m.k. þannig að enginn þarf um að villast, að annar hlutinn af þessari upphæð, Aflokkur, skal vera með föstum afborgunum og vöxtum, allt að 50 millj. kr., og hinn hlutinn, B-flokkur, allt að 50 millj. kr. á ári, verði með vísitölukjörum.

Það er raunar — finnst mér — fyrir neðan virðingu hv. 6. þm. Reykv. að vera að reyna að gera sér upp skilningsleysi á mæltu máli, það fer honum afskaplega illa. Það efast enginn maður um það, að hann hefur það skarpan skilning, að hann getur vel skilið 4. gr. í H. kafla, ef hann hefur nokkurn vilja til. En þegar það mistekst fyrir honum, þá undrast ég ekki, þó að niðurstaðan verði sú hjá honum, að hann sjái ekkert gott og engin nýmæli í þessu frv., því að þá bregður hann aðeins fyrir sig blinda auganu, en ekki sinni dómgreind og ekki sínum gáfum.

Þá var það um vextina. Í hinu ágætlega samda frv. um hið almenna veðlánakerfi var ákveðið, að lánin skyldu vera jafngreiðslulán með 1% ársvöxtum og lánstíminn skyldi vera 25 ár. Ég játa það, að mér fannst þessir vextir vera háir og lánstíminu í það stytzta. Ég hefði gjarnan viljað, að þessi lán hefðu t.d. getað verið afborgunarlaus fyrstu 2 árin eða svo, hefði talið það mjög til bóta, einmitt meðan fólk er að brjótast í gegnum mestu erfiðleikana að afstaðinni byggingu íbúðarhúsnæðis. Það eru látnir standa hér sömu vextir og flokkur hv. þm. taldi hæfilega fyrir 2 árum. Síðan hefur þó verið heldur viðleitni í þá átt að hækka vexti. Ég þreifaði að vísu fyrir mér um það, hvort ekki gæti orðið samkomulag um 61/2% vexti, en menn töldu, þegar eftirspurnin er svona gífurleg eftir lánum með þessum kjörum, að þá væri rétt að hafa lánskjörin óbreytt og reyna heldur að leggja höfuðáherzlu á að draga að fé til þess að fullnægja betur hinni miklu eftirspurn eftir lánsfénu. Þessi leigukjör, þó að þau séu ekki væg, hafa samt ekki staðið í vegi fyrir, að fólk hefur viljað fá þessi lán, fleiri en áttu þess kost.

Eins er það með B-lánin, þau eiga að vera með 51/2 % vöxtum og lánstíminn 15 ár. Það er óbreytt eins og í hinu ágætlega vel samda frv., sem hv. þm. mun hafa greitt atkv. með og staðið að og verið allánægður með frá upphafi og að því er virðist allt fram á þennan dag. Að tala um, að ég hafi gefið áður loforð um lægri vexti og svikið þau, það er alveg út í hött. Hins vegar má þá benda á það, að í frv. í 6. gr. er sagt, að húsnæðismálastjórn sé heimilt að breyta vaxtakjörum og lánstíma á nýjum lánum að fengnu samþykki ríkisstj. Hér er átt við það, að húsnæðismálastjórninni skuli heimilt að lækka vexti, ef það þyki fært, og þess vegna er þetta ákvæði tekið inn, af því að það þykja vakna nokkrar vonir um, að slíkt kunni að verða hægt, þegar byggingarsjóðurinn hefur eflzt frá því, sem hann er. Það er einmitt þessi nokkuð sterki byggingarsjóður ríkisins með sínar nærri 120 millj. kr., sem vekur vonir um, að hægt verði vegna þessa eigin fjár að stefna að lækkun vaxta, og það mundi þess vegna gleðja bæði mig og hv. 6. þm. Reykv. Þetta er eitt af nýmælunum í frv., sem honum hefur sézt yfir í sínum eindregna vilja til þess að sjá ekki.

Þá má líka benda á það, að núverandi ríkisstj. hefur séð fyrir 10 millj. kr. til verkamannabústaða sem nýju fé. Það eru lán, sem eiga að veitast með 31/2% vöxtum, og sýnir það einmitt, að núverandi ríkisstj. hefur lagt á það meiri áherzlu en fyrrverandi ríkisstj. að efla þá lánastarfsemi, sem á að gefa fátækasta fólkinu í landinu kost á lánum til 42 ára með 31/2 % vöxtum. Það eru lagðar fram af ríkisins hendi 10 millj, kr. af nýju fé. Það gerðist aldrei í tíð fyrrverandi ríkisstj., þrátt fyrir allan áhuga hv. þm. nú um að vinna að lánveitingum með lágum vöxtum.

Þá vék hv. þm. einnig að útrýmingu heilsuspillandi íbúða og sagði, að fjármagnið, sem nú væri ætlað til þess, væri allt of lágt, játaði að vísu, að það væri ívið hærra en það hefði verið hjá fyrrverandi ríkisstj. Það er rétt, það voru 3 millj. á fjárlögum síðasta árs, en eru nú 4 millj. kr. Auk þess mun vera til geymslufé, sem ætlað var til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, um 5 millj. kr., og þannig eru þá nú til hjá ríkinu 9 millj. kr. til þess að verja til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, og á móti því skal koma jafnmikið fé frá bæjarfélögum, og mega þá koma frá þeim 9 millj. kr. á móti. Það þýðir, að það eru möguleikar til þess að verja byggingarfé sameiginlega frá bæjum og ríki að upphæð 18 millj. kr. á þessu ári til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, og hygg ég, að enginn maður með fulla sjón geti neitað því, að það er myndarlegt átak, og það verður aðeins ekki ár því, ef Reykjavíkurbær verður ekki allstórtækur í framkvæmdum í þá átt, en annars getur það líka orðið að veruleika.

Þegar hv. 6. þm. Reykv. kom að því nýmæli þessa frv., sem ég tel stærst, sem er skyldusparnaðurinn, þá fannst mér hann eiginlega eiga bágt, því að hann var eiginlega bæði með og á móti. Hann var bæði með og á móti skyldusparnaði, eiginlega með skyldusparnaði, en skyldusparnaði í þessu formi fannst honum samt ekki rétt að koma á. Eitthvað var að honum. En ég heyrði þó ekki, að hv. þm. gerði neina verulega grein fyrir því, hvað honum fyndist að. Það voru undanþágur þarna frá þessu, en þær voru varla tæmandi, og þær opnuðu ekki möguleika til þess að undanskilja þá, sem honum datt í hug að helzt þyrfti að undanskilja. En þarna eru undanskildir þeir, sem stofnað hafa heimili, þeir, sem eru fyrirvinna á heimili, þeir, sem hafa fyrir ómögum að sjá, og þeir, sem eru meginhluta árs í skóla, og enn fremur er svo sveitarstjórnum gefin heimild til þess að veita undanþágu, þegar sérstaklega standi á. — Hv. þm. hafði áður komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta frv. sýndi það, að stjórnin virti ekki rétt sveitarstjórnanna. Þarna fannst honum það einmitt vera til miska og setja sveitarstjórnir í vanda, að þeim var einmitt gefinn kostur á að veita undanþágu frá skyldusparnaðinum. Svona var það ýmist í ökla eða eyru. Það mátti ekki einu sinni sýna sveitarstjórnunum traust, þá kveinkaði hv. þm. sér undan vandanum, það yrði svo vandasamt fyrir bæjarstjórana að eiga að ákveða þetta, hvort þessum eða hinum unga manninum skyldi nú veitt undanþága frá skyldusparnaðinum.

Ég held, að það sé rétt hjá mér, að hv. 6. þm. Reykv. hafi lokið ræðu sinni á því að segja, að í fljótu bragði virtist sér þetta frv. ekki vera merkilegt frv. Það má vel vera, og mér virtist það á ræðu hans, að honum fyndist það ekki merkilegt. En ég hygg nú, að þetta frv. leyni á sér, og vona, að honum finnist það sýnu merkilegra, þegar hann tekur hér næst til máls, þegar frv. kemur frá nefnd, enda mun hann þá hafa athugað málið betur.