29.01.1957
Neðri deild: 47. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það var einungis út af því, að hv. 1. þm. Reykv. kvartaði undan því, að iðnn. hefði ekki afgreitt eitt mál, sem hjá henni liggur. Það er að vísu alveg rétt, eins og hér hefur komið fram, að það er illt, að nefndin skuli ekki geta lokið afgreiðslu mála. En það eru ýmsar ástæður sem liggja til þess. Málin eru í athugun á ýmsu stigi, og þeirri athugun er sjálfsagt víða ekki lokið. Þannig er um þetta mál, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á og er í iðnn., um iðnlánasjóð, og raunar hv. 2. þm. Eyf. minntist á líka, að það hefur verið rætt um, hvernig sú afgreiðsla gæti orðið, við hæstv. ríkisstj., og þeim viðræðum er enn ekki lokið. Ég vænti þess, að n. muni afgreiða málið, strax og þær upplýsingar eru fengnar, sem nefndina skortir enn. Og þannig hygg ég að sé um flest þau mál, sem hér hefur verið kvartað undan að ekki hefðu enn þá hlotið afgreiðslu hjá nefndum.

Það er ekki í fyrsta sinn nú, að mál hafa ekki gengið hindrunarlaust í gegnum nefndir. Þau eru mörg þannig gerð, að þau þurfa athugunar við, og sum þeirra þurfa langrar athugunar við. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla, að nefndirnar sitji á þeim aðeins til þess að tefja þau, heldur sé það eingöngu vegna þess, að upplýsingar skortir enn, til þess að afgreiðsla geti fengizt.