18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að þeim fáu athugasemdum, sem ég vildi koma fram hér við ræðu hv. frsm. minni hl. (FÞ), þá tel ég rétt að skýra hér örlítið brtt., sem meiri hl. óskar að leggja hér fram skriflega. Er það yfirsjón af nefndarinnar hálfu, að þessar brtt. fylgdu ekki með á þskj. 541, en þó talið nauðsynlegt að koma með þær nú.

Sú fyrri er á þá leið, að aftan við 17. gr. bætist stafliður, svo hljóðandi: „3. málsgr. sömu lagagreinar falli niður.“ Er það varðandi framlög sveitarfélaganna á hvern einstakling. Var þar gert ráð fyrir í n., að þær tölur stæðu áfram, sem þar er frá greint í 17. gr. En önnur ákvæði laganna munu hafa gert ráð fyrir því, að það yrðu grunntölur og á það bættist vísitala. Hér er því lagt til, að vísitöluákvæði laganna sé fellt niður.

Önnur brtt., sem er nánast einnig leiðrétting, er við 24. gr., að aftan við gr. bætist: „l. nr. 3/1957, um breyting á þeim lögum.“ Það er um, að sú breyting, sem brbl. frá því í ágúst s.l. fjölluðu um, um skipan húsnæðismálastjórnar, falli niður.

Þá er í þriðja lagi lagt til, að svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði komi á eftir 25. gr.: „Starfstímabil þeirra manna í húsnæðismálastjórn, sem kosnir eru af Alþingi í fyrsta sinn samkvæmt lögum þessum, og þess manns, er ráðherra skipar, svo og varamanna, skal vera til ársloka 1960.“ Í frv. er gert ráð fyrir, að kjörtímabil þessarar stjórnar sé 3 ár, en vegna þess, hvernig á stendur árinu, er talið rétt, að þetta bráðabirgðaákvæði komi hér, þannig að kjörtímabil þeirra manna, sem nú verða kjörnir í fyrsta sinn samkv. l., verði 31/2 ár, en framvegis verði kjörtímabilið 3 ár.

Frsm. minni hl., hv. 11. landsk., lýsti því hér, sem ég hafði reyndar drepið á í minni framsöguræðu í gær, að hann teldi, að þær breytingar, sem meiri hl. n. leggur til, og reyndar frv. sem heild væri ekki borið fram á réttum forsendum og ætti að bera fram sem breytingar við þau lög, sem í gildi eru. Ég lýsti afstöðu minni til þessa álits minni hl., sem reyndar var kunnugt úr nefndarstörfunum, og taldi erfitt að skilja þann tilgang, sem beinlínis í því fælist að bera brtt. fram í þessu formi, enda skorti mjög á það, að hv. frsm. gæfi á því nægilegar skýringar, þannig að það mál liggur raunverulega enn þá óskýrt af þeirra hálfu, sem minni hl. skipa.

Það, sem hann taldi frv. helzt til foráttu, var, að í 2. gr. væri vald og sjálfsforræði bæjarfélaganna mjög skert og ákveðinn hluti þess valds, sem bæjarfélögin eða sveitarstjórnirnar hefðu haft, væri þar lagður undir húsnæðismálastjórn, að vísu sem heimild, en það yrði að gera ráð fyrir, að öllum heimildum yrði beitt, þegar henta þætti. Ég tel nú, að það þurfi ekki langra skýringa við, hvers vegna þetta ákvæði, sem hann hnaut nú helzt um í 2. gr., er þar komið. Ég þóttist hafa skýrt það nægjanlega í minni framsöguræðu í gær. En það má öllum vera ljóst, að önnur ákvæði greinarinnar um verkefni húsnæðismálastjórnar sjálfrar eru gagnslaust hjóm eitt, ef húsnæðismálastjórn á ekki að hafa þá aðstöðu, sem henni er gefin um það að fá ákveðin svæði skipulögð af sveitarstjórnunum eða skipulagsnefndum sveitarstjórnanna. Með því eru henni allar götur lokaðar um framkvæmd annarra ákvæða þessarar sömu greinar. Og ég heyrði ekki, að hv. frsm. hefði neitt við þau ákvæði að athuga. En honum má vera jafnljóst og þm. öllum, að þær skyldur, sem húsnæðismálastjórn eru þar lagðar á herðar, knýja á um nauðsyn þess, að hún geti haft m.a. landsvæði til ráðstöfunar um byggingu þeirra íbúða, sem að færustu manna dómi yrðu taldar hagkvæmastar.

Ég gat einnig um afstöðu minni hl. til 10. gr. frv., sem einnig lá mjög skýrt fyrir í n., en það var ágreiningurinn um það, hvort skyldusparnaði eigi að koma á, og vék hann lítillega að því, að hann teldi það mjög vafasamt, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, að sparnaðinum yrði komið á í þessu formi, og benti þá helzt á, að taka ætti upp frjálsan, samningsbundinn sparnað.

Ég vil enn ítreka það, sem ég sagði í minni framsöguræðu í gær, að þessi frjálsi sparnaður er heimilaður með 9. gr. frv., og ætti reynslan að leiða það í ljós, hvor greinin verður í framtiðinni öruggari tekjur fyrir húsnæðismálastjórn. Hann reyndi ekki heldur að hrekja það, sem ég taldi höfuðkosti skyldusparnaðarins í gær í minni framsöguræðu, en það væri það öryggi, sem fjármálum húsnæðismálastofnunarinnar væri tryggt með þessari skyldu. Það er á allra vitorði það öryggisleysi, sem ríkt hefur um fjárhagsmál húsnæðismálastjórnar, því að ekki var með hinum eldri lögum tryggt það útlánsfé, sem þar var gert ráð fyrir, nema til tveggja ára, og þó að meginhluti þeirra laga, sem enn þá eru í gildi um þessi mál, hafi fjallað um stórar og miklar skyldur, sem húsnæðismálastjórn voru á herðar lagðar og hún átti að framkvæma, eins og t.d. tæknimálin, þá hefur bókstaflega strandað á framkvæmd þeirra ákvæða, að fjárhagurinn hefur ekki leyft, að lögin verði til fullnustu framkvæmd í því formi, sem þau voru upphaflega samþykkt. Ég undirstrika það því einu sinni enn, að höfuðkostur skyldusparnaðarins er að mínum dómi og okkar, sem meiri hl. skipum, sá, að hann tryggir húsnæðismálastofnuninni fé, sem hún með öðrum hætti getur ekki fengið, og tryggir þá um leið, að önnur þau ákvæði, sem engar deilur eru um, að eigi að vera í frv., verði framkvæmd, að svo miklu leyti sem sá fjárhagur leyfir á hverjum tíma. En sú fjárupphæð frá ári til árs á að verða öruggari og betur vitað um, hver hún verður, heldur en ef eingöngu er ætlað upp á frjálsan, samningsbundinn sparnað, sem hv. frsm. minni hl. lagði sérstaka áherzlu á.

Í lok ræðu sinnar sagði frsm., að það væri álit þeirra, er minni hl. skipuðu, að nauðsynlegt sé, að löggjöfin sé skýr og megi liggja sem allra gleggst fyrir almenningi. En þó virðist mér við fljótan yfirlestur þeirra brtt., sem minni hl. leggur hér til, að það sé síður en svo, að þær brtt. muni miða í þá átt, þar sem gert er ráð fyrir mun meiri reglugerðarákvæðum en í því frv. og þeim brtt., sem meiri hl. hefur hér flutt. Það miðar því ekki í þá átt að gera löggjöfina skýrari og aðgengilegri fyrir almenning. Það er vitað mál af reynslu, sem fengin er í þeim efnum, að reglugerðir eru yfirleitt ekki í almannahöndum, en hins vegar er það meira öryggi fyrir almenning, að framkvæmd einstakra liða sé fram tekin í löggjöfinni sjálfri.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að rekja frekar einstök atriði þeirrar framsöguræðu, er bv. 11. landsk. flutti, en vísa að öðru leyti til framsöguræðu minnar hér í gær fyrir frv. Um málsmeðferðina verður forseti að sjálfsögðu úr að skera, en mér sýnist, að það sé mjög mikill vafi á því, að brtt. minni hl. geti verið bornar upp samhliða brtt. meiri hl., þar sem þær eru upp byggðar á allt öðrum forsendum.

Ég leyfi mér svo að leggja fram skriflegar þær brtt., sem ég gat um í upphafi máls míns.