18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Mig furðar ekkert á því, þó að mínum gamla keppinaut, hæstv. félmrh., renni það til rifja, ef svo illa væri komið fyrir mér, að ég væri hættur að kunna að telja. En hann má þá heldur ekki undra sig á því, þó að mér þyki allillt til þess að vita, að svo skuli komið fyrir honum, fyrrverandi skólastjóra, að hann skuli vera hættur að kunna að lesa. Það kemur nefnilega alveg greinilega í ljós, að hæstv. ráðh. hefur ekki kunnað að lesa brtt. hv. meiri hl., eða þá að hann ekki kann að telja, og þar með væri hann fallinn í sömu gröf og hann segir að ég hafi fallið í. Brtt., sem hv. n. hefur flutt á þskj. 541, ef þær eru lagðar rétt saman, að sjálfsögðu ásamt undirliðum, eru nákvæmlega 28, eins og ég sagði, plús þær 3 skrifl. brtt., sem hv. frsm. meiri hl. gerði hér grein fyrir áðan. Það gerir 31 brtt. Fram hjá þessu kemst hæstv. ráðh. ekki. Hann stendur fastur í þessari 31 brtt. frá sínum eigin stuðningsmönnum. Við það bætast 33 brtt. frá hv. minni hl., samtals hvorki meira né minna við þetta „merka nýmælafrv.“ en 64 brtt.

Ég vil biðja hæstv. ráðh., ef hann má ekki vera að því núna eða hugarástand hans er ekki þannig, að hann treysti sér til þess að gera það með' öryggi, að telja brtt., þegar bann er kominn heim til sín í kvöld, eða ef honum kynni að gefast tóm til þess að setjast niður og hugsa í ráðherrastól sínum í ráðuneyti sínu síðar í dag:

En þar með er þá fallið eitt bitrasta vopnið, sem hæstv. ráðh. veifaði hér áðan í sinni ræðu, að ég hefði talið skakkt og að brtt. frá flokksmönnum hans og stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. í meiri hl. hv. n. væru 16 í staðinn fyrir 31, eins og ég sagði. Og hvað er þá eftir? Það er rétt að líta aðeins lauslega á það, fyrst þetta vopn hefur reynzt vera gersamlega bitlaust og í rauninni ekkert vopn.

Hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstj. hefði lofað að útvega 44 millj. kr. hjá bönkunum og að það væri meira að segja verið að tryggja þetta með frv., sem væri til umræðu í hv. Nd. Ég held ég ljóstri ekki upp neinu leyndarmáli, þó að ég segi það, a.m.k. sem mína skoðun, að með því frv. sé verið að gera allt annað en að tryggja fólki lán til íbúðabygginga. Ég held nefnilega, að það sé verið að tryggja allt annað. Ég held, að það sé verið að tryggja stöður handa nokkrum mönnum, og ég held, að það hafi staðið svona lengi á þessu frv. vegna þess, að það hafi verið ágreiningur um það, hverjum ætti að tryggja, ekki lán til íbúðabygginga, heldur stöður í bönkum. Og það er um þetta, sem frv. er, sem núna er verið að ræða í hv. Nd.

Í sambandi við það, að ríkisstj. hafi lofað fé til íbúðalána, vil ég að sjálfsögðu ekki væna hana um það, að hún vilji ekki efna það. Ég veit meira að segja, að hæstv. félmrh. vill gjarnan geta útvegað peninga í þessu skyni. Ég veit, að hann er ekki það illa innrættur maður, að hann vilji ekki útvega fólki lánsfé, sem vantar það til þess að byggja yfir sig, ef hann aðeins getur það.

Spurningin er þess vegna ekki um það, hvað hæstv. ráðh. vill, heldur hvað hann getur og hverju hann ber gæfu til þess að koma í framkvæmd. En gæfan virðist nefnilega endast miklu skemmra heldur en viljinn. Það sést svo greinilega á því, sem þegar hefur verið áorkað í þessum efnum af núverandi hæstv. ríkisstj., því að það er svo sára-sáralítið, þrátt fyrir hið „stóra hjarta“ og allan þennan mikla vilja til þess að láta gott af sér leiða. Hæstv. ríkisstj. eða flokkar hennar lofuðu því fyrir síðustu kosningar, að það skyldi varið gífurlega auknu fjármagni til íbúðarhúsabygginga, til íbúðarhúsalána. Þetta fjármagn hefur ekki sézt enn þá, og stjórnin er nú búin að sitja 9 mánuði að völdum. Þvert á móti er eins og fjármagnið hafi fjarað út, horfið bókstaflega frá gagnlegum hlutum, sem hefði þurft að nota það til, síðan þessi hæstv. ráðh. settist í ráðherrastól.

Það dugir þess vegna ekkert, þó að hæstv. ríkisstj. segi á pappírnum í grg. með þessu lítilmótlega frv., að hún hafi lofað því að útvega 44 millj. kr., og þótt hún sé jafnhliða að berjast fyrir því að tryggja nokkrum flokksmönnum sínum bankastjórastöður. Það er nefnilega þannig með stjórn bankamála og efnahagsmálin yfirleitt, að það eru ekki mennirnir, sem sitja í stöðunum, raunverulega, sem allt veitur á. Það getur oltið nokkuð á þeim og stundum mikið. En mest veltur á stefnunni, sem fram er fylgt, heildarstefnunni, sem fram er fylgt í fjármálum þjóðarinnar. Og hver er sá, að hann trúi því, að þó að nokkrir kommúnistar verði settir nú í bankastjórastöður í íslenzkum bönkum, þá byrji fé að streyma inn í þá til þess að nota það til gagnlegra hluta, m.a. til íbúðabygginga í landinu?

Það getur vel verið, að hæstv. félmrh. trúi þessu. En það verða ekki margir aðrir, sem gera það. Og mér er næst að halda, að sumir þeirra manna, sem nú eiga þátt í því að hjálpa honum til þess að koma þessum vilja hans fram og hans flokki, hafi ekki ýkja mikla trú á því, að í kjölfar stefnubreytingarinnar muni fylgja aukinn fjárstraumur inn í lánastofnanirnar, þannig að sparifjármyndunin ankist og möguleikarnir þar með til þess að sinna íbúðalánum og annarri uppbyggingu í þjóðfélaginu.

Það er svo dæmi um þá dæmalausu sjálfsblekkingu, sem hæstv. félmrh. er haldinn af og hann hamrar á frammi fyrir alþjóð, að hann bendir sífellt á þennan byggingarlánasjóð, sem sagt er hér í grg, frv. að myndaður sé með 118 millj. kr. stofnfé. Og fólk á að halda, að þetta fé sé handbært, það sé hægt að byrja nú þegar á því að lána það út. Hve mikils af þessu fé, hæstv. ráðh., er hægt að grípa til í dag og lána út handa fólki, sem er að byggja hús eða vill fara að byggja hús? Ég vil óska þess, að hæstv. ráðh. svari því hreinlega, hve miklu af þessu fé er hægt að verja til útlána á þessu ári. Ég fæ ekki betur séð en að af þeim 118 millj. kr., sem talið er stofnfé sjóðsins í grg. frv., sé naumast nokkur eyrir handbær til útlána á þessu ári.

Ef við lítum á þetta, þá verður fyrst fyrir varasjóður hins almenna veðlánakerfis, um 20.9 millj. kr., í öðru lagi lán ríkisins til lánadeildar smáíbúða, 32.8 millj. kr., — allt þetta fé er bundið í lánum, og kemur aðeins örlítill hluti þess inn árlega, — í þriðja lagi A-flokka bréf ríkisins, er keypt voru fyrir tekjuafgang ríkissjóðs árið 1955, 11.3 millj. kr., og í fjórða lagi 2/3 hlutar af væntanlegum stóreignaskatti, hvorki meira né minna en 53.2 millj. kr. Ekki einn eyrir af þessum tæplega helmingi af stofnfé byggingarsjóðs kemur til útlána á þessu ári.

Svo er því haldið að fólki, að „manna“ hafi rignt af himnum ofan fyrir frumkvæði núverandi hæstv. ríkisstj., að í stofnsjóð hins nýja byggingarsjóðs renni hvorki meira né minna en 53.2 millj. kr. af hinum væntanlega stóreignaskatti. Ég óska þess, að hæstv. ráðh. svari því hreint út, hve mikið af þessum 118.2 millj. kr. geti komið til íbúðalána á þessu ári.

Því miður er hér um að ræða fugl á þaki, en ekki í hendi, hvorki í hendi hæstv. ráðh., ríkisstj. né bankanna. Enda er sagt frá því í grg. sjálfri frá hæstv. ráðh., að það sé ekki gert ráð fyrir, að árlegar tekjur af stóreignaskattinum til byggingarsjóðsins verði meira en 7–8 millj. kr. Hvers vegna er þá verið að blekkja fólk með þessu, vekja falskar vonir, eins og hæstv. ráðh. hefur mikið talað um að aðrir hafi gert og er auðvitað rakaleysa, því að á sama tíma sem gert var ráð fyrir, að lánað yrði, eftir að hið almenna veðlánakerfi var komið á fót, 100 millj. kr., var lánað töluvert mikið á annað hundrað millj. kr., og eins og ég sagði áður, var á þessum tveimur árum lánað út til íbúðabygginga samtals um 230 millj. kr., þar af 80 millj. kr. beint frá húsnæðismálastjórn? Þetta eru auðvitað tölur, sem hæstv. ráðh. getur ekki hrakið, því að þær eru sannleikurinn sjálfur.

Hæstv. ráðh. féll það mjög illa, að ég skyldi vera að tala um það, að dregið hefði úr sparifjármyndun. En er það ekki einmitt kjarni málsins, sem verður að ræða í sambandi við þetta frv., vegna þess að það er ástæða þess, út í hvaða ógöngur núverandi ríkisstj. er komin með lánamálin? Þess vegna skiptir það meginmáli, að það takist að auka sparifjármyndunina og gera bönkunum þannig kleift með eðlilegum hætti að auka þátttöku sína í íbúðalánastarfseminni.

Það hljómar svo nærri því fjarstæðukennt að heyra hæstv. ráðh. vera að lýsa hér baráttu sinni gegn verðbólgu og dýrtíð. Þessi hæstv. ráðh. á mestan þátt allra manna í því villta kapphlaupi, sem hófst milli kaupgjalds og verðlags á árinu 1955, var „generállinn“ í baráttunni fyrir því að rífa niður það jafnvægi, sem þá hafði tekizt að byggja upp. Hann kemur nú hvítþveginn í sinni eigin sjálfgleði og þykist berjast hinni góðu baráttu fyrir því, að jafnvægi náist í efnahagsmálunum, og þykist alltaf hafa verið að berjast gegn dýrtíðardraugnum. Ég held, að hæstv. ráðherra treysti of mikið á minnisleysi bæði hv. þingmanna og annars fólks í þessu landi.

Að öðru leyti skal ég ekki þreyta hæstv. forseta með því að fara í kappræður við hæstv. félmrh. um það efni. En þar er hann úti á svo hálum ís, að um leið og stjakað er við honum, fellur hann niður í vökina.

Ég benti svo aðeins á það sem dæmi upp á, hvernig kommúnistar framfylgdu stefnu sinni, að á undanförnum þingum hefðu þeir sífellt ásakað þáverandi stjórnarflokka fyrir of háa vexti í landinu og flutt frv. um að lækka vexti. Nú, þegar þeir eru komnir í ríkisstj., þá flytja þeir frv. um að halda sömu vöxtunum og áður giltu. Þetta er aðeins eitt dæmi um það, hvernig kommúnistar standa við loforð sín, eitt dæmi um það, hversu einstakir markleysingjar kommúnistar eru.

Ég endurtek svo fyrri ummæli mín um það, að ég vona, að betur fari í þessum íbúðalánamálum heldur en til er stofnað af þessari lánlausu ríkisstj. og hæstv. félmrh., sem hefur opinberað hér gersamlega uppgjöf sína í þessu máli.