18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki eyða mörgum orðum á hv. þm. N-Ísf. (SB). Ég tel það alveg ástæðulaust, því að hann ræðir hér ekkert um efni málsins. Ég get þó ekki varizt því, að þegar hann kemst í æsing í þessu máli, þá minnir bann mig á ummælin landskunnu eftir nafna hans, Sigurð Kristjánsson, þegar hann lýsti bændum, sem voru á leið til fundar, að þeir hefðu steðjað á fundarstað með mosann í skegginu og froðu fyrir vitum. Það freyddi sannarlega ekki illa fyrir vitum hv. þm. N-Ísf. áðan, og var því fyllilega ástæða til þess, að mér dyttu þessi orð fyrirrennara hans sem ritstjóra Vesturlands í hug, sem urðu landskunn og lengi munu verða í minnum höfð, a.m.k. meðal íslenzkrar bændastéttar. En það virðist vera svo, að þegar hann ræðir um þetta húsnæðismálafrv., þá kemst hann út úr jafnvægi og er hér sem sé með froðu fyrir vitum og gætir engra raka í málinu.

Það eina efnisatriði, sem ég tel ástæðu til að fara inn á í tilefni af ræðu hans, er um það fjármagn, sem fari nú samkvæmt þessu frv. til húsnæðismálanna. Hann þarf ekki að ganga með þær grillur, að stofnsjóðurinn, byggingarsjóður ríkisins, eigi að fara inn á lánveitingar á einu ári, svo að það sé ástæða til að spyrja um, hvað sé laust af stofnfé hans til útlána á þessu ári. Það er um það að ræða, hvernig þessi sjóður fái tekjur, hverjar séu árlegar tekjur hans og hvernig hann geti vaxið, þegar fram í sækir. Það eru töflur hér fyrir aftan með þessu frv., sem eru unnar í hagfræðideild Landsbanka Íslands, þó að hv. þm. N-Ísf. vilji komast að allt öðrum niðurstöðum en hagfræðingar Landsbankans hafa komizt að um tekjur bæði af skyldusparnaði og af öðrum tekjustofnum byggingarsjóðs. Ég legg trúnað á þessar töflur hagfræðinga Landsbankans, hvað sem hv. þm. N-Ísf. gerir, og þar eru áætlanir um það, að árlegar tekjur flest árin af skyldusparnaðinum verði um 15 millj. kr., og um tekjur af byggingarsjóðnum sýnir taflan, að tölurnar fara hækkandi frá ári til árs upp í 23 millj. eftir nokkur ár.

Það er talið, að tekjurnar af byggingarsjóðnum árlega núna alveg á næstu árum verði um 40 millj. kr. á ári. Þegar bankarnir verða látnir leggja til eins og undanfarin tvö ár um 44 millj. kr. á ári, þá er þarna hægt að fullyrða, að byggingarlánastarfsemin fær til sinna umráða um 80 millj. kr. á ári, en á s.l. tveimur árum fóru til húsnæðislánanna í gegnum bankana aðeins 74 millj. á tveimur árum, innan við 40 millj. kr. hvort árið um sig að meðaltali.

Ég gat vel átt von á því, að hv. þm. færi út úr jafnvægi, þegar farið væri að minnast á bankafrv., sem verið er að ræða í Nd., enda brást það ekki. Morgunblaðið talar um, að þetta séu ofsóknarfrv., gerði það í dag. Það er sjálfsagt þessi hv. þm., sem orðar það þannig. Það má ekki breyta bankamálunum, þó að svo væri komið, að einn einasti stjórnmálaflokkur í þessu landi væri búinn að sölsa undir sig allt vald og öll ráð í báðum bönkunum, Landsbanka og Útvegsbanka, búinn að sölsa undir sig meiri hluta í bankaráðum þeirra beggja og í bankastjórasætum þeirra beggja og þetta væri orðið þjóðarhneyksli. Nú er á þessum málum tekið þannig, að allir stjórnmálaflokkar landsins fái aðstöðu til þess að hafa áhrif á stjórn þessara voldugustu peningastofnana þjóðarinnar, og engin tilraun gerð til þess að skapa einum stjórnmálaflokki allt vald yfir þessum bönkum, enda er það óþjóðholl starfsemi ofbeldiskennds stjórnmálaflokks, sem Sjálfstfl. í því máli sýndi rækilega að hann var.

Það þarf að segja Sjálfstfl. alveg hreinlega, hvernig hann hafði misnotað sitt vald í bönkum þjóðarinnar, og gera honum skiljanlegt, að hann hefur ekki lengur aðstöðu til þess að halda slíkri aðstöðu, enda er það alveg áreiðanlegt, að almenningsálit þjóðarinnar krefst þess, að því illa fengna valdi Sjálfstfl. sé hnekkt og því dreift jafnar.

Út af því, að ég hafi fyrst og fremst átt hlut að því, að kaupgjaldshækkanir urðu 1955, þá skal ég fyllilega viðurkenna mína hlutdeild í því. En við bárum fram kröfur til ríkisstj. þá um, að hún fyrst og fremst gerði allar ráðstafanir, sem í hennar valdi stæðu, til þess að standa á móti verðhækkun og ef mögulegt væri að ná fram verðlækkunum. Um þetta bárum við fram till. hér í þinginu. Þær till. fengu ekki byr, þær fengust ekki úr nefnd. Það var fyrst, þegar komið var út í verkfall, að ég var boðaður á fund Ólafs Thors og sagt, að þessi till. um stöðvun dýrtíðar skyldi athuguð, og svo áður en verkfallið hófst, var tilkynnt, að sú athugun hefði leitt í ljós, að ekki væri hægt að gera neinar ráðstafanir til þess að draga úr vexti dýrtíðar. Eftir að sá frestur var liðinn, sem veittur var til þess að athuga fyrst möguleika ríkisstj. til að draga úr vaxandi dýrtið, þá fyrst var lýst yfir verkfalli.

Ég vil vænta þess, að hafi sá voldugi Sjálfstfl. þá talið verðhækkanir og vaxandi dýrtíð vera þjóðarógæfu, þá sé hann ekki genginn af þeirri trú núna og sé enn í sömu sporum og vilji stuðla að því, að spornað sé við vaxandi dýrtíð og verðbólgu. Ég vil óska þess, að hann sé ekki búinn að hafa pólitísk buxnaskipti í þessu efni og hann dreymi enn þá um jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

En svo mikið er víst, að hafi Sjálfstfl. haft hug á því að auka fjármagn til byggingar íbúðarhúsnæðis, þá getur hann ekki komizt hjá því að fagna þessu frv.,, því að með því eru samkvæmt útreikningum hagfræðinga Landsbankans útvegaðar um það bil tvöfalt hærri upphæðir til húsnæðislána heldur en runnu til íbúðarhúsnæðiskerfisins á s.l. 2 árum, sem gildandi löggjöf náði yfir. Það, að till. þeirra eru þess eðlis, að þeir auka ekki fjármagn nú skv. till. sínum, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, sýnir það, að þeir viðurkenna, að hér sé verulega úr bætt. Hitt skal játað, að ófremdarástand þessara mála er slíkt nú, að það hefði þurft að margfalda þetta fé, til þess að hægt væri að vinna upp það, sem saman hefur safnazt af óafgreiddum lánbeiðnum fólks, sem árum saman hefur staðið í stríði að byggja sér íbúðarhúsnæði yfir höfuð sér og sinna. En það verður að horfast í augu við það, að geta er ekki til þess að bæta úr þessu í einu vetfangi, en það er þó svo myndarlega tekið á um það, að strax á þessu ári tvöfaldast fjármagnið, og þegar fram í sækir eykst bæði afl byggingarsjóðsins sjálfs og tekjurnar að öðru leyti, og ég hygg, að þetta frv. beri þess merki fremur en fyrri löggjöf, að~ hér er ætlazt til, að efld sé byggingarstarfsemin til sjávar og sveita, einnig í sveitunum, þannig að öll þjóðin njóti góðs af samþykkt þessa frv. Þess vegna verður engin dáð eða dugur í stjórnarandstöðu til þess að berjast á móti þessu frv., hversu sem menn í geðvonzkuköstum blása sig hér upp á móti þessu máli. Það verður enginn alvörutónn í þeirri andstöðu, enda hefur ekki verið rætt hér af rökum, heldur af ofsa og með stóryrðum og fúkyrðum af hv. þm. N-Ísf., og á frsm. minni hl. enga hlutdeild í þeim ásökunum, hann hefur hagað sér sem prúðmenni í þessum umr., en hv. þm. N-Ísf. því miður á annan hátt.