11.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Rannsókn kjörbréfa

Síðari frsm. 2. kjördeildar (Jón Pálmason):

Eins og hv. 1. þm. Eyf. tók hér fram, þá fór það svo varðandi það eina kjörbréf, sem hér er ágreiningur um, sem er kjörbréf Guðmundar Í, Guðmundssonar, hæstv. utanrrh., að kjördeildin klofnaði í tvo jafna hluta, þannig að átta vildu taka þetta kjörbréf gilt, en átta vildu fella það, og byggja það á sama grundvelli og greint var frá af frsm. minni hl. 1. kjördeildar, hv. 1. þm. Reykv., því að það er tillaga okkar sjálfstæðismanna, að þau fjögur kjörbréf uppbótarþingmanna Alþýðuflokksins, sem um er að ræða, fylgist að, En bæði vegna þess, að hv. 1. þm. Eyf. fór nokkuð rækilega út í málið sjálft, og að öðru leyti vegna þess, að þetta er stórt deilumál og víðtækt, þá þykir mér ástæða til að fara um það nokkrum orðum og greina frá skoðun minni og áliti á þeim atriðum, sem helzt koma til greina í þessu sambandi.

Í þeim alþingiskosningum, sem fram fóru 24. júní s. l., gerðust ýmsir atburðir og sum úrslitin óvænt, eins og gengur. En eitt meginatriði yfirgnæfði allt annað sem einstætt fyrirbrigði, og það voru aðferðir og framferði bandalags Framsfl. og Alþfl., sem almennt gengur undir nafninu Hræðslubandalagið. Þær deilur, sem orðið hafa meðal þjóðarinnar fyrir og eftir kosningar og hinn alvarlegi ágreiningur innan landskjörstjórnar um lögmæti þeirra aðferða, sem þetta bandalag hafði í frammi, sýnir það og sannar, að hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Það er ekkert stundarfyrirbæri eða persónuhagsmunaatriði, hvort einstöku mönnum á að haldast það uppi að brjóta helgustu grundvallarlög okkar lýðveldis, stjórnarskrána og kosningalögin, annað hvort eða bæði, og því alvarlegra er málið, þegar það eru heilir stjórnmálaflokkar og heldur tveir en einn, sem eru sakaraðilar. Af því að slíkt er einstakt í okkar stjórnmálasögu, þá verður að athuga það mjög nákvæmlega hér á Alþingi. Það verður að ræða málið niður til grunna og afgreiða það á eðlilegan hátt í samræmi við ströngustu lagafyrirmæli. Það veltur á svo miklu, hvort sjálft Alþingi er rétt kosið eða ekki, að um það má ekki vera neinn vafi, og þegar fimm valdir menn og fróðir, sem skipa landskjörstjórn, klofna í þrjá hluta, þá er auðsætt, að hér er um að ræða mjög alvarlegt afbrotamál, sem þó er ekki einsætt, á hvern veg skuli með fara.

Í kosningabaráttunni hafa fulltrúar Hræðslubandalagsins nokkrum sinnum vitnað í ummæli, er ég hafði hér á Alþingi um kosningabandalög 1953, þegar kássufrv. sæla var til meðferðar. Þau hnigu að því, að vitanlega gætu stjórnmálaflokkar haft bandalag í kosningum á löglegan hátt. Ég vil taka það fram hér, að það, sem ég hef á prenti séð eftir mér haft um þetta, er rétt með farið, enda eru ummælin þannig, að ég er ekkert við það hikandi að standa við þau og enda reiðubúinn að endurtaka þau, En ég legg áherzlu á tvennt í þessu sambandi, í fyrsta lagi það, að ég ræddi ekkert um það, hvernig kosningabandalög þyrftu að vera til þess að vera lögleg, og í öðru lagi hitt, að ég minntist ekkert á uppbótarþingsæti í því sambandi, en þetta tvennt er einmitt það, sem nú standa deilurnar um. Ég hef engan mann heyrt, sem fordæmir öll kosningabandalög milli flokka, og tel vafasamt, að nokkrir menn, sem standa í stjórnmálabaráttunni, vildu setja það inn í stjórnarskrána að banna algerlega öll bandalög. Það yrði líka örðugt að framfylgja slíku banni í framkvæmd. Við, sem fylgzt höfum með stjórnmálasögu okkar þjóðar síðustu áratugi, vitum það vel, að það hafa margsinnis verið bandalög milli flokka við kosningar, stundum stjórnað af forustumönnum flokka, en stundum af óbreyttum kjósendum innan kjördæmanna. Hið fyrsta kosningabandalag, sem ég man eftir við almennar alþingiskosningar, var milli Framsfl. og Alþfl, vorið 1927. Þetta var leynibandalag og framkvæmt á mjög sniðugan hátt. Í sveitakjördæmunum, þar sem ég þekki bezt til, var þetta framkvæmt á þá leið, að frambjóðendur Framsfl. fóru þannig með, að engar grunsemdir voru um það, að þeir væru nokkuð annað en frambjóðendur síns flokks, og baráttan öll við það miðuð. En bak við tjöldin og algerlega í leyni var samið við kjósendur, sem fylgdu Alþfl., og þeir fengnir til að kjósa framsóknarmenn þá, sem voru í kjöri. Þá voru engin uppbótarþingsæti til og fámennir hópar Alþfl.-kjósenda höfðu um tvennt að velja, að eyðileggja sín atkv. eða kjósa þann frambjóðanda, sem þeir töldu standa sér nær í skoðunum. Þeir skiptust sennilega eitthvað, en meiri hluti þeirra kaus framsóknarmennina, og leynisamningarnir bak við tjöldin studdu þar að.

Þetta kosningabandalag hafði þau áhrif, eins og kunnugt er, að þessir tveir flokkar náðu meiri hluta á Alþ. og tóku við stjórn landsins, Sú stjórn réð í fjögur ár, en snemma árs 1931 slitnaði vináttubandið milli flokkanna á Alþ. út af deilum um stjórnarskrána, Sogsvirkjunina o. fl. Var nokkuð hastarlegur endir þeirra vináttumála í þingrofinu 14. apríl 1931.

En þótt svona færi milli alþm. þessara bandalagsflokka, þá fór ekki alveg eins meðal kjósendanna almennt í landinu. Alþfl.-kjósendurnir voru komnir á framsóknarspenann víða um land og vildu ekki taka því með þökkum að láta færa sér frá. Leynibandalagið hélt því áfram furðu víða og hafði þau áhrif, að Framsfl. einn náði meiri hluta í þingrofskosningunni vorið 1931. Í þriðja sinn reyndu þessir sömu flokkar að viðhalda sínu leynibandalagi í alþingiskosningunum 1934. Einkum voru það þó framsóknarmenn, sem létu sér annt um það, en þetta fór út um þúfur víðast hvar. Aðstaðan var nú líka gerbreytt fyrir Alþfl. frá því, sem áður hafði verið, því að í þessum kosningum komu reglurnar um uppbótarþingsætin fyrst til sögunnar. Alþfl. gat því safnað saman sínum kjósendum og fengið uppbótarþingsæti út á safnið, Fékk hann líka sinn stærsta sigur á ævinni í þeim kosningum og 10 alþingismenn.

Alltaf síðan hefur líka framsóknarmönnum verið mjög illa við uppbótarþingmenn. Þeir sáu réttilega, að með tilkomu þeirra töpuðu þeir mörgum stuðningsaðilum víða um land, Fór líka svo, að leynibandalagsaðferðin var ekki reynd eða bar að minnsta kosti ekki árangur í 22 ár. Í kosningunum 1953 var þó gerð tilraun í þessa átt í nokkrum kjördæmum, en það misheppnaðist alveg, þ. e. a. s. þessir flokkar náðu engu þingsæti vegna þeirrar viðleitni.

Fimmta tilraunin með kosningabandalag tveggja flokka við almennar alþingiskosningar var svo bandalag sjálfstæðismanna við Bændaflokkinn vorið 1937. Það bandalag var meira með opinberum hætti en þau bandalög Frams.- og Alþfl., sem ég hef hér stuttlega minnzt á. Var þetta bandalag af ýmsum kallað „Breiðfylking Íslendinga“. Því hefur verið haldið fram af ýmsum forsvarsmönnum Hræðslubandalagsins, að þessi tvö bandalög hafi verið eins. En ég vil segja það, að þeir, sem tala svo eða skrifa, láta svo sem þeir hafi ekki vit á við meðalgreinda menn, og mér þykir það ákaflega leiðinlegt, að svo gáfaður maður sem vinur minn, hv. 1. þm. Eyf. (BSt), skuli flaska svo hroðalega, að fara að jafna þessu saman, eins og hann gerði í ræðu sinni hér áðan, því að það að jafna þessum tveimur bandalögum saman er svo mikil fjarstæða, að það er furða, að nokkrum skuli detta það í hug.

Í fyrsta lagi buðu sjálfstæðismenn og Bændaflokkur hvorir gegn öðrum í 7 kjördæmum, Snæfellsnessýslu, A.- Húnavatnssýslu, Eyjafjarðarsýslu, S.- Þingeyjarsýslu, N.-Múlasýslu, V.- Skaftafellssýslu og Árnessýslu. Það skal tekið fram, að í 3 þessum sýslum, sem eru tvímenningskjördæmi, buðu flokkarnir ekki fram nema einn mann hvor og reyndu að sameina kjósendurna með samkosningum. Raunar mistókst það mjög eins og bandalagið allt.

Í öðru lagi er þess að geta, að 1937 var hvergi hlutfallskosning nema í Reykjavík einni og engin tilraun gerð til að rugla saman beinni kosningu og hlutfallskosningu, eins og nú var gert og ég kem síðar að. Ég heyrði ekki, að nokkur orðaði það að hafa aðra en eindregna sjálfstæðismenn á kjörlista Sjálfstfl. í Reykjavík.

Í þriðja lagi leyfi ég mér að fullyrða, að Sjálfstfl. fékk engan þm. kosinn 1937 vegna þessa bandalags.

Í fjórða lagi er svo það, sem í þessu sambandi er aðalatriðið, að hjá Breiðfylkingunni var engin tilraun gerð til að brjóta stjórnarskrána með því að svindla á uppbótarþingsætum. Það var ekki heldur hægt, þó að reynt hefði verið, því að báðir bandalagsflokkarnir fengu uppbótarþingsæti eftir þessar kosningar, Bændaflokkurinn eitt, en Sjálfstfl. fimm. Ef uppbótarþingsætum hefði eftir þessar kosningar verið úthlutað sameiginlega á Sjálfstfl. og Bændaflokkinn, sem vel hefði getað komið til mála, þá hefði það bandalag haft möguleika á því að fá einum þm. fleira en ella. Svo einkennilegar voru kosningatölurnar þá, að síðasta uppbótarþingsætið hefði oltið á hlutkesti, ef sameiginlega hefði verið úthlutað á bandalagið. Þetta er þannig að skilja, að áttundi maður Alþfl, og tuttugasti maður Breiðfylkingarinnar hefðu haft nákvæmlega jöfn atkv. eða 1385½ atkv. hvor.

Öll þau bandalög, sem ég hef hér vikið að, takmörkuðu sig við nokkur kjördæmi, en náðu ekki til annarra. Þau voru ýmist alveg leynileg eða þá þannig með farin, að nokkuð örðugt mundi hafa verið að festa hendur á þeim sem afbrotafélögum. Ekkert þeirra hafði viðleitni til að brjóta gegn anda, tilgangi og ákvæðum okkar stjórnarskrár með því að hafa svik í frammi varðandi úthlutun uppbótarþingsæta.

En í nýafstöðnum kosningum komu til sögunnar tvö kosningabandalög allt annars eðlls en öll hin. Nú var ekki verið að fara í launkofa með tilganginn, starfsemina og aðferðirnar. Það var skrifað og talað um það fyrir opnum tjöldum. Á þessum bandalögum er í rauninni mjög lítill eðlismunur. Alþb. var bandalag Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl. og Málfundafélags jafnaðarmanna, sem er minni hluti Alþfl. Hræðslubandalagið var bandalag Framsfl. og meiri hluta Alþfl. Bæði hefðu átt að hlíta sömu lögum, en það var nú ekki alveg. Alþb. fór löglegar leiðir og dró enga dul á, að það var eindreginn félagsskapur, einn og sami kosningaflokkurinn. Það sýndi enga viðleitni til að svindla á uppbótarþingsætum. Innan þess hafa án efa verið einhverjar deilur, eins og gengur og gerist, um það, úr hverjum arminum frambjóðendurnir ættu að vera á þessum og þessum stað, en á yfirborðinu virtist allt vera í bróðerni og félagsskapurinn eindreginn. Gegn slíku bandalagi standa aðrir aðilar varnarlausir. Þannig bandalög geta tvímælalaust staðizt án þess að reka sig á stjórnarskrána eða kosningalögin. Bandalagið hlýtur þó að hafa notið þess, að Sósfl. var áður búinn að vinna sér fullan rétt sem löglegur stjórnmálaflokkur, „Hræðslubandalagið“ fór allt öðruvísi að. Fulltrúar þess, forustumenn og frambjóðendur skrifuðu í blöðin og töluðu á ótal fundum um það, að þetta félag væri ein kosningablokk, sem ætti og ætlaði sér að ná meiri hluta þm., það væri órjúfandi félagsskapur, þar sem allir hagsmunir og öll stefna færi saman, hagur annars armsins væri hagur hins, tjón annars væri líka tjón hins. En þrátt fyrir þetta allt héldu þessir sömu menn því fram, að þetta félag væri eftir sem áður tveir kosningaflokkar, sem bæri þá fyrst að aðskilja, þegar kosningarnar væru um garð gengnar og til þess kæmi að úthluta uppbótarþingsætum. Allt verzlunarspilið var líka þannig undirbúið með sameiginlegum frambjóðendum um land allt, að þeir í félaginu, sem kölluðu sig Alþfl.- menn, skyldu fá framboðið þar, sem Framsfl. hefði enga sigurvon, og um leið atkv. allra þeirra kjósenda þar, sem Framsfl. fylgja. Um leið skyldu þeir svo fá tækifæri til að láta úthluta sér uppbótarþingsætum á alla þessa kjósendur úr félagsbúinu, eins framsóknarmenn sem hina.

Á hinn bóginn var svo fyrrverandi kjósendum Alþfl. skipað að kjósa þá frambjóðendur, sem kallast framsóknarmenn, þar sem Alþfl. hafði alls enga sigurvon, allt til þess, að líkur væru til, að sem flestir framsóknarmenn næðu kosningu, án þess að til þyrfti nema sem minnst atkvæðamagn. Svo langt gengu þessir menn, eins og landskunnugt er, að þeir röðuðu á kjörlista í tveimur hlutfallskosningakjördæmum, Árnessýslu og Reykjavík, frambjóðendum af báðum flokkum, annaðhvort til að undirstrika það, hvað félagsskapurinn væri alger og blokkin vatnsþétt, eða til þess að storka landskjörstjórn og Alþingi.

Vigfús Jónsson, sem var í öðru sæti í Árnessýslu á lista, sem þó er kallaður Framsóknarflokkslisti, er þekktur sem einn af forustumönnum Alþfl. í því héraði og hafði í næstu kosningum áður verið efstur á lista þess flokks. Nú var hann látinn prýða svonefndan Framsóknarflokkslista til sannindamerkis um það, hve félagsskapurinn væri tvímælalaus.

Rannveig Þorsteinsdóttir, sem verið hafði eini þingfulltrúinn, er Framsfl. hafði fengið kosinn 1 Reykjavík, var nú sett í þriðja sæti á svonefndum Alþfl.-kjörlista, og Skeggi Samúelsson, sem Framsfl. hafði lagt kapp á að koma inn í bæjarstjórn Reykjavíkur sem sínum fulltrúa, var nú ásamt fleiri mönnum settur á kjörlista, sem þó var eftir sem áður ætlazt til að héti Alþfl.-listi og fengi uppbótarþingsæti sem slíkur.

Með svo miklu blygðunarleysi gekk Framsfl. til þessara verka, að hann auglýsti opinbera prófkosningu í flokknum til að velja sína frambjóðendur á kjörlista Alþfl. Eftir þessa prófkosningu voru þeir valdir.

Um alla þessa frambjóðendur í Reykjavík og Árnessýslu er því ekki nema tvennt til, annaðhvort ber að skoða þá sem löglega frambjóðendur og allt félagið einn flokk eða að þeir eru allir ólöglegir frambjóðendur og liggja undir sektarákvæðum 147. gr. kosningalaganna. En munurinn frá þessum frambjóðendum til flestra hinna er stigsmunur, en enginn eðlismunur, og kem ég síðar að því.

Um það stendur hér höfuðdeila, hvort skoða beri Hræðslubandalagið einn flokk eða tvo við úthlutun uppbótarþingsæta. Um það var landskjörstjórn klofin í þrennt, þótt undarlegt megi telja. Ég segi svo, af því að mér finnst ekki nema tvennt til, annaðhvort eða, annaðhvort einn flokkur eða tveir.

Aðalkrafa okkar sjálfstæðismanna er sú og sú eina till., sem við berum fram, að þetta bandalag sé eins og Alþb. tekið sem einn aðili við úthlutun uppbótarþingsæta. Þessi till. er byggð á því, að með þessu móti og þessu móti einu er hægt að gera allt fyrirtækið löglegt og slá striki yfir öll lögbrotin, Þetta er einfaldasta leiðin og vægasta meðferðin, sem lögum samkvæmt er hægt að hafa á þessu bandalagi. Sá galli fylgir þessu, að hegningin kæmi með því móti eingöngu niður á öðrum aðilanum og það þeim, sem sakaminni er. En þeirri úrlausn er það þó til afsökunar, að félagsskapurinn er svo náinn, að ekki er auðvelt að sjá á milli, hvað eru hagsmunir þessa eða hins, þegar allt kemur til alls.

Nú er um það allvíðtækur orðrómur, að hæstv. ríkisstj, sé búin að tryggja það, að þessi till. verði felld, og það sé tryggt á þann hátt, að fulltrúar Alþb. hafi selt skoðun sína og sannfæringu í þessu máli, sem þeir höfðu þó margsinnis enga dul dregið á hver er. Setjum nú svo, að þessi verði niðurstaðan, og allt virðist nú geta skeð. En þá er ástæða til að ræða málið frá þeirri hlið, að því verði slegið föstu með meirihlutasamþykkt hér á Alþ., að Hræðslubandalagið beri að skoða sem tvo flokka við úthlutun uppbótarþingsæta. Þá liggur fyrir að sýna fram á það, að hverju leyti frambjóðendur þessa bandalags eru brotlegir við lög, og ræða það, hvernig þau brot væri réttast að fara með samkv. hinum sömu lögum.

Eins og gefur að skilja, eru það lög um kosningar til Alþingis, sem þarna koma til greina, það eru lög nr. 80 7. sept. 1942, sbr. lög nr. 56 7. maí 1946 og lög nr. 20 2. marz 1950. Upphaf 29. gr. laganna hljóðar svo:

„Við hinar sömu alþingiskosningar má enginn bjóða sig fram í fleiri kjördæmum en einu, vera á fleiri framboðslistum en í einu kjördæmi, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, eða vera í kjöri fyrir fleiri en einn stjórnmálaflokk.“

Eins og menn sjá, er þetta skýlaust bann við því að vera í kjöri fyrir fleiri en einn stjórnmálaf lokk. En svo koma viðurlögin. 4. mgr. 142. gr. laganna er svo:

„Ef þingmaður hefur verið í kjöri í tveimur kjördæmum eða á tveimur listum eða fyrir fleiri stjórnmálaflokka en einn eða fyrir stjórnmálaflokk og jafnframt utan flokka við hinar sömu alþingiskosningar, úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda.“

Samkv. þessu er það augljóst, að Alþ. getur úrskurðað ógilda kosningu þeirra þingmanna, sem verið hafa í kjöri fyrir fleiri en einn stjórnmálaflokk. Ég legg áherzlu á það, að það er Alþ. og eingöngu Alþ., sem hefur úrskurðarvald í þessa efni. Það er ekki gert ráð fyrir, að slíkt mál komi til landskjörstjórnar, enda ekki eðlilegt, því að það kæmi, eins og nú stendur, þá fyrst til, þegar búið væri að fella það endanlega að úthluta uppbótarþingsætum á flokkabandalagið sem einn flokk. Verði það gert hér og því slegið föstu með samþykkt Alþ., að bandalagsflokkarnir séu tveir, þegar uppbótarþingsætum er úthlutað, þá væri að sjálfsögðu eðlilegt að meðhöndla bandalagið sem slíkt. Þá er heldur enginn vafi, að flestir frambjóðendur Hræðslubandalagsins hafa verið ólöglegir frambjóðendur, af því að þeir voru í kjöri fyrir tvo stjórnmálaflokka. En það er meira um þetta í okkar kosningalögum. Í 147. gr. þeirra laga er það upp talið, hvaða afbrot varði sektum frá 20–200 krónum. Annar liður þeirrar upptalningar er á þessa leið:

„Ef maður býður sig fram í fleiri kjördæmum en einu eða á fleiri listum en einum eða fyrir fleiri stjórnmálaflokka en einn eða fyrir stjórnmálaflokk og jafnframt sem utanflokkamaður.“

Eins og allir geta séð, er samkv. þessari lagagrein hægt að sekta alla þá frambjóðendur, sem verið hafa í kjöri fyrir fleiri en einn stjórnmálaflokk. Þessir menn voru nokkuð margir í Hræðslubandalaginu á síðasta vori, ef þeir vilja endilega samþykkja það, að bandalagið sé tveir stjórnmálaflokkar. Það hefur verið sýnt fram á það, svo að ekki er um að villast, að þetta gildir um alla frambjóðendur viðkomandi bandalags í Reykjavík og í Árnessýslu. Þar liggur þetta svo ljóst fyrir, að ekki þarf lengra að leita en á kjörlistana sjálfa. Þeir eru óræk sönnun. En þessi sama sök hvílir á nokkuð mörgum öðrum frambjóðendum, eins og ég skal nú víkja að.

Í mínu héraði var frambjóðandi bandalagsins Bragi Sigurjónsson talinn frambjóðandi Alþfl. En það kom dálítið meira upp á diskinn, því að það sannaðist greinilega, að hann var líka frambjóðandi Framsfl., enda ekki dregin nein dul á það. Alls ekki. Í fyrsta lagi samþykkti félag framsóknarmanna í héraðinu að kjósa frambjóðanda, sem Alþýðuflokkurinn tilnefndi. Það var ekki svo mikið við haft að fá að vita, hver maðurinn yrði. Síðan kom framboðið á löglegum tíma. Því fylgdi fullkomlega áskilin tala meðmælenda. En hverjir voru það? Nokkrir Alþýðuflokksmenn að vísu, en meiri hlutinn framsóknarmenn og þar á meðal flestir helztu forustumenn þess flokks í héraðinu. Þar var styrkleiki frambjóðandans undirstrikaður.

Í sjálfri kosningabaráttunni bar tiltölulega lítið á áróðri frá hálfu Alþýðuflokksmanna fyrir fylgi við hinn sameiginlega frambjóðanda. Hann var þeim mun meiri frá framsóknarmönnum. Þaðan var hann svo að segja allur. Frambjóðandi ferðaðist sveit úr sveit og bæ frá bæ, eins og gengur, en alls staðar með fylgd framsóknarmanna. Og þeir lögðu alls staðar á það áherzlu, framsóknarmennirnir, að þessi óþekkti maður væri þeirra frambjóðandi. Um það var enginn látinn vera í vafa. Kosningaúrslitin sönnuðu þetta þó allra bezt, því að við, sem þekkjum styrkleik flokkanna í sýslunni, vitum það, að af hverjum fimm kjósendum, sem kusu Braga Sigurjónsson, voru a. m. k. fjórir framsóknarkjósendur. Ég hef rakið þetta svo náið, af því að þarna er mér spilið kunnugast, en ekki af því, að ég búist við, að þarna hafi þetta verið nokkuð verra en viða annars staðar. Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið svipað. Þannig mun þetta hafa líka verið viða um land, vitanlega dálítið breytilegt eftir því, hvernig verzlunarspilin lágu á borðinu í hverju kjördæmi. Þeir eru því ærið margir frambjóðendur Hræðslubandalagsins, sem voru í kjöri fyrir tvo flokka í síðustu kosningum, ef menn vilja halda fast við það, að bandalagið hafi í kosningunum verið tveir stjórnmálaflokkar, en ekki einn.

Engin regla er þó án undantekningar, segir máltækið, og svo er um þessa. Eftir því sem næst verður komizt, voru fjórir frambjóðendur Framsfl., sem náðu kosningu, að því leyti utan við þessa sök, að þeir verða ekki sakaðir sjálfir um lögbrot í þessu efni. Eftir öllum líkum að dæma hafa þeir þó samþykkt lögbrot hinna og bandalag í heild. Þessir fjórir eru Ásgeir Bjarnason, þm. Dal., Páll Þorsteinsson, þm. A-Sk., og Páll Zóphóníasson og Halldór Ásgrímsson, þingmenn N-M.

Af hverju hafa þessir menn sérstöðu, munu einhverjir vilja spyrja. Það er einfaldlega af því, að ekki er hægt að færa sönnur á, að í þessum þremur kjördæmum væri nokkur Alþfl. til. Hann var horfinn til Framsóknar fyrir þessar síðustu kosningar. Svo var langt komið í kosningunum 1953, að í Dalasýslu hékk aðeins einn kjósandi eftir á landslista Alþfl., í Austur-Skaftafellssýslu voru þeir tveir og í Norður-Múlasýslu 13, Í þessum kosningum hélt þessi eini í Dalasýslu enn sitt strik, en ekki nema 8 í Norður-Múlasýslu. Hafa þeir neitað þeirri fyrirskipun að hverfa til Framsóknar. Hinir fimm í Norður-Múlasýslu hafa e. t. v. hlýtt kallinu, en þeir hafa líka getað flutt í burt eða dáið. Í Austur-Skaftafellssýslu óx þróttur Alþfl. svo mjög, að nú komu 7 á landslistann í stað tveggja 1953.

Þessa alls vegna eru nú fjórir þingmenn Framsfl. það heppnir, að um þeirra kjörbréf getur ekki verið nokkurn hlut að deila. Hinir allir virðast sekir um það lögbrot að vera í kjöri fyrir tvo flokka, ef þeir vilja endilega skipta sínu Hræðslubandalagi í tvennt við úthlutun uppbótarþingsætanna. Þá liggja þeir allir undir sektarákvæðum 147. gr. kosningalaganna, ef málið væri kært, Það liggur þá nokkuð ljóst fyrir eftir úrslit kosninganna, að 11 þessara manna hefðu ekki þurft á neinu Hræðslubandalagi að halda. Þeir hefðu verið kosnir án þess. Það eru í fyrsta lagi tveir Alþfl.-menn, Emil Jónsson, þm. Hafnf., og Haraldur Guðmundsson, 4. þm. Reykv., í öðru lagi fimm framsóknarmenn í tvímenningskjördæmum og í þriðja lagi fjórir framsóknarmenn í einmenningskjördæmum: Strandasýslu, V.-Húnavatnssýslu og báðum Þingeyjarsýslum. Þá eru eftir sex menn, sem beinlínis hafa verið kosnir vegna þess, að þeir voru í kjöri fyrir tvo stjórnmálaflokka. Þeir eru frá þessum kjördæmum: Mýrasýslu, Barðastrandarsýslu, V-Ísafjarðarsýslu, Siglufirði, Akureyri og Seyðisfirði. Það væri sú eðlilega varatill., þó að Sjálfstfl, flytji hana ekki, að kjörbréf þessara sex manna væru ógilt samkvæmt ákvæðum 142. gr. kosningalaganna, ef það verður fellt hér að úthluta uppbótarþingsætunum á bandalagið sem eina heild. Um leið yrði þá að ákveða uppkosningu á löglegan hátt í þessum sex kjördæmum og fresta Alþ. og úthlutun uppbótarþingsæta allra, þar til því væri lokið.

Um þá sex menn, sem ég tel náð hafa kosningu vegna þess, að þeir voru frambjóðendur tveggja flokka, er aðstaðan annars nokkuð breytileg. Þó er það hverjum manni, sem með fylgist, augljóst um fimm þessara manna, að þetta er svo, því að enginn þeirra hefði getað haft von um sigur án bandalagsins. Um þann sjötta, Björgvin Jónsson, þm. Seyðf., er það að segja, að þetta liggur ekki eins í augum uppi vegna þess, hve mikinn meiri hluta hann fékk. Þó eru fyrir þessu svo sterkar líkur, að nærri stappar vissu. Ef ekkert bandalag hefði verið, þá hefði á Seyðisfirði vafalaust verið fjórskipt kosning. Við hefði bætzt frambjóðandi Alþfl. og án efa fyrrv. alþm. Eggert Þorsteinsson. Þótt gert væri ráð fyrir, að við það hefði ekkert hækkað atkvæðatala Lárusar Jóhannessonar, sem enginn veit þó um, þá eru sterkar líkur til, að Eggert Þorsteinsson hefði orðið kosinn. Hann er maður, sem hefur reynzt vel á Alþ. og átti að hafa mikla möguleika til að bæta við sig fylgi. En þó svo að hann hefði ekkert fengið nema sín 124 atkvæði, eins og 1953, þá er hann samt kosinn, því að þá átti Björgvin ekki eftir nema 116 og var auðvitað fallinn. Lögbrotin hafa því bjargað þessum manni eins og hinum fimm.

Af því, sem hér hefur verið sagt, getur verið um tvennt að velja í þessu leiðinlega máli, ef Alþ. eða meiri hl. þess vill annars nokkuð hirða um, að farið sé eftir stjórnarskránni og kosningalögunum, annaðhvort það, sem er till. okkar sjálfstæðismanna, að úthluta uppbótarþingsætum á bandalagið sem einn flokk eða að skoða það sem tvo flokka og ógilda kjörbréf þeirra sex manna, sem bjargazt hafa gegnum kosningarnar á lögbrotum. Það mætti segja, að það væri álitamál, hvort réttmætara væri, en Sjálfstfl. flytur ekki till. um annað en fyrri leiðina. Það er ekki heldur vafi, að sú aðferðin er vægari meðferð og skemmtilegri fyrir aðilana sjálfa. Með því eina móti er hægt að slá striki yfir lögbrotin á einfaldan hátt og án uppkosninga og þingfrestunar.

Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm, Eyf., talaði töluvert um það, að þetta væru allt saman blekkingar, að það væru forustumenn flokka og bandalag, sem réði því, hvernig fólkið kysi; fólkið réði því sjálft og það væri frjálst um það að kjósa eins og því sýndist. Þetta lætur nokkuð vel í eyrum, og í mörgum tilfellum er þetta rétt, En við skulum hugsa málið dálítið nánar. Það er talið svo, að hjá Rússum og öðrum Sovétríkjum ráði fólkið því sjálft, hvern það kjósi, en það bara á ekki kost á því að kjósa neina aðra menn en þá, sem stjórnin stillir upp, Það má ekki stilla upp nema einum flokki, og fólkið á ekki kost á að kjósa neina aðra. Í þessum kosningum hefur verið beitt í takmörkuðum skilningi sömu aðferðunum. Ég held, að framsóknarmenn í Gullbr.- og Kjósarsýslu, í Borgarfjarðarsýslu, í Snæfellsnessýslu, í Austur-Húnavatnssýslu, á Siglufirði og á Akureyri hafi ekki verið í neinum vafa um það, að það var krafa þeirra flokks, að þeir kysu mann úr öðrum flokki. Það var hamazt á þeim, að þeir mættu ekki kjósa sinn eigin flokk. Þeim var ekki gefinn kostur á neinum frambjóðanda úr Framsfl. Þeir áttu þess vegna ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að hlíta vilja flokksstjórnarinnar eða sitja heima eða skila auðu eða eitthvað því um líkt, ef þeir ekki vildu kjósa menn úr öðrum flokkum, Sama held ég að megi segja um Alþfl.-mennina t. d. í Barðastrandarsýslu, í V.-Ísafjarðarsýslu, í V.-Húnavatnssýslu og víðar. Þeim var ekki gefinn kostur á neinum frambjóðanda frá Alþfl, Þeim var fyrirskipað að kjósa framsóknarmanninn, alveg eins og á sér stað, þar sem ekki má stilla upp nema manni af einum flokki.

Þess vegna er það, að þótt vinur minn, hv. 1. þm. Eyf., haldi þessu mjög rækilega fram, að það hafi verið fólkið, sem var þarna alveg sjálfrátt, þá er það ekki nema í takmörkuðum skilningi.

Að lokum vil ég taka þetta fram:

Ég veit, að ýmsir menn hugsa sem svo, að það sé vafasamt, hvort rétt sé að gera nokkra rekistefnu út af þeim lagabrotum, sem hér hafa verið nefnd. Til að svara þeirri spurningu cr vert að athuga nokkra þætti kosningaúrslitanna. Þau eru þannig eins og horfir og að samþykktum öllum kjörbréfum, að Framsfl. hefur 760 atkvæði á hvern þingmann, Sjálfstfl. 1843 atkvæði á hvern sinn þingmann og Alþb. 1982 atkvæði, og eru þá taldir með þeir uppbótarþingmenn, sem tveim hinum síðarnefndu flokkum eru ætlaðir. Við vitum, að þetta stafar að verulegu leyti af gallaðri kjördæmaskipun. Ef það stafaði allt af þeim orsökum, þá væri ekkert hægt við að gera eða segja. En þar er ekki nema önnur orsökin, og þegar við hana bætist það, að sá flokkur, Framsfl., sem kosningu eftir kosningu hefur notið sérréttinda vegna gallaðrar kjördæmaskipunar, tekur upp á því, og beitir sér sérstaklega fyrir því að þrjóta kosningalögin og vinna gegn anda, tilgangi og ákvæðum 31. gr. í stjórnarskrá Íslands, þá er komið út á það svið, að með engu móti er við unandi.

Þau ákvæði í stjórnarskrá Íslands, sem hér er átt við, eru um skipun Alþ. í 31. gr., d-lið, og hljóða svo:

„Allt að 11 þm. til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar.“

Gegn þessum ákvæðum hefur Hræðslubandalagið brotið greinilega og óvefengjanlega með því að ætlast til, að Alþfl. fái uppbótarþingsæti út á þúsundir atkvæða frá Framsfl. Í því efni er Alþfl. nokkur vorkunn, því að allir þeir, sem í raunir rata, vilja reyna að bjarga lífi sínu á einhvern hátt. En Framsfl. er engin vorkunn. Hann er aðalsakaraðili í þessu máli. Hann beitir sér fyrir því að láta fimm til sex þúsundir sinna kjósenda kjósa annan flokk til að svíkja út uppbótarþingmenn og gera misréttið milli flokka miklu meira en til stendur samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem ég var að vitna hér til. Í augum okkar sveitamanna, sem gjarnan viljum halda sem hæstum rétti fyrir okkar fámennu sveitahéruð, er þetta hættulegasta brot, sem framið hefur verið, því að það er mjög hætt við því, að það hefni sin. Ég segi því, að ef Alþingi tekur ekki hart og lögum samkvæmt á slíku framferði þeirra, er sízt ættu að beita því, þá skilur það ekki sinn vitjunartíma. Þá á Alþingi ekki skilið að njóta þess trausts og þeirrar virðingar, sem því annars ber. Þá er Alþingi meðsekt í því að falsa sig sjálft og liða það, að stjórn okkar lýðveldis sé byggð á sviknum grundvelli. Þess vegna má ekki þagga þetta mál niður.