21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta er nú í annað sinn á þessu þingi, sem þessi mál eru til umr. Sumir hafa undrazt hringlið í þessum málum. Í haust var starf húsnæðismálastjórnar orðið svo umfangsmikið, á þeim tíma, sem vitað var að engir peningar voru til hjá sjóðnum, að nauðsynlegt var talið af hæstv. ríkisstj. að fjölga í stjórninni. Nú er aftur lagt til af sömu ríkisstj. að fækka á ný í stjórn sjóðsins. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. er nú orðið það ljóst, sem við sjálfstæðismenn bentum á þá, að það hefur meiri þýðingu fyrir umbætur í þessum málum að afla aukins fjár til framkvæmda heldur en að fjölga í stjórn sjóðsins. Ég held nú, að þessi læti í haust hafi aðeins verið óðagot af hæstv. félmrh., sem hefur grunað, að dregizt gæti með aðrar breytingar á lögunum, en ekki haft þolinmæði til að bíða eftir því með breytingar á stjórn sjóðsins.

Þegar lögin um húsnæðismálastjórn voru sett, var hér um algert nýmæli að ræða. Menn vissu þá ekki nákvæmlega, hvernig þau mundu reynast í framkvæmd. M.a. þess vegna var aðeins gerð áætlun og samningar um fjárútvegun til tveggja ára til framkvæmdar þessara mála.

Í hv. Ed. var bent á, að eðlilegt væri nú að notfæra sér þá reynslu, sem fengizt hefur með starfi húsnæðismálastjórnar þessi tvö ár, og endurskoða ákvæði laganna og gera þau fyllri og breyta þeim, þar sem nauðsynlegt væri. Að hæstv. ríkisstj. hefur ekki þann hátt á, er vafalaust af því, að það hefur þótt meiri skrautfjöður í hatt hæstv. ráðh. að bera fram mikinn lagabálk nýjan, þó að meiri hluti þess, sem í honum er, sé beint tekið upp úr eldri lögunum, og raunar ekki að saka neinn um það, þó að því sé haldið áfram, sem þar hefur reynzt vel. Það má kannske heita virðingarvert af hæstv. ráðh. að hafa þó gert það.

Það er ekki ágreiningur um það, að stefna beri að því, að allar fjölskyldur í landinu búi við mannsæmandi húsnæði, og ég vil bæta því við, að sem flestar fjölskyldur eigi það húsnæði sjálfar. Það er hins vegar eða virðist vera nokkur ágreiningur um það, hvað hátt beri að stefna. Stórhugurinn er misjafn. Menn eru ekki á einu máli um það, hvað við getum leyft okkur að búa við gott húsnæði. Frændur okkar, Svíar, telja t. d., að stefna beri að því, að hver meðlimur fjölskyldunnar hafi sér svefnherbergi, þó að flestar þjóðir verði um sinn að láta sér nægja minna og það mun minna.

Í Bandaríkjunum er, þegar talað er um íbúðir, venjulega talað um, að það sé íbúð með 1, 2 eða 3 eða fleiri svefnherbergjum, og það talið aðalatriðið um stærð íbúðarinnar, hvað mörg svefnherbergi þurfi, sem fer náttúrlega að mestu leyti eftir fjölskyldustærð. En stærð sameiginlega rýmisins til daglegrar notkunar allrar fjölskyldunnar leiðir svo beint af því.

Ég ætla að fara nokkrum frekari orðum um einstök atriði frv., eins og það er nú orðið, því að það hefur tekið nokkrum breytingum, eins og hæstv. ráðh. orðaði það svo hæversklega, sem ekki er nú annars vandi hans, að vera sérlega hæverskur. En það var svo, að í hv. Ed. sáu flokksbræður hans sér ekki annað fært en að bera fram við það mjög margar brtt., svo að það er orðið gerólíkt því, sem það var, þegar það var borið fram. Og eins og hæstv. ráðh. gat um áðan, þá var samstarf milli heilbr: og félmn. beggja d. um að fara yfir frv., og hv. þm. beggja deilda í þessum n. voru a.m.k. sammála um það, að frv. væri algerlega óhæft eins og það kom frá hæstv. ráðh. Um mikið af þeim brtt., sem gerðar hafa verið til lagfæringar á frv., var samkomulag meðal þm. í báðum d. og af ýmsum flokkum, því að það eru allir sammála um, að það sé rétt að gera það, sem unnt er, til þess að bæta úr húsnæðisskortínum og þeim lánsfjárskorti, sem fyrst og fremst orsakar það, að ekki er hægt að byggja eins ört eða mikið og þörf er á.

Í 1. gr. frv., þar sem talið er upp, hverjir sæti skulu eiga í húsnæðismálastjórn, er það ákvæði um fulltrúa frá Landsbanka Íslands, að hann skuli eigi hafa atkvæðisrétt um lánveitingar. Að vísu mun það hafa verið þannig í húsnæðismálastjórn undanfarið, að fulltrúi Landsbanka Íslands eða Landsbankinn hefur ekki kosið, að hann neytti atkvæðisréttar, en það liggur ekkert fyrir um það, að Landsbankinn vilji afsala sér því í framtiðinni, að hann hafi þar atkvæðisrétt.

Þá vil ég benda hér á, að í 12. málsgr. 2. gr. er ákvæði um það, að viðkomandi bæjarfélagi sé skylt að heimila byggingar undir vissum kringumstæðum og láta af hendi eða útvega landsvæði fyrir þær, ef með þarf með eignarnámi o.s.frv., og þegar það hefur farið fram, þá skal viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félmrh. Ég veit ekki, hvað hefur verið beint tilefni til þess, að þetta ákvæði er sett þarna inn. Mér dettur í hug, að það kunni kannske að hafa verið það,að það er nýbyrjað að byggja í Hafnarfirði, í byggingarhverfi rétt sunnan við bæinn, sem í munni manna hefur fengið nafnið „allsleysi“, og þetta er af því, að það er að vísu búið að skipuleggja þetta hverfi og úthluta þar lóðum, en til skamms tíma var þar allsleysi um annað, sem þurfti. Þar voru ekki vegir, þar voru ekki skolpveitur, rafmagn eða annað, sem nauðsynlegt er, til þess að hægt sé að ganga frá og fullgera byggingar og alveg sérstaklega náttúrlega til þess að hægt sé að búa í þeim. En þetta hefur sjálfsagt ekki verið af neinum illvilja bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á því að leysa vanda þeirra manna, sem húsnæðislausir eru og þurfa að byggja yfir sig og sína, heldur er þetta einfaldlega af því, að það er í mörg horn að líta fyrir þessi fátæku bæjarfélög víða um landið, og ég fæ nú raunar ekki séð, hvað mikla þýðingu það hefur að leggja þeim svona skyldu á herðar, sem mér er til efs að þeim sé nokkur möguleiki á að framkvæma frekar en þau gera. Ég held þau hafi fullan hug á því, flest bæjarfélög, a.m.k. þar sem ég þekki til, að undirbúa lóðir, byggingarlóðir, og vegi og leiðslur og annað að þeim, sem nauðsynlegt er, til þess að hægt sé að byggja, og gerir þetta satt að segja hvert bæjarfélag um sig eftir beztu getu.

Í 6. gr. er ákvæði um það, að þegar lánin eru veitt, skuli þau greidd lántakendum í peningum. Við lögðum til á fundum nefndanna, er um þetta var rætt, að það gæti verið skynsamlegt að hafa þetta ákvæði nokkru rýmra, þannig að heimilt væri, þegar vissum skilyrðum væri fullnægt og tryggt væri, að það kæmi sér vel fyrir lántakanda, að afhenda honum bréf fyrir lánunum. Það gætu verið þau atvik til, að lántakandi ætti jafnvel hægara með að selja bréfin en sjóðurinn og þá væri þetta til þess að rýmka um það fjármagn, sem til bygginganna fengist, sem vitanlega er aðaltilgangurinn með þessu öllu saman, og getum við því ekki séð, að hvaða baga gæti orðið að hafa þetta þarna nokkru rýmra.

Þá er hér enn fremur í b-lið 6. gr. ákvæði um, að lán megi ekki vera meira en 100 þús. kr. út á hverja íbúð. Það kann að vera, að mönnum sýnist þetta há upphæð nú, og sérstaklega það, að það verði fullerfitt að veita öllum úrlausn með að fá 100 þús. kr. út á þær íbúðir, sem nú verða byggðar á næstunni. En þó finnst mér sé óskynsamlegt að hafa þetta ákvæði í lögunum, það mætti hafa það í reglugerð, svo að auðveldara væri að breyta því, þegar aðstæður breyttust. Ég segi þetta alveg sérstaklega af því, að mér er kunnugt um það, að í þeim byggingarsjóðum, sem hér eru starfandi, eða lífeyrissjóðum, sem starfa að nokkru leyti öðrum þræði sem lánasjóðir fyrir þá, sem í þeim eru, til þess að gera þeim auðveldara með að byggja yfir sig, þá hefur þetta hámark einmitt nýlega verið hækkað, að ég hygg upp í 124 þús. kr., án þess að þar hafi þurft nokkra lagabreytingu til, og ég held, að það væri skynsamlegt að hafa það eins hér, að hafa þetta óákveðið í lögunum, en setja um það ákvæði í reglugerð og rýmka um lánsupphæðina, eftir því sem stofnuninni vex fiskur um hrygg og fært verður að lána meira út á hverja íbúð.

Þá er hér ákvæði í g-lið þessarar sömu greinar um það, að setja megi ákvæði um hámarksstærð íbúða, sem veita má lán til. Þar tel ég að nauðsynlegt væri að hafa ákvæðin ekki svona afdráttarlaus, heldur hafa möguleika til þess, að taka mætti tillit til fjölskyldustærðar, því að það er vitanlega fásinna hin mesta að ætla mismunandi stórum fjölskyldum jafnstóra íbúð. Og sérstaklega er það svo, eins og kom þráfaldlega í ljós, þegar byggt var hér eftir lögunum um smáíbúðir, að menn töldu sér þær íbúðir, sem þá var leyft að byggja, ófullnægjandi og töldu sig geta og gátu með mjög litlum aukakostnaði skapað sér möguleika til að stækka þessar íbúðir verulega síðar, með því t.d. að hafa nokkru hærra port á þessum húsum en gert hafði verið ráð fyrir upphaflega, og ég veit, að þetta hefur gert mörgum fjölskyldum mögulegt fyrr en ella að fá yfir sig mannsæmandi íbúðir og vafalaust með eins litlum kostnaði tiltölulega og mögulegt er. Ég tel óskynsamlegt að hafa ákvæðin svo einstrengingsleg, að þetta sé ekki hægt.

Þá er hér enn síðar í þessum sama lið heimilt að setja það skilyrði fyrir láni, að bygging skuli hafin á tilsettum tíma árs og að bygging sé ekki hafin, áður en skriflegt lánsloforð er gefið, nema leyfi húsnæðismálastjórnar komi til, og að bygging sé undirbúin með þeim hætti, sem húsnæðismálastjórn telur nauðsynlegt. Ég held, að það verði ákaflega erfitt úti um landið að fullnægja þessum skilyrðum og væri raunar ógerningur, nema húsnæðismálastjórn hefði umboðsmenn úti um allt land, sem ekki er gert ráð fyrir, a.m.k. ekki í þessu tilfelli. Það er gert ráð fyrir, að umboðsmenn húsnæðismálastjórnar um greiðslur, lánagreiðslur og slíkt, verði lánsstofnanir úti á landi, en ég hef hvergi séð eða heyrt getið um það, að umboðsmenn væru í þessu skyni úti um landið eða þeim aðilum, lánsstofnunum úti um landið, sé heimilt að veita mönnum leyfi til þess að hefja byggingar eða annað slíkt. En ég held satt að segja, að ef þetta ákvæði verður haft svona, verði þeim, sem ætla að hefja byggingar, gert nauðsynlegt annaðhvort að fara hingað suður á fund húsnæðismálastjórnar eða hafa þar umboðsmann, eins og þeim málum er nú háttað hér. Mér er sagt, að menn þurfi að bíða dögum saman og jafnvel fram á nætur eftir að fá viðtal við þessa háu herra og það jafnvel í vetur á þeim tíma, þegar mjög litlar vonir voru þó um, að nokkra úrlausn væri þar að fá. Ef menn eiga, auk þess sem þeir þurfa nú að sækja þetta svona um lánveitingarnar, til viðbótar að byrja á því að fara sömu gönguna til þess að fá leyfi til þess að byrja að grafa fyrir grunni á húsi, sem þeir eru búnir að fá lóð fyrir, eða byrja að steypa í grunninum eða annað, sem þeir kannske geta sjálfir gert án þess að fá til þess nokkurt verulegt fé eða með því litla fjármagni, sem þeir kunna að hafa undir höndum, þá held ég, að allt annað tal í þessari grein um jafnvægi milli byggðarlaga sé lítils virði.

Þá kem ég hér næst að III. kafla, um sparnað til íbúðabygginga. Það er held ég ekki ágreiningur um það í sjálfu sér, að það sé æskilegt að hvetja sem flesta til þess að hefja byrjun að því að koma upp þaki yfir höfuð sér með því að spara og það sé æskilegt að gera það svo fýsilegt sem unnt er, að menn geri það og byrji á því eins fljótt og þeir geta við komið. Um hitt eru menn ekki sammála, hvernig vænlegast sé að koma því í framkvæmd. Sumir telja, að það sé alveg vonlaust með öðru móti en því að skylda menn beinlínis til þess. Aðrir telja, að æskilegra væri að veita mönnum nokkur fríðindi, ef menn vilja spara fé sitt á þennan hátt, og ég er í hópi þeirra, sem telja, að það mundi vænlegast til árangurs og vinsælast.

Sumir af formælendum skyldusparnaðarins telja, að skyldusparnaðurinn gefi tryggari og meiri tekjur. Við það er aðeins það að athuga, að sennilegt er, að tekjur margra þeirra, sem eiga að standa undir skyldusparnaðinum, nefnilega unglinga frá 16 ára og allt upp í 26 ára fólk, séu minni og óvissari en annarra aldursflokka, auk þess sem ég tel, að það sé ekki von um eins miklar tekjur af þeim skyldusparnaði, sérstaklega þar sem fjölmargar undanþágur eru líka veittar frá þessu, svo að það er ekki hægt að reikna með því, að hvert ungmenni á þessum aldri spari 5000 kr., og langt frá því, því að það eru fjölmargar undantekningar, eins og við sjáum í lögunum, frá þessu. Ég tel því, að það veitti ekki af að hafa ákvæðin um frjálsa sparnaðinn, sem ég held að allir séu sammála um að rétt sé að gera sem fýsilegastan, sem frjálslegust og hvetja sem flesta til að notfæra sér þau. En það er nú eitthvað annað í þessu frv. Þar er beinlínis stefnt að því, að ekki verði eins mikið gagn að frjálsa sparnaðinum og skyldusparnaðinum. Þeir, sem spara eftir frjálsu sparnaðarleiðinni, fá minni rétt en þeir, sem spara eftir skyldusparnaðarleiðinni. Og þetta er beinlínis dálítið hlálegt, ef maður hugleiðir það, að sá, sem er nú 25 ára og er skyldur til að spara í eitt ár, fær full réttindi, ef hann vill spara áfram; af því að hann er skyldugur til að spara þetta eina ár, þá fær hann full réttindi, þó að hann vilji spara áfram, sem þá er frjálst. Honum er algerlega frjálst, hvort hann heldur áfram að spara, eftir að hann er orðinn 26 ára. Og þá fær hann meiri réttindi en sá, sem af einhverjum ástæðum, annaðhvort vegna aldurs eða annarra ástæðna er ekki skyldur til að spara, en gerir það af fúsum og frjálsum vilja.

Við töldum í umræðunum í n., að það væri sjálfsagt að hafa þennan frjálsa sparnað með sömu réttindum og skyldusparnaðinn, sérstaklega að því er tekur til tekjuskatts- og útsvarsfrelsis það árið, sem sparað er eða féð lagt til hliðar. Það eru nú mikilvægustu forréttindin, sem þeir, sem skyldir eru til skyldusparnaðarins, fá umfram þá, sem spara af frjálsum vilja. Og ég fæ ekki séð, að það sé nokkur ástæða til annars en að veita þeim, sem spara af fúsum vilja, þessi sömu réttindi. Þó skal ég fúslega viðurkenna, að það er eðlilegt að miða þá heimild til frádráttar við t.d. 5000 kr. upphæð, eins og hjá þeim, sem hlunnindanna við skyldusparnaðinn njóta. Og auk þess tel ég, að skynsamlegt hefði verið, að um þetta væru gerðir samningar milli þeirrar lánsstofnunar, sem sparað væri við, og þess, sem ákveður að spara með þessum hætti. Ég veit, að þessu hefur verið þannig háttað sums staðar erlendis og hefur gefizt þar ákaflega vel, þessi frjálsi sparnaður. Það var t. d. svo árið 1955 í Vestur-Þýzkalandi, að þá varð veruleg sparifjáraukning í landinu, venjuleg sparifjáraukning varð í kringum 2 milljarðar marka og skyldusparnaðurinn til húsnæðisbygginga nam svipaðri eða sömu upphæð. Og þar er komin alllöng reynsla á þessa leið og talið, að hún hafi gefizt ákaflega vel. Ég hygg líka, að það sé meira en aldarfjórðungur, sem þessi fríðindi hafa verið þar eða ýmis fríðindi hafa verið þar fyrir þá, sem hafa viljað spara samningsbundið um ákveðið árabil til þess að eignast stofnfé til þess að byggja íbúðir yfir sig og sína. Sömuleiðis eru svipuð lög búin að vera í gildi alllengi í Englandi, og eru þar byggingarsparisjóðir, sem hafa tekið við samningsbundnum sparnaði og greitt svo fyrir mönnum; þegar þessi upphæð, sem spöruð hefur verið, hefur numið eða náð vissu marki, þá hefur verið greitt fyrir mönnum að hefja byggingu eigin íbúða.

Þá eru hér að lokum þess, sem ég í svipinn vil um þetta segja, nokkur orð um ákvæði V. kafla, þar sem á að hækka framlag sveitarfélaga til byggingar íbúðarhúsa í kauptúnum og kaupstöðum, þ.e. framlag til verkamannabústaða. Þarna er gert ráð fyrir að bæta enn pinkli á Skjónu, því að nú hafa þessar upphæðir að vísu verið hækkaðar skv. vísitölu upp í 12 og 18 kr. En vísitöluhækkun er nú ekki nóg að dómi hæstv. ríkisstj. Hvort hana er farið að gruna, að hún sé kannske ekki alveg ábyggileg, þessi vísitala, sem við búum nú við, skal ég ekki segja. En nokkuð er það, að í þessu tilliti er það ekki talið fullnægjandi, heldur á þessum sárfátæku sveitarfélögum, sem hér eiga hlut að máli og flest eða öll berjast í bökkum með afkomu sína og að inna af höndum þær skyldur, sem lög leggja þeim á herðar, — þarna á enn að bæta á þau gjöldum, og nú má ekki duga minna en hækka um helming þau gjöld, sem sveitarfélögin hafa átt að greiða til þessara mála.