31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mér skilst, að þessari fyrirspurn hafi að nokkru leyti verið beint til forseta. En sökum þess að segja má, að ég sé með nokkrum hætti við málið riðinn, vil ég segja örfá orð.

Það er svo, að formaður í utanrmn. mun vera forveri minn hér í þinginu, hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt), og samkvæmt þingvenju mun það vera svo, að þegar varamaður hefur komið inn, hefur hann eigi aðeins tekið sæti í þeim n., sem aðalmaður hefur setið í, heldur mun hann og hafa tekið við formannsstörfum í þeim n., sem aðalmaðurinn hefur gegnt, enda þótt þetta muni ekki vera ótvírætt samkvæmt þingsköpum. Þess vegna má segja, að mér hefði borið að kalla saman utanrmn., ef til þess hefði gefizt tilefni á þeim tíma, sem ég hef setið hér á Alþingi. En ég vil lýsa því skýrt og skorinort, að á þeim tíma hefur alls ekkert tilefni gefizt til þess að kveðja utanrmn. saman, hvorki hefur verið vísað til hennar neinu málefni né heldur hefur nokkur nm. mér vitanlega óskað eftir fundi í n. Hins vegar skal það játað, að ég hef ekki átt frumkvæði að því, að n. væri kölluð saman, og má það kannske reiknast mér til vanrækslu að hafa ekki kannað það, hvort þessi undirnefnd, sem kjósa skal samkvæmt þingsköpum, væri þegar kosin. En ég vil segja, að hér er þó sú bót í máli, að úr þessu er auðvelt að bæta, sökum þess að utanrmn. getur starfað og á að starfa á milli þinga og getur þess vegna vafalaust komið saman, eftir að þingslit hafa farið fram, og kosið þessa undirnefnd sína, ef þess verður óskað og ef það er álitið rétt.

Ég vildi aðeins skýra þetta frá mínu sjónarmiði og tel ég mig í raun og veru með þessu hafa gert hreint fyrir mínum dyrum. Aðalatriðið er, að það hefur ekkert tilefni gefizt til þess, að n. væri kvödd saman, og enginn hefur óskað eftir því.