21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég heyri, að hæstv. ráðh. hefur breytt um heiti á hv. þm. Áður kallaði hann hann hv. þm. Ak. Nú kallar hann hann spretthlaupara. Ég hygg nú, að það hafi verið fátt spámæla, sem þessi ráðh. sagði nú frekar en endranær, en það sannaðist þó einstöku sinnum, að stundum ratast kjöftugum satt af munni, og ég hygg, að hann hafi séð rétt fram í tímann, að þess muni verða skammt að bíða, að Jónas Rafnar taki sprett upp í þingsæti Akureyrarkaupstaðar að nýju. Að öðru leyti sýnir það nokkuð alvöru þessa hæstv. ráðh. í hans málflutningi, að hann skuli, þegar hann flytur hér frv., sem bann sjálfur telur til stórmæla, undrast það, að 1. umr. þess skuli standa dagpart. Það sýnir að vísu nokkuð umhyggju hans eigin stuðningsmanna bæði fyrir málinu og þeirra tilfinningu fyrir því að þurfa að horfa upp á þennan mann í ráðherrasæti, hversu fáir þeirra sjálfra, hans stuðningsmanna, eru hér viðstaddir, og mjög ólíklegt er það, að þeir nenni að leggja á sig að leggja honum lið í þessum umr., ef ég þekki þá rétt.

Nei, sannleikurinn er sá, að hér er um alvarlegt viðfangsefni að ræða, lausn húsnæðismálanna, og það er vissulega ekki kyn, þó að nm það sé rætt eina dagstund á því þingi, sem búið er nú senn að standa 225 daga og lengst af hefur verið með öllu iðjulaust, af því að hin merkustu mál hafa ekki fengizt lögð fyrir það til úrlausnar.

Ég skal segja það strax, vegna þess að ég vil unna hæstv. ríkisstj. sannmælis, að í þessu frv. má segja, þótt að mörgu leyti hafi óhönduglega tekizt til og því hafi þurft að breyta meira af stjórnarliðinu en ég hygg að dæmi séu almennt til um um slík frv., þá er hér að vissu leyti um nokkra viðleitni að ræða til úrlausnar mikils vanda.

Ég óska, að svo takist til sem hæstv. ríkisstj. eða hæstv. ráðh. virðist ætla og hér takist betur til en með flestar aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstj., enda mundi ekki vanþörf á, og þætti það að vissu tíðindi til næsta bæjar. Ef svo skyldi reynast, að eftir allt saman skyldi þessi hæstv. ráðh. verða happasælastur af þessum sexmenningum, þá sýnir það, hvernig annað er í pottinn búið. En hann hefur haft skynsemi til þess að byggja að langsamlega mestu leyti á því, sem fyrrv. ríkisstj. hafði gert, og þær viðbætur, sem hann hefur fitjað upp á, eru tiltölulega lítilvægar. Það, sem bann aðallega leggur til, er gort yfir því að reyna að tileinka sér verk annarra manna. Við því var að búast úr þeirri átt. Að öðru leyti má segja, að til viðbótar við það, sem aðrir höfðu unnið, sé ekki um verulega nýjung að ræða í þessu frv. nema nýja skattlagningu og skyldusparnaðinn, sem er nýjung í þessu formi hér og vinstri flokkarnir hingað til hafa með öllu lýst sig andvíga.

Þess er að óska, að raunin verði hér betri en hjá flokksbræðrum hæstv. ráðh. austur í Rússlandi, þar sem við vitum, að allur almenningur hefur verið neyddur til þess að leggja stórfé fram sem skyldusparnað, en nú, þegar að gjalddaganum var komið, var frestað afborgunum og vöxtum um 20 ára skeið. Ég vonast til þess, að hér takist til betur en hefur tekizt hjá fyrirmyndinni í austri, en þá þarf líka, ef betur á að takast til, að finna haldbetri úrræði í fjárhagsmálum og efnahagsmálum yfirleitt en þessari hæstv. ríkisstj. hefur tekizt.

Við ræddum þessi mál nokkuð í gær í sambandi við stóreignaskattinn, og sá skattur er að vísu einungis hluti af þessu máli. Þau eru nátengd og því mjög eðlilegt, að þau séu rædd saman. En ég vil vekja athygli á því, að hæstv. fjmrh. sagði, að það væri í raun og veru ómögulegt að áætla, hversu stóreignaskatturinn yrði mikill, það væri ómögulegt að áætla það. En hér í framsöguræðu þessa hæstv. ráðh. veit hann alveg upp á tugþúsund, ef ekki krónu, hvað inn af honum á að koma á fyrsta ári, og verður þó að gera þá grein fyrir því, að það sé hlutfallslega miklu meira en líkindareikningur fyrir fram mundi benda til.

Þetta dæmi, þótt lítið sé, sýnir, að því miður er í því, sem nýtt er lagt til í þessu frv. umfram það, sem áður var lagt til, ekki á svo föstum grundvelli reist sem æskilegt væri.

Það er líka allsendis óvíst, hvernig muni til takast um innheimtu þessa blessaðs stóreignaskatts og hvort hann skapar ekki einmitt meiri vandræði í þessum efnum en hvað hann greiðir úr. Það er að vísu gott, ef nokkrar milljónir á ári fást til þess að bæta úr húsnæðisskortinum með þessu, og ef skattinn á að leggja á, þá er auðvitað ekki hægt að hafa á móti því, að hann sé af ríkinu settur til þess að bæta úr þessari þörf, þótt hæpið sé að gera það í því formi, sem gert er, og skal ég ekki segja, hvort það stenzt.

En ef svo skyldi t.d. fara, sem kunnugir menn fullyrða, að stóreignaskatturinn mundi leiða til þess, að fyrirtæki eins og Hótel Borg yrðu að hætta hótelrekstri og yrðu að breyta sér í skrifstofubyggingu, sem leigð yrði út fyrir fram, og með öðrum hætti mundi verða ákaflega örðugt að inna skattinn af höndum fyrir eiganda þess, — ég hef ekki næga þekkingu á því sjálfur að dæma um það, — þá er ég hræddur um, að það mundi víða verða þröngt fyrir dyrum hér í bænum, ef þeim gestahópi, sem þó hefur verið á Hótel Borg, ætti að dreifa út um venjulegar íbúðir bæjarins, því að vitanlega er ekki þrátt fyrir stóreignaskatt hægt að banna mönnum að koma áfram til bæjarins til dvalar, t.d. þingmönnum, sem sumir hafa dvalizt og dveljast enn a.m.k. öðru hverju á Hótel Borg.

Hér er aðeins eitt lítið dæmi, sem sýnir, að þó að þetta sé vafalaust allt í góðri meiningu gert á sinn veg, þá hefur alls ekki verið hugsa;ð til hlítar, hvaða áhrif hver ráðstöfunin um sig hefur. Og óneitanlega var það harla broslegt í gær, þegar hæstv. fjmrh. var að verja form skattálagningarinnar, það, að skatturinn skuli einungis vera lagður á einstaklinga, en ekki fyrirtæki. Það var tvennt, sem hann færði þessu til afsökunar: Annars vegar, að með þessum hætti, sem á væri hafður, væri sérstaklega náð til þeirra, sem legðu fé í flokkssjóð sjálfstæðismanna. Það er þá orðin ein af megingrundvallarástæðum fyrir skattálagningu hér á landi að ná til þeirra, sem í þann flokkssjóð leggja. Hvort allir þeir, sem í skattinn komast nú, höfðu lagt mikið í þann sjóð, er svo annað mál, ef það væri skoðað ofan í kjölinn, og ég veit ekki út af fyrir sig, hvort allir framsóknarmenn eru þeim mun fátækari en sjálfstæðismenn sem þeir stundum láta meira yfir mannúð sinni í orði heldur en þeir vilja tileinka okkur sjálfstæðismönnum. Hin ástæðan átti að vera sú fyrir þessu furðulega formi, að það hefði verið tekinn upp sá háttur af einstökum auðmönnum að skipta upp eignum sínum í margs konar félög, og með þessum hætti mundu þeir geta skipt upp eignunum, þannig að hvert félag ætti ekki nema 900 þús. kr., sagði fjmrh., og væri þar með skattlaust.

En ég spyr: Er það ekki einmitt hæstv. fjmrh., sem hefur undanfarin ár, lengst af nú síðan 1934, verið fjmrh. og staðið fyrir því, að slík aðferð í skattálagningu væri yfirleitt upp tekin? Ef ótækt er að leyfa mönnum að skipta upp eignum sínum í sambandi við stóreignaskatt, hví er þá frekar heimilt að leyfa þeim að skipta upp eignunum á sama veg í sambandi við venjulegan eignarskatt eða í sambandi við tekjur þessara félaga? Hæstv. ráðh. verður að gera grein fyrir svörum við þessum spurningum, áður en sú málsvörn hans verður tekin til greina, að þetta form skattsins, sem hann hefur gerzt talsmaður fyrir, styðjist í raun og veru við þessar ástæður.

Nei, það, sem við öll vitum að er hin raunverulega ástæða, er það, að verið er að hlífa Sambandi ísl. samvinnufélaga og fyrirtækjum þess, mesta auðhring landsins, eins og hv. þm. Siglf. (ÁkJ) sagði, en verið að reyna að leggja skattinn á þá, sem hæstv. fjmrh. beinlínis lýsti yfir í gær, að mundu tilheyra öðrum flokki en hann sjálfur er fylgjandi.

Við heyrðum það af munni hv. þm. Siglf. í gær, að hann hefur komið auga á, að það ern hættuleg þau forréttindi, sem Sambandið að þessu leyti hefur skapað sér, og ég hef heyrt það, að nýlega hafi á fundi í Álþýðuflokksfélagi Reykjavíkur, þótt enn hafi ekki verið sagt frá því opinberlega, annar hv. þm. haldið mjög skelegga ræðu um, að þessu yrði að breyta eitthvað í svipaða átt og hv. þm. Siglf. sagði.

Þetta sýnir, að óánægjan með þetta fyrirkomulag, þá aðferð við skattheimtuna, sem það frv. hvílir á, sem hér er til umr., er miklu víðtækari, útbreiddari en ætla mætti, þegar lítið er til þeirra handa, sem upp verða réttar til stuðnings þessa máls, en það verða ýmsir, sem þar greiða atkvæði nauðugir og gegn betri vitund.

Um fjáröflun til húsnæðismálanna er það annars að segja, að áður fyrri fram til 1930 hafði komizt upp hér á landi allöruggt og vaxandi veðlánakerfi, sem fyrst og fremst var bundið við veðdeild bankanna og þá ekki sízt veðdeild Landsbankans. Það var eitt af fyrstu verkum Framsóknarstjórnarinnar, sem tók við völdum 1927 með stuðningi Alþfl., að stöðva starfsemi veðdeildarinnar, að hindra hana í sínum eðlilegu útlánum með því að koma í veg fyrir, að hún gæti tekið þau lán, sem óhjákvæmileg voru til þess að standa undir hinum mikilvægu byggingarmálum. Með þessu hafa framsóknarmenn tekið á sig þunga ábyrgð og Alþfl. varðandi það ófremdarástand, sem um langt bil ríkti í þessum málum. Er þessu hefur verið reynt að bæta á ýmsan veg, borgararnir reyndu í sjálfsvarnarskyni að bæta úr því t.d. með stofnun Sparisjóðs Reykjavíkur, sem hefur veitt fleiri byggingarlán hér í Reykjavík á þessu árabili en nokkur önnur ein stofnun. Að nokkru leyti reyndu stjórnarvöldin sjálf að bæta úr því, sem þau gerðu miður, með því að efla verkamannabústaðina, og því var lengi mjög haldið á lofti, að sjálfstæðismenn hefðu í fyrstu talið, að þar væri ekki farin rétt leið. Látum það vera, um það mál var ágreiningur eins og fleiri og oft er, bæði í fyrstu og um framkvæmd. Raunin varð samt sú, að verkamannabústaðirnir í Reykjavík hafa heppnazt betur en nokkurs staðar annars staðar, og Reykjavíkurkaupstaður var lengi vel eini kaupstaðurinn, sem með framlögum stóð fyllilega við lagaskyldu sína í þessum efnum. Þeir staðir, þar sem Alþýðuflokksmenn, t.d. hæstv. núverandi félmrh., höfðu mikil áhrif, eins og á Ísafirði, urðu aftur á móti berir að algerum vanefndum, og lengi vel var það svo, að sú lóð, sem á Ísafirði hafði verið ætluð til verkamannabústaða, var óhrjálegasta grjóturðin í öllum kaupstaðnum. Ég vildi mega óska þess, að framkvæmd þessa frv. reyndist betur en þau fyrirheit um byggingu verkamannabústaða reyndust, sem þessi hæstv. félmrh. lengi vei sýndi með efndum sínum á loforðunum á Ísafirði. Óskandi er, að betur til takist, og ekki skal standa á stuðningi þeim, sem við sjálfstæðismenn getum veitt til raunhæfrar lausnar þessara mála. Það var svo í stríðslokin eftir hvatningu okkar sjálfstæðismanna og fyrir atbeina okkar með þál., sem borin var fram, að nýsköpunarstjórnin tók þessi mál upp og setti um þau heildarlöggjöf. Því miður var sú löggjöf, sem Alþfl. átti þátt í og beitti sér einkum fyrir, ekki svo raunhæf sem skyldi. Þess vegna hélt áfram glundroðinn, og tók fyrst að birta til, þegar smáíbúðadeildin var sett á stofn og í framhaldi hennar lögin frá 1955. Það ber fúslega að viðurkenna, að hæstv fyrrv. forsrh. og félmrh., Steingrímur Steinþórsson, skar sig mjög úr leik frá öðrum flokksbræðrum sínum um lifandi áhuga fyrir þessu máli, og hann á vissulega þakkir skilið fyrir sitt framlag og sinn góða vilja um að styðja og koma í framkvæmd með okkar stuðningi því, sem við sjálfstæðismenn stungum upp á og óskuðum eftir í þessum málum. Og með löggjöfinni, sem sett var 1955, var sem sagt skapaður sá grundvöllur, sem enn er byggt á í því frv., sem fyrir liggur og sýnir sem sagt, að hæstv. ríkisstj., hæstv. félmrh. er þó ekki alls varnað, að þannig skuli farið að, þótt reynt sé að leyna því með því að flytja þetta frv. í öðru sem sjálfstætt frv. og reyna með stóryrðum um það, hvað áður skeði, að leyna samhenginu, sem hér er á milli.

Reykjavíkurbær hefur af öllum aðilum lagt mest fram til að leysa þessi mál hér í bænum. Hann gerði með framlögum og með lóðaúthlutun starfsemi verkamannabústaðanna mögulega. Hann hefur yfirleitt gert byggingarframkvæmdir hér mögulegar með því að láta í té lóðir, með því að leggja götur, með því að leggja holræsi og undirbúa lóðirnar til byggingar á þann veg, alveg gagnstætt því, sem víða annars staðar er, þar sem einstaklingarnir, þeir sem byggja, verða allt þetta að kosta sjálfir og leggja fram fé úr sínum eigin vasa. Hlutur Reykjavíkurbæjar í þessum efnum er því ómetanlegur. En því til viðbótar hefur hann með ýmsum byggingum, bæði bráðabirgðaráðstöfunum, sem ég viðurkenni að eru hreinlega bráðabirgðaráðstafanir, eins og bygging Höfðaborgar á stríðsárunum, þegar ekkert varanlegt byggingarefni var fáanlegt og koma varð þess vegna upp húsum til bráðabirgða úr timbri, með byggingu húsa eins og við Hringbrautina, stórhýsa, sem eru fyrstu stórhýsi sinnar tegundar og mörkuðu tímamót á þann veg, — að það var fyrst eftir að þau voru reist, sem almenningur hér sannfærðist um, að það væri í raun og veru hægt og oft kostir því samfara að búa í svo stórum samhýsum. Áður töldu menn það vera frágangssök að hafa hér slíkar byggingar, þó að þær tíðkuðust erlendis. Bærinn kom upp þessum byggingum fyrst við Hringbraut, síðan við Miklubraut. — Þessar byggingar seldi hann með góðum kjörum, en jafnhliða kom hann upp og reisti margar íbúðir við Skúlagötu, sem hann á enn þá og hefur notað til þess að hjálpa þeim, sem verst eru settir. Næsta stórathöfn bæjarins var bygging Bústaðahverfishúsanna, þar sem húsin voru látin hálfköruð á þann veg, að létt var undir einstaklingunum að taka við þeim og ljúka byggingunni, og síðan voru þau seld með góðum kjörum. Því næst hafa raðhúsin tekið við, sem reynist vera hagkvæmur byggingarmáti og mjög eftirsóttur. Jafnhliða þessu var svo stórátak gert eins og fyrirgreiðsla fyrir smáíbúðahverfinu og ýmsar aðrar ráðstafanir, sem of langt yrði upp að telja.

Eins og hv. 5. þm. Reykv. drap á, þá er þátttaka bæjarins í þessum efnum hér á landi mun erfiðari en víða annars staðar, vegna þess að annars staðar hefur ríkið tekið að sér að útvega lán til bæjarins og annarra aðila, sem í byggingarframkvæmdunum standa. Hér hefur þetta ekki enn þá tekizt. Við skulum fúslega viðurkenna, að það hlýtur að taka langan tíma, hver sem við völd er og hvernig sem á annan veg fer að koma þessu í lag. Þetta er kerfi, sem krefst uppbyggingar um langt árabil og krefst þess einnig, að nokkur stöðugleiki gildi í fjárhagsmálefnum, þannig að menn fáist til þess að lána fé sitt til langs tíma. Þess vegna er hér um margháttuð vandamál að ræða, og ég álasa hæstv. félmrh. engan veginn fyrir það, þó að honum hafi ekki frekar en hans fyrirrennurum tekizt að finna fullnaðarlausn málsins. Ég virði það við hann, sem hann þokar málinu eftir sinni getu fram á við. En hann má ekki alltaf telja okkur trú um, að hann hafi einhver kraftaverk unnið, þegar töluvert skortir á og honum hefur ekki enn þá einu sinni tekizt að bæta upp þann skaða, sem hann gerði — óafvitandi þó — með tilkomu sinni í ríkisstj., með þeirri staðreynd, sem hann á auðvitað erfitt með að skilja, þó að landslýðurinn ofur vel átti sig á því og viti fullvel, að það eru svo fáir, sem bera traust til hans stjórnar og sérstaklega meðferðar á fjármálum, að stórlega hefur dregið úr sparifjársöfnun.

En einmitt vegna þess, að hér er um margþætt mál að ræða, sem ekki verður leyst, nema allir aðilar leggi sig fram og leyst séu úr læðingi öll uppbyggileg öfl, þá verð ég að lýsa undrun minni yfir því, að hæstv. félmrh. skyldi sérstaklega vera að finna að því, að Sparisjóður Reykjavíkur hefði lánað einum aðila eða einni fjölskyldu lán til að koma upp 24 íbúðum. Auðvitað var hér ekki um að ræða íbúðir handa þessum aðilum sjálfum. Hér er um að ræða óvenjulega hæfan og duglegan byggingarmann, mann, sem eitt stjórnarblaðið, Alþýðublaðið, einmitt á meðan hæstv. félmrh. var enn í Alþfl., — hvort hann var þar formaður þá, man ég ekki með vissu, eða ekki, — en meðan hæstv. félmrh. var enn í Alþfl., bar Alþýðublaðið fram þá till., að þessum manni yrði falið það hlutverk að byggja ú vegum þess opinbera, sérstaklega bæjarins, vegna þess að hann byggði helmingi ódýrara en aðrir og mun fljótar. Ef það er nú rétt, og það er vissulega rétt, sem hæstv. félmrh. segir, að hér sé úr brýnni þörf að ráða, þá er það vitanlega alger fjarstæða, ef á að taka upp sem stefnu, að það eigi að útiloka einkaframtakið frá því að leggja sitt til þess að leysa húsnæðisvandamálið. Það er einmitt þessi ágreiningur og áhrif af honum, sem kom glögglega fram í Bretlandi á sínum tíma. Þá höfðu íhaldsmenn lofað því fyrir kosningar, að þeir skyldu tryggja það, að 300 þús. íbúðir, hygg ég að það hafi verið, skyldu byggðar á hverju ári. Alþfl., verkamannaflokkurinn þar, sem verið hafði við völd í mörg ár og reynt að leysa málin eftir beztu getu, taldi hér vera um algert kosningaskrum að ræða. Hann sagði: Ja, við höfum lagt okkur fram um að leysa málið, við höfum lagt fram opinbera styrki, bær og aðrir aðilar keppast við að byggja, og þetta er hreint kosningaskrum og fjarstæða, sem engri átt getur náð, að það sé hægt að ljúka 300 þús. íbúðum á hverju ári. — Íhaldsflokkurinn vann kosningarnar. Macmillan, núverandi forsætisráðherra í Bretlandi, var gerður húsnæðisráðherra, og hann leysti þetta verkefni, hann sannaði með framkvæmdum ár eftir ár, að það var hægt að ljúka 300 þús. íbúðum á ári, en það var gert með því að leyfa einkaframtakinu að beita sér með því að nota alla uppbyggilega krafta í landinu, ekki með því að hverfa frá eða banna fyrirgreiðslu ríkis og bæja, sem allir nú orðið viðurkenna að eigi rétt á sér og sé nauðsynleg að vissu leyti, en er bara ekki einhlít, það þarf fleira að koma til.

Hér er um slíkan vanda að ræða, að allir, sem eitthvað hafa af mörkum að leggja, eiga að fá að njóta sín. Og ég þori að fullyrða, að í bæ, sem fyrst og fremst er byggður upp af einkaframtakinu, eins og Reykjavík er byggð upp, væri það alger afneitun á því afli, sem Reykjavík hefur reynzt heilladrýgst, ef ætti að útiloka frá lánum menn eins og þann aðila, sem hér á hlut að máli. Það væri spor aftur á bak, en ekki fram á við. Við skulum einnig hafa það í huga, að þótt sjálfsagt sé og umfram allt eigi að styðja einstaklingana að því að byggja yfir sig sjálfa, þá verða alltaf svo og svo mörg hundruð fjölskyldna, sem ekki hafa ástæður til þess að ráðast í eigin framkvæmdir, og meðan almannavaldið, ríki og bær, er þess ekki umkomið eða hefur ekki vilja til þess — látum vera hvort heldur er — að sinna þessum þörfum, þá er það skylda að greiða fyrir því, að einhverjir aðrir geti það. Og ég vil segja, að það er ósæmilegt, ég sný orðunum við, það er ósæmilegt af félmrh. að vera að setja út á ráðstöfun, sem í þessum efnum var gerð, og hann getur fullvissað sig um það, ef hann vill og skoðar þetta mál ofan í kjölinn, að það er rétt, sem ég hef sagt um það í einu og öllu, enda er alkunnugt, að þær íbúðir, sem hér um ræðir, eru leigðar út með hagkvæmari kjörum en nokkrar aðrar hliðstæðar íbúðir hér í þessu bæjarfélagi.

Yfirleitt er það svo, — við erum auðvitað allir nokkuð með því markinu brenndir, — að það má vel lofa einn án þess að lasta annan. Það er vel hægt að segja, að þetta þurfi að gera, þetta sé ógert, vegna þess að það eru ætíð svo margir hlutir ógerðir, og við værum dauðir úr öllum æðum, allir, ef við sæjum ekki, að margt og mikið þarf að gera og er ógert, án þess að vera að lasta það, þegar einhver annar finnur úrræði til að bæta úr brýnni þörf, þegar það er sannað, að það er gert á hagkvæmari og betri hátt en öðrum hefur tekizt.

Ég vil svo að lokum segja það og endurtaka, að úr húsnæðisvandamálinu verður ekki leyst, nema öll uppbyggileg öfl í þjóðfélaginu leggist á eitt, að ríkið geri sitt, að bæjarfélögin og sveitarfélögin geri sitt, að einstaklingarnir verði hvattir til þess að gera sitt og að þeir stjórnarhættir verði hafðir, að hverjum þeim, sem sýnir óvenjulegan dug, þekkingu og hæfileika til að leysa málin, verði ekki heldur varnað að gera sitt, og umfram allt, að það ástand skapist í þjóðfélaginu, bæði að menn sjái, að til einhvers sé að vinna með því að leggja sig fram, og traust skapað á fjárgildi og peningum, þannig að menn vilji leggja þá til hliðar, að menn vilji spara, að menn treysti fjárhagsstofnununum fyrir sínum fjármunum, þannig að hægt sé að nota þá til gagns bæði fyrir þá sjálfa, sem eiga þá, og einnig fyrir alþjóð með hyggilegum útlánum. Til þess að þetta geti orðið, þurfa allir að leggja sitt fram, og ber að fagna hverri nýrri hugmynd og hverri nýrri viðleitni, sem í þeim efnum á sér stað. Varðandi skyldusparnaðinn vil ég segja það, að ef ekki er hægt að ráða bót á málinu með öðru móti, þá getur verið rétt að reyna þá leið. En það er vissulega sorglegt tímanna tákn, ef í stað þess, að menn af frjálsum hug og frjálsum vilja leggja fram fé til sparnaðar og til hliðar sjálfum sér og öðrum til góðs, þarf að skylda þá til þess, og ég vildi óska, að þeir stjórnarhættir hæfust sem fyrst á ný á Íslandi, að frelsi gæti hvarvetna komið í stað þvingunar.