23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þegar um frv. þetta var fjallað í Ed., unnu nefndir beggja deilda saman að athugun þess, og áttu þá nefndarmenn í heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar þess kost að koma á framfæri ýmsum ábendingum um breytingar á frv. Í Ed. hafa síðan ýmsar breytingar í þá átt, sem ábendingar komu fram um, verið gerðar. Fæstar þeirra breytinga voru þó stórvægilegar. Eftir að frv. hafði nú verið vísað til heilbr.- og félmn., hefur hún tekið það til athugunar að nýju. Hafa nefndarmenn ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n., sem stendur að áliti á þskj. 599, leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það nú liggur fyrir. Minni hl. n. telur hins vegar, að enn þurfi frv. breytinga við. Mun hann skila sérstöku nál. og væntanlega leggja fram brtt., en þar sem þeim hefur ekki enn verið útbýtt og það nál. liggur ekki fyrir, ræði ég það að sjálfsögðu ekki frekar.

Ég skal svo ekki fjölyrða mjög um þetta mál, enda var það rækilega reifað af hæstv. félmrh. við 1. umr. þess. Ég vil þó segja þetta:

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að húsnæðismálin eða réttara sagt húsnæðiseklan er og hefur verið undanfarin ár eitt mesta vandamál okkar Íslendinga. Liggja ýmsar ástæður til þess öngþveitis, sem þau mál hafa komizt í, svo sem hin mikla dýrtíð og hinn hái og síhækkandi byggingarkostnaður, sem af henni hefur leitt, lánsfjárskortur og tilflutningur fólks í landinn. Í tíð fyrrverandi ríkisstj. undir forustu þáverandi félmrh., Steingríms Steinþórssonar, var með stofnun hins svokallaða almenna veðlánakerfis gert stærra átak til lausnar í þessum málum en nokkru sinni áður. Það veðlánakerfi var fyrst og fremst byggt á samningum við bankana um ákveðin framlög til íbúðarlána. Voru þeir samningar aðeins gerðir til tveggja ára. Hafa bankarnir ekki treystst til að endurnýja þá samninga. Hefur hið almenna veðiánakerfi því verið algerlega fjárvana nú um skeið, svo sem kunnugt er. Hafa því hlaðizt upp lánbeiðnir hjá húsnæðismálastjórn, sem ekki hefur verið unnt að sinna. Er nú svo komið, eftir því sem segir í grg. þessa frv., að 2004 lánaumsóknir liggja óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn og auk þess rúmlega þúsund umsóknir, sem aðeins hefur verið sinnt með smábyrjunarlánum.

Þó að gert væri mjög myndarlegt átak með stofnseiningu hins almenna veðláankerfis, þá sýndi það sig, að það var ekki nægilegt til að leysa hinn stóra vanda, sem hér er við að etja. Fjárhæð sú, sem útveguð var til hins almenna veðlánakerfis, reyndist ekki nægjanleg, þó að þau framlög væru að vísu miklu hærri en nokkru sinni áður og þó að það hafi greitt úr vandræðum fjölmargra. Enn fremur skorti það á, að sjóði almenna veðlánakerfisins væri tryggt nægilegt fjármagn til frambúðar, og var raunar varla við því að búast, að hægt væri að fá bankana til að gera fasta samninga um lengra tímabil en til 2 ára. Hér var því þörf á stærra átaki en nokkru sinni áður. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er einmitt slíkt átak gert til lausnar húsnæðisvandamálanna. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er séð fyrir meira lánsfé til íbúðabygginga en nokkru sinni fyrr. Með frv. er gert ráð fyrir stofnun byggingarsjóðs ríkisins, og er honum lagt til allríflegt stofnfé. Standa vonir til þess, að hann geti, áður en langir tímar liðu, orðið það öflugur, að hann geti að verulegu leyti fullnægt eftirspurn eftir hinum nauðsynlegustu íbúðalánum. Jafnframt er gert ráð fyrir, að hið almenna veðlánakerfi starfi áfram við hlið byggingarsjóðs með svipuðum hætti og áður, og gefur ríkisstj. fyrirheit um það í grg. frv., að hún muni sjá svo um, að húsnæðismálastjórn fái á árinu 1957 eigi minni fjárhæð auk byggingarsjóðsins en 44 millj. kr. til lánsúthlutunar. Til viðbótar eru svo stóraukin framlög til byggingarsjóðs verkamanna og til útrýmingar heilsuspillandi íbúða.

Hér er því um að ræða stóraukna fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins til lausnar á húsnæðisskortinum. Þess er brýn þörf, því að það ástand, sem nú ríkir í þeim efnum, er óviðunandi. Fjöldi ungra manna hefur ráðizt í íbúðabyggingar í trausti þess, að lán mundi fást í gegnum veðlánakerfið, en stendur nú uppi ráðalaus. Byggingarnar standa því hálfgerðar og koma eigi að gagni, fyrr en íbúðareigendum er gerð einhver úrlausn um lánsfé, og þessir menn eiga vissulega skilið að fá fyrirgreiðslu. Þeir hafa margir lagt á sig mikið erfiði við byggingu íbúðanna og lagt fram mikla aukavinnu, sem þjóðfélaginu kemur til góða. Hér er um að ræða brennandi mál fyrir margt ungt fólk, fyrir mörg ung hjón og hjónaefni, sem ýmist hafa alls ekkert þak yfir höfuðið eða búa við allsendis ófullnægjandi húsnæði. Takist eigi að leysa þessi mál á viðunandi hátt, hlýtur þetta unga fólk að glata trausti sínu á þjóðfélaginu og tiltrú til þess, og hvernig er með sanngirni hægt að ætlast til þess, að ungt fólk, sem ekki á þess kost að stofna heimili, vegna þess að hvergi er mannsæmandi íbúð að fá, finni til þegnskapar og þakkarskuldar gagnvart þjóðfélaginu?

Annað meginnýmæli þessa frv., sem hér liggur fyrir, er ákvæðin um sparnað til íbúðabygginga og þá fyrst og fremst fyrirmælin um skyldusparnað ungs fólks. Ég skal ekki fjölyrða um það efni, en vil aðeins segja það, að ég tel, að þar sé um mjög merkilegt nýmæli að ræða. Þar er farið inn á nýja braut, þar er um tilraun að ræða. Reynslan verður að skera úr, hversu sú tilraun tekst. Eins og ákvæðin eru úr garði gerð, held ég, að ekki sé of nærri neinum gengið. Hér veltur allmikið á því, hversu til tekst um framkvæmdina. Um það verður að setja nánari fyrirmæli í reglugerð. Er að því er mér virðist óhugsandi fyrir löggjafann að ætla sér að setja um það ýtarlegar reglur, en ég fyrir mitt leyti legg áherzlu á og það er áreiðanlega sjónarmið þess nefndarmeirihluta, sem ég hef hér orð fyrir, að framkvæmdinni verði hagað svo, að skriffinnska í sambandi við þetta verði sem minnst og að framkvæmdin öll verði sem greiðust, hvar sem er á landinu.

Í sambandi við lausn húsnæðiseklunnar ber tvö atriði hæst, tvö atriði, sem eru nauðsynlegust, í fyrsta lagi útvegun lánsfjár til íbúðabygginga og í annan stað lækkun byggingarkostnaðar. Að mínu viti er lækkun byggingarkostnaðar ákaflega mikilsvert atriði. Byggingarkostnaður hefur farið síhækkandi og er nú orðinn svo mikill, að í raun og veru er óskiljanlegt, hvernig venjulegt fólk getur staðið undir byggingarkostnaði, jafnvel þó að það eigi kost byggingarlána. Það er hald ýmissa, sem til þekkja, að með skynsamlegum aðgerðum ætti að vera hægt að lækka ýmsa liði byggingarkostnaðar.

Ég fagna því, að í þessu frv. er húsnæðismálastofnun sett á fót, m.a. í því skyni að vinna að lækkun byggingarkostnaðar. Henni er einmitt ætlað að beita sér fyrir umbótum í byggingarmálum, og henni er skv. 2. gr. frv. falið það hlutverk að koma á fót og annast leiðbeiningarstarf í því skyni að lækka byggingarkostnað og koma á hvers konar umbótum í húsagerð og vinnutækni við byggingu íbúðarhúsa. Enn fremur er henni ætlað að gangast fyrir fjöldaframleiðslu einstakra hluta til íbúðabygginga, tæknirannsóknum, kynningu nýjunga í byggingariðnaði, tilraunum, námskeiðum, hagkvæmum íbúðateikningum o.s.frv.

Ég tel mjög mikilvægt og ég treysti því, að þessu hlutverki verði sinnt af alvöru og kostgæfni.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en vil endurtaka, að hér er á ferðinni eitt merkasta mál, mál, sem miklar vonir eru tengdar við, og mál sem vonir margra eru tengdar við og beðið er eftir af mörgum með óþreyju. Mér dettur vitaskuld ekki í hug að halda því fram, að með þessari lagasmíð verði allur vandi leystur í þessum efnum, og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að svo geti ekki farið, að þessi lagasmið þurfi við innan tíðar einhverrar lagfæringar eða leiðréttingar eða endurbóta. Það er einmitt eðli slíkrar löggjafar sem þessarar, að hún hlýtur að taka nokkrum breytingum eftir breyttum þörfum og aðstæðum á hverjum tíma. En hitt hika ég ekki við að fullyrða, að með þessari lagasmíð verður stærra skref stigið en nokkru sinni áður til þess að bæta úr því mikla vandamáli, sem hér er við að etja, húsnæðiseklunni. Mér er því sérstök ánægja að því að mæla með samþykkt þessa frv., og ég legg svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað áfram til 3. umr.