07.05.1957
Neðri deild: 93. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

159. mál, skattur á stóreignir

Frsm. minni hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að biðja hv. þm. að leiðrétta eina prentvillu, sem hefur slæðzt inn í nál. og er töluvert meinleg. Það er í 16. línu að neðan, þar stendur: „Að okkar áliti er sú leið eins vænleg til þess að leysa þetta vandamál, að komið verði á því jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar“ o.s.frv.

Af ástæðum, sem gerð er grein fyrir í nál. okkar, sem vorum í minni hl., höfum við ákveðið að leggja ekki fram okkar brtt. fyrr en við 3. umr. málsins. Sé ég því ekki ástæðu til þess að ræða hér einstök atriði frv., en vil hins vegar leyfa mér að fara nokkrum orðum um almenn atriði þessa máls til frekari áréttingar því, sem tekið er fram í nál. okkar hv. 5. þm. Reykv.

Varðandi þessa almennu hlið eru það tvö atriði, sem að mínu áliti er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir í upphafi: í fyrsta lagi, hver tilgangurinn er með þessu frv., og svo í öðru lagi, hvort líklegt sé, að það nái þeim tilgangi, sem til er ætlazt.

Við, sem stöndum að áliti minni hl. fjhn., getum ekki á það sjónarmið fallizt, sem fram kemur í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv., að skattaálagning þessi geti verið liður í ráðstöfunum til stöðvunar verðbólgunni, því að það er beinlínis gert ráð fyrir því, að öllu því fé, sem innheimta á með skattinum, verði jafnóðum varið til fjárfestingar, og er því útilokað, að slík ráðstöfun geti haft áhrif til lækkunar á verðlaginu. Hér gegndi allt öðru máli, þegar stóreignaskatturinn var lagður á í Danmörku á sínum tíma. Þá var mest af því fé, sem innheimtist með skattinum, lagt inn á lokaðan reikning ríkissjóðs í þjóðbankanum, fé var dregið úr umferð, þannig að ætla mátti, að það hefði áhrif til verðlækkunar, eins og var í rauninni höfuðtilgangur þeirrar skattaálagningar. Við teljum heldur ekki, að hægt sé að líta á þennan skatt sem skatt á verðbólgugróða, svo sem gert er í áðurnefndri grg. hæstv. ríkisstjórnar. Ef skattleggja ætti verðbólguhagnað, yrði sá skattur fyrst og fremst að leggjast á gamlar skuldir, svo sem réttilega hefur verið bent á við 1. umr. málsins af hv. 2. þm. Reykv. En frambærilegustu rökin fyrir álagningu slíks skatts eru þau, að hér sé um að ræða nauðsynlega fjáröflun til þeirra framkvæmda, sem gert er ráð fyrir að skattinum verði varið til að standa straum af. Og þess vegna höfum við valið að ræða málið á þeim grundvelli í okkar nál.

Það er enginn ágreiningur um það, að brýna nauðsyn beri til þess að sjá þeim stofnunum, sem hér er um að ræða, fyrir auknu fjármagni. En sá hængur er á fjáröflun með þessu móti, að mest af eignum þeim, sem ráðstafa á hluta af til þeirra framkvæmda, sem um er að ræða, er bundið í atvinnurekstri landsmanna, og það verður hægara sagt en gert að breyta þessum eignum í handbært fé, ef stórfelld vandræði eiga ekki af að hljótast, eins og aðstæður eru nú í okkar fjárhags- og atvinnumálum. Og það er rétt að benda á það, að ólíkar aðstæður eru nú fyrir hendi hér á landi í þessum efnum þeim, sem fyrir hendi voru í Danmörku og öðrum löndum, er hernumin höfðu verið af Þjóðverjum í lok stríðsins, er eignakönnun og álagning stóreignaskatts var framkvæmd í þeim löndum. Þá höfðu einstaklingar og fyrirtæki safnað í stórum stíl peningum, sem ekki hafði verið hægt að kaupa fyrir vegna vöruskorts á stríðsárunum. Og það var óttinn við það, að fé þessu yrði í stórum stíl ráðstafað til kaupa á varningi að styrjöldinni lokinni og verðlagið þannig spennt upp, sem var aðalástæðan til þess, að eignakönnunin og stóreignaskatturinn var framkvæmdur í þessum löndum. Hér eru ástæður nú aðrar og í rauninni gagnstæðar þeim, sem voru í Danmörku eftir stríðið. Allur atvinnurekstur hér á landi á nú yfirleitt við mikil greiðsluvandræði að etja og að jafnaði í þeim mun ríkara mæli sem um stærri atvinnurekstur er að ræða. Til þessa liggja ýmsar orsakir, en meðal þeirra helztu má nefna skattakerfið og þá fyrst og fremst veltuútsvörin. Enn fremur hefur hin minnkandi sparifjármyndun undanfarin tvö ár eðlilega aukið mjög erfiðleikana á því að fullnægja eftirspurn atvinnufyrirtækjanna eftir lánsfé.

Þar sem gera má ráð fyrir því, að skattar þessir bitni einkum á stærri atvinnurekendum, þá fer ekki hjá því, að greiðsluvandræði þeirra, sem voru tilfinnanleg fyrir, muni enn aukast. Ef ekki verður breytt núverandi ákvæðum frv. um innheimtu skattsins, getur ekki hjá því farið, að mörg atvinnufyrirtæki verði að selja eignir sínar og draga rekstur sinn saman á annan hátt. En hjá því fer ekki, að slíkar ráðstafanir hljóta að valda mörgu launafólki tjóni í atvinnumissi. Það er ekki hægt að segja, að þennan vanda geti skattgreiðendur leyst með því að selja af eignum sínum, því að með því er vandanum aðeins skotið yfir á kaupandann, og hvaðan á honum að koma handbært fé? Fjármagnsskorturinn er vissulega eitthvert erfiðasta efnahagsvandamál okkar. Samkv. opinberum skýrslum var sparifjármyndun um það bil helmingi minni árin 1955 og 1956 en verið hafði næstu tvö árin á undan. Það er þessi minnkun sparifjármyndunarinnar, sem er grundvallarorsök þess fjármagnsskorts, sem nú er við að etja. Þess vegna vantar nú fé til íbúðarhúsabygginga, ræktunarlána, lána til endurnýjunar fiskiskipa og margs fleira. Að áliti okkar, sem að áliti minni hl. stöndum, verður þetta vandamál ekki leyst nema með því, að séð verði fyrir nýju fjármagni til þess, annaðhvort auknu innlendu sparifé eða erlendu lánsfé. Hitt er engin raunhæf lausn, að ætla sér að ráðstafa til þessara framkvæmda fé, sem bundið er að mestu í atvinnurekstri, sem fyrir berst í bökkum hvað rekstrarfé snertir. Ég hef í rauninni ekki getað komið auga á það, hvernig slíkt er framkvæmanlegt við núverandi aðstæður.

Við hv. 5. þm. Reykv. munum, eins og grein er gerð fyrir í nál. okkar, leggja fram brtt. við 3. umr., er miða að því að auðvelda fyrirtækjum og einstaklingum greiðslu skattsins, og höfum við þá helzt komið auga á svipaðar leiðir og farnar voru í þessu efni, er stóreignaskatturinn var lagður á árið 1950, en þær eru í fyrsta lagi að lengja þann tíma, er greiða skal skattinn á, og í öðru lagi að heimila afhendingu eigna á matsverði upp í skattinn. En hverjar undirtektir, sem þær till. fá hjá stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., þá verður að mínu áliti ekki komizt hjá ráðstöfunum til þess að auðvelda atvinnufyrirtækjunum greiðslu skattsins, ef ekki eiga að hljótast af vandræði, sem ótrúlegt má teljast að stjórnarvöld landsins vilji bera ábyrgð á. Við teljum og ýmis ákvæði frv. þannig úr garði gerð, að hætta sé á því, að álagning skattanna verði handahófskennd, og teljum nauðsynlegt, að þeim verði breytt í það horf, að skattaálagningin hlíti fastákveðnum reglum. Við teljum þó að svo stöddu ekki ástæðu til að ætla annað en þessir ágallar stafi af vangá, þannig að gera beri sér von um leiðréttingu þeirra. En þar sem við væntum þess, að þau atriði, er hér er um að ræða, muni aftur verða rædd í n. í heild, teljum við ekki tímabært að ræða þau í einstökum atriðum við þessa umræðu.