20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

159. mál, skattur á stóreignir

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Meiri hl. fjhn. flytur brtt. við þetta frv. á þskj. 552.

Fyrri brtt. er við 2. gr. frv. Í 1. tölul. þeirrar greinar segir, að fasteignir skuli metnar með því verði, sem ákveðið verður af þeirri landsnefnd, sem vinnur að samræmingu fasteignamatsins, skv. l. nr. 33 frá 1955. En síðan frv. var lagt fyrir þingið, hefur landsnefndin lokið starfi sínu, og hið endurskoðaða fasteignamat gekk í gildi 1. þ.m. samkv. auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, sem dags. er 30. apríl. Er því lagt til, að breytt verði orðalaginu í upphafi 1. tölul. og það verði þannig: „Fasteignir skulu metnar með því verði, sem ákveðið er í nýja fasteignamatinu skv. lögum nr. 33 1955, er gekk í gildi 1. maí 1957.“ Hér er aðeins lagfæring á orðalagi vegna þess, sem gerzt hefur, siðan frv. var lagt fram, en engin efnisbreyting á frv.

Þá er einnig í a-lið fyrri brtt. lagt til að orða nokkuð öðruvísi og greinilegar ákvæðið um endurskoðun á matsverði lóða, sem landsnefndin, er starfaði skv. l. nr. 33 1955, á að framkvæma. En óbreytt eru fyrirmæli frvgr. um yfirnefnd, sem áfrýja megi til úrskurðum landsnefndarinnar um kæruatriði.

Í b-lið fyrri brtt. leggur meiri hl. til, að fiskiskip skuli reiknuð með vátryggingarverði að frádregnum 40%, en samkvæmt frvgr. er frádrátturinn 331/3 %.

Og í c-lið er till. um, að frá tryggingarverði annarra skipa og flugvéla skuli draga 25% í stað 20%.

2. brtt. meiri hl. er við 7. gr. frv. Í 1. málsgr. þeirrar frvgr. segir, að félög skuli annast greiðslu á þeim hluta skatts, sem lagður er á félagsmenn þeirra eða hluthafa vegna eigna í félögunum. En síðar í sömu málsgr. segir, að félögin hafi rétt til þess að endurkrefja félagsmenn eða hluthafa um þær skattupphæðir, er þau þurfa að greiða vegna eigna þeirra í félögunum.

Meiri hl. gerir till. um viðbót við málsgr. Er þar í fyrsta lagi ákvæði um, að ákvörðun félags um það, hvort nota skuli endurkröfuheimildina, skuli tekin á aðalfundi þess. Þá segir einnig svo í brtt., með leyfi hæstv. forseta: „Nú krefur hlutafélag hluthafa um endurgreiðslu á þeim skatti, sem það varð að greiða hans vegna, og er honum þá heimilt að greiða félaginu með hlutafjáreign sinni í því, á verði, sem svarar til mats á eignum félagsins til þessa skatts.“ — Með því að veita þessa heimild er stefnt að því að auðvelda hluthafa greiðslu til hlutafélags á skatti, sem það kann að krefja hann um samkvæmt endurkröfuheimildinni. — Í framhaldi af þessu er svo lagt til í niðurlagi brtt., að ef hlutafélag eignast sjálft meira en 10% af greiddu hlutafé í félaginu, vegna þess að hluthafi notar heimildina til að afhenda því hlutafjáreign til greiðslu á skatti, sem það hefur krafið hann um, skuli það heimilt, án þess að leyfi sé fengið frá ráðherra. En í lögunum um hlutafélög, sem vitnað er til í brtt., er ákvæði um, að félag megi ekki eiga meira en 10% af greiddu hlutafé nema með leyfi ráðherra.

Þetta eru þær breytingar, sem meiri bl. n. vill gera á frv.

Minni hl. fjhn. hefur skilað framhaldsnál. á þskj. 558. Þar er skráð, fremst á þskj., að mál þetta hafi sætt óþinglegri meðferð. Ég get ekki séð, að þessi ummæli hv. minni hl. hafi við nokkur rök að styðjast. Mér er ekki vel ljóst, hvers vegna minni hlutinn heldur þessu fram, skilst þó helzt, að hann vilji byggja ummæli sín á því, að meiri hl. mælti með frv. óbreyttu við 2. umr., en áskildi sér rétt til að flytja brtt. síðar og hefur nú lagt fram brtt. við 3. umr. málsins. En slík málsmeðferð er engin nýlunda. Það kemur oft fyrir, að þingnefndir fresta ákvörðun um brtt. þar til milli 2. og 3. umr. máls. Hef ég ekki fyrr heyrt það talið óþinglegt og vil því mótmæla þessum orðum hv. minni hluta.

Minni hl. n. ber fram nokkrar brtt. á þskj. 558. Meiri hl. getur ekki á þær fallizt og leggur á móti því, að þær verði samþykktar.