20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

159. mál, skattur á stóreignir

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst nota tækifærið til þess, úr því að ég sé þá báða stadda í deildinni, hæstv. fjmrh. og viðskmrh., sem sannast sagt ber nú ekki allt of oft við, að þeir virði þingheim þess að sitja með honum á fundum, og ég hef veitt því athygli, að þeir hafa yfirleitt ekki látið svo lítið við þessar umr. um þessa mjög óvenjulegu skattheimtu að vera hér inni, þó að þeir hafi nú rekizt hér inn og sitji eins og kríur á steini rétt um sinn, — en úr því að þeir eru hér, þá vil ég spyrja þá, hvort þeir séu sammála hv. síðasta ræðumanni, þm. Siglf. (ÁkJ), þeirra stuðningsmanni og ríkisstj., um, að það sé fyrirsjáanlegt og óhjákvæmilegt, að gengi íslenzku krónunnar verði fellt. Ég tel þeim mun meiri ástæðu til þess að spyrja um þetta og beina því til hæstv. ráðh., þar sem ég heyri það hvaðanæva af landinu, að því sé nú hvíslað úr stjórnarherbúðunum til þeirra manna, sem þeir vilja vel gera, að þeir skuli búa sig undir gengisfellingu, sem verði fyrir haustið. Það er mjög alvarlegt mál, ef þannig er farið að, í fyrsta lagi, ef það er haft í huga að fella gengið, í öðru lagi, ef beita á stjórnarvaldinu til þess að gefa einstökum gæðingum færi á því að mata krókinn í sambandi við þær ráðstafanir með því að láta þennan orðróm berast. Og það er fullkomin ástæða til að ætla, að hann sé ekki jafntilhæfulaus og menn hefðu kosið að væri, úr því að hv. þm. Siglf., sem auðsjáanlega er bersögulli en margir aðrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., þó að hann hugsi ekki ólíkt því, sem margir þeirra gera, og menn skyldu ætla, að þeir hugsuðu á annan veg, eftir þeirra atkvæðagreiðslum hér, — en hann segir, hv. þm., og hefur sagt nú og fyrr á þessu þingi það, sem síðar kom á daginn að var inni fyrir hjá stjórnarliðinu í heild. Við minnumst þess, þegar hv. þm. Siglf. gerði grein fyrir afstöðu sinni til jólagjafarinnar miklu, sem samþ. var hér í desember, og tók fram, að þar væri um bráðabirgðaráðstafanir að ræða, allsendis ófullnægjandi. Þetta skaut mjög skökku við það, sem fram hafði verið haldið af stjórnarliðinu í umr. þá fáu tíma, sem okkur voru ætlaðir til þess að ræða og taka ákvarðanir um þetta mjög mikilsverða mál. En hvað kom svo á daginn, eftir að Framsfl. hafði haldið, ég hygg miðstjórnarfund eða einhverja samkomu hér í vetur? Þá var sagt í forustugrein Tímans um þessar ráðstafanir mjög svipað því, sem hv. þm. Siglf. hafði sagt við sína grg. hér í vetur. Þess vegna hlýtur það mjög að auka grunsemdir manna um sanngildi þess orðróms, sem flokksmenn stjórnarinnar eru nú að læða til sinna vildarvina, þegar hv. þm. Siglf. rýfur þögnina hér á Alþingi og segir, að þannig hafi verið á haldið, að óhjákvæmilegt sé, að gengið verði fellt, og verið sé að undirbúa það. Málgagn hæstv. viðskmrh., Þjóðviljinn, málgagn stærsta stjórnarflokksins, hefur raunar hvað eftir annað fullyrt, að hinir stjórnarflokkarnir hafi viljað knýja gengislækkun fram fyrir áramótin og það hafi eingöngu verið fyrir stöðugleika þessara hv. þm. og staðfestu hans og hæstv. félmrh., að komið var í veg fyrir hin ískyggilegu áform.

Ef ég þekki minn fyrri samstarfsmann, hæstv. fjmrh., rétt, þá er hann nú nokkuð iðinn við kolann og gefst ekki upp við fyrstu raun. Hann hefur í ýmsu reynzt staðfastari en hæstv. félmrh., sem hefur hlaupið á milli flokka oftar og tíðar en tölu verður á komið í skjótu bragði, og reynzt skoðanafastari um margt en hæstv. viðskmrh., sem eins og við vitum hefur a.m.k. varðandi eitt aðalefni stjórnarsamningsins, varðandi dvöl erlends varnarliðs, verið harla óviss í sínum skoðunum og hvarflað mjög til, ekki siður en hæstv. félmrh., sem fullyrt er að hafi vegna þeirra ummæla, sem hann hafði um það mál 1. maí, ekki fengið ræður sínar, sem hann hélt á þeim hátíðisdegi verkalýðsins, birtar í málgagni flokksins, Þjóðviljanum.

Það skyldi því engan undra, þó að nú væri verið langt komið með að hnoða deigið, svo að bráðum yrði efnt til bakstursins, það væri búið að gefast upp og við fengjum að éta þetta gengisfellingarbrauð einhvern tíma áður en haustnætur hefjast. En ég hygg, að það sé miklu mennilegra af hæstv. ríkisstj. að segja hreinlega, hvað fyrir henni vakir, heldur en að halda áfram þeim skollaleik, sem hún nú gerir, og það er sannast sagt ofboðslegt, þegar málgagn fjmrh., Tíminn, segir í gær, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafi verið í fjárhagsmálunum, séu til frambúðar, ef einhverjum illum mönnum takist ekki að hleypa af stað nýrri kauphækkunar- og verðbólguöldu. Ég spyr: Hverjir hafa hér haft forustu um að hleypa af stað þeirri kauphækkunar- og verðbólguöldu, sem því miður er nú að risa hærra en nokkru sinni áður? Það var rétt, sem hv. þm. Siglf. sagði um það, og það var rétt, sem hv. 9. landsk. þm. (ÓB) sagði í umr. hér á laugardag, og hann er allra manna kunnugastur þeim efnum og skilríkastur í sínum ummælum, að dýrtíðin hefur aldrei vaxið örar eða ískyggilegar en einmitt síðustu mánuðina. Og þarna höfum við einmitt frumhöfundana sitjandi hlið við hlið, gæðingana úr Suður-Múlasýslu, hæstv. ráðh., viðskmrh. og fjmrh. Á þeim tíma, sem þeir höfðu sett lög til þess að festa verðiag í landinu, höfðu þessir herrar heilindi til þess að gera sín á milli samning um mestu okurálagningu, sem nokkurn tíma greinir í sögu þjóðarinnar að gerð hafi verið með einum samningi, og hæstv. viðskmrh. lét sér sæma að lúta svo lágt að gera samning við félag, sem sóttist eftir okurálagningu, í stað þess að segja því eins og öðrum landsins þegnum að fara eftir því, sem landslög segja til. Hann hafði í hendi sér að setja hámarksákvæði um farmgjald þessa fyrirtækis eins og annarra. Nei, í þess stað var gerður samningur til þess að leyfa meiri okurálagningu en dæmi eru til, sem hefur svo leitt til þess, að olíuverð hefur haldizt hér úr hófi fram og þetta fyrirtæki hefur grætt að óþörfu og gersamlega tilefnislaust fullar 15 millj. kr. Nú er mér að vísu sagt, að það séu einhverjir samningar um það, að eigendur þessa fyrirtækis ætli að fara að afhenda ríkissjóði aftur eitthvað af þessari upphæð. Það færi betur, að þeir hefðu sómatilfinningu til þess. En ólíkir eru þeir þá sjálfum sér, ef þeir láta það af hendi, sem þeir hafa einu sinni fest hendur á, en svo langt má fara, að þeir sjái, að of langt hafi verið gengið, og skyldi það vissulega verða metið, ef þetta reyndist rétt. En það var ekki nóg, að þannig væri brotið blað í sögunni, eins og Framsfl. hafði lofað fyrir kosningar, þótt með nokkuð öðrum hætti væri en hann hafði ætlað með þessari okurálagningu, heldur reyndist einnig svo, að á meðan kaupbindingarlögin voru í gildi, hafði hæstv. fjmrh. geð í sér til þess og heilindi sem varaformaður Sambands ísl. samvinnufélaga að hækka launin við starfsmenn S.Í.S. um 8%, einmitt á þeim tíma, sem menn töldu að slíkar almennar kauphækkanir, þó að þær brytu ef til vill ekki beint gegn bókstaf laga, væru ákaflega hæpnar og ætti að forðast þær. Nei, þá var það hæstv. fjmrh., sem brá sér úr stjórnarráðinu, af sinni skrifstofu í fjmrn., til þess að hækka kaupið. Svo leyfa þessir herrar sér að koma til annarra og segja, að þeir séu að ryðja braut fyrir kauphækkunum og verðbólgu, þessir menn, sem hafa þarna haft forustuna, ruddu fyrstu brautina og hafa dyggilega haldið áfram að gera þetta sama fram á þennan dag. En það eina. sem þeir ásaka okkur fyrir, er það, að við skulum ekki ganga í þagnarbindindi með þeim hinum um það, hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Þeir skammast sín svo fyrir sínar eigin gerðir, að þeim finnst það nánast landráð, ef fólkinu er sagt frá því, sem er að gerast á Íslandi í dag. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vildi fyrst spyrjast fyrir um það, hvort herra forsetanum væri kunnugt, hvað orðið hefði af þeim gestum, sem voru hér viðstaddir í dag, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh. Mér þykir mjög leitt, ef mín ummæli hafa orðið til þess að hrekja svo sjaldséða gesti úr d., en ég átti nokkuð meira vantalað við þá og vildi því beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væri hægt að nálgast þá og sjá um það, að a.m.k. einn dagpart gegndu þeir þeirri þingmannsskyldu að sitja hér á þingbekkjum eins og við hinir, hvort forseti mundi treysta sér til þess. (Forseti: Það er nú mættur einn ráðherra, og það getur verið að fleiri komi.) Nú, ég las nýlega í Þjóðviljanum, að það væri sá, sem gegndi því hlutverki að vera í þjónustu minni, og ég á sízt vantalað við hann hér í þingsölunum og vildi heldur eiga þess kost að ræða við þá hina. Ja, ætli þeir séu með öllu ófinnanlegir, ráðherrarnir? (Forseti: Það er ekki á valdi forseta að ráða því, hvaða þm. eru viðstaddir.) Nei, en forseti hefur í hendi sér, ef menn vanrækja þingskyldu, að gripa til nauðsynlegra ráðstafana, og ég vildi beina því til hans, að svo mjög hafa sumir vanrækt sín þingstörf, ekki sízt hæstv. forsrh. og þeir, sem feta í hans fótspor, að mér sýnist fullkomlega ástæða til þess, að forseti íhugi það að grípa til þeirra ráðstafana, sem lög heimila.

En ég var að rekja það áðan í ræðu minni, hversu fráleitt það er, þegar hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningslið ásakar einhverja aðra í þjóðfélaginu um, að þeir hafi staðið fyrir því að hleypa af stað þeirri kauphækkunar- og verðhækkunaröldu, sem vissulega er mjög alvarleg. Ég hafði rakið það, hvernig hæstv. ríkisstj. hafði haft um það beina forustu með því að semja við forráðamenn skipsins Hamrafells um að greiða okurleigu fyrir flutning með því skipi, hvernig þar var rutt frá lokunum fyrir takmarkalausri álagningu hjá þeim aðilum, sem hæstv. ríkisstj. lætur sér sérstaklega annt um. Og ég drap á hliðstætt dæmi, þegar hæstv fjmrh. átti hlut að því sem varaformaður í S.Í.S. að hækka kaup fastra starfsmanna þar um 8%, á meðan kaupbindingarlögin voru í gildi. En því fer fjarri, að þessar aðgerðir hæstv. ríkisstj. hafi verið nokkurt einsdæmi. Segja má, að hennar störf yfirleitt varðandi þessi málefni hafi öll mjög verið á hinn sama veg.

Það var ekki ýkja langt liðið frá því, að hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir kauphækkuninni hjá S.Í.S., þegar ríkisstj. átti beinan hlut að því með öðrum aðilum, að blaðamenn fengju kauphækkun, sem nam kringum 10%. Og þá er á það að líta, að sjálf bjargráðin, sem fólust í jólagjafarlögunum frægu, höfðu einmitt hið sama mark á sér, eflingu verðhækkunar og kaupgjalds. Það var að vísu á sínum tíma ómögulegt að fá það upplýst, hvað í þessu lagafrv. raunverulega fælist. Þegar við bárum fram spurningar um það á Alþingi í vetur, var þeim spurningum annaðhvort alls ekki svarað eða svarað með öllu út í hött. Síðar kom það í ljós, nánast af tilviljun, þegar hæstv. viðskmrh. lýsti því yfir við umræður í Ed. Alþingis, að með þessum lögum hefðu sjómenn, eins og hann mun hafa orðað það, fengið kauphækkun, sem nam 15–18%. Eftirtektarvert er, að þótt eitt stjórnarblaðanna, Þjóðviljinn, hafi hvað eftir annað ítrekað þessa skýrslu hæstv. viðskmrh., hafa önnur þeirra mjög dregið úr henni. Ég hygg, að Tíminn hafi að vísu sagt, að hlutur sjómanna hafi verið bættur, en aldrei fengizt til þess að nefna ákveðna hundraðstölu í því sambandi, og leynir sér ekki, að hann vill gera mun minna úr þessum bótum en hæstv. sjútvmrh. og hans málgagn. Nú játa ég, að ég hef nokkrar grunsemdir um, að hæstv. sjútvmrh. hafi ýkt töluvert þá hækkun á kaupi sjómanna, sem þeir raunverulega hafi fengið, þannig að því fari fjarri, að kauphækkunin í raun og veru nemi þessum 15–18%. En það er eitt af því, sem stjórnin varast að veita almenningi nákvæma fræðslu um, svo að erfitt er að átta sig á, hvað rétt er í raun og veru.

Þá hefur það einnig komið fram í sambandi við þessa lagasetningu, að með henni hafi útgerðarmönnum verið veitt verulega betri aðstaða en gert hafi verið á síðustu árum. Það hefur ekki heldur fengizt upplýst, hversu miklu þessi aðstöðumunur muni nema. Mér er þó sagt, að talið sé, að hann sé mun meiri en nemi þeirri 15–18% hækkun, sem sagt er að sjómennirnir hafi fengið. Ýmsir telja, að erfitt sé að átta sig á þessu og jafnvel ríkisstj. sjálf muni engan veginn vita með vissu, hvað í þessum samningum fólst, sem hún gerði við útgerðarmenn um áramótin og voru undirstaða jólagjafarlaganna. Eins er það víst, að útgerðarmenn telja sig enn mjög vanhaldna um efndir á þeim loforðum, sem þeir þá hafi fengið. Þó hygg ég, að það sé vist, að þar hafi verið um verulega hækkun að ræða og sennilega mun meiri hækkun en þá, sem sjómennirnir fengu.

Öll vitum við það, að með þessum lögum voru lagðir á skattar. Við stjórnarandstæðingar höfum talið, að skattarnir muni hafa numið 250300 millj. kr. Eftir því sem hv. þm. Siglf. reiknaði hér áðan, höfum við þar heldur dregið úr en bætt við, því að mér skildist, að samkvæmt útreikningi hans teldi hann, að hin nýja skattahækkun um áramótin hafi numið kringum a.m.k. 330 millj. kr., og efa ég ekki, að sú tala sé rétt. En hvort sem hún er rétt eða það, sem stjórnin sjálf sagði um áramótin, að einungis væri um 250 millj. að ræða, þá er vitað og óumdeilt, að með þessum lögum voru með einni lagasetningu hækkaðir skattar meira en nokkur dæmi eru til áður að með einni og sömu löggjöf hafi verið gert. Sú hækkun hlaut auðvitað að koma fram sem hækkaður tilkostnaður með margvíslegu móti. Okkur var sagt í fyrstu, að þetta mundi muna sáralitlu, í mesta lagi kringum einu vísitölustigi, að því er mig minnir. Nú er komið á daginn, að á fáum mánuðum hefur vísitalan hækkað um hvorki meira né minna en 4 stig, og er það enn eftirtektarverðari hækkun á svo stuttum tíma, þegar haft er í huga, að á öllu tímabilinu frá árslokum 1952 fram til verkfallsins mikla 1955 var um eins stigs vísitölulækkun að ræða. Vísitalan sveiflaðist að vísu til og frá á þessu tímabili, en þegar verkfallið hófst, var vísitalan einu stigi lægri en verið hafði í árslok 1952. Samt var þeirri ríkisstj., sem þá sat að völdum, legið á hálsi fyrir það, að hún hefði ekki ráðið við verðbólguna í landinu, og það var talið henni helzt til ámælis, að hún hefði sýnt máttleysi í þeim efnum. Hafi sú ásökun verið rétt, sem að vísu var ekki, hversu miklu harðari hlýtur þá dómurinn að verða um núverandi ríkisstjórn, sem marghælir sér af því, að hún hafi stöðvað verðlag og staðið á móti kauphækkunum, þegar á örfárra mánaða bili er nú svo komið, að hækkunin er jafnmikil og raun ber vitni um, og vita þó allir, að vísitalan hefur aldrei verið fjær því en einmitt nú að gefa rétt mynd af ástandinu, vegna þess að álögunum í vetur var vísvitandi hagað með þeim hætti, að þær kæmu sem minnst niður á vísitöluvörum, ekki til þess, að álögurnar yrðu almenningi léttbærari, síður en svo, því að ef þær hefðu komið niður á vísitöluvörunum, hefðu menn fengið hækkanir sem því svaraði, heldur til þess að leggja þær á þær vörur, sem menn fengju enga uppbót fyrir þrátt fyrir hækkunina, þannig að um beinar álögur á allan almenning er nú að ræða. Þetta eru óvéfengjanlegar staðreyndir, enda sjáum við það, að sjálft ríkið hefur haft margvíslega forgöngu um hækkun verðlags á undanförnum mánuði. Það eru ekki aðeins óþarfavörur eins og brennivín og tóbak, sem hækkað hafa og strax var riðið á vaðið með, sjálfsagt fyrir ötula forustu hæstv. fjmrh., heldur hafa ýmsar aðrar hækkanir á flestum sviðum ríkisrekstrar fylgt í kjölfarið. Þannig er nú síðast fyrir fáum dögum skýrt frá því, að vélasjóður ríkisins hafi hækkað leigu á skurðgröfum til ræktunarsambanda og bænda um 20%, og með svipuðum hætti hefur verið tilkynnt veruleg hækkun á áburði. Það stendur því á sama, hvert litið er. Ríkið hefur ekki aðeins átt þátt í hækkunum, heldur haft beina forustu um hækkanir, um eflingu verðbólgunnar langt frá því, sem áður hafði verið.

Um þessi atriði, sem ég hef nú talið, sérstaklega okursamninginn við Hamrafellið, um samninginn við S.Í.S., um þær hækkanir, sem fólust í jólagjafalögunum og afleiðingum þeirra, má segja að ríkisstj. sjálf hafi haft beina forustu. Að öðru leyti mætti segja, að hún hafi átt sinn hlut að og ekki getað við gert, eins og t.d. varðandi þær hækkanir, sem urðu eftir verkföllin á Akranesi og í Grindavík strax upp úr áramótum. En þó verður að segja einnig eins og er, að ýmsar þær kaupdeilur, sem orðið hafa og ætla hefði mátt að ríkisstjórnin hefði getað haldið sér utan við, hafa einmitt leystst með stórkostlegum hækkunum, af því að ríkisstj., að því er virtist gersamlega að ástæðulausu, tók sig fram um að bjóða fram fríðindi af hálfu ríkisins til að auka við þær hækkanir, sem atvinnurekendur treystu sér til að bjóða fram. Í því sambandi má sérstaklega minna á hækkunina, sem varð hjá flugmönnum, þar sem atvinnurekendur sjálfir létu að vísu nokkuð af hendi rakna, en ríkisstj. átti beina forustu um aðalhækkunina með því að veita þessum aðilum gjaldeyrisfríðindi, sem gerðu að verkum, að flugmenn sjálfir og aðrir kunnugir telja, að sú kauphækkun, sem raunverulega varð, muni allt í allt hafa numið milli 30 og 40%. Er þetta þeim mun eftirtektarverðara og íhyglisverðara, sem vitað er, að flugmennirnir eru einmitt ein launahæsta stétt í landinu. Ég veit, að það má færa viss rök fyrir því, að þessir menn hafi þurft að fá hækkun. Það má sýna fram á, að þeir hafi átt kost á stöðum annars staðar og þess vegna hafi orðið að gera þessar ráðstafanir til þess, að þeir færu ekki úr landi og flug hér tepptist að verulegu leyti eða stöðvaðist alveg. Þetta eru afsakanir, sem hægt er að færa fram. En staðreyndin stendur eftir, að hæstv. ríkisstj. hefur þarna haft beina forustu.

Eins kom það fram í Tímanum, nokkru eftir að farmannadeilan var leyst með allt að 8% kauphækkun til sumra flokka farmannanna, að ríkisstj. hefði átt verulegan þátt í lausn deilunnar. Ég hygg nú, að sannleikurinn sé sá, að helzti þátturinn, sem ríkisstj. hafi átt í þeirri deilu, hafi verið að fela ráðh. fyrir flestum deiluaðilum, til þess að þeir spilltu ekki fyrir með nærveru sinni, og það hafi einungis verið hæstv. utanrrh., sem var talinn hafa þau áhrif á delluaðila, að hann gæti í raun og veru borið sáttarorð á milli, sem hann mun hafa gert með mörgum andvökustundum og vafalaust af góðum hug, eins og honum er trúandi til, þegar sá gállinn er á honum. En eftirtektarvert er, að þegar deilan var búin, þá ásakaði Tíminn íhaldið, sem réð Eimskip, fyrir það, að það hefði sýnt ósáttfýsi í deilunni, sem studdist við það, að það var einmitt Ríkisskip og S.Í.S., sem höfðu forustu um þær kauphækkanir, sem þarna voru látnar í té. Það var Eimskipafélagið, sem var tregara til hækkananna en hinir aðilarnir, og Tíminn, sem venjulega skammar sjálfstæðismenn þessa dagana fyrir það, að þeir séu að efna til kauphækkana, réðst í þessu tilfelli á þá fyrir það, að þeir hefðu sýnt ósáttfýsi, að þeir hefðu ekki verið nógu fljótir á sér, nógu gírugir til þess að veita hækkanirnar úr þeim sjóðum, sem félagið réði ekki yfir, vegna þess að það var vitað og yfirlýst, að ef ekki fengist fragthækkun, þá væri félögunum ómögulegt að standa undir þeim kauphækkunum, sem þarna urðu. — Það má svo segja hæstv. ríkisstj. til lofs, að skömmu síðar veitti hún félögunum 5% fragthækkun. Ég tel, að það hafi verið óhjákvæmileg ráðstöfun, eins og margt af því, sem gert hefur verið. En það tjáir ekki að halda því fram, að það hafi verið lækkunarráðstöfun, að það hafi verið til þess að draga úr verðlagi í landinu. Og var það þó auðvitað lítið, sem Eimskip og ríkisskip fengu með þeim farmhækkunum, miðað við þá rausnarlegu gjöf, sem þeir vinirnir, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh., sömdu nm, þegar þeir voru að láta Hamrafellið fá 15 millj. kr. gersamlega að óþörfu.

Enn gerðist það um svipað leyti, að ríkisstj. varð við þeirri ósk bænda víðs vegar um landið að greiða þeim hækkað verð á mjólk, til þess að hægt væri að jafna verð á milli landsfjórðunga. Í þessu máli hafði það gerzt, að hv. 2. þm. Skagf. — hygg ég verið hafi — bar fram till. við afgreiðslu fjárlaga um, að þetta vandræðamál yrði leyst. Þá komu upp allar hendur stjórnarliðsins til þess að greiða atkvæði á móti þessu hagsmunamáli bænda. Nokkrum vikum síðar var greiðslan innt af bendi, en þá fylgdi bara eitt skilyrði, að þeir, sem tóku við greiðslunni, áttu að þegja um, að hún hefði farið fram. Þeir áttu að þegja um, að hún hefði farið fram. Hæstv. fjmrh. telur sig hafa heimild til þess að greiða fé úr ríkissjóði án heimildar Alþingis. Eftir að hann er sjálfur búinn að standa fyrir því, að heimildin er felld í Alþingi, telur hann sig hafa heimild til og telur sér sæma að láta greiða fé úr ríkissjóði gegn því skilyrði, að aðilar þegi um, að þeir hafi fengið peningana frá honum. Það er öllum aðilum kunnugt, að þessi greiðsla hefur farið fram, og ég held, að mörg blöð hafi sagt frá henni, en það er eitt blað, sem alveg hefur þagað um það, það er bændavinablaðið Tíminn. Það er í þagnarbindindi með hæstv. fjmrh.

Enn gerðist það ekki löngu síðar, að ríkisstj. átti hlut að samningum, sem gerðir voru milli atvinnurekenda og yfirmanna á togurum um að hækka aflaverðlaun þeim til handa, sem nam kringum 40%. Þessir samningar voru, eftir því sem Þjóðviljinn sagði, í sambandi við skattahlunnindi, sem þessum aðilum voru veitt með breytingu á frv. um önnur skatthlunnindi, sem lágu fyrir Alþingi. En hæstv. fjmrh. lét undan fallast að segja Alþingi frá því, hvernig þessir samningar hefðu verið til komnir, að þeir væru í sambandi við þessa miklu aflaverðlaunahækkun, þegar hann bar fram brtt. og mælti fyrir henni hér á Alþingi. Hann heldur, að það sé hægt að forðast afleiðingar verka sinna með því að þegja um þær í sínu eigin blaði og reyna að dylja löggjafarþingið þess, sem hann er að gera í umboði alþjóðar. Slíkar aðferðir geta dugað börnum í leik, og sagt er, að strúturinn hafi gaman af að iðka þær, en ég hélt sannast sagt, að hæstv. fjmrh. væri þroskaðri maður en svo, að hann iðkaði slíkan leik, og vissulega er honum nú mjög brugðið frá því, sem var, þegar hann var í betri félagsskap og sýndi af sér meiri manndóm og þroska. Það dregur hver dám af sínum sessunaut.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, er það sannast sagt mjög furðulegt, að ríkisstj. skuli vera stöðugt að klifa á því og láta klifa á því, að sjálfstæðismenn séu að ýta undir kauphækkun, og sérstaklega hafa stjórnarblöðin haft til dæmis þá hækkun, sem gerð var við starfsfólk Iðju. Um þá kauphækkun er það að segja, að þar var fylgt fordæmi, sem áður hafði átt sér stað um samninga milli iðnrekenda og iðjufólks, án þess að til uppsagnar kæmi, og varð þá ekki vart, að Tíminn eða Þjóðviljinn fyndi að, enda voru kommúnistar þá forráðamenn Iðjufélagsins. Nú kom á daginn, þegar bornir voru saman samningar þessa félags og aðrir kaupsamningar, að Iðjufólk hafði orðið aftur úr, að því er talið var, og þess vegna þótti heppilegt að forðast deilur milli aðila með því að gera þessa samninga um nokkrar hækkanir, að vísu mun minni en þær hækkanir, sem ríkisstj. hafði átt hlut að. Þarna var, að því er mér skilst, hæsta hækkunin um 6% til kvenna eða mun minna en sú hækkun til starfsfólks S.Í.S., sem hæstv. fjmrh. hafði beitt sér fyrir, á meðan kaupbindingarlögin enn voru í gildi í desember s.l. En þeim mun hjákátlegra er, að hæstv. ríkisstj. skuli vera að setja út á þessa samninga, þessa hækkun til hinna lægst launuðu kvenna, þar sem alveg næstu dagana, eftir að hún var samþykkt, beitti ríkisstj. sér fyrir með miklu yfirlæti og lúðrablæstri, að staðfestur var alþjóðlegur samningur um jafnt kaup karla og kvenna. Það var að vísu fyrir atbeina okkar sjálfstæðismanna, að því var bætt við, að það ætti nú að gera ráðstafanir til þess, að þessi samningur yrði ekki aðeins dauður bókstafur, en svo virðist sem það hafi verið ætlun hæstv. ríkisstj., að sá hátturinn yrði hafður á. En ef ætlunin var, að eitthvert mark væri tekið á þessari samþykkt, var það vissulega í fullu samræmi við hana og aðeins til framkvæmdar á því, sem ríkisstj. var að lýsa áhuga sínum fyrir, að sú kauphækkun átti sér stað, sem konunum í Iðju var veitt, enda má játa það, að Alþýðublaðið hafði í þessu meiri sanngirni og samræmi við sjálft sig en hin stjórnarblöðin, því að það lýsti því í forustugrein, að um þessa iðjusamninga, sem þess samstarfsblöð hafa svo mjög vítt, væri ekkert nema gott að segja, og er þó Alþýðublaðið málgagn sjálfs iðnaðarmálaráðherrans, sem ætla má að einkum hefði haft áhyggjur af því, ef iðnaðurinn hefði þarna lent á villigötum.

Að þarna sé ekki um jafnhættulegt fordæmi að ræða og stjórnarblöðin hafa látið, styðst og við það, að síðan hefur alveg sams konar atvik gerzt varðandi verkakvennafélög hér í Reykjavík og Hafnarfirði. Þau hafa án uppsagnar fengið kjarabætur, sem Alþýðublaðið eitt stjórnarblaðanna hefur í fyrirsögn sagt með gleiðu letri að væru verulegar. Við þessar kjarabætur hefur hvorki Þjóðviljinn né Tíminn né ríkisstj. haft neitt að athuga, en það er e.t.v. vegna þess, að þar telur það ekki hægt að koma höggi á sína stjórnmálaandstæðinga, af því að það eru stjórnarliðar, sem eru í forustu beggja þessara félaga.

En slíkt ósamræmi dugir ekki í málflutningi, og vissulega var það greinilegt, að þegar Alþýðusambandsstjórnin rétt fyrir mánaðamótin apríl–maí sendi út áskorun til verkalýðsfélaganna um að segja ekki upp samningum, þá var ekki miðað við stéttarleg eða fagleg sjónarmið, heldur hitt, að ekki mætti gera ríkisstjórninni ófrið. Það var beinlínis talað um það, að ríkisstj. yrði að hafa starfsfrið, þ.e.a.s. þangað til kommúnistarnir, sem ráða öllu í stjórn Alþýðusambandsins, telja, að sér henti ekki lengur að styðja hæstv. ríkisstj., þá á starfsfriðurinn að vera úti. Það er ósköp eðlilegt, að fjöldi launþega og verkamanna, sem er búinn að læra það í mörg ár af Þjóðviljanum, af Alþýðublaðinu og af Tímanum, t.d. meðan á verkfallinu mikla 1955 stóð og undirbúningi þess, að slíkar kaupkröfur væru verkalýðnum ætíð til góðs, — það er ósköp eðlilegt, að mörg verkalýðsfélög verði ekki eins snör í snúningum og stjórn Alþýðusambandsins óskaði, þegar hún eftir algerlega pólitískum sjónarmiðum hvarf alveg af fyrri braut og fór nú að beita sér fyrir fullkominni íhaldssemi í þessum efnum, á meðan hennar menn væru sjálfir við völd í ríkisstj„ enda reyndist það svo, að fjöldi félaga hafði þennan boðskap að engu. Hv. stjórnarliðar ýmsir halda því fram og Tíminn, Þjóðviljinn, jafnvel Alþýðublaðið, að þetta sé fyrir forgöngu sjálfstæðismanna. Ég segi: Við sjálfstæðismenn erum þá orðnir býsna voldugir í verkalýðshreyfingunni og áhrif okkar meiri en við höfum jafnvel talið, ef við höfum ráðið því, að félögin tóku þessa afstöðu. Í þessum hóp var t.d. slíkt forustufélag sem Prentarafélag Íslands. Víst veit ég það, að við sjálfstæðismenn erum þar öflugir og eigum þar marga góða stuðningsmenn, en allir vita, að þar höfum við ekki fram á þennan dag haft meiri hl., svo að það er vissulega verið að skekkja myndina meira en lítið og gera veg okkar meiri en rétt er, ef sagt er, að við höfum öll ráð í þessum félögum. Sannleikurinn er sá, að við sjálfstæðismenn höfum verið óhvikulir í því, sem við höfum um þessi mál sagt fyrr og síðar, og þar í ekkert ósamræmi átt sér stað. Við teljum, að þessi mál verði og eigi að leysa eftir stéttarlegum og faglegum sjónarmiðum, en ekki eftir stjórnmálahagsmunum, hvort heldur Eysteins Jónssonar, Hannibals Valdimarssonar, Hermanns Jónassonar eða hvað þeir nú heita allir þessir herrar, sem vilja nota þessi félög almennings sem tröppur í sinni eigin valdabaráttu.

Það kemur líka glögglega fram, að félög, sem kommúnistar hafa algerlega ráðið yfir, eins og samtök þeirra, sem vinna við mjólkursamsöluna, og mjólkurfræðinga, hafa þarna alla forustu, og þegar Þjóðviljinn segir, að það séu einungis þeir hæst launuðu, sem hafi sagt upp, en ekki þeir lægst launuðu, þá virðist þar farið eftir þeim boðskap, sem ríkisstj. hefur farið eftir. Hún hefur veitt flugmönnunum, hæst launuðu stéttinni sem í verkfalli hefur verið, mestar uppbæturnar. Á sama veg virðast Dagsbrúnarstjórnin og Alþýðusambandsstjórnin ekkert hafa að athuga við það, þó að mjólkurfræðingar og þeir, sem vinna við mjólkursamsöluna, segi upp samningum. Þeir hafa betri kjör og betri aðstöðu en þeir lægst launuðu. Það er í samræmi við gerðir þessara háu herra, hvernig þarna er farið að. Það eru aðeins þeir lægst launuðu, sem keppzt er við að halda niðri.

Þannig mætti rekja félag eftir félag. Það er t.d. vitað, að verkfræðingarnir, sem nú hóta verkfalli, gerðu einnig verkfall, sem kom sér mjög illa, þegar sjálfstæðismenn voru í stjórn með framsóknarmönnum fyrir nokkrum árum. Ég geri ráð fyrir, að það séu ýmsir sjálfstæðismenn áhrifamiklir í þessu félagi, hafi verið þá og séu nú. Við höfðum ekki ráð á þeirra gerðum þá. Ég minnist þess ósköp vel, að hæstv. fjmrh. var þá ákafari en ég til þess að semja við þessa menn. Ég var hræddari en hann við það fordæmi, sem skapað yrði með því að veita þessum tiltölulega hálaunuðu mönnum fyrstu kauphækkunina eftir það kyrra tímabil, sem komizt hafði á eftír árslok 1952. Ég og aðrir þeir, sem varlega vildu fara, það skiptist ekki algerlega eftir flokkum, við urðum þá undir, en hæstv. fjmrh. var áreiðanlega ekki einn þeirra, sem þá drógu mest úr. Nú heyri ég aftur á móti sagt, að hann hafi sagt, að það væri jafngott að skera sig á hálsinn strax eins og að semja við þessa aðila. Ég spái því nú, að hæstv. fjmrh. semji við þessa aðila um töluverða kauphækkun, áður en yfir lýkur, og láti vera að skera sig á hálsinn, af því hann meti meira að hanga við völdin og eigi e.t.v. ekki góðrar heimkomu von eftir hálsskurðinn.

Nei, hæstv. fjmrh. og ríkisstj. verða að athuga, að í þessum efnum duga ekki einungis stóryrði eða fögur fyrirheit um það, hvað gera skuli, heldur er nauðsynlegt, að staðið sé við þær yfirlýsingar, sem hafðar eru í frammi. Hæstv. fjmrh. hélt föstudaginn 10. maí í útvarpið ræðu, sem — með leyfi hæstv. forseta — endaði á þennan veg:

„Reynt er að afla erlendra lána. En okkur er öllum hollast að gera okkur það ljóst, að við getum ekki byggt stórframkvæmdir okkar allar á erlendum lánum, og takist ekki að auka sparnaðinn, þ.e.a.s. fjármagnsmyndunina, í landinu sjálfu og minnka eyðsluna, þá hlýtur að draga hér úr framkvæmdum á næstu árum, þótt framar vonum tækist með erlendar lántökur.“

Nú spyr ég hæstv. fjmrh. og þingheim: Telja menn líklegt, að það frv., sem nú er til umr., muni ýta undir menn til þess að auka fjármagnið og draga úr eyðslu? Það lætur að vísu vel í eyrum að segja, að taka eigi fé af þeim ríku til þess að bæta úr ýmiss konar þörfum, og víst skal ég viðurkenna, að oft getur staðið þannig á, að slíkt sé réttmætt. Hv. þm. Siglf. gat þess t.d. áðan í sinni ræðu, og slíkt hið sama hafði komið fram hjá fyrri ræðumönnum, að það hefði ekki verið óeðlilegt í stríðslok í sambandi við það uppgjör, sem þá varð að fara fram, að láta e.t.v. einhverja slíka eignaupptöku eiga sér stað. Hún gæti einnig verið réttlætanleg í sambandi við gengisbreytingu, ef talið væri, að með henni væri einhverjum aðilum skapaður óeðlilegur gróði, og verið væri að gera verulegar ráðstafanir til þess að koma efnahag þjóðarinnar í betra horf en áður. En engu slíku er nú til að dreifa. Síður en svo. Ég skal einnig játa, að það gæti verið fullt vit í því t.d. varðandi verðhækkanir á eignum, sem verða vegna þess, að menn hafa ekki sjálfir lagt fram annað en eiga eignina nógu lengi og síðan hafa almennar framkvæmdir hækkað hana í verði. Þá er það alveg rökstyðjanlegt og ekkert við því að segja, ef hægt er að koma því fyrir, að verðhækkunarskattur eigi sér stað á slíkum eignum. Ef hann er látinn ganga jafnt yfir, þá má færa mörg rök að því. Ég játa, að það eru erfiðleikar á því. T.d. ef eignirnar eru í eigu sama manns, þá er erfitt að koma þessu við, en aftur á móti, ef sala fer fram, þá er eðlilegt, að einhver viss hluti hennar sé tekinn af almannavaldinu til sinna þarfa til jafnvægis við það, sem það hefur lagt af sinni hendi fram til þess að auka verðmæti þessarar eignar. Þar við er að vísu það að athuga, að oft mundi þá vera reynt að fara einhvern veginn í kringum sölu, svo að þetta nýttist ekki eins og skyldi, en þarna er um að ræða gamalkunnugt vandamál, sem menn hafa gert sér ljóst að æskilegt væri að reyna að leysa, og fáir hygg ég vilji bera á móti því, að ef hagkvæm og framkvæmanleg lausn fáist, þá sé rétt að reyna eitthvað slíkt.

Eitthvað af þeim eignum, sem hér er verið að skattleggja, er svona til komið, og ég skal sem sagt ekki hafa á móti því, að þær séu skattlagðar. En það er bara ekki gert upp á milli þeirra og þeirra eigna, sem beinlínis eru komnar fram í sambandi við atvinnurekstur, í sambandi við það, að menn hafa lagt af mörkum vinnu, fé og annað til þess að byggja upp fyrirtæki, að menn í stað þess að eyða hverjum eyri, sem þeir fengu, vildu sjálfum sér til framdráttar, en um leið þjóðarheildinni til gagns og björgunar leggja fé til hliðar í stað þess að eyða því í hégóma, í veizluhöld, siglingar eða hvað það nú er, sem menn eyða fé sínu í. En hvort skyldi nú slík löggjöf sem þessi, sem tekur upp jafnverulegan hluta af eigum manna og hér er gert, frekar verka til þess að ýta á menn að leggja fé til hliðar, að safna því nauðsynlega fjármagni, sem hæstv. fjmrh. talar svo fagurlega um á hátíðlegum stundum, eða mundi hún ýta undir menn til eyðslunnar, til þess, sem hæstv. fjmrh. á þessum sömu stundum telur var. hugaverðast og það, sem forðast beri?

Ég hygg, að það sé ómögulegt að neita því, að slík löggjöf sem þessi hljóti að hvetja menn til þess að eiga heldur góða daga, að vera ekki að leggja of mikið að sér, að vera ekki að láta alla sjá, að þeir hafi of mikið undir höndum, heldur lífa sínu góða og þægilega lífi, verja fé sínu til þeirra hluta, sem ekki er hægt að skattleggja, en þá um leið síður verða alþjóð til gagns.

Á sama veg er ómögulegt að neita því, að þegar farið verður að innheimta þetta fé, þá getur það ekki haft önnur áhrif en að auka lánsfjárskortinn í landinu eða atvinnuleysi — og sennilega hvort tveggja. Það er að vísu sagt, að fénu eigi að verja til þarflegra framkvæmda. Það er út af fyrir sig lofsvert, að hæstv. fjmrh. skuli ekki taka það í sinn stóra ríkissjóðskassa og láta það hverfa þaðan, án þess að þess verði verulega vart, eins og of mikið af því fé fer, sem hann fær undir hendur. Það er út af fyrir sig lofsvert og sýnir nokkuð, hvert álit hans fjármálastjórn hefur í hans eigin huga, að það er talið til lofs, að fé skuli ekki eiga að lenda í hans höndum, heldur eigi að verja til ákveðinna þarfa. En því er bara gleymt, að féð er ekki hægt að taka, nema það sé tekið úr peningastofnunum, af því fé, sem í umferð er, eða atvinnuvegir dregnir saman, eignir seldar til þess að afla fjármunanna. Allt hlýtur þetta óhjákvæmilega, eins og nótt fylgir degi, að hafa í för með sér, að atvinnan dregst saman, að minna fé er til þess að halda uppi hollum atvinnurekstri, að minni möguleikar eru til þeirrar uppbyggingar, sem við öllu fremur þurfum á að halda.

Og vissulega verðum við að segja, að hæstv. fjmrh. talar óhugnanlega með tungum tveim, þegar hann úti á flugvelli, við móttöku hinna síðustu glæsilegu flugvéla, sem hingað komu, talar fagurlega um þörfina á því að efla flugflotann og við megum ekki láta útgjöldin verða til þess að sliga okkur í samkeppni við aðra, þegar hann hefur sjálfur viðurkennt getuleysi þess aðila, sem þar á hlut að máli, með því að veita stórkostlegar ríkisábyrgðir til þess að kaupa þessar nýju flugvélar til landsins, en jafnframt því, sem hann viðhefur þessi fögru orð og veitir ríkisábyrgðirnar, leggur svo á slíkan skatt sem þennan og hagar skattálagningunni með þeim hætti, að ljóst er, að þessi félög, sem þarna ræðir um, verða talin til stóreignafélaga, þó að allir viti, að þau hafa yfirleitt gefið eigendum sínum lítið sem ekkert fé.

Alveg eins er t.d. um Eimskipafélag Íslands. Það hefur yfirleitt ekki borgað eigendum hlutafjár sins nema 4% arð af hlutabréfunum, og ég efast um, að ef miðað er við arðgreiðslur frá upphafi, þá nái þær 4%. Um það hef ég ekki ákveðnar tölur í kollinum, en það mun ekki fara fjarri lagi, sem ég segi um það. Í stað þess að greiða arð, í stað þess að eyða þessu fé, þá er svo komið, að talið er, að eftir þeim l., sem hér eru sett, muni hlutabréfin kannske verða talin hafa hundraðfalt gildi. Ég veit ekki, hvort svo verður að lokum — það fer nokkuð eftir því, hvaða reglur endanlega verða um þetta samþykktar, — en það er ljóst, að mjög skýtur það skökku við, ef einstaklingarnir, sem eiga þessi bréf og aldrei hafa fengið af þeim meira en 4% að meðaltali, eiga nú að skattleggjast af þessari eign sinni eins og hún væri hundrað sinnum meira virði en nafnverðið segir til um. Þetta getur leitt til þess, að menn, sem að öðru leyti, vegna þess að þeir eiga eitthvað annað til, lendi í stóreignaskatti, þurfi kannske að greiða stórfé fyrir að hafa á sínum tíma, þegar fjármagn var hér lítið, og af þegnskap látið verulegt fé, eftir því sem þá var um að ræða, í Eimskipafélag Íslands. Nú má segja, að félagið ráði því, hvort það endurheimtir þetta aftur eða ekki. En þá komum við að því, að ef þetta frv. verður samþykkt eins og það er, þá er niðurstaðan sú, að menn verða að gæta þess mest hér eftir, ef þessu fordæmi á að fylgja, að ganga aldrei í félag með efnuðum manni. Hingað til var talið viss trygging í því að stofna félag með þeim, sem eitthvað ætti til og ef til vill væri þá reiðubúinn að hlaupa undir bagga, ef illa færi. Nú er þessu snúið við, nú er það orðið stórhættulegt að eiga í félagi með efnuðum manni, vegna þess að þá á maður á hættu að þurfa að fara að borga stórkostlega skatta hans vegna, og vissulega er oft óhjákvæmilegt, að sú skattlagning sé tekin á félögin, en ekki aðilana, vegna þess að aðilarnir hafa ekkert fengið út úr félögunum, eins og er t.d. um hluthafana í Eimskipafélagi Íslands, þannig að það væri hreint rán og með öllu ósæmilegt, ef ætti að fara að skylda þessa menn til þess að taka þessar greiðslur á sig sjálfa.

Hitt væri allt annað atriði, ef menn gætu komið sér saman um að hafa einhvern hæfilegan skattstiga á öll félög í stað einstaklinga, þannig að félög, sem verulega hafa grætt, eins og t.d. Eimskipafélag Íslands, ættu hreinlega sjálf að greiða einhvern tiltekinn hluta, hvort sem það væri mikið eða lltið, af sínum eignum, ef það er á annað borð talið nauðsynlegt. En af hverju má ekki viðhafa þá aðferð, af hverju má ekki skattleggja félögin sjálf, heldur endilega skattleggja einstaklingana? Við sjálfstæðismenn lögðum til, að sá háttur yrði hafður á, að félögin yrðu skattskyld, í sambandi við gengislögin, sem við bárum fram snemma á árinu 1950. En þegar samningar voru teknir upp við Framsfl. um samstjórn og samþykkt laganna, var þetta eitt af þeim atriðum, sem endilega varð að breyta, ómögulega máttu standa óhögguð. Af hverju skyldi það hafa verið? Jú, það var vegna þess, að samband ísl. samvinnufélaga mátti ómögulega greiða skatt. Það varð að haga lögunum þannig, finna form, hversu óeðlilegt sem það væri, til þess að Sambandið, þessi sterkasti auðhringur landsins, sterkasta fjármagnsstofnun, sem til hefur verið á Íslandi frá alda öðli, yrði skattfrjálst til þess að eflast enn, til þess að fjmrh., sem þar ræður mestu, gæti haft enn þá meira fé undir höndum til þeirrar starfsemi, sem hann hefur mestan áhuga fyrir. Starfsemi, sem að vissu leyti er góð og nytsöm, eins og starfsemi Eimskipafélags Íslands er og margs konar annar rekstur í þessu landi, á vissulega ekki að undirþiggjast skatti einungis vegna þess, að hæstv. fjmrh. og hans félagsbræður telja, að það geti orðið sínum pólitísku völdum hættulegt.

Við sjálfstæðismenn neyddumst á sínum tíma til þess að fallast á þá breytingu, sem var algert skilyrði af hálfu framsóknarmanna, til þess að þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru, yrðu gerðar. Ég sé, að það mun eitthvað svipað hafa átt sér stað nú. Ég heyrði glögglega af ræðu hv. þm. Siglf., að hann hefur um þetta svipaðar hugmyndir og við og aðrir sanngjarnir menn höfum, en enn á ný hefur ofurvald Framsóknar, kappgirni hæstv. fjmrh. orðið þess valdandi, að þarna eru látin gilda mjög óeðlileg ákvæði, ákvæði, sem fyrst og fremst miða að því að efla hin pólitísku áhrif þessa hæstv. ráðh. og hans félagsbræðra. En auðvitað er það rétt, sem fram hefur komið og óhagganlegt er, að þó að slík hlutdrægni dugi um sinn og kunni að verða skálkaskjól, meðan nokkur stund varir, þá endist hún ekki til lengdar. Allt verður þetta einungis til þess að safna eldi að höfði þeirra manna, sem svona fara að. Þeir gá ekki að því, að áður en varir eru þeir búnir að skapa slíka andstöðu í þjóðfélaginu gegn þessu atferli, að miklu hættulegra væri en ef þeir í tíma tækju saman höndum við sanngjarna menn um að koma skynsamlegri skipan á, og vissulega þekki ég engan, sem hafi löngun til þess að bera hlut þessa félagsskapar, Sambandsins, fyrir borð eða halla á það.

Ég segi eins og er, að mér hefði fundizt eðlilegt, að gerð væri tilraun til þess að breyta þessu frv. í þá átt, að skattgreiðendur yrðu ekki einstaklingar eingöngu, eins og nú er ráðgert, heldur allir fjármálaaðilar, þeir sem eru persónur að lögum og slíkar eignir eiga, að þeir yfirleitt eru skattskyldir. Ég játa þó, að ég hirði ekki um að bera þessar brtt. fram nú, vegna þess að ég veit, að þetta er vonlaust, — það er búið að semja um framgang frv. í öllum höfuðatriðum og sennilega smáatriðum, svo að það borgar sig ekki að eyða pappír í það að skrifa brtt. En engu að síður er nauðsynlegt, að þetta sjónarmið komi hér fram, því að það er það eina rétta og sanngjarna og það, sem fara verður eftir, ef menn vilja ekki láta rangindin við þessa lagasetningu verða enn meiri en jafnvel þörf væri á, ef fullri sanngirni væri beitt.

Ég játa, að þær brtt., sem meiri hl. hv. fjhn. hefur borið fram, horfa til góðs. Ég tel þær þó allsendis ófullnægjandi, eins og ég tel, að þó að brtt. hv. minni hl. fjhn. væru samþ., þá mundi það ekki hrökkva til þess, að frv. bæri að samþ. Slík ráðstöfun, eins og nú standa sakir, er ekki réttlætanleg. Það eru engin þau atvik í okkar fjármálalífi, sem gera verjanlegt að láta slíka eignatilfærslu, sem eðli sínu samkv. er ekkert annað en eignarán, eignaupptaka, eiga sér stað.

Ég játa það, að út af fyrir sig tel ég það ekki skaðsamlegast við þetta frv., þó að einhverjir einstaklingar þurfi að greiða nokkur hundruð þúsund eða jafnvel nokkrar milljónir til þeirra þarfa, sem hér um ræðir. Sem betur fer, verða sjálfsagt allir þeir aðilar svo vel stæðir þrátt fyrir þessa eignatöku, að þeir fari ekki á vonarvöl fyrir þær sakir. Á málið ber því ekki að líta frá þeirra sjónarmiði, heldur einungis hvaða áhrif þetta hefur á efnahagslífið í heild. Og þá er ljóst, að hér er ekki aðeins skapað hættulegt fordæmi, sem mjög erfitt er að segja, hvar staðar skuli numið við, ef samþ. verður enn á ný, heldur er ljóst, að nú á þeim tímum, þegar óráðsíumenn eru við völd í ríkisstj. landsins og þess vegna líklegt, að margt gangi miður en skyldi eingöngu þess vegna, þá er enn þá sigið á ógæfuhlið með því að samþ. þessi lög, sem hljóta að hafa í för með sér skort á starfsfé, samdrátt atvinnutækja og vaxandi atvinnuleysi og þar með hægari uppbyggingu og meiri vesöld í þessu landi en vera þyrfti.