20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

159. mál, skattur á stóreignir

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er nú orðið liðið á nóttu og þess vegna eðlilegt, að menn fari að stytta mál sitt, þar sem þetta er þar að auki orðið allýtarlega rætt. En það hefur ýmislegt fram komið í ræðum hv. stjórnarsinna, sem eðlilegt er að taka til nokkurrar meðferðar, þótt áliðið sé næturinnar.

Hv. þm. V-Húnv. var að ljúka máli sínu, og hann sagði - ég veit, að þið hafið, áheyrendur góðir, tekið eftir því, að ráðagerðir stjórnarinnar, m.a. með þeirri lagasetningu, sem hér er fyrirhuguð um stóreignaskattinn, mættu verða til þess að örva sparifjármyndun í landinu. Mikil er sú bjartsýni, eða hvar hefur hv. þm. V-Húnv. verið? Hefur hann ekki fylgzt með því, að síðan hæstv. núverandi ríkisstj. kom til valda hefur sparifjármyndunin stöðugt farið minnkandi? Hvers vegna? Vegna þess að traust almennings á núverandi hæstv. ríkisstj. fer stöðugt þverrandi, var lítið í upphafi, er enn þá minna í dag, og það þarf ekki að gera ráð fyrir því, á meðan núverandi hæstv. ríkisstj. situr og meðan almenningur í landinu treystir ekki hæstv. ríkisstj., að sparifjármyndun þjóðarinnar örvist. Aðgerðir hæstv. ríkisstj. og hæstv. þingmeirihluta, ekki aðeins í þessu máli, heldur í mörgu öðru, eru að grafa undan því trausti, sem nauðsynlegt er að almenningur beri til valdhafanna. Það er þess vegna, sem efnahag þjóðarinnar er stefnt í voða.

Það hefur verið gert dálítið að umtalsefni, sem hv. þm. Siglf. sagði hér í dag í sambandi við þetta frv., og hv. þm. Hafnf., formaður Alþýðuflokksins, lýsti því yfir hér áðan, að Alþfl. allur, að þessum eina hv. þm. undanskildum, væri fylgjandi þessu frv. Það er þó vitað mál, að það eru fleiri þm. Alþfl. óánægðir með núverandi hæstv. ríkisstj. en hv. þm. Siglf. og það eru fleiri hv. þm. í Alþfl. hreinskilnir en hann og segja það, sem þeir hugsa, um samstarf núverandi hæstv. ríkisstj. og það, sem hún hefur gert og er að gera, og það verður að segja hverjum hv. þm. það til heiðurs, ef hann vill vera hreinskilinn og tala af sannfæringu.

Hv. 10. landsk. þm. (BrS) hefur að nokkru lýst viðhorfi almennings til núverandi hæstv. ríkisstj. í ræðu, sem hann flutti á aðalfundi Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur nú fyrir skömmu. Ég geri ráð fyrir því, að margir hv. þm. hafi lesið þessa ræðu, því að hún er birt í Alþýðublaðinu 16. þ. m., og það er margt athyglisvert, sem þessi hv. þm. segir. Hann er lítið ánægður með margt, sem núv. ríkisstj. hefur gert, og hann veit, að fólkið í landinu er ekki heldur ánægt með það. Ræðumaður, þ.e. Bragi Sigurjónsson, kveðst ekki draga fjöður yfir það, að hinn vinstri kjósandi hefði á ýmsan hátt orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með ríkisstj., efnahagsaðgerðir hennar í vetur væru að dómi hans bráðabirgðaúrræði, engin varanleg úrræði, úrræði, sem hafi brugðizt vonum manna, og hann segir ýmislegt fleira athyglisvert, með leyfi hæstv. forseta:

„Að öllu samanlögðu er því ekki að neita, að hinn ábreytti kjósandi hefur orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með samstarf vinstri flokkanna og ríkisstj. þykir verksein, ekki úrræðafljót og hliðrar sér hjá því að ganga afdráttarlaust til verks.“ Og hann segir ýmislegt fleira. Hann segir t.d., að almenningi sé nú ljóst, að það sé ekki einhlítt til þess að halda vinnufriði, að hinir svokölluðu vinstri flokkar, hinir svokölluðu verkalýðsflokkar, fari með stjórn landsins. Og á hverju byggir þessi hv. þm. það? Hann byggir það á því, að þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, hafi miðað að því að gera kjör fólksins í landinu verri en þau áður voru og að almenningur í landinu, sem áður gerði sér vonir um, að stjórn hinna vinnandi stétta, sem kallaði sig svo, gæti skapað hinum lægst launuðu bætt lífskjör, — hún hefur brugðizt því og leitt yfir allan almenning erfiðari tíma, verri lífskjör en hinn fátækari almenningur hafði áður búið við, og stjórn, sem þannig vinnur, sem þannig starfar, missir vitanlega traust fólksins. Það fólk, sem kaus þessa flokka við síðustu kosningar í trausti þess, að hin svokallaða vinstri stjórn gæti leyst vandamálin, hefur fengið opin augu fyrir því, að loforðin, sem gefin voru fyrir síðustu kosningar, voru falsloforð, sem núv. hv. stjórnarflokkar hafa keppzt við að svíkja í þá 9 mánuði, sem þeir hafa setið að völdum. Það má vei vera, að það hafi verið nauðsynlegt fyrir íslenzku þjóðina, fyrir íslenzkan verkalýð að ganga' í þennan skóla, að fá þennan reynslutíma yfir sig, en sú skólaganga fyrir almenning í þessu landi er kostnaðarsöm, verður íslenzku þjóðfélagi og íslenzku efnahagslífi kostnaðarsöm og afdrifarík, það verður erfitt að byggja upp á þeim rústum, sem núverandi stjórnarflokkar skilja eftir sig, þegar þeir hrökklast frá.

Hv. þm. Hafnf. (EmJ) hélt hér tiltölulega stutta ræðu í kvöld, en að mörgu leyti athyglisverða. Hann talaði um það, að ríkisstj. og flokkar hennar vildu hafa jafnvægi í efnahagslífinu og það væri það, sem ríkisstj. væri að berjast fyrir, en Sjálfstfl. ynni gegn því, að þetta gæti tekizt.

Það var rétt, sem hv. þm. A-Húnv. (JPálm) sagði hér áðan, að það er undarlegt, að ekki verr gefinn maður en hv. þm. Hafnf. skuli láta sér detta í hug að nefna jafnvægi í efnahagslífi og atvinnulífi í sambandi við þær aðgerðir, sem núverandi hv. stjórnarflokkar hafa gert undanfarið. Það er vitað mál, að núverandi hv. stjórnarflokkar hafa lagt á þjóðina á síðustu mánuðum hvorki meira né minna en 400 millj. kr. í nýjum sköttum. Það er vitað mál, að þetta hlýtur að leiða til hækkaðrar dýrtíðar og versnandi lífskjara hjá öllum almenningi í landinu.

Til þess að koma í veg fyrir þetta stoðar ekki verðlagseftirlit. Hv. þm. Hafnf. vildi gefa í skyn, að verðlagseftirlitið, sem nú á að heita algert, ætti þrátt fyrir aðgerðir stjórnarinnar, þrátt fyrir hina nýju tolla og álögur, eigi að síður að geta haldið verðlaginu niðri. En það er komið allt annað í ljós. Dýrtíðin hefur farið síhækkandi undanfarna mánuði, og þrátt fyrir það að skattarnir voru þannig á lagðir, að þeir skyldu sízt koma á hinar svokölluðu vísitöluvörur og niðurgreiðslan aukin til þess að halda vísitölunni niðri, þá hefur vísitalan vaxið um 4 stig, sem mun kosta ríkissjóðinn í auknum niðurgreiðslum hvorki meira né minna en 25 millj. kr. á ári.

Aðgerðir ríkisstj. leiða til vaxandi dýrtíðar, leiða til vaxandi erfiðleika. Einn stuðningsmaður ríkisstj. játaði það hér í dag, að gengishrun væri óhjákvæmilegt, m.a. vegna aðgerða ríkisstj. á s.l. vetri. Þetta er hans skoðun, en þarf eigi að síður ekki að vera skoðun allra. E.t.v. mætti enn þá forða þjóðinni frá gengishruni, ef nú þegar væri kippt í spottann, verðlagið stöðvað og ráðstafanir gerðar til þess að gera raunhæfar aðgerðir í atvinnu- og efnahagsmálum. En það er erfiðara nú en það var fyrir rúmlega ári, þegar við sjálfstæðismenn gerðum till. um það í marzmánuði 1956 að stöðva verðlagið, að greiða niður verðlagið. Það voru kölluð bráðabirgðaúrræði. Það voru bráðabirgðaúrræði þá, en okkur var ljóst, að til þess að nokkuð mætti gera raunhæft í þessum málum, varð að byrja á því að stöðva verðlagið og síðan að gefa sér tíma til þess að greina, hvernig ætti að stiga niður dýrtíðarþrepin og koma atvinnuvegunum á réttan grundvöll og forða þjóðinni frá böli vaxandi dýrtíðar. En í stað þess að taka í útrétta hönd okkar sjálfstæðismanna í marzmánuði 1956 hlaupa framsóknarmenn úr ríkisstj., frá allri ábyrgð, og segja, að það sé ekki hægt að leysa efnahagsvandamálin með sjálfstæðismönnum, það verði aðeins gert með því að reka hina svokölluðu vinstri pólitík. Stofnað var til kosninga, og við vitum, hvað gerzt hefur siðan. Það hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina. Dýrtíðin hefur vaxið. Meðgjafir ríkissjóðs hafa aukizt, skattar verið á lagðir, og nú tala stjórnarflokkarnir ekki lengur um bráðabirgðaúrræðin, sem þeir hafa gert, sem jákvæða eða varanlega lausn, heldur eru þeir nú farnir að tæpa á gengislækkun. Það er eftirtektarvert, að hv. þm. Hafnf., að hæstv. fjmrh., að form. hv. fjhn. þessarar d. og frsm. fyrir þessu máli, sem hér er til umr., þeir hafa engir mótmælt skoðun hv. þm. Siglf., þegar hann lýsti því hér í dag, að gengislækkun væri óhjákvæmileg vegna aðgerða ríkisstj. og stjórnarflokkanna á s.l. vetri.

Ég vil vekja athygli á því, að þetta tal um gengislækkun getur verið nokkuð hættulegt og afdrifaríkt fyrir efnahagslíf landsmanna. Ef allur almenningur fer að trúa því, að gengislækkun sé á næsta leiti, þá er voðinn vís, og ég vil, af því að gengislækkun hefur komizt inn í þessar umr. og af því að sá orðrómur gengur, að hæstv. ríkisstj. sé jafnvel búin að semja um það sín á milli að láta gengislækkun fram fara, að. alvarlegar umr. um gengislækkun hafi farið fram í sambandi við það samkomulag, sem stjórnarflokkarnir gerðu um bankafrv., sem hér eru einnig á dagskrá, þá vil ég að gefnu tilefni, af því að skoðun hv. þm. Siglf. hefur ekki verið mótmælt, gera þá fsp. til hæstv. fjmrh., hvort það sé rétt, að hv. Sósfl. eða Alþb. hafi fallizt á það, þegar samkomulagið var gert um flutning bankafrv., að láta gengislækkun verða áður en langt liður. Ég spyr um þetta að gefnu tilefni og einnig vegna þess, að ég vil gefa hv. stjórnarflokkum tækifæri til þess að sverja þetta af sér, af því að ég tel, að það geti valdið háska og skaða, ef allur almenningur í landinu trúir því, að þetta samkomulag hafi verið gert og að gengislækkunin sé fyrirhuguð.

Svo er það annað mál, hvers vegna Alþb. hefur fallizt á þetta, ef svo hefur verið, hvort það hefur verið í sambandi við einhver viðskipti eða verzlun á milli stjórnarflokkanna. Það upplýsist aftur seinna.

En þá mundi nú margur spyrja: Hvað væri eftir hjá hv. Alþb. af kosningaloforðunum? Herinn er í landinu og gengislækkunin fyrirhuguð. Hvað er þá eftir? Það verður talið upp seinna.

Það er nú tæplega svaravert, sem hv. þm. Hafnf. sagði hér áðan og hæstv. fjmrh. í garð okkar sjálfstæðismanna, þegar þeir eru með brigzlyrði til okkar sjálfstæðismanna út af því, að við viljum kynda undir dýrtíðina og verkföllin. Þetta hefur maður séð í stjórnarblöðunum, ekki sízt Tímanum, alls konar dylgjur og rangfærslur um sjálfstæðismenn. Hvers vegna? Vegna þess, að samvizka stjórnarflokkanna er slæm. Vegna þess, að þeir sjá, að þeir eru á feigðargöngu, að þeir nálgast fossbrúnina og eru komnir að því að hrapa, nema þeir bjargi sér til lands nú þegar, og þá er það, sem þeim finnst gott að reyna að koma sökinni á andstæðingana, kenna Sjálfstfl. um það, sem þeir sjálfir eiga sök á.

Ég vil spyrja þessa hv. menn: Var það sjálfstæðismönnum að kenna, að Sambandið hækkaði kaupið við starfsfólk sitt í desembermánuði s.l., meðan kaupbindingarlögin voru í gildi? Var það Sjálfstfl. að kenna, að hæstv. viðskmrh. hækkaði kaupið við sjómenn um 15–18%, eins og hann sjálfur sagði í þingræðu hér í vetur og eins og birt var með feitu letri í Þjóðviljanum? Var þetta Sjálfstfl. að kenna? Var það Sjálfstfl. að kenna; að kjör sjómanna á Akranesi og í Grindavík voru stórum bætt? Var það Sjálfstfl. að kenna, að flugmenn gerðu verkfall og að kjör þeirra voru stórum bætt, þannig að flugmenn meta þessar kjarabætur allt að 50–60 þús. kr. á ári? Flugmenn eru hæst launuðu menn í þessu landi, en stjórn hinna vinnandi stétta gekk fram fyrir skjöldu og gaf þessum mönnum 50–60 þús. kr. kauphækkun yfir árið. Var það sjálfstæðismönnum að kenna, að farmenn fengu 8% hækkun, eins og Alþýðublaðið sagði frá? Var þetta sjálfstæðismönnum að kenna?

En hvernig stendur á því, að hæstv. fjmrh. og Tíminn sættir sig við það, að Þjóðviljinn, að hæstv. viðskmrh. segir frá því, að sjómenn hafi fengið 15–18% kauphækkun, úr því að Tíminn og hæstv. fjmrh. og fleiri stjórnarsinnar eru heitvondir við sjálfstæðismenn af því, að þeir segja frá því, sem er að ske í þjóðfélaginu? Hvernig stendur á því, að hæstv. fjmrh. finnur ekkert að því við samstarfsflokk sinn, Alþfl., og Alþýðublaðið að segja frá því með feitu letri, að farmenn hafi fengið 8% kauphækkun? Tíminn segir ekki frá þessu. Framsókn ætlast til, að almenningur í landinu sé blekktur og fái ekki að fylgjast með því, sem er að gerast. Þeir, sem ekki lesa annað en Tímann, sem munu vera nokkrir í Suður-Múlasýslu og jafnvel Norður-Múlasýslu, trúa því, að það hafi engar kauphækkanir átt sér stað. En er það þannig, sem stjórnmálabaráttan á að vera í þessu landi? Er það þannig, sem á að reka lýðræðisþjóðfélag, að það megi ekki segja fólki frá því, sem er að ske? Hvað hafa sjálfstæðismenn gert annað en segja hlutlaust frá því, sem er að ske, að stjórn hinna vinnandi stétta, sem hét vinnufriði, sem hét því að stöðva dýrtíðina, sem lofaði því að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll, hefur staðið þannig við loforð sin, að verkföll hafa dunið yfir hvert af öðru, að kauphækkanir hafa á undanförnum mánuðum verið stórkostlegri en nokkru sinni fyrr og þá helzt hjá þeim, sem hæst eru launaðir, en svo er ætlazt til, að bændur og Dagsbrúnarmenn, hinir verst launuðu, sætti sig við þann hlut, sem þeim er ætlaður og skammtaður, og það er farið að segja það innan stjórnarflokkanna, að Dagsbrúnarmenn verði að liggja niðri, vegna þess að ef þeir hækki kaupið, þá leiði það til þess, að landbúnaðarvörurnar verði að hækka í haust? Bændum er ætlað að taka fullkominn þátt í dýrtíðinni án þess að fá nokkuð bætt af því, sem af dýrtiðinni leiðir, og verkamenu eiga þrátt fyrir minnkandi atvinnu að sætta sig við það kaup, sem þeir hafa, þótt hækkað hafi verið við alla þá, sem bezt eru settir og hæst eru launaðir.

Það er rétt að víkja að því betur, hvernig sú stjórn, sem telur sig vinveitta bændum að öðrum þræði, framkvæmir það, sem að bændunum snýr. Bændunum var lofað á s.l. hausti, að þeir skyldu fá 8.2% hækkun á landbúnaðarvörur, mjólk og kjöt, og þeim bar það samkvæmt útreikningi verðlagsnefndarinnar. Hvað hafa þeir fengið? Þeir áttu að fá 28 aura hækkun á mjólkurlítra fyrir verðlagsárið, sem byrjaði 1. sept. 1956 og endar 31. ágúst n.k. Hvað hafa bændur fengið í hækkuðu mjólkurverði? Þeir fengu ekkert fyrir septembermánuð. Fituaukningin var hækkuð um 4 aura 1. okt., en það gerir 15 aura hækkun á lítra. Þetta hafa þeir fengið. Meira hafa þeir ekki fengið, og meira munu þeir ekki fá. Þeir eru snuðaðir um 13 aura á hvern mjólkurlitra, sem þeim ber. Þeir eru einnig snuðaðir um 3.1% af afurðaverði sauðfjárins af því, sem þeim ber. Þetta varð ekki fyrr en þessi stjórn tók við, enda var aldrei við því að búast, að þessi stjórn stæði við samninga gagnvart bændum frekar en öðrum. Og nú segi ég það, að um leið og hún svíkur bændur um afurðaverðið, þá fer hún ekki betur með verkamennina, því að það fara saman hagsmunir bænda og verkamanna. Bændum er ætlað að fá verð afurða sinna í réttu hlutfalli við það, sem verkamenn bera úr býtum á hverjum tíma, og aðgerðir ríkisstj. í atvinnumálum þjóðarinnar leiða til þess, að tekjur hins almenna verkamanns fara minnkandi, að kaupgeta hans þverr og að bændur selja verr og selja minna af afurðum sínum á markaði í kauptúnunum en þeir áður gerðu.

Það er ekki aðeins það, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi lagt á 400 millj. kr. í nýjum sköttum. Það er ekki aðeins á þann hátt. sem hún þrengir að. Hún þrengir að almenningi einnig á annan hátt, með því að taka atvinnuna af fólkinu, taka eftirvinnuna í burtu, þannig að menn verða nú að sætta sig við það, sem þeir bera úr býtum með 8 stunda vinnu, og mega þakka fyrir, ef það er, og ég veit, að í vetur gengu margir verkamenn vinnulausir og margir hafa nú áhyggjur af því, að þeir komist ekki í vinnu á þessu vori, og það mun sýna sig, þegar skólafólkið kemur úr skólunum á vinnumarkaðinn, að það verður atvinnuleysi á þessu sumri.

Það er ástæðulaust að rekja það í fleiri orðum en þegar hefur verið gert, bæði af mér og öðrum sjálfstæðismönnum, að það er staðleysa, að við sjálfstæðismenn höfum nokkuð gert til þess að ýta undir vinnudeilur, ýta undir verkföll. Við gerum okkur alveg ljóst, hvað það þýðir, ef ekki er vinnufriður, hvað það kostar fyrir þjóðfélagið. En við gerum okkur líka ljóst, að það er tæplega við því að búast, að þeir, sem eru verst settir í þjóðfélaginu, þeir, sem lægst launin hafa, verði ánægðir, þegar þeir líta á það, hvað hefur gerzt undanfarið undir forustu þeirrar ríkisstjórnar, sem fram að þessu hefur kallað sig stjórn hinna vinnandi stétta.

Það er ekki nema eðlilegt, að almenningur í landinu lýsi óánægju sinni, og það eru takmörk fyrir því, sem almenningur þolir og lætur bjóða sér. Hinn vinnandi maður, hvort sem hann er við sjó eða í sveit, hefur nú gert sér alveg fyllilega grein fyrir því, sem hann ekki vissi áður, að stjórnarflokkarnir, sem hafa kallað sig flokk bænda, sem hafa kallað sig flokk verkamanna og vinnandi fólks, eru úrræðalausir flokkar. Þetta er stjórn, sem vinnur að því að skapa fólki í þessu landi verri lífskjör en þörf er á. Ég gat um það í upphafi máls míns, að sparifjármyndunin í landinu hafi stöðvazt við tilkomu þessarar stjórnar, og það er afdrifaríkt, þegar það skeður. Fjármagnsmyndun í landinu er undirstaðan að atvinnulífinu, að framkvæmdunum. Um leið og sparifjármyndunin stöðvast, kemur aukinn fjárskortur, minnkandi möguleikar á framkvæmdum, minnkandi möguleikar á því að halda uppi atvinnu, minnkandi trú manna og traust á valdhöfunum, sem leiðir til upplausnar, til stöðvunar, til þess, að almenningur í landinu hættir að lifa við góð lífskjör, eins og áður hefur gerzt í þessu landi, og það er nú svo, að hæstv. ríkisstj. virðist enn í dag ekki hafa opnað augun fyrir því, hvað þessi stöðvunarpólitík hennar leiðir af sér. Hún öðrum þræði hrósar sér af því að vera frjálslynd og framtakssöm, en öðrum þræði kemur það augljóslega fram, að framkvæmdirnar eru að stöðvast undir hennar forustu og verndarvæng. Ég get t.d. minnzt á eitt áþreifanlegt mál, sem er að ske í mínu kjördæmi. Það hafði verið ákveðið að leggja rafmagn á 32 bæi í Rangárvallasýslu á þessu ári samkv. áætlun. Þetta mun vera nálægt 30 km, sem þurfti þá að leiða um þennan hrepp. Mér var sagt á sunnudaginn, að nú væri jafnvel ákveðið að leggja aðeins 8 km af þessum 30. Það á bara að svíkjast um að leggja 22 km, sem hafði verið búið að samþykkja og lofa. Það verður dýrt fyrir fólkið úti um hinar dreifðu byggðir, sem bíður eftir rafmagni, og það verður orðið langeygt eftir rafmagninu, ef stöðvunarpólitík núv. hæstv. ríkisstj. á að ráða til lengdar, og þegar hæstv. ríkisstj. svíkur eða ætlaði að svíkja það, sem er þannig búið að lofa og staðfesta skriflega, þá get ég búizt við því, að það verði fleira, sem svikið hefur verið. Ég get nefnt annað dæmi úr mínu kjördæmi í sambandi við brú, sem er nú ekki nema að hálfu leyti á fjárlögum. Það er gert ráð fyrir því, að þessi brú kosti um 200 þús. kr. Það eru 100 þús. kr. á fjárlögum. Það er meira en mánuður síðan ég skrifaði hæstv. ríkisstj. og óskaði eftir því að mega byggja brúna í sumar, ef ég útvegaði 100 þús. kr. lán til brúargerðarinnar, sem ég bauðst til að gera, og vegamálastjóri var þessu samþykkur og mælir með því. Ég hef ekki enn þá fengið svar hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún leyfi mér að útvega þessar 100 þús. kr., til þess að þessi brú verði byggð. Stöðvunarpólitíkin gengur svo langt hjá hæstv. ríkisstj., að hún vill ekki þiggja 100 þús. kr., til þess að hægt sé að byggja þessa brú.

Ég hef nú nefnt þessi dæmi hér, þótt þau séu kannske ekki beinlínis viðkomandi stóreignaskattinum eða þessu frv., sem hér er til umræðu. En allt er þetta nú nokkuð samtvinnað og hvað öðru skylt, ef um þetta er rætt frá ýmsum hliðum. Ég fyrir mitt leyti gæti undir ýmsum kringumstæðum fallizt á það, að lagður væri stóreignaskattur á þá, sem eiga verulegar stóreignir, eignir, sem þeir nota eingöngu fyrir sjálfa sig, en ekki koma öðrum að notum. En þetta frv. gerir engan greinarmun á því eða mjög lítinn greinarmun á því, hvort hinar svokölluðu stóreignir eru í eign einstaklinga, sem ekki nota þær í þágu atvinnuveganna, eða hvort þessar eignir eru beinlínis í framleiðslunni og leiða til þess að veita tugum og jafnvel hundruðum manna atvinnu. Það er að vísu gert ráð fyrir nokkrum frádrætti hjá þeim, sem í framleiðslunni eru, en að mínu viti er það ekki nærri nógu mikið. Mér fyndist, að það ætti algerlega að undanskilja ýmis atvinnufyrirtæki, sem berjast í bökkum og vantar algerlega rekstrarfé. Við skulum t.d. taka iðnaðarfyrirtæki, sem hafa tugi manna og hundruð manna í atvinnu. Ég býst við því, þegar búið er að fimmtánfalda fasteignamatið á húsum og vélum þessara fyrirtækja, sem áður hafa barizt í bökkum og tæplega haft fjármagn til þess að borga kaup, að stóreignaskattur í þessum tilfellum leiði til þess, að það verði stór samdráttur hjá þessum fyrirtækjum. Þessir menn, sem eiga fyrirtæki, hafa vissulega nóga möguleika fyrir sjálfa sig. Og það má segja, að skatturinn komi ekki þyngst niður á þeim, sem skattinn eiga þannig að greiða, en ef skatturinn leiðir til þess, að það verður að segja upp helmingnum af þeim, sem áður höfðu þarna atvinnu, þá kemur hann niður á hinum fátæka verkamanni, sem hefur fengið lifibrauð sitt hjá fyrirtækinu.

Ég býst við, að það megi nefna nokkur iðnaðarfyrirtæki hér í Reykjavík, sem þannig stendur á með og áreiðanlega verða að draga saman seglin og segja upp fólki, eftir að þessi skattur kemur til framkvæmda. Og þótt stóreignaskattur gæti verið réttmætur á ýmsa, þá er enginn vafi á því, að eins og atvinnumálum okkar er nú komið, þá er nauðsynlegt að íþyngja ekki hinum ýmsu atvinnuvegum, sem veita atvinnu og vinna að þjóðnýtum störfum. Annars er það svo, að iðnaðurinn virðist vera að fara algerlega í kút undir stjórn núverandi hæstv. ríkisstj. eins og flest annað. Það eru býsna mörg iðnaðarfyrirtæki, sem nú hafa þegar sagt upp starfsfólki sínu vegna öryggisleysis og vegna vantrúar á því, að mögulegt sé að starfrækja iðnaðarfyrirtækin, eins og nú er komið. Ég get nefnt dæmi um eitt iðnaðarfyrirtæki, sem var að vísu ekki stórt, en það varð að hætta starfsemi sinni á s.l. vetri, vegna þess að það fékk ekki neina hækkun á framleiðslunni, enda þótt hráefnin til framleiðslunnar hefðu hækkað um 30%. Verðlagsyfirvöldin höfðu ekki betri skilning á þessari starfsemi en svo, að þótt hægt væri að sýna fram á með tölum, sem ekki voru rengdar, að hráefnin höfðu hækkað um 30%, fékkst alls ekki að hækka söluverð á því, sem þetta fyrirtæki framleiddi. Afleiðingin varð sú, að fyrirtækið hætti, sagði upp því fólki, sem það hafði, og hefur lokað hús núna. Ég veit ekki, hvort þetta er verst fyrir eigendurna, en það er áreiðanlega slæmt fyrir það fólk, sem hafði atvinnu hjá fyrirtækinu. Þetta gerðist að vísu áður en stóreignaskatturinn kom til framkvæmda, en var eingöngu vegna verðlagsákvæðanna.

Ég ætla ekki að fara út í verðlagsákvæðin í nótt. Það gefst tækifæri og tími til þess seinna. Það er vitanlega, eins og það er sjálfsagt að útiloka okur, eins nauðsynlegt að fyrirbyggja, að heilbrigður atvinnurekstur sé stöðvaður vegna skilningsleysis þeirra, sem með verðlagsákvæðin fara.

Nú má segja, að það hafi verið beitt svo vel á öngulinn fyrir ýmsa í sambandi við þetta frv., að þess vegna bæri að fylgja þessu frv., vegna þess, hvernig eigi að verja því fé, sem inn kemur með þessum skatti. Veðdeild Búnaðarbankans á að fá 1/3, og það er vitað, að við sveitamennirnir erum viðkvæmir fyrir því. Við vitum, að veðdeild Búnaðarbankans þarf að fá fé. Hún þarf að fá meira fé en gert er ráð fyrir að hún fái með þessu frv. Það er gert ráð fyrir, að stóreignaskatturinn gefi á 10 árum 80 millj. kr. Þriðji partur af því er 27 millj. kr. Þetta greiðist á 10 árum. Það eru 2.7 millj. á ári. Veðdeildin hefur lánað hverjum manni undanfarið, þegar hún á annað borð hefur getað lánað, 35 þús. kr. Hvað eru þetta þá mörg lán? Það er fljótreiknað. 35 í 27, það eru 74 lán. Það er rúmlega 1% af bændum, sem getur fengið lán úr veðdeildinni, eftir að þetta frv. er orðið að lögum.

Ég segi nú, að ef ætlazt er til, að þetta sé beita, sem menn eiga að gleypa þrátt fyrir vont bragð, þá er það misskilningur. Veðdeild Búnaðarbankans er hægt að efla, það er hægt að afla henni fjár með öðru móti, og það verður að afla henni fjár, þótt þetta verði að lögum. Það er ekki nóg, að 1% af bændum geti fengið veðdeildarlán.

Það er svo annað mál, að það stóð með feitu letri í Tímanum, það var heilsíðufyrirsögn, að með þessu frv. væri búið að leysa fjármál veðdeildar Búnaðarbankans. Ég spyr nú hv. þingmenn og er freisting að spyrja þá, sem sitja hér á móti mér: Er þetta nú ekki heldur mikil nægjusemi? Er það ekki heldur mikil nægjusemi fyrir fulltrúa bænda að fullyrða, að það sé búið að leysa fjármál veðdeildar Búnaðarbankans með því að gera 1% af bændum mögulegt að fá lán úr veðdeildinni, en það er með þessu frv.? Væri ekki rétt fyrir okkur, sem erum fulltrúar bænda, að stefna örlítið hærra? Ég held, að við verðum að gera það. Við vitum, að það er fjöldi bænda, sem vantar lánsfé, og að veðdeildinni þarf að útvega meira fé. Og ég verð að segja, að það er illa á haldið, þegar hinn svokallaði bændaflokkur hefur fjmrh. í stjórn og forsrh. og leggur 400 millj. kr. í nýjum sköttum á landsmenn, að það skuli þá ekki sjást nokkur möguleiki til þess að útvega veðdeild Búnaðarbankans fé með öðru móti en þessu og ekki meira fé en þetta.

Það getur vel verið, að það hafi tekizt í bili að blekkja menn með þessari fyrirsögn í Tímanum og að menn hafi haldið í bili, að þetta væri nokkuð mikið fé, 27 millj. kr., 2.7 millj. kr. á ári. En þegar farið er að deila í þessa upphæð, þá sjá menn, hvað þetta er smátt, að þetta er blekking, að þetta er í samræmi við þann blekkingavef, sem núverandi stjórnarflokkar hafa verið að vefa, siðan þeir komust að völdum. Og það er ekkert undarlegt, þegar stjórninni er haldið uppi á þessu, að þeir verði ókvæða við, þegar sagt er umbúðalaust frá því, sem gerzt hefur, og að þeir jafnvel verði heitvondir, ef talað er um, að þetta framlag til veðdeildarinnar sé ekki stór upphæð, heldur lítil upphæð.

Það var líka í blaði hæstv. félmrh., Þjóðviljanum, feit fyrirsögn með stórum stöfum: „Ríkisstjórnin hefur gert ráðstafanir til þess að leysa fjármál byggingarsjóðs ríkisins“. Og það var m.a. með þessu frv., með því að útvega byggingarsjóði ríkisins skv. þessu á ári 5.3 millj. Það átti nú að útvega meira. Það var hinn svokallaði skyldusparnaður. Það var 1% á alla skatta til viðbótar. Og þegar félmrh. hæstv. fór að reikna, þá taldist honum til, að það væri kannske 11–12 millj. nýtt fé, sem hann með öllum þessum bægslagangi hefði tryggt byggingarsjóði ríkisins. En það verður svo að geta þess, að byggingarsjóði ríkisins er ætlað að lifa á því fé, því fjármagni, sem fyrrv. ríkisstj. hafði útvegað. Það stofnfé, sem fyrrv. ríkisstj. hafði skapað, verður lagt í byggingarsjóð ríkisins, og með því að leggja það við það nýja fé, sem núverandi hæstv. ríkisstj. útvegar, er þetta orðin töluverð upphæð samanlagt. En þessar 11–12 millj. kr., sem hæstv. núv. ríkisstj. útvegar byggingarsjóði ríkisins, hvað eru það mörg lán? Eða ætlar hæstv. ríkisstj. að smækka lánin frá því, sem þau voru? Áður var lánað 70 þús. kr. út á íbúð, og ég hefði nú ætlað, að með hækkandi verðlagi á byggingarefni, hækkandi vinnulaunum, þá væri frekar þörf á því að hækka þessi lán á hverja íbúð heldur en að lækka þau. En við skulum nú segja, að það verði ekki lánað nema 70 þús., eins og áður var, og þá sjáum við, hvað það verða mörg lán, sem þetta nýja fé hæstv. ríkisstj. getur veitt. Það er með því að deila 7 í 11. Ég veit, að hæstv. félmrh., þótt hann brosi, þá getur hann reiknað það dæmi, enda hefur hann verið skólastjóri. Það eru ca. 150 lán. En nú er mér sagt, að það liggi fyrir hvorki meira né minna en 2000 umsóknir um lán, og hæstv. núverandi ríkisstj. ætlar að afgreiða 150 af þessum 2000. Hún gerir ráðstafanir sem sagt til þess, að hægt sé að afgreiða 150 af 2Ð00. Verði afgreitt meira, þá er það ekki fyrir hennar tilstilli, heldur er það fyrir það fé, vexti og afborganir af því fé, sem fyrrverandi ríkisstj. hafði útvegað. Það er ekkert undarlegt, þótt það séu feitar fyrirsagnir í Þjóðviljanum og þótt stjórnarflokkarnir segi, að þeir hafi nú leyst fjármál byggingarsjóðs ríkisins og að nú sé þetta allt komið á góðan veg.

Ég held, að það sé ástæðulaust að hafa þessi orð öllu fleiri. Það hefur verið rætt um þetta allýtarlega. Það hefur verið gert alveg ljóst, hvert hæstv. ríkisstj. er að stefna í atvinnumálum þjóðarinnar og að þetta frv., sem hér er til umr. um stóreignaskatt, er eitt afsprengi hennar, sem er í samræmi við annað, sem hún hefur gert. Og það fé, sem ætlazt er til að komi út úr þessum stóreignaskatti, leysir ekki fjármál veðdeildarinnar, það leysir ekki fjármál byggingarsjóðsins, en með því að frv. gerir allt of lítinn mun á eignum, hvort það eru eignir, sem eru ekki notaðar í almenningsþágu, eða eignir, sem eru beinlínis í atvinnurekstrinum, vegna þess er frv. ótækt, og m.a. vegna þess er ég algerlega á móti því.