20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

159. mál, skattur á stóreignir

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ræða sú, sem hv. 1. þm. Rang. var nú að ljúka við að flytja hér, var að vísu með nokkuð sérstökum hætti um það frv., sem hér liggur fyrir, svo lítið sem hann ræddi um það sem slíkt. En þó eru þessi ræðuhöld, sem flest eru innbyrðis nokkuð lík, af hálfu þeirra sjálfstæðismanna um það stóreignaskattsfrv., sem hér liggur fyrir, ekki með öllu óeðlileg, þegar það er athugað, hvernig í rauninni stendur á því, að það frv., sem hér er nú til umr., um stóreignaskatt, liggur hér fyrir.

Það er sem sagt kunnugt, að ákvörðun ríkisstj. um það, að lagður yrði á sérstakur stóreignaskattur, var tekin sem ein ákvörðun af fleirum í sambandi við þær dýrtíðarráðstafanir, sem gengið var frá um síðustu áramót. Þá var gengið út frá því, að afla þyrfti allmikilla nýrra tekna til stuðnings við atvinnuvegi landsmanna, og eitt úrræðið, sem fallizt var á í því samkomulagi, sem þá var gert við vinnustéttirnar í landinu, var einmitt það, að þeir, sem hefðu safnað á undanförnum árum verulegum eignum, skyldu einnig láta nokkuð af mörkum í sambandi við þessar nýju tekjuöflunarleiðir. En það kom vitanlega fljótt í ljós, að Sjálfstfl. var algerlega andvigur því, að þessir aðilar, sem nú er ætlað að borga stóreignaskatt, þeir sem eiga yfir 1 millj. kr. í skuldlausri eign, ættu hér einnig að koma til með að leggja nokkurt fé fram.

En í þessu sambandi er rétt að athuga nokkru nánar þá stefnu, sem Sjálfstfl. hefur haldið uppi og gerir nú í þessum umr. einmitt varðandi lausn efnahagsmálanna. Því hefur sem sagt verið lýst yfir af talsmönnum Sjálfstfl., að sú tekjuöflun, sem átti sér stað um síðustu áramót, hafi sízt verið of mikil, ekki hafa atvinnuvegirnir fengíð of mikinn stuðning. Það hefur komið mjög greinilega fram frá hálfu sjálfstæðismanna. Sjávarútvegurinn hefur ekki fengið of mikið sér til stuðnings.

Landbúnaðurinn hefur ekki fengið of mikið, síður en svo. Þetta hefur sérstaklega verið undirstrikað af ýmsum aðaltalsmönnum sjálfstæðismanna. Nú, en hvað þá? Þá hefur tekjuöflunin verið nauðsynleg. Um hvað stendur ágreiningurinn þá? Jú, ágreiningurinn stendur um það, hvernig átti að afla teknanna. Hverjir áttu að borga? Og þá er það fyrst skemmtilegt að virða fyrir sér stefnu Sjálfstfl., þegar þannig er litið á málið. Hvað hafa sjálfstæðismenn lagt hér til í þessum efnum? Hverjir áttu að borga þessar miklu fjárhæðir, sem þurfti til þess að styrkja atvinnuvegina að þeirra dómi? Ja, vill nú ekki t.d. hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sem hér talar væntanlega næst á eftir, skýra þingheimi hér frá því, hverjar hafi verið till. sjálfstæðismanna og hverjar séu till. sjálfstæðismanna í þeim efnum, hverjir áttu að bera það, sem útvega þurfti í fjármunum handa atvinnuvegunum? Það væri svo sem fróðlegt að fá að heyra það. Þegar ríkisstj. ákvað að fara þá leið að láta þá aðila í landinu leggja fram nokkurt fé, sem sannanlega höfðu eignazt mestar eignir á undanförnum árum, eiga í hreina eign 1 millj. og meir, þá er Sjálfstfl. á móti slíkri tekjuöflun, hún kemur ekki til mála. Og þegar ríkisstj. leggur til, að ýmsir milliliðir í landinu, verzlunin og aðrir slíkir, verði einnig að leggja nokkurt fé af mörkum, þá er hrópað dag út og dag inn, að það sé verið að þjarma svo að verzluninni í landinu, að hún geti ekki lifað. Ekki getur hún borið þessar álögur. Og það er auðvitað verið að þjarma svo að ýmsum skipafélögum í landinu, eins og Eimskipafélaginu, að þau eru svo að segja að fara á höfuðið. (Gripið fram í.) Já, jafnvel það, a.m.k. að dómi olíufélaganna, því að þau álíta, að ekki sé hagur olíufélaganna of góður. (Gripið fram í: Eru þau nú orðin samvizska ráðh.?) Ja, það hefur nú komið fyrir áður, að þegar tekinn hefur verið aðeins mesti kúfurinn af því, sem olíufélögin hafa fengið, þá hafi heyrzt hljóð úr horni hjá sjálfstæðismönnum, og það ætla ég að segja í sambandi við Hamrafellið, af því að því var skotið hér inn í, að þrátt fyrir stórlækkandi fragtir á heimsmarkaði, þá var það svo og liggur nú alveg skjalfest fyrir, að leigan, sem Hamrafellið var tekið á, var mun lægri en hefði verið hægt að fá á frjálsum markaði. Við leigðum 3 skip fyrir 220 shillinga hvert, en Hamrafellið fór 3 túra á 160 shillinga hvern túr. Einn túr fór Hamrafellið á 100 shillinga og síðasta túrinn sinn fór það á 115 shillinga. (Gripið fram í: Nú, það er búið að lækka það.) Er búið að lækka, já. Já, það var samið við Hamrafellið mjög góðfúslega um að lækka síðasta túrinn, en það hefði hins vegar ekki verið gert í tíð sjálfstæðismanna. En það sýnir aðeins það, að ríkisstj. hafði í þessum efnum tryggt landsmönnum eins hagstæðar fragtir og tök voru á þá. Hefði hins vegar hin leiðin verið farin, að hinn frjálsi markaður hefði verið notaður, þá hefðum við búið við mun hærri fragtir á olíuskipum.

Það hefur sem sé komið í ljós, að Sjálfstfl. hefur ekki heldur þolað þá álagningu, sem olíufélögunum hefur verið boðin. Hann hefur ekki heldur þolað það. Svo þolir hann auðvitað ekki heldur þá gífurlegu álagningu, sem hann segir að ríkisstj. hafi beitt sér fyrir á almenning í landinu, eða m.ö.o. það þurfti að afla allra þeirra tekna, sem aflað var við síðustu áramót. Verzlunin getur ekki borið álögurnar. Hin stóru skipafélög geta ekki boríð álögurnar, verzlunarstéttin getur ekki borið álögurnar, auðmennirnir í landinu geta ekki borið álögurnar, og almenningur getur ekki borið álögurnar. En hver átti svo að borga að dómi sjálfstæðismanna? Hver átti að borga?

Jú, það liggur alveg ljóst fyrir, hver var meining sjálfstæðismanna um það, hverjir áttu að borga það, sem óhjákvæmilega þurfti fram að leggja til stuðnings atvinnuvegunum. Það fer vitanlega enginn í grafgötur með það, að það var meining þeirra sjálfstæðismanna að skella á gengislækkun, sem yrði framkvæmd þannig, að hún bitnaði alveg einhliða á launþegum í landinu. Og svo þegar þessi mál liggja fyrir á þennan hátt, þá kemur hér hv. 1. þm. Rang. og talar um úrræðalausa flokka í sambandi við lausn á efnahagsmálum landsmanna. Og hver voru úrræði Sjálfstfl.?

Það er öllum vitað, að húsnæðisvandamálin eru þess eðlis, að þau hafa gífurlega mikil áhrif á gang verðlagsmálanna í landinu. Hin feiknarlega háa húsaleiga, sem orðin er hér í Reykjavík, hefur vitanlega leitt af sér mikla og almenna dýrtið í landinu. Það var því ekki nema eðlilegt, að samtök launþega legðu á það höfuðáherzlu í sambandi við lausn efnahagsmálanna um s.l. áramót, að reynt yrði til frambúðar að leysa húsnæðisvandamálin, og af því var það einmitt, að samið var um að leggja á þennan stóreignaskatt, til þess að tryggja á þann hátt allmyndarlegt framlag til lausnar á húsbyggingarmálunum hér á næstu árum. Vitanlega sjá allir menn, að eina leiðin til þess, að hægt verði að lækka húsaleiguna á komandi árum, er sú, að það takist að skapa hér byggingarsjóð, sem getur starfað að verulegu leyti með eigin fé og þannig lánað út fé til húsbygginga með sanngjarnari og hagkvæmari kjörum en hægt hefur verið fram til þessa.

Stóreignaskatturinn, sem hér er lagt til að innheimta, er einmitt ætlaður til þess arna. Hann er því að mjög verulegu leyti hugsaður þannig, að hann á að vinna gegn hinu háa verðlagi, hann á að hjálpa til þess, að hægt sé að koma niður húsaleigukostnaðinum, og þannig styrkja það, að hægt verði að halda á komandi árum stöðugu verðlagi í landinu.

En hverjar eru þá till. sjálfstæðismanna í sambandi við lausn þessa mikla vandamáls, sem er húsnæðisvandamálið og gliman við hina háu húsaleigu? Hvaða till. hefur Sjálfstfl. komið með fram í þeim efnum?

Sjálfstfl. hefur vitanlega engar till. þar fram að færa, sem á neinn hátt fela það í sér, að hægt sé að búast við því, að á komandi árum gæti húsaleigan lækkað. Einmitt sú braskstefna, sem hann hefur gengizt fyrir í sambandi við húsbyggingarmálin, leiðir af sér síhækkandi húsaleigu og þar með síhækkandi verðlag.

Það hefur verið talað hér um þennan stóreignaskatt á þann hátt, að helzt mætti ætla, að hér væri verið að framkvæma einhverja eignaupptöku. En þetta er vitanlega mesti misskilningur. Skatturinn er þannig hugsaður, að allar líkur benda til þess, að atvinnureksturinn í landinu verði að mestu laus við þessa skattgreiðslu. Ég trúi því t.d. ekki, að neinar greinar sjávarútvegsins þurfi að kvarta undan þessum skatti. Mér þykir furðulegt, ef yfirleitt nokkrir, sem fást við sjávarútveg hér, þurfi að greiða nokkurn skatt samkvæmt þessu frv. Ástæðan er vitanlega sú, að það hefur verið þröngt í búi hjá sjávarútveginum á undanförnum árum, þar hafa skuldir hrúgazt upp og þar er því ekki um mikla nettóeign að ræða. Þeir, sem lenda í þessum milljóneraskatti, munu yfirleitt eiga fé sitt og eignir annars staðar en í framleiðsluatvinnuvegum landsmanna.

Ég vil t.d. nefna aðeins sem dæmi, að einstaklingur, sem telst skv. því skattmati, sem hér er lagt til grundvallar, eiga hreina eign umfram skuldir 5 millj. kr., á að greiða í þennan skatt 870 þús. kr., sem hann má greiða á 10 árum, eða 87 þús. kr. á ári. Nú er enginn vafi á því, að eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þá mundu þessar eignir að raunverulegu verðmæti vera allmiklu meira virði en 5 millj., sem þarna kæmu til skatts, því að skattmatið er greinilega þannig upp byggt, að það er gengið út frá því, að það sé allmiklu lægra en raunverulegt verðmæti eignanna. Sá aðili, sem telst eiga 5 millj. kr. skuldlausar eftir tiltölulega lágu mati, — ég tel, að það sé ekki óeðlilegt, þegar afla þarf tekna til þess að standa undir brýnustu þörfum atvinnuveganna og til þess að leysa slíkt vandamál eins og húsnæðisvandamálin eru, þó að slíkir aðilar greiði þessa skattupphæð, sem ég gat þarna um.

Nei, hér er sannarlega ekki nærri neinum gengið, en hins vegar ætlazt til þess, að þeir, sem sannanlega eiga mikið, láti nokkuð af höndum.

Í þessar umr. hefur það spunnizt nokkuð, að orðrómur gengi um það, að núverandi ríkisstj. stefndi að gengislækkun, og þó að hv. 1. þm. Rang. (IngJ) talaði hér mörgum orðum um það, hvað hættulegt væri að tala um væntanlega gengislækkun, þá reyndi hann samt að slúðra hér nokkuð um, að þetta stæði til og hann hefði m.a. heyrt, að samið hefði verið um gengislækkun í ríkisstj. í sambandi við afgreiðslu bankafrv. þeirra, sem nú liggja fyrir þinginu.

Ég vil í tilefni af þessu segja það, að þetta er vitanlega algerlega úr lausu lofti gripið. Ekkert slíkt hefur borið á góma í ríkisstj. Þetta er eins og hvert annað íhaldsslúður, sem gengur um ríkisstj. Það hefur greinilega komið fram frá hálfu ríkisstj„ að hún gerir það, sem í hennar valdi stendur, til þess að hægt verði að komast hjá gengisfalli, og ef það tækist, sem hún hefur haft vonir um, að hægt væri að halda verðlaginu nokkuð jöfnu og koma í veg fyrir allar meiri háttar hækkanir, þá eru vitanlega fyllilega vonir til þess, að ekki þurfi að gripa til neinna sérstakra ráðstafana um næstu áramót til stuðnings útflutningsframleiðslunni, því að það mun vera almennt viðurkennt af t.d. öllum útvegsmönnum, að þannig hafi verið gengið frá stuðningi við sjávarútveginn um s.l. áramót, að í meðalárferði ætti útgerðin að geta haldið velli á sæmilegan hátt og þurfi því ekki að óska eftir frekari stuðningi en þar var gert ráð fyrir, nema komi til verulegra verðlagshækkana, sem enn eru ekki fyrirsjáanlegar. En því er vitanlega ekki að neita, að það er ljóst, það er öllum mönnum í landinu ljóst, að Sjálfstfl. hefur beitt sér mjög ákaft fyrir því að reyna að gera að engu þessar vonir ríkisstj. um stöðugt verðlag. Hann hefur lagt sig fram á alla lund með að reyna að koma á stað kauphækkunaröldu í landinu og verðhækkunaröldu. Hann hefur gengizt fyrir því, þar sem hann hefur mögulega getað, að krefjast þess, að verðlag verði hækkað, álagning fái að hækka til mikilla muna, og beitt sér af miklu kappi fyrir því í vissum stéttarfélögum, að þau segðu upp kaupgjaldssamningum sínum og legðu til verkfalla.

Tilvitnanir þeirra sjálfstæðismanna í það, að ríkisstj. hafi í ýmsum tilfellum beitt sér fyrir kauphækkunum og að af þeim ástæðum sé það hún, sem ryður brautina og kallar á það, að aðrir hækki, eru alveg furðulegar. Ein af tilvitnunum þeirra er sú, að ég hafi t.d. skýrt frá því hér í umr. á Alþingi, að kaup hafi verið hækkað til sjómanna allverulega um síðustu áramót, og þetta hefur síðan verið tuggið hér upp æ ofan í æ í blöðum sjálfstæðismanna og í ræðum þeirra hér á þingi sem dæmi um það, að á þennan hátt beiti ríkisstj. sér fyrir kauphækkunum.

Strax þegar þessi mál lágu fyrir um áramót, var öllum ljóst, sem nokkuð skildu í vandamálum útvegsins í landinu, að þau voru þess eðlis, að það þurfti ekki einungis að bæta rekstrarafkomu báta og togara. Það þurfti einnig að vinna að því, að það fengjust sjómenn á skipin. Það lá því alveg augljóst fyrir sem ein fyrsta krafa meira að segja útgerðarmanna í landinu jafnt sem sjónmanna, og ég hélt, að allir hefðu skilið það, sem nokkuð þekktu til þessara mála, að það þurfti líka að vinna að því, að sjómenn gætu fengið nokkra kauphækkun. Öllum var það því ljóst, þegar þessar till. voru afgr. hér á Alþingi, að þá var samþ. nokkur hækkun á fiskverði, og um sama leyti var samþ. löggjöf hér á Alþingi, sem tryggði sjómönnum hærra orlofsfé en þeir höfðu fengið áður. ríkisstj. skýrði þá þegar frá þessu ásamt því, að hún mundi beita sér fyrir auknum skattfríðindum sjómanna.

Svo þegar þetta ber á góma hér í umr. á Alþingi tveimur mánuðum síðar, þá stökkva sjálfstæðismennirnir í loft upp, en þá voru þeir komnir í sinn fulla ham að berjast fyrir kauphækkun, og segja, að nú hafi það uppgötvazt í ræðu viðskmrh., að sjómenn hafi hlotið kauphækkun um síðustu áramót. Höfðu þeir ekki séð þau frv., sem gengu hér í gegn og fólu þetta í sér?

Vitanlega var þessi kauphækkun, sem sjómönnum var tryggð, ekki nein vísbending um, að það væri ástæða til þess t.d. að hækka kaup hjá verkfræðingum í landinu eða öðrum slíkum, en það var hins vegar jafnnauðsynlegt að leysa þetta vandamál sjávarútvegsins og önnur.

Vegna þess að hér er nú langt liðið á nóttu, vil ég ekki lengja þessar umr. miklu meira. Hér hefur á margt verið minnzt, sem vitanlega verður tekið hér nánar fyrir í umr. síðar, en ég ætla þó, að það hafi þegar komið mjög greinilega fram í þessum umr., að Sjálfstfl. allur og reyndar einn Alþýðuflokksmaður eru andvígir því, að þeir aðilar í landinu, sem sannanlega hafa safnað verulegum gróða, leggi einnig fram nokkuð af mörkum til lausnar á vandamálum atvinnuveganna og til úrlausnar á hinum erfiðu húsnæðismálum; þeir eru á móti þessu. En menn hafa þá jafnframt tekið eftir því, hvað þessi sami Sjálfstfl. leggur til í staðinn. Hvað er það, sem hann hefur upp á að bjóða, á sama tíma sem hann neitar því að afla teknanna á þennan hátt? Er ekki tími til kominn einmitt nú, þegar hann berst hér gegn stóreignaskatti, að hann lýsi því einnig yfir, hvernig hann vill afla tekna almennt til þess að leysa vandamál atvinnuveganna?

Það er aftur á móti mín skoðun, að ríkisstj. hafi með samkomulagi sínu við vinnustéttirnar um s.l. áramót farið þann meðalveg, sem helzt var vænlegur í þessum efnum, þegar hún ákvað að taka að nokkru leyti tekjurnar af stóreignamönnum, að nokkru leyti af milliliðum, af verzluninni, og svo að nokkru leyti með hækkandi álögum í sambandi við þann varning, sem minnst á að koma við afkomu þeirra, sem lægst eru launaðir í landinu. Ég held einmitt, að reynslan hafi sýnt það, að í þessum efnum hafi verið farinn nokkuð eðlilegur meðalvegur, og það sannast kannske bezt á því, að aðrar till. um tekjuöflun, sem þó var talin nauðsynleg, hafa ekki komið fram.

Af þessum ástæðum tel ég, að það sé sjálfsagt að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir um stóreignaskatt, í því formi, sem um það hefur verið samið.