11.02.1957
Sameinað þing: 28. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

Athugasemdir um fundarhöld

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið haldinn fundur hér í Sþ. á laugardaginn var. Ég hlustaði á þingfréttir útvarpsins þá um kvöldið, og þingfréttamaður sagði frá því, sem hér hefði gerzt, skilmerkilega að vanda. Hann sagði frá því, hvernig atkv. hefðu fallið um mál þar, hverjir hefðu tekið þátt í atkvgr., nafngreindi þá, og síðan las hann upp nöfn 24 þingmanna, sem hafði vantað á fundinn.

Vel get ég búizt við því, að einhverjum hlustanda hefði þótt þetta bera vott um, að þingmenn sinntu ekki svo störfum sem skyldi. Ég var einn af þessum 24, og ástæðan til fjarveru minnar var sú, að ég víssi ekki um þennan fund, fyrr en hann var afstaðinn. Að vísu var dagskrá borin út, og sá, sem flutti hana til mín, mun hafa látið hana í bréfakassa í anddyri hússins, þar sem ég bý, eins og hann er vanur, en gerði ekkert vart við sig.

Ég tel, að þetta sé alls ekki fullnægjandi fundarboðun, þegar fundur er boðaður á óvenjulegum tíma. Vil ég af því tilefni benda á það, að þegar slíkt kemur fyrir, að fundi á að halda á óvenjulegum tíma, þarf að vanda betur til fundarboðunar en venjulegt er og hlutast til um það, að þm. fái örugglega um slíka fundi að vita. Vil ég einnig óska þess, að í næsta þingfréttatíma útvarpsins verði frá því sagt, að mistök við fundarboðun hafi valdið því, að svo marga menn vantaði á laugardagsfundinn.