22.05.1957
Efri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

159. mál, skattur á stóreignir

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta mál svo mjög, bæði hér á Alþ. og utan þings, að segja má, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að halda umr. áfram. En hér er slíkt stórmál á ferðinni, að það getur ekki verið vítavert, þó að menn láti í ljós álit sitt um málið almennt. Ég mun ekki tefja þessar umr. neitt að ráði.

Ég veitti því athygli, að þegar hæstv. ráðh. lagði þetta mál hér fyrir hv. d., þá lagði hann mikla áherzlu á nauðsyn þess, að söfnun sparifjár aukist í landinu. Ég hygg, að allir geti tekið undir þessi ummæli hæstv. ráðh. Landi, sem skortir fjármagn svo að segja til alls, ríður á því meir en nokkru öðru að sparifjársöfnun aukist. Alþ. hefur og skilið þetta með því að veita skattfrelsi sparifjár. En það hefur sýnt sig, að þetta nægir ekki, a.m.k. ekki þegar þjóðin vantreystir aðgerðum þeirra stjórnarvalda, sem með völdin fara. Þjóðin treystir því ekki, að verðgildi krónunnar haldist. Ég hygg líka, að að því reki, að Alþ. sjái nauðsyn þess með einhverjum hætti að ganga hér betur frá en gert hefur verið. Ég mun ekki fara neitt inn á það frekar, en óskandi væri, að vitrir menn kynntu sér, hvað er hægt að gera til þess að tryggja sparifjársöfnun í landinu. Og ég mundi síður en svo hafa á móti slíku máli og því, sem hér liggur fyrir, ef það væri gert til þess að tryggja á einhvern hátt sparifjármyndun í landinu.

Mér þótti hæstv. fjmrh. furðu bjartsýnn, þegar hann vildi ekkert úr því gera, að þetta frv. verkaði á atvinnuvegi landsins. Ég hygg, að það eigi eftir að koma fram, að þetta frv., ef að l. verður, hafi stórfelld áhrif til ills á atvinnuvegi landsins. En það þýðir ekki að vera að bollaleggja um þetta, reynslan verður að skera úr þessu eins og öðru. En ég held, að allir geti þó séð eitt, að það eru ýmis mjög þörf fyrirtæki hér í landi, sem allir flokkar hafa verið að lofa og vegsama, sem bíða stórfelldan hnekki við þessa löggjöf, eins og frá henni er gengið. Ég vil nefna sem dæmi flugfélögin. Ég minnist þess, að hæstv. ráðh. talaði mjög fallega um dugnað og atorku þeirra manna, sem hafa staðið fyrir þessum málum, hér suður á flugvelli á dögunum, þegar hinar nýju, glæsilegu flugvélar komu hingað til landsins. En það er augljóst mál, að ef áfram verður haldið á svona braut, þá verður starfsemi flugfélaganna lömuð svo mjög, að þau bíða þess seint bætur. Það er ég sannfærður um.

Það er vafalaust dautt mál að minnast á Eimskipafélag Íslands í þessu sambandi. Mér hefur fundizt á undanförnum árum, að allir stjórnarflokkarnir, sem nú eru, hafi keppzt um að rægja þetta fyrirtæki. En sú var tíðin, að þjóðin hlustaði ekki á slíkan són, og ég vona, að hún geri það ekki enn þá. Eimskip er meðal þeirra fáu fyrirtækja hér á landi, sem öll þjóðin hefur tekið þátt í að mynda og koma á fót. Því er ekki að neita, að Eimskip hefur hagnazt vel sum árin, en það eru ekki hluthafarnir, sem hafa hirt þann gróða. Við þurfum ekki annað en að líta yfir hinn glæsilega flota Eimskipafélagsins til að sjá, til hvers gróðinn hefur farið.

Ég skal ekki ræða mikið einstök atriði í þessu frv., en ég verð að segja það, að ég kann illa við sum ákvæði 2. gr. Þar er ekki látið nægja hið almenna mat, sem sett hefur verið á fasteignir, og það mat síðan margfaldað, heldur á að taka einstakar fasteignir út úr og meta þær sérstaklega og alveg eftir geðþótta. Ef nokkurt vit er í því mati, sem hefur verið framkvæmt hér á landi, hví á það þá ekki að standa og margfalda almennt? Að sjálfsögðu á slíkt að ganga jafnt yfir alla, en ekki að vera taka út úr einstakar fasteignir og meta þær sérstaklega. Mér finnst það gersamlega óhæfileg aðferð í skattaálögum, og ég hygg, að hún þekkist hvergi.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál sé ráðið, að forlög þess séu ráðin, en ég vildi þó mælast til þess við hv. fjhn., að hún athugaði 2. gr. og breytti henni þannig, að eitt yrði látið ganga yfir alla. Það er það eina, sem sæmandi er í slíkri löggjöf sem þessari.