24.05.1957
Efri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

159. mál, skattur á stóreignir

Frsm. minni hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls fór ég nokkuð almennum orðum um efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj., sem flutningur þessa frv. er sagður vera einn liður í. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði þá við þessa umr„ en aðeins undirstrika það, að þetta frv. virðist fyrst og fremst vera flutt til efnda á pólitískum hernaðaryfirlýsingum kommúnista og þeirra, sem næst þeim standa og undanfarin ár hafa þrátt fyrir mjög háar skattaálögur sífellt fjölyrt mjög um það, að mikilli fjöldi ríkra manna slyppi allt of vel við skattaálögur og að brýna nauðsyn bæri til þess, að þjóðfélagið skóflaði til sín allverulegum hluta af því óhóflega fjármagni, sem veltist í vösum þeirra,

Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú, þegar til átti að taka, þrátt fyrir allar hinar orðmörgu hernaðaryfirlýsingar kommúnista um óhóflegan auð, sem safnazt hefði fyrir undir núgildandi skattalögum, að núverandi hæstv. ríkisstj. hefur aðeins treyst sér til þess að leggja á skatt, sem gert er ráð fyrir að nemi 8 millj. kr. á ári næstu 10 árin, og hv. frsm. meiri hl. fjhn. hefur nú lýst því yfir, að hann telji mjög vafasamt, að skatturinn geti numið svo hárri upphæð, og má vel vera, að hann hafi rétt fyrir sér í því.

Andstaða okkar sjálfstæðismanna gegn þessu frv., þrátt fyrir það, þó að það feli ekki í sér meiri skattabyrði en raun ber vitni um, sprettur hins vegar af því, að við teljum, að sú skattheimta, sem í frv. felst, muni bitna að verulegu leyti á tveimur atvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og iðnaði, og geti leitt til samdráttar í atvinnulífinu og þverrandi atvinnu og jafnvel atvinnuleysis í landinu.

Við bendum þessari staðhæfingu okkar til rökstuðnings á það, að aðalútflutningsframleiðsla þjóðarinnar er nú rekin með stórfelldu tapi og framlögum og uppbótum af opinberri hálfu, sem síðan er aflað tekna til að rísa undir af ríkisins hálfu með stórfelldum sköttum á almenning.

Ég vil að svo mæltu gera grein fyrir þeim brtt., sem minni hl. n., ég og hv. 2. þm. Arn., leggjum til að gerðar verði á frv. Við erum á móti frv. í heild, en við vildum freista þess með þessum brtt. að sníða af því verstu agnúana.

Fyrsta brtt. okkar er við 2. gr. frv., um að orðin: „Þó skal landsnefndin“ og út málsgr. til og með orðunum „ákvæði í reglugerð“ í 1. málsgr. 1. tölul. skuli falla niður. Við teljum, að með þessu ákvæði gr. skapist möguleikar á hættulegri hlutdrægni og handahófskenndu mati á einstökum lóðum og að landsnefndinni sé veitt allt of mikið vald. Við leggjum þess vegna til, að aðeins upphaf 1. málsgr. 1. tölul. 2. gr. standi, þar sem segir, að fasteignir, þar undir lóðir, skuli metnar með því verði, sem ákveðið er í nýja fasteignamatinu samkvæmt l. nr. 33 1955, er gekk í gildi 1. maí 1957.

Önnur brtt. okkar er við 2. málsgr. 1. tölul. 2. gr., um að í málsgr. verði bætt síldarverksmiðjum, dráttarbrautum svo og öðru íbúðarhúsnæði og að frá matsverði þessara mannvirkja megi draga 20%.

Þriðja brtt. okkar, einnig við 2. gr. frv., er um, að við matsverð fasteigna, eins og það er ákveðið samkv. framansögðu, skuli bæta 150% álagi, í stað 200% eins og segir í málsgr.

Fjórða brtt. okkar er um það, að skip skuli reiknuð með vátryggingarverði að frádregnum 40%. Í frv. er þetta ákvæði nú þannig, að fiskiskip skuli reiknuð með vátryggingarverði að frádregnum 40%, en önnur skip skuli talin með vátryggingarverði að frádregnum 25%. Við leggjum til, að þarna verði sami hundraðshluti lögleyfður frádráttur frá vátryggingarverði, og teljum það vera sanngjarnt og eðlilegt.

Fimmta brtt. okkar er um það, að 3. málsgr. 2. tölul. 2. gr. orðist þannig:

„Matsverð á vélum, áhöldum og öðru lausafé, sbr. c-lið 19. gr. l. nr.. 46 1954, skal vera kostnaðarverð að frádregnum löglegum afskriftum.“ Í frv. er þetta þannig nú, að ekki er ákveðið, hvaða reglum skuli fylgja um matsverð á lausafé, heldur skuli settar um það sérstakar reglur. Við teljum réttara að kveða skýrt á um þetta í sjálfum l. og leggjum því til, að til grundvallar skuli lagt kostnaðarverð að frádregnum löglegum afskriftum.

Í hv. Nd. höfðu fulltrúar sjálfstæðismanna í fjhn. flutt till. um, að flugvélar skyldu teljast með vátryggingarverði að frádregnum 50%. Nú hefur hæstv. fjmrh. komið til móts við þessa skoðun og flutt hér brtt. um, að frá vátryggingarverði flugvéla skuli dregin 40%. Við töldum því ekki ástæðu til þess að endurflytja brtt. þá, sem flutt var varðandi flugvélar í hv. Nd. um, að heimildin skyldi vera 50%, þar sem við töldum þýðingarlaust að flytja hana, hún mundi ekki verða samþ., en hins vegar hálfur sigur eða vel það unninn með þeirri brtt., sem hæstv. fjmrh. hefur flutt við þetta ákvæði.

Sjötta brtt. minni hl. er einnig við 2. gr. frv., um að aftan við 1. málsgr. 3. tölul. bætist: „Einnig tekjuskattur, stríðsgróðaskattur og útsvar, reiknað af tekjum ársins 1956.“

Það er sem sagt lagt til, að þessir skattar og gjöld skuli teljast með skuldum til frádráttar eignum, þegar skattur er á lagður. Virðist það vera sanngjarnt og eðlilegt, að þau verði talin með til frádráttar eins og þau gjöld, sem nefnd eru í málsgr. í frv. sjálfu.

Þá er sjöunda brtt. okkar við 4. gr. frv., um að aftan við 2. málsgr. hennar bætist, að það fé teljist ekki með eignum félaga, sem lagt hefur verið í nýbyggingarsjóði samkvæmt lögum nr. 20 1942 og lögum nr. 46 1954, hvort sem búið er að verja því til kaupa á framleiðslutækjum eða ekki; með eignum félaga teljist ekki heldur innstæður þeirra í sparisjóði.

Loks er brtt. okkar við 6. gr. frv., þar sem lagt er til, að skatturinn greiðist á 15 árum í stað 10 og að aftan við greinina bætist heimild til þess að greiða skattinn með afhendingu eigna með því matsverði, sem ákveðið er samkvæmt lögum þessum.

Þessi ákvæði eru mjög þýðingarmikil. Margt bendir til þess, að þeim, sem skatturinn lendir á, muni mörgum verða það ofviða að greiða hann á 10 árum, og það virðist enn fremur sanngjarnt, að skattgreiðandinn fái að greiða skattinn með eignum á því verði, sem honum eru reiknaðar þær samkvæmt lögunum.

Áð síðustu leggjum við til, það er 9. brtt. okkar, að niður falli 4. og 5. málsl. 7. gr. frv. um rétt félaga til þess að endurkrefja félagsmenn eða hluthafa um þær skattupphæðir, er þau þurfa að greiða vegna eignar þeirra í félögunum og um, að samvinnufélögum sé þó aðeins heimilt að endurkrefja félagsmenn um þann hluta af skatti, sem lagður hefur verið á séreignir þeirra í félögunum, þ.e. stofnsjóðsinnstæður þeirra.

Þessar brtt. skýra sig sjálfar og hafa einnig verið ræddar, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þær fleiri orðum.

Ég vil að lokum minnast á nokkur atriði, sem

komu fram í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn.

Hv. þm. sagði, að eingöngu væri verið að leggja skatt á ríka menn með þessu frv. og að ég hefði lýst því sem minni skoðun við 1. umr. þessa máls, að á tekjuháa menn og eignaháa bæri að leggja háa skatta.

Það er alveg rétt, að þetta er mín skoðun og okkar sjálfstæðismanna, að þetta þjóðfélag, sem skortir fjármagn til þúsund ógerðra hluta, verði að leggja allháa skatta á borgara sína til þess að geta risið undir sameiginlegum þörfum. En á hitt hef ég og mínir flokksmenn jafnan lagt áherzlu, að í þessum efnum yrði að gæta hófs, það mætti ekki ganga svo nærri gjaldþoli einstaklinganna, að athafnaþrek þeirra væri lamað og öll eða mestöll ábatavon af þeim tekin af því að leggja sig fram um að bæta sinn eigin hag og þjóðfélagsins. Það, sem ég óttasí í sambandi við þessa skattheimtu og einnig hefur verið vakin athygli á af öðrum, er það, að hún muni bitna harkalega á þeim atvinnuvegum, sem allmikill hluti af fjármagni þjóðarinnar eðlilega hlýtur að vera í, þ.e. í sjávarútvegi og iðnaði.

Það er staðreynd, sem ekki verður sniðgengin, að sjávarútvegurinn er nú ákaflega illa á vegi staddur. Og þó að einstakir útgerðarmenn eigi allmiklar eignir, þannig að hægt sé að leggja á þá skatt samkvæmt þessum lögum, fer því víðs fjarri, að það sé þjóðhagslega heppilegt að leggja slíkan skatt á og kref ja þessa menn um stór framlög til viðbótar þeim, sem þeir áður hafa greitt af tekjum sínum frá ári til árs til ríkissjóðs og bæjar- og sveitarfélaga.

Allt bendir hins vegar til þess, eins og ég gat um í frumræðu minni, að þetta hafi þær afleiðingar, að margir útvegsmenn og iðnrekendur verði annaðhvort að selja eignir sínar og þá undir hælinn lagt, með hvaða l~jörum það tækist, eða þá að fá lán hjá lánsstofnunum eða öðrum, sem laust fé l~ynnu að eiga, til þess að greiða skattinn.

Af þessu getur hins vegar leitt samdrátt í atvinnulífi og kyrrstöðu, sem bitna mundi á atvinnu og afkomu almennings í fjölmörgum byggðarlögum.

Þó að slíkir menn í útvegsmannahópi eða iðnrekendahópi teljist á okkar mælikvarða ríkir menn eða vel efnum búnir menn, þá er ekki þar með sagt, að það sé þjóðfélaginu hagkvæmt að krefja þá um þennan skatt, með þeim afleiðingum, sem ég hef lýst að hann í mörgum tilfellum muni hafa.

Á það er einnig lítandi, hvernig „ríkidæmi“ manna er fundið út eftir þessum lögum. Það er fundið út með því, að maður eins og t.d. hv. 1. þm. Eyf. (BSt), sem hefur átt hús í mörg ár, alltaf sama húsið, verður að hlíta því, að þessi eign hans, sem er hin sama og hún hefur verið í áratugi, sé margfölduð í mati, allt að því fimmtánfölduð, og síðan sagt við manninn: Nú ertu orðinn milljónamæringur. Húsið, sem þú byggðir fyrir 30 árum og kostaði kannske 50 þús. kr. og er núna að fasteignamati kannske innan við 100 þús. kr. eða um það bíl, það hefur allt í einu gert manninn að milljónamæringi, sem leggur honum þá skyldu á herðar að borga stóreignaskatt.

Það má vera, að segja megi, að þeir, sem átt hafi fasteignir, hafi yfirleitt grætt á verðbólgu og verðfalli peninganna. En á það má benda í þessu sambandi, að þessum mönnum hefur líka verið gert fyrr en nú að greiða sérstaka skatta, einmitt vegna þessarar aðstöðu sinnar. Hér hefur verið látin fara fram eignakönnun, og hér hefur verið lagður á stóreignaskattur, síðast fyrir tæpum 8 árum. Vitanlega hefur þetta verið gert með hliðsjón af því, að eigendur húsa og annarra fasteigna hafi hagnazt umfram þá, sem lagt hafa þjóðfélaginu til rekstrarfé með því að safna sparifé.

Í sambandi við aðstöðu sparifjáreigenda í þessu sambandi vil ég benda á það, að þegar stóreignaskattur var síðast á lagður, 1950, var þó sýndur litur á því að bæta sparifjáreigendum við gengislækkunina nokkuð þeirra tap. Nú er gengi íslenzkrar krónu að falla og sparifjáreigendur stöðugt að tapa. Hvorkí í þessu frv. né öðru er sýndur minnsti lítur á því að líta í nokkru á þeirra hagsmuni.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að fagnaðaralda færi nú um Sjálfstfl. yfir því, að mikill spámaður væri upp risinn meðal vor, og átti þar við hv. þm. Siglf. (ÁkJ). Ég veit, að hv. frsm. undrast þetta ekkert, því að það er auðvitað eins í Sjálfstfl. og í himnaríki, að þar verður meiri gleði yfir einum ranglátum, sem bætir ráð sitt, heldur en 99 réttlátum. Okkur sjálfstæðismönnum er það að sjálfsögðu fagnaðarefni, að það rofar jafnvel til innan stjórnarherbúðanna, það eru til menn þar, sem ekki eru þau flokksverkfæri, að þeir lofsyngi allt, sem stjórn þeirra gerir. Við sjálfstæðismenn fögnum því, að hv. þm. Siglf. hefur greinilega tekið undir okkar rök, t.d. gagnvart þessum skatti. Hann hefur lýst því yfir, að núverandi hæstv. ríkisstjórn hafi þegar slegið öll met í skattaálögum og í þessari skattaálagningu felist geigvænleg hætta fyrir bjargræðisvegi þjóðarinnar.

Ég veit, að hv. 1. þm. Eyf. er ekkert undrandi á því, þó að okkur þyki ánægjulegt að fá slík ummæli frá hv. þm. Siglf. Það er sönnun þess, að okkar skoðanir eiga hljómgrunn viðar en innan þess hóps, sem fylgir Sjálfstfl. að málum, bæði á þingi og með þjóðinni. Og ég er alveg sannfærður um, að það eru miklu fleiri menn á Íslandi í dag en bæði hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Eyf. grunar innan þeirra eigin flokka, sem eru sömu skoðunar og hv. þm. Siglf. Fólkið er farið að sjá það og finna, að sú skattastefna, sem nú er fylgt, er ekki holl fyrir efnahagslega uppbyggingu í þessu landi. Og ég hef engan mann heyrt halda því fram, að þessi skattlagning gæti haft minnstu áhrif til góðs í baráttu hæstv. ríkisstj. við verðbólgu og dýrtíð, sem er eitt megináhugaefni hæstv. stjórnar.

Eins og ég sagði við 1. umr., ef hæstv. ríkisstj. ætlaði að nota þetta fé til þess að borga upp skuldir eða leggja í sjóði, þá mætti segja, að um efnahagslega skynsamlega ráðstöfun væri að ræða. En meining hæstv. stjórnar er að dæla þessu fé út í fjárfestingu, að vísu mjög nauðsynlega fjárfestingu. Nú hefur hæstv. fjmrh. og hans flokkur haldið því einna fastast fram, að orsök allrar okkar ógæfu í dag, efnahagserfiðleika okkar, vaxandi verðbólgu og dýrtíðar, sé einmitt of mikil fjárfesting. Það hefur verið bent á hin nýju íbúðahverfi, sem risið hafa upp hér í Reykjavík og í ýmsum öðrum kaupstöðum landsins og sjávarþorpum og þau talin greinilegastur vottur um þá heimskulegu fjárfestingarpólitík, sem við höfum rekið.

Ég verð að segja það, — enda þótt ég viðurkenni, að þessar húsbyggingar hafi verið ákaflega nauðsynlegar og gagnlegar, að það er ákaflega mikið til í þessari gagnrýni á efnahagsmálastefnu okkar á undanförnum árum. Við höfum farið of hratt í fjárfestinguna. Eyðslan hefur verið allt of mikil. Við höfum gert allt of mikið að því að stofna til skulda vegna framkvæmda, nauðsynlegra að vísu, og allt of litið að hinu, að spara og safna til þess að treysta grundvöll efnahagskerfis okkar. En um þetta tjáir ekki að tala, því að hver sá, sem bendir á þetta, er bara stimplaður sem afturhaldsseggur og úrtölumaður. En við verðum að gera okkur það ljóst, að efnahagskerfi okkar þjóðfélags fylgir nákvæmlega sömu lögmálum og efnahagskerfi annarra þjóða. Við höfum ekki frekar efni á því en aðrir, Íslendingar, að haga efnahagsmálastefnu okkar óskynsamlega. Það hlýtur að bitna á okkur eins og öðrum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta frv. að sinni. Ég vænti, að a.m.k. einhverjar af þeim brtt., sem minni hl. hefur borið fram, verði samþykktar. Ég vil láta í ljós ánægju mína með þá brtt., sem hæstv. fjmrh. hefur flutt og gengur til móts við þá brtt., sem minni hl. fjhn. flutti í Nd., og miðar að því að létta nokkuð byrðum þessa skatts af flugfélögunum, en mjög óheppilegt væri, ef einmitt nú, þegar þau eru í örri uppbyggingu, hefðu þau þurft að greiða þungan og óskynsamlegan skatt.

Ég vil svo aðeins segja það að lokum, að við sjálfstæðismenn höfum bent á þá hættu, sem felst í þessari skattlagningu, og við berum þá heldur ekki ábyrgðina á þeim óheillavænlegu afleiðingum, sem hún getur haft fyrir bjargræðisvegi landsmanna.