24.05.1957
Neðri deild: 108. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

159. mál, skattur á stóreignir

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessari breyt., sem gerð hefur verið á þessu frv. í Ed. Ég lagði sérstaka áherzlu á það hér undir meðferð málsins, að ákvæðinu um matið á eignum flugfélaganna yrði breytt þannig, að frádrátturinn frá þeim yrði leyfður meiri en lagt var til upphaflega í frv. og af meiri hl. fjhn. Við nánari athugun hefur komið í ljós, að það voru rökstuddar ástæður fyrir breytingu á þessu, og þessu hefur síðan verið breytt, og er ástæða til að fagna því.

Af þessu tilefni vil ég aðeins segja það eitt, að ég held, að það sé allt of títt hér undir meðferð mála, þegar fram koma rökstuddar atbs., þar sem bent er á, að í raun og veru er sagt í lögunum annað en þeir meina kannske, sem að frumvörpunum standa, að þá sé þó ekki tekið tillit til þess. Ég segi þetta ekki sem ásökun í garð núverandi stjórnarflokka og mæli ekki Sjálfstfl. undan sök í þessu efni, heldur til okkar allra og flokkanna í heild. Þetta er eitt dæmi, sem sannar það, og mér þykir mjög vænt um, að þessi breyting hefur verið gerð á þessu máli í Ed.