11.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 3. kjördeildar (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti, 3. kjördeild hefur fengið til meðferðar og athugunar kjörbréf eftirtalinna alþm.: Bernharðs Stefánssonar, 1. þm. Eyf., Björns Ólafssonar, 2. þm. Reykv., Finnboga R. Valdimarssonar, 4. landsk., Gunnars Jóhannssonar, 6. landsk., Hermanns Jónassonar, þm. Str., Jóns Pálmasonar, þm. A-Húnv., Magnúsar Jónssonar, 2. þm. Eyf., Péturs Ottesens, þm. Borgf., Ólafs Thors, þm. G-K., Péturs Péturssonar, 10. landsk., Ragnhildar Helgadóttur, 8. þm. Reykv., Sigurðar Ágústssonar, þm. Snæf., Sigurðar Ó. Ólafssonar, 2. þm. Árn., Sigurvins Einarssonar, þm, Barð., Skúla Guðmundssonar, þm. V-Húnv., Eiríks Þorsteinssonar, þm. V-Ísf., og Jóns Sigurðssonar, 2. þm. Skagf.

Ég hef orðað það svo, að við höfum fengið í hendur til athugunar kjörbréf þessara hv. þm., en það er ekki alls kostar rétt, og skal ég víkja að þeim frávikum, sem um er að ræða í því efni, og jafnframt þeim athugasemdum, sem fram hafa komið til kjördeildarinnar til athugunar. Kjörbréf Bernharðs Stefánssonar liggur fyrir, en með því er sent endurrit úr gerðabók yfirkjörstjórnar Eyjafjarðarsýslu og 69 kjörseðlar í lokuðu umslagi, sem eru úrskurðaðir gildir af kjörstjórn gegn mótmælum, Deildin hefur athugað þessa bókun yfirkjörstjórnarinnar, og þar kemur fram, að mótmælin byggjast á því aðallega, að á 66 seðlum hefur verið krossað framan við B-lista, en á auða reitnum, sem er yfir landslistanum. Kjördeildin taldi ekki ástæðu til, enda liggur engin kæra fyrir, að telja þetta svo stóra meinbugi, að það gæti haft áhrif á úrskurð Alþingis í þessu efni, enda atkvæðamunur svo mikill, að þó að þessi atkvæði hefðu verið ógilt, þá hefði það ekki breytt niðurstöðu kosninganna.

Þá hefur ekki barizt kjörbréf Péturs Ottesens, þm. Borgf., en í þess stað hefur borizt símskeyti frá formanni yfirkjörstjórnar, svo hljóðandi:

„Vottast yfirkjörstjórn Borgarfjarðarsýslu gaf út hinn 25/6 1956 kjörbréf til handa Pétri Ottesen sem rétt kjörins alþm. fyrir Borgarfjarðarsýslu kjörtímabilið 1956–1960.

Formaður yfirkjörstjórnarinnar.“

Deildin er á einu máli um að telja þetta fullnægjandi,

Með einu kjörbréfi enn, kjörbréfi Sigurvins Einarssonar sem þm. Barð., fylgir einnig eitt ágreiningsatkvæði í lokuðu umslagi. Þar sem það skiptir engu máli um úrslit kosninganna, hvernig það atkvæði hafi fallið, telur kjördeildin enga ástæðu til þess að gera athugasemd við kosninguna af þeim sökum.

Eiríkur Þorsteinsson og Jón Sigurðsson, þm. V-Ísf. og 2. þm. Skagf., hafa ekki lagt fram kjörbréf, en skeyti hefur borizt frá yfirkjörstjórn varðandi Vestur-Ísafjarðarsýslu, þannig:

„Það vottast, að Eiríkur Þorsteinsson var 24. júní s. l. kosinn lögmætri kosningu alþingismaður fyrir Vestur-Ísafjarðarsýslu og þá afhent kjörbréf. Jóhann Gunnar Ólafsson sýslumaður.“ Og varðandi Skagafjörð:

„Jón Sigurðsson, Reynistað, réttkjörinn 2. þm. Skagf. við kosningar til Alþingis s. l. vor. Kjörbréf honum til handa útgefið strax að talningu lokinni. yfirkjörstjórn.“

Þá er eitt kjörbréf, kjörbréf Péturs Péturssonar, 10. landsk., undirritað af tveimur kjörstjórnarmönnum með fyrirvara, og er það eina kjörbréfið, sem ágreiningur varð um í deildinni. Deildin leggur til einhuga, að öll umrædd kjörbréf eða kjörgögn þeirra þingmanna, sem ég hér hef lesið upp, að undanteknum Pétri Péturssyni, séu samþykkt. Meiri hluti deildarinnar leggur enn fremur til, að kjörbréf Péturs Péturssonar sé líka tekið gilt. Fjórir deildarmenn greiddu atkv. gegn því, að kjörbréfið væri tekið gilt, og munu þeir eða málsvari þeirra gera grein fyrir afstöðu sinni hér við þessar umr. Till. kjördeildar eru því þær, að öll kjörbréfin séu tekin gild, en um eitt þeirra, kjörbréf Péturs Péturssonar, er sá ágreiningur, að fjórir deildarmenn greiddu atkv. á móti því.

Ég skal ekki fjölyrða um gamanmál hv. síðasta ræðumanns í sambandi við kosningarnar, aðeins minna hann á það gamla spakmæli, að þeir, sem ætla sér að sanna of mikið, sanna stundum ekki neitt.